Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 ÆVISAGA

Ég hef viðhaldið kærleikanum til Jehóva

Ég hef viðhaldið kærleikanum til Jehóva

ÞETTA var í sumarbyrjun árið 1970. Ég lá í sjúkrarúmi á Valley Forge General-spítalanum í Phoenixville í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum. Hjúkrunarfræðingur mældi blóðþrýstinginn á hálftímafresti. Ég var tvítugur hermaður og var að berjast við alvarlegan smitsjúkdóm. Hjúkrunarfræðingurinn, sem var nokkrum árum eldri en ég, var áhyggjufullur á svip. Blóðþrýstingurinn lækkaði jafnt og þétt og ég sagði: „Ég býst ekki við að þú hafir horft upp á nokkurn deyja áður.“ Hann náfölnaði í framan og svaraði: „Nei, aldrei.“

Horfurnar voru ekki beinlínis bjartar. En hvernig stóð á því að ég lá á spítala? Ég skal segja ykkur frá ýmsu sem hefur drifið á daga mína.

FYRSTU KYNNI MÍN AF STRÍÐI

Ég veiktist við störf í Víetnamstríðinu en þar starfaði ég á skurðstofu. Mér fannst gefandi að hlúa að sjúkum og særðum og ætlaði mér að verða skurðlæknir. Ég var sendur til Víetnam í júlí árið 1969. Mér var gefin ein vika eins og venja var til að aðlagast tímamismuninum og kæfandi hitanum.

Ég starfaði á spítala í Dong Tam við ósa Mekong. Skömmu eftir að ég kom þangað streymdu þyrlur á staðinn með særða hermenn. Föðurlandsástin var sterk í brjósti mér og ég naut þess að vinna þannig að ég vildi taka til hendinni sem allra fyrst. Hinir særðu voru undirbúnir fyrir aðgerð og síðan fluttir með hraði á skurðstofurnar sem voru í litlum loftkældum gámum. Skurðlæknir, svæfingalæknir og tveir hjúkrunarfræðingar tróðu sér inn í þröngan gáminn og gerðu allt hvað þeir gátu til að bjarga mannslífum. Ég tók eftir að oft voru stórir svartir pokar í þyrlunum sem voru fluttir annað. Mér var sagt að þeir innihéldu líkamsleifar hermanna sem hefðu orðið sprengjum að bráð í bardaga. Þetta voru fyrstu kynni mín af stríði.

LEIT MÍN AÐ GUÐI

Ég hafði svolítil kynni af sannleikanum sem drengur.

Sem drengur hafði ég svolítil kynni af sannleikanum sem Vottar Jehóva kenndu. Móðir mín kynnti sér Biblíuna með hjálp vottanna en lét aldrei skírast. Ég naut þess mikið að vera með í námsstundum móður minnar. Það var um svipað  leyti sem ég átti leið fram hjá ríkissal ásamt stjúpföður mínum. „Hvaða hús er þetta?“ spurði ég. „Komdu aldrei nálægt þessu fólki,“ svaraði hann. Ég elskaði og virti stjúpa minn svo að ég fór að ráðum hans. Þannig missti ég tengslin við Votta Jehóva.

Eftir að ég sneri heim frá Víetnam fann ég að ég þurfti að eignast samband við Guð. Sársaukafullar minningar höfðu sljóvgað mig tilfinningalega. Enginn virtist skilja í raun og veru hvað var að gerast í Víetnam. Ég man eftir mótmælum þar sem bandarískir hermenn voru kallaðir barnamorðingjar vegna frétta þess efnis að saklaus börn féllu í stórum stíl í stríðinu.

Til að seðja andlega hungrið fór ég að sækja messur í hinum og þessum kirkjum. Ég hafði alltaf elskað Guð en hreifst ekki af neinu sem ég sá og heyrði í kirkjunum. Að lokum gekk ég inn í ríkissal Votta Jehóva í Delray Beach í Flórída. Það var á sunnudegi í febrúar 1971.

Opinbera fyrirlestrinum var að ljúka þegar ég gekk inn í salinn en ég fylgdist með Varðturnsnáminu sem fylgdi í kjölfarið. Ég man ekki hvaða efni var til umræðu. Hins vegar man ég vel eftir litlum krökkum sem flettu upp í biblíunni sinni til að finna ritningarstaði. Það hafði mikil áhrif á mig. Ég sat hljóður og fylgdist með. Ég var í þann mund að yfirgefa salinn þegar vinalegur bróðir tók mig tali. Hann hét Jim Gardner og var um áttrætt. Hann hélt á bók sem hét Sannleikurinn sem leiðir til eilífs lífs og spurði: „Viltu þiggja þetta?“ Við mæltum okkur mót næsta fimmtudagsmorgun til að hefja biblíunám.

Þetta var á sunnudegi og ég þurfti að vinna um kvöldið. Ég starfaði á bráðamóttöku einkaspítala í Boca Raton í Flórída. Vaktin mín var frá klukkan ellefu um kvöldið fram til klukkan sjö að morgni. Það var lítið að gera þannig að mér gafst tími til að lesa Sannleiksbókina. Deildarhjúkrunarkona kom til mín, hrifsaði bókina af mér, leit á kápuna og hvæsti: „Þú ætlar þó ekki að ganga í þennan söfnuð?“ Ég hrifsaði bókina af henni og svaraði: „Ég er nú bara hálfnaður með bókina en mér sýnist það samt.“ Hún lét mig þá í friði og ég lauk við að lesa bókina um nóttina.

Biblíukennarinn minn, Jim Gardner, var andasmurður og hafði þekkt Charles Taze Russell.

Ég hóf fyrstu biblíunámsstundina með Jim Gardner á því að spyrja: „Hvaða efni ætlum við að ræða?“ Hann svaraði: „Bókina sem ég gaf þér.“ Ég svaraði: „Ég er búinn að lesa hana.“ Jim svaraði vingjarnlega: „Eigum við ekki að fara yfir fyrsta kaflann?“ Það kom mér á óvart hve mikið hafði farið fram hjá mér. Hann lét mig fletta upp mörgum versum í King James-biblíunni minni. Nú var ég loksins byrjaður að kynnast Jehóva, hinum sanna Guði. Jim fór með mér yfir þrjá kafla í Sannleiksbókinni þennan morgun. Við fórum síðan yfir þrjá kafla á hverjum fimmtudagsmorgni eftir það. Ég hafði ómælda ánægju af því. Það var  mikill heiður fyrir mig að fá kennslu hjá þessum andasmurða bróður sem hafði þekkt Charles T. Russell persónulega.

Fáeinum vikum síðar fékk ég að verða boðberi fagnaðarerindisins. Jim var mér stoð og stytta og hjálpaði mér meðal annars að komast yfir þann þröskuld að starfa hús úr húsi. (Post. 20:20) Jim starfaði með mér og ég fór að njóta þess að boða fagnaðarerindið. Mér finnst enn að boðunin sé mesti heiður sem ég hef hlotið. Það er einstök ánægja að mega vera samverkamaður Guðs. – 1. Kor. 3:9.

KÆRLEIKURINN TIL JEHÓVA SEM KVIKNAÐI Í UPPHAFI

Mig langar til að segja ykkur frá mjög persónulegu máli – kærleikanum til Jehóva sem kviknaði í brjósti mér strax í upphafi. (Opinb. 2:4) Þessi kærleikur hefur hjálpað mér að takast á við erfiðar minningar úr stríðinu og margar aðrar prófraunir. – Jes. 65:17.

Kærleikurinn til Jehóva hefur hjálpað mér að takast á við erfiðar minningar úr stríðinu og margar aðrar prófraunir.

Ég lét skírast á Yankee Stadium í júlí 1971 á umdæmismótinu „Nafn Guðs“.

Mér er í fersku minni dagur nokkur vorið 1971. Ég hafði nýlega þurft að yfirgefa íbúðina þar sem foreldrar mínir höfðu leyft mér að búa. Stjúpfaðir minn ætlaði sko ekki að leyfa votti Jehóva að búa í íbúð sem hann átti. Ég var frekar peningalítill um þessar mundir. Ég fékk útborgað hálfsmánaðarlega hjá spítalanum þar sem ég vann, og ég hafði eytt stærstum hluta launanna í jakkaföt til að geta tekið þátt í boðuninni og verið frambærilegur fulltrúi Jehóva. Ég átti svolítið sparifé en það var í banka í Michigan þar sem ég hafði alist upp, þannig að ég þurfti að hafast við í bílnum mínum í nokkra daga. Ég rakaði mig og þvoði mér á snyrtiherbergjum á bensínstöðvum.

 Einn daginn meðan ég bjó í bílnum kom ég til ríkissalarins um tveim tímum áður en hópurinn ætlaði að hittast fyrir boðunina. Vaktinni á spítalanum var rétt lokið. Ég sat fyrir aftan ríkissalinn þar sem enginn sá til mín. Þá helltust yfir mig minningarnar frá Víetnam – lyktin af brenndu holdi og myndir af blóði og gapandi sárum. Ég bæði fyrir mér í huganum og heyrði ungu mennina spyrja í örvæntingu: „Lifi ég þetta af? Lifi ég þetta af?“ Ég vissi að þeir myndu deyja en gerði mitt besta til að hughreysta þá og láta þá ekki lesa hið sanna af svipbrigðum mínum. Tilfinningarnar báru mig ofurliði meðan ég sat þarna.

Ég hef gert mitt besta til að láta ekki kærleikann til Jehóva kólna, sérstaklega þegar ég hef orðið fyrir prófraunum og erfiðleikum.

Ég bað til Jehóva meðan tárin streymdu niður kinnar mér. (Sálm. 56:9) Ég fór að hugsa um upprisuvonina. Þá rann allt í einu upp fyrir mér að með upprisunni ætlar Jehóva Guð að bæta upp allar blóðsúthellingarnar sem ég hafði séð og alla tilfinningakvölina sem ég og aðrir höfðu mátt þola. Guð ætlar að gefa þessum ungu mönnum líf á nýjan leik og þeir fá tækifæri til að læra sannleikann um hann. (Post. 24:15) Ástin til Jehóva fyllti hjarta mitt og snerti innstu fylgsni sálar minnar. Þessi dagur er mjög sérstakur í huga mér. Þaðan í frá hef ég gert mitt besta til að láta ekki þennan sterka kærleika til Jehóva kólna, sérstaklega þegar ég hef orðið fyrir prófraunum og erfiðleikum.

JEHÓVA HEFUR VERIÐ MÉR GÓÐUR

Fólk gerir hræðilega hluti í stríði. Ég var engin undantekning. En tvær ritningargreinar, sem eru mér mjög kærar, hafa hjálpað mér. Önnur er Opinberunarbókin 12:10, 11 þar sem segir að orð vitnisburðar okkar og blóð lambsins sigri djöfulinn. Hin er Galatabréfið 2:20. Þetta vers segir mér að Kristur Jesús hafi dáið „fyrir mig“. Jehóva horfir á mig gegnum blóð Jesú og hefur fyrirgefið mér það sem ég hef gert. Þessi vitneskja hefur gert mér kleift að hafa hreina samvisku og verið mér hvatning til að gera allt sem ég get til að hjálpa öðrum að kynnast sannleikanum um Jehóva, Guð miskunnarinnar. – Hebr. 9:14.

Þegar ég lít um öxl er mér ljóst að Jehóva hefur alltaf annast mig. Ég er honum ákaflega þakklátur. Sem dæmi má nefna að þegar Jim uppgötvaði að ég bjó í bílnum mínum kom hann mér samdægurs í samband við systur sem átti gistiheimili. Ég er sannfærður um að Jehóva hafi séð til þess að Jim og þessi ágæta systir sáu mér fyrir notalegum bústað. Jehóva er virkilega góður. Hann sér um trúa dýrkendur sína.

ÉG LÆRÐI AÐ VERA HÁTTVÍS

Í maí 1971 þurfti ég að fara til Michigan til að sinna vissum erindum. Áður en ég kvaddi Delray Beach-söfnuðinn í Flórída fyllti ég skottið á bílnum af ritum og ók síðan norður þjóðveg 75. Skottið var tómt áður en ég var kominn gegnum Georgíu sem er næsta ríki. Ég boðaði fagnaðarerindið af miklu kappi á alls konar stöðum. Ég kom við í fangelsum og dreifði meira að segja smáritum á salernum á áningarstöðum við veginn. Ég velti stundum fyrir mér hvort einhver af þessum fræjum, sem ég sáði, spíruðu nokkurn tíma. – 1. Kor. 3:6, 7.

Ég verð þó að viðurkenna að ég var ekki sérlega nærgætinn fyrst eftir að ég kynntist sannleikanum, sérstaklega þegar ég talaði við nánustu ættingja. Kærleikur minn til Jehóva var svo brennandi að ég boðaði þeim fagnaðarerindið af krafti en umbúðalaust. Mér þykir ákaflega vænt um bræður mína, þá John og Ron, og ég dró ekki af mér þegar ég sagði þeim frá sannleikanum. Síðar þurfti ég að biðja þá afsökunar á því hve ónærgætinn  ég var. En ég bið þess oft að þeir taki við sannleikanum. Síðan þetta gerðist hefur Jehóva menntað mig og ég er orðinn háttvísari þegar ég boða fagnaðarerindið og kenni. – Kól. 4:6.

AÐRIR SEM ÉG ELSKA

Ég elska vissulega Jehóva en það eru fleiri sem eru mér ákaflega kærir. Í öðru sæti er Susan, ástkær eiginkona mín. Ég vissi að ég vildi eignast lífsförunaut sem myndi styðja mig í þjónustunni við ríki Guðs. Susan er sterk og andlega sinnuð kona. Mér er minnisstætt að ég heimsótti hana dag nokkurn þegar við vorum að kynnast. Hún sat á veröndinni fyrir framan heimili foreldra sinna í Cranston í Rhode Island. Hún var að lesa Varðturninn og hafði Biblíuna við höndina. Ég tók eftir að hún var að lesa eina af aukagreinunum og fletta upp á biblíuvísunum. „Þetta er andlega sinnuð kona,“ hugsaði ég með mér. Við giftum okkur í desember 1971, og ég er þakklátur fyrir að hún hefur verið mér stoð og stytta upp frá því. Mér þykir þó vænst um að hún elskar Jehóva enn heitar en mig.

Með Susan, eiginkonu minni, og sonunum Paul og Jesse.

Við Susan eignuðumst tvo syni, þá Jesse og Paul. Jehóva var með þeim þegar þeir uxu úr grasi. (1. Sam. 3:19) Þeir hafa verið okkur Susan til sóma af því að þeir tileinkuðu sér sannleikann. Þeir hafa haldið áfram að þjóna Jehóva af því að  þeir hafa viðhaldið kærleikanum til hans. Báðir hafa þjónað í fullu starfi í meira en 20 ár. Ég á líka tvær fallegar tengdadætur, þær Stephanie og Racquel. Ég er stoltur af þeim og lít á þær sem dætur mínar. Báðir synir mínir fundu sér andlega sinnaðar konur sem elska Jehóva Guð af öllu hjarta og sálu. – Ef. 6:6.

Í samansöfnun meðan ég var farandhirðir.

Eftir að ég lét skírast starfaði ég um 16 ára skeið í Rhode Island og eignaðist þar marga kæra vini. Ég á góðar minningar um frábæra öldunga sem ég starfaði með. Ég er líka þakklátur fyrir ótal farandhirða sem höfðu jákvæð áhrif á mig. Það er mikill heiður að fá að starfa með mönnum sem hafa viðhaldið kærleika sínum til Jehóva. Árið 1987 fluttum við til Norður-Karólínu til að þjóna þar sem þörfin var meiri og eignuðumst líka marga góða vini þar. *

Við fjölskyldan höfðum ánægju af að boða trúna á svæðum þar sem sjaldan var starfað.

Í ágúst 2002 þáðum við Susan boðið að tilheyra Betelfjölskyldunni í Patterson í Bandaríkjunum. Ég starfaði á þjónustudeildinni og Susan í þvottahúsinu. Hún hafði yndi af að vinna þar. Í ágúst 2005 hlaut ég þann heiður að taka sæti í hinu stjórnandi ráði. Ég fann til smæðar minnar að takast á við þetta verkefni. Konunni minni hraus hugur við ábyrgðinni, vinnunni og ferðalögunum sem myndu fylgja því. Henni hefur aldrei liðið vel í flugvél og við fljúgum ósköpin öll. Susan segir að hlýleg ráð frá eiginkonum annarra bræðra í ráðinu hafi hjálpað henni að vera ákveðin í að styðja mig eftir bestu getu. Það hefur hún svo sannarlega gert og mér þykir ákaflega vænt um það.

Ég er með margar myndir á skrifstofunni minni sem eru mér dýrmætar. Þær minna mig á hve ánægjulega ævi ég á að baki. Ég hef gert mitt besta til að viðhalda kærleikanum til Jehóva sem kviknaði í upphafi, og hef hlotið ríkulega umbun fyrir.

Ég hef mikla ánægju af að vera með fjölskyldunni.

^ gr. 31 Nánari upplýsingar um þjónustu Anthonys Morris í fullu starfi er að finna í Varðturninum (enskri útgáfu) 15. mars 2006, bls. 26.