Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 ÆVISAGA

Blessun á hagstæðum tímum og erfiðum

Blessun á hagstæðum tímum og erfiðum

ÉG FÆDDIST í mars 1930 í þorpinu Namkumba sem er nálægt borginni Lílongve í landinu sem nú heitir Malaví. Fjölskylda mín og ættingjar voru dyggir þjónar Jehóva. Ég vígðist Guði og lét skírast árið 1942 í einu af fögrum fljótum landsins. Undanfarin 70 ár hef ég reynt að gera eins og Páll postuli hvatti Tímóteus til, að ,prédika orðið og gefa mig að því í tíma og ótíma‘, sem sagt bæði á hagstæðum tímum og erfiðum. – 2. Tím. 4:2.

Nathan H. Knorr og Milton G. Henschel heimsóttu Malaví í fyrsta sinn snemma árs 1948. Heimsókn þeirra kveikti hjá mér löngun til að þjóna Jehóva í fullu starfi. Mér er minnisstætt hversu hvetjandi það var að hlusta á þessa fulltrúa frá aðalstöðvum Votta Jehóva í Brooklyn í New York. Við vorum um 6.000 sem höfðum safnast saman á moldarvelli til að hlusta á ræðu bróður Knorrs en hún hét „Varanlegur stjórnandi allra þjóða“.

Stuttu síðar kynntist ég yndislegri systur, Lidasi að nafni. Hún var líka alin upp í fjölskyldu sem þjónaði Jehóva. Við höfðum bæði það markmið að þjóna Jehóva í fullu starfi. Við giftum okkur árið 1950 og þrem árum síðar höfðum við eignast tvö börn. Þótt það hefði meiri ábyrgði í för með sér ákváðum við að ég gæti gerst brautryðjandi. Tveim árum eftir það var mér boðið að vera sérbrautryðjandi.

Fljótlega var ég beðinn um að vera farandhirðir og heimsækja aðra söfnuði. Lidasi studdi mig fúslega og því gat ég séð fyrir efnislegum og andlegum þörfum fjölskyldunnar samhliða þessu starfi. * En það var samt einlæg löngun okkar beggja að þjóna Jehóva í fullu starfi. Með góðri skipulagningu og með samvinnu barnanna okkar fimm gat Lidasi gerst brautryðjandi árið 1960.

Mótin styrktu okkur fyrir ofsóknirnar fram undan.

Það var ánægjulegt að þjóna trúsystkinum okkar í fjölda safnaða á þessum hagstæða tíma. Við ferðuðumst um fallegar fjallshlíðar Mulanje í suðri og friðsælar strendur Malavívatns sem teygir sig langleiðina eftir austurlandamærum Malavís. Boðberum og söfnuðum fjölgaði stöðugt á farandsvæðunum þar sem við störfuðum.

Árið 1962 héldum við umdæmismótið „Hugrakkir þjónar Guðs“. Þegar ég lít um öxl er mér ljóst að andlegar veislur af þessu tagi voru einmitt  það sem við þurftum á að halda í Malaví á þeim tíma til að búa okkur undir þá erfiðleika sem voru fram undan. Árið eftir kom bróðir Henschel til Malaví öðru sinni og um 10.000 manns sóttu mót sem haldið var fyrir utan borgina Blantyre. Þetta hvetjandi mót veitti okkur styrk til að standast þær raunir sem áttu eftir að verða.

ERFIÐIR TÍMAR GANGA Í GARÐ

Starfsemi okkar var bönnuð og ríkisstjórnin lagði hald á deildarskrifstofuna.

Þar sem vottarnir neituðu að taka nokkurn þátt í stjórnmálum urðu þeir fyrir miklum prófraunum sem hófust 1964. Meira en 100 ríkissalir og 1.000 heimili votta voru eyðilögð í mikilli ofsóknaröldu. Við hjónin gátum þó haldið áfram í farandstarfinu þangað til stjórnvöld í Malaví bönnuðu starf safnaðarins árið 1967. Lagt var hald á deildarskrifstofuna í Blantyre, trúboðum var vísað úr landi og margir vottar voru hnepptir í fangelsi, þar á meðal við Lidasi. Þegar við vorum látin laus héldum við farandstarfinu áfram svo lítið bæri á.

Í október 1972 gerðist það einn daginn að um hundrað manna hópur úr herskárri hreyfingu, sem kölluð var Ungliðasamtök Malavís, stefndi að húsinu okkar. En einn þeirra hljóp á undan og sagði mér að forða mér því að þeir ætluðu sér að drepa mig. Ég sagði konunni minni og börnum að fela sig innan um bananatré í nágrenninu. Síðan tók ég á rás og klifraði upp í stórt mangótré. Þaðan horfði ég á þá eyðileggja húsið okkar og allar eigur.

Heimili bræðra og systra voru brennd vegna þess að þau tóku ekki þátt í stjórnmálum.

Ofsóknirnar í Malaví færðust í aukana og við flúðum land þúsundum saman. Við fjölskyldan vorum í flóttamannabúðum í vesturhluta Mósambík þar til í júní 1974. Þá vorum við Lidasi beðin um að gerast sérbrautryðjendur í Dómue, sem er í Mósambík nálægt landamærum Malavís. Við gegndum því starfi þar til Mósambík hlaut sjálfstæði frá Portúgal árið 1975. Þá neyddumst við til að snúa aftur til Malavís ásamt öðrum vottum og til ofsóknanna sem við höfðum flúið.

Í Malaví fékk ég það verkefni að heimsækja söfnuði í höfuðborginni Lílongve. Þrátt fyrir ofsóknirnar og alla erfiðleikana fjölgaði söfnuðum á farandsvæðunum þar sem við störfuðum.

VIÐ FUNDUM FYRIR STUÐNINGI JEHÓVA

Eitt sinn var verið að halda pólitískan fund í þorpi þar sem við komum. Einhverjir í hópnum áttuðu sig á að við værum vottar Jehóva og létu okkur setjast innan um fólk í ungliðahreyfingu sem kallaði sig Ungir brautryðjendur Malavís. Við báðum Jehóva ákaft um hjálp og leiðsögn við þessar háskalegu aðstæður. Eftir fundinn fóru nokkrir í hópnum að lemja okkur og berja. Eldri kona kom þá hlaupandi og hrópaði: „Látið  þau vera! Þessi maður er bróðursonur minn. Látið hann halda ferð sinni áfram!“ Sá sem stjórnaði fundinum sagði þeim þá að leyfa okkur að fara. Við vitum ekki hvað konunni gekk til því að hún var ekkert skyld okkur. Jehóva hlýtur að hafa heyrt bænir okkar.

Flokksskírteini.

Árið 1981 urðu nokkrir úr hópi Ungra brautryðjenda Malavís aftur á vegi okkar. Þeir tóku hjólin okkar, farangur, bókakassa og skjöl sem tengdust farandstarfinu. Við komumst undan og hlupum heim til öldungs sem bjó þar nálægt. Við báðum Jehóva um leiðsögn. Við höfðum áhyggjur af skjölunum sem þeir tóku því að þar voru ýmsar upplýsingar um söfnuðina. Þegar ungu brautryðjendurnir skoðuðu skjölin sáu þeir bréf sem ég hafði fengið frá ótal stöðum í Malaví. Þeir ályktuðu þá að ég hlyti að vera opinber embættismaður, urðu dauðhræddir og skiluðu öllu strax til öldunganna á staðnum.

Einhverju sinni vorum við á leið yfir fljót með ferju. Eigandi hennar var svæðisformaður stjórnmálaflokksins og hann ákvað að athuga hvort farþegarnir væru ekki með flokksskírteinin á sér. Rétt áður en röðin kom að okkur uppgötvaði hann að þjófur var um borð sem yfirvöld voru að leita að. Þetta olli heilmiklu uppnámi og þar með voru flokksskírteinin gleymd. Enn og aftur fundum við fyrir stuðningi Jehóva.

HANDTEKINN OG HNEPPTUR Í FANGELSI

Í febrúar 1984 var ég á leið til Lílongve til að senda skýrslur til deildarskrifstofunnar í Sambíu. Lögregluþjónn stoppaði mig og skoðaði í töskuna mína. Hann fann biblíutengd rit þannig að hann fór með mig á lögreglustöðina og barði mig. Síðan batt hann mig og setti mig í klefa með föngum sem höfðu verið teknir með þýfi.

Daginn eftir fór lögreglustjórinn með mig yfir í annað herbergi og bjó til yfirlýsingu þar sem sagði: „Ég undirritaður, Trophim R. Nsomba, er ekki lengur vottur Jehóva og er því sleppt úr haldi.“ Ég neitaði að skrifa undir og sagði: „Ég er bæði tilbúinn að vera fjötraður og deyja. En ég er og verð vottur Jehóva.“ Lögreglustjórinn reiddist heiftarlega og sló hnefanum svo fast í borðið að lögregluþjónn í næsta herbergi kom hlaupandi til að sjá hvað væri um að vera. Lögreglustjórinn sagði við hann: „Þessi maður neitar að skrifa undir að hann sé hættur að vera vottur Jehóva. Láttu hann þá skrifa undir að hann sé vottur Jehóva og við skulum senda hann til Lílongve svo að hann verði fjötraður þar.“ Konan mín vissi ekki hvað hefði orðið um mig fyrr en fjórum dögum síðar þegar bræður gátu sagt henni hvar ég væri.

Á lögreglustöðinni í Lílongve var komið vel fram við mig. Lögreglustjórinn þar rétti mér disk með hrísgrjónum og sagði: „Fáðu þér að  borða því að þú ert í haldi vegna Biblíunnar. Hinir sem eru hérna eru þjófar.“ Síðan sendi hann mig í Kachere-fangelsið þar sem ég var í fimm mánuði.

Fangelsisstjórinn var ánægður þegar ég kom. Hann vildi að ég yrði „presturinn“ í fangelsinu. Hann setti hinn prestinn af og sagði við hann: „Ég vil ekki að þú kennir orð Guðs hér framar því að þú varst dæmdur í fangelsi fyrir að stela frá kirkjunni.“ Mér var því falið það verkefni að veita biblíukennslu á samkomum sem voru haldnar vikulega fyrir fangana.

En síðar versnaði ástandið. Ég var yfirheyrður og reynt var að veiða upp úr mér hversu margir vottar væru í Malaví. Þegar lögregluþjónarnir voru ekki ánægðir með svörin var ég barinn þangað til leið yfir mig. Einu sinni vildu þeir fá að vita hvar aðalstöðvar okkar væru. Ég sagði: „Þið spyrjið mig einfaldrar spurningar og ég skal svara.“ Lögregluþjónarnir voru ánægðir og stilltu segulbandstækið á upptöku. Ég sagði þeim að það væri talað um aðalstöðvar votta Jehóva í Biblíunni. Þeir voru hissa og spurðu: „Hvar í Biblíunni?“

„Í Jesaja 43:12,“ svaraði ég. Þeir flettu upp á versinu og lásu það vandlega. „Þér eruð vottar mínir, segir Drottinn, að það er ég sem er Guð.“ Þeir lásu versið þrisvar og spurðu síðan: „Hvernig geta aðalstöðvar Votta Jehóva verið hér í Biblíunni en ekki í Ameríku?“ Ég svaraði: „Vottar Jehóva í Ameríku líta einnig svo á að hér sé verið að lýsa aðalstöðvum þeirra.“ Þar sem ég sagði þeim ekki það sem þeir vildu heyra var ég fluttur í Dzaleka-fangelsið, rétt norðan við Lílongve.

BLESSUN ÞRÁTT FYRIR ERFIÐA TÍMA

Í Dzaleka-fangelsinu var 81 vottur og í júlí 1984 bættist ég í hópinn. Þar var 300 föngum troðið saman og við sváfum hlið við hlið á gólfinu. Með tímanum gátum við vottarnir farið að hittast í litlum hópum og ræða um biblíuvers. Á hverjum degi var einn í hópnum sem stakk upp á versi til að ræða um. Þetta var okkur til mikillar uppörvunar.

Síðar aðskildi fangelsisstjórinn okkur vottana frá hinum föngunum. Vörður sagði okkur í trúnaði: „Ríkisstjórninni er ekki í nöp við ykkur. Það eru tvær ástæður fyrir því að þið eruð í fangelsi: Annars vegar óttast ríkisstjórnin að Ungu brautryðjendurnir drepi ykkur og hins vegar boðið þið að stríð sé í vændum og stjórnin óttast að hermennirnir láti sig hverfa í þessu stríði.“

Bræður leiddir burt eftir réttarhöld.

Við vorum allir leiddir fyrir rétt í október 1984 og dæmdir í tveggja ára fangelsi. Eins og fyrr vorum við hafðir með föngum sem voru ekki vottar. En fangelsisstjórinn tilkynnti öllum í fangelsinu: „Vottar Jehóva reykja ekki. Þið verðir, þið skuluð því láta það vera að biðja þá um  sígarettur eða senda þá eftir viðarkolum til að kveikja í fyrir ykkur. Þetta er fólk Guðs. Allir vottar Jehóva eiga að fá mat tvisvar á dag þar sem þeir hafa ekki brotið af sér heldur eru hérna vegna trúar sinnar á Biblíuna.“

Við nutum líka góðs af því á ýmsa aðra vegu að hafa góðan orðstír. Þegar dimmt var orðið eða rigndi máttu fangar ekki fara út. Við máttum hins vegar fara út þegar við vildum. Verðirnir vissu að við myndum ekki reyna að flýja. Einu sinni veiktist vörður þegar hann gætti okkar við vinnu úti á akri. Við bárum hann til baka í fangelsið svo að hann fengi aðhlynningu. Starfsmenn fangelsisins vissu að þeir gætu treyst okkur. Með því að hegða okkur vel hlutum við þá blessun að sjá verðina lofa nafn Jehóva. – 1. Pét. 2:12. *

HAGSTÆÐIR TÍMAR Á NÝ

Mér var sleppt úr Dzaleka-fangelsinu 11. maí 1985. Það var ólýsanlegt að fá að vera með fjölskyldunni aftur. Við þökkum Jehóva fyrir að hjálpa okkur að vera ráðvönd á þessu afar erfiða tímabili. Okkur líður eins og Páli postula sem skrifaði: „Ég vil ekki, bræður mínir og systur, að ykkur sé ókunnugt um þrenging þá sem ég varð fyrir ... Ég jafnvel örvænti um lífið. Já, mér sýndist sjálfum að ég hefði þegar fengið minn dauðadóm. Því að mér átti að lærast að treysta ekki sjálfum mér heldur Guði sem uppvekur hina dauðu. Úr slíkri dauðans hættu frelsaði hann mig.“ – 2. Kor. 1:8-10.

Trophim og Lidasi fyrir framan ríkissal árið 2004.

Stundum leit vissulega út fyrir að við myndum ekki lifa af. En við báðum Jehóva alltaf um að gefa okkur hugrekki og visku þannig að við gætum verið auðmjúk og haldið áfram að vera nafni hans til heiðurs.

Jehóva hefur blessað okkur í þjónustu sinni bæði á hagstæðum tímum og erfiðum. Það er ótrúlegt að sjá deildarskrifstofuna í Lílongve sem var fullgerð árið 2000 og rúmlega 1.000 nýja ríkissali um land allt. Þessi blessun Jehóva er svo stórkostleg að okkur Lidasi finnst okkur nánast vera að dreyma. *

^ gr. 7 Bræður, sem eiga fyrir börnum að sjá, eru ekki lengur beðnir um að taka að sér farandstarf.

^ gr. 30 Nánari upplýsingar um ofsóknirnar í Malaví má finna í árbók Votta Jehóva 1999, bls. 171-223.

^ gr. 34 Bróðir Trophim R. Nsomba lést 83 ára að aldri meðan þessi grein beið útgáfu.