Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 ÆVISAGA

Við völdum ánægjulegra ævistarf

Við völdum ánægjulegra ævistarf

VIÐ Gwen byrjuðum að læra dans þegar við vorum fimm ára. Við höfðum ekki hist á þeim tíma. En þegar við stækkuðum ákváðum við bæði að leggja fyrir okkur ballett. Við hættum svo á hátindi ferilsins. Hvað kom til?

David: Ég fæddist árið 1945 í Shropshire-sýslu á Englandi. Faðir minn átti þar jörð í friðsælli sveit. Þegar ég kom heim úr skólanum fóðraði ég hænsnin og safnaði eggjunum, og sinnti auk þess nautgripunum og fénu. Á sumrin vann ég við uppskerustörf og keyrði stundum dráttarvélarnar.

En ég var kominn með annað áhugamál. Faðir minn hafði tekið eftir að allt frá unga aldri vildi ég dansa hvenær sem ég heyrði tónlist. Þegar ég var fimm ára stakk hann upp á að móðir mín færi með mig í nálægan dansskóla til að læra steppdans. Kennarinn taldi að ég væri efni í ballettdansara og kenndi mér því líka ballett. Þegar ég var 15 ára fékk ég styrk til náms við hinn virta Konunglega ballettskóla í Lundúnum. Þar hitti ég Gwen og við vorum pöruð saman sem dansfélagar.

Gwen: Ég fæddist í stórborginni Lundúnum árið 1944. Ég lærði að trúa á Guð þegar ég var lítil. Ég reyndi að lesa Biblíuna en fannst hún torskilin. Ég hafði sótt danstíma frá fimm ára aldri. Þegar ég var 11 ára sigraði ég í danskeppni með keppendum frá öllu Bretlandi og verðlaunin voru þau að ég fékk inngöngu í yngri deild Konunglega ballettskólans. Hún var staðsett í White Lodge sem er reisulegt hús í georgískum stíl í Richmond Park í útjaðri Lundúna. Þar stundaði ég nám og fékk þjálfun í ballett undir umsjón virtra kennara. Sextán ára fluttist ég í eldri deild Konunglega ballettskólans í miðborg Lundúna og þar hitti ég David. Nokkrum mánuðum síðar vorum við farin að koma fram í ballettatriðum í óperum í Konunglega óperuhúsinu í Covent Garden í Lundúnum.

Við ferðuðumst út um allan heim meðan við vorum atvinnumenn í ballett.

David: Eins og Gwen sagði dönsuðum við í hinu fræga Konunglega óperuhúsi og einnig með Enska þjóðarballettinum (sem hét þá London Festival Ballet). Einn af danshöfundum Konunglega ballettsins stofnaði alþjóðlegt fyrirtæki í Wuppertal í Þýskalandi. Hann valdi tvo sólódansara til að fara með sér. Það vorum við. Við dönsuðum í leikhúsum um allan heim, stundum með frægum dönsurum eins og Margot Fonteyn og Rudolf Nureyev. Í samkeppnisumhverfi af þessu tagi lítur maður stórt á sig og við helguðum okkur starfinu algerlega.

 Gwen: Ég helgaði mig dansinum af lífi og sál. Við David stefndum bæði að því að komast á toppinn. Ég naut þess að gefa eiginhandaráritanir, fá blómvendi og heyra lófatak áhorfenda. Það var mikið um siðleysi, reykingar og drykkjuskap í heimi leikhússins, og ég treysti á lukkugripina mína eins og margir aðrir í kringum mig.

LÍFIÐ TEKUR NÝJA STEFNU

Á brúðkaupsdeginum

David: Ég varð leiður á endalausum ferðalögum eftir að hafa verið atvinnudansari í nokkur ár. Ég hafði alist upp á sveitabæ og mig langaði orðið til að lifa einfaldara lífi í sveit. Árið 1967 hætti ég í ballettinum og fékk vinnu á stórum búgarði í grennd við heimili foreldra minna. Ég tók á leigu lítið hús sem bóndinn átti. Síðan hringdi ég til Gwen í leikhúsið og bað hennar. Hún var nú orðin sólódansari og var á framabraut þannig að hún þurfti að taka erfiða ákvörðun. Hún hafði aldrei búið í sveit en tók bónorðinu og fluttist til mín.

Gwen: Já, það var enginn hægðarleikur að aðlagast sveitalífinu. Að mjólka kýr og fóðra svín og hænsni í alls konar veðri var harla ólíkt þeim heimi sem ég þekkti. David tók níu mánaða námskeið við landbúnaðarháskóla til að læra nýjustu búskaparaðferðir og ég var einmana þangað til hann kom heim á kvöldin. Við vorum nú búin að eignast fyrstu dótturina, Gilly. David hvatti mig til að læra á bíl, og dag einn rakst ég á Gael þegar ég var stödd í nálægum bæ. Ég hafði hitt hana áður þegar hún vann í verslun á svæðinu.

Skömmu eftir að við hófum búskap.

Gael bauð mér að þiggja tebolla hjá sér. Við sýndum hvor annarri brúðkaupsmyndirnar okkar, og á myndinni hennar var hópur fólks fyrir utan hús sem kallaðist ríkissalur. Ég spurði hana hvers konar kirkja það væri. Ég var himinlifandi þegar hún sagði mér að þau hjónin væru vottar Jehóva. Ég minntist þess að ein af frænkum mínum var vottur. En ég mundi líka að föður mínum mislíkaði það. Hann hafði verið henni öskureiður og kastað ritunum hennar í ruslafötuna. Faðir minn var yfirleitt afskaplega vingjarnlegur og ég undraðist að hann skyldi vera svona reiður út í þessa ágætu manneskju.

Nú fékk ég loksins tækifæri til að komast að því hvaða munur var á trúarskoðunum frænku minnar og kenningum kirkjunnar. Gael sýndi mér hvað Biblían kennir í raun og veru. Ég var steinhissa þegar ég uppgötvaði að margar kennisetningar, svo sem um þrenningu og ódauðleika sálarinnar,  ganga í berhögg við Biblíuna. (Préd. 9:5, 10; Jóh. 14:28; 17:3) Ég sá líka nafn Guðs, Jehóva, í Biblíunni í fyrsta sinn. – 2. Mós. 6:3 neðanmáls.

David: Gwen sagði mér frá því sem hún var að læra. Ég mundi að faðir minn hafði sagt mér á barnsaldri að ég ætti að lesa Biblíuna. Við Gwen þáðum því boðið að fá að kynna okkur Biblíuna með hjálp Geal og Derricks, eiginmanns hennar. Hálfu ári síðar fluttum við til Oswestry sem er einnig í Shropshire-sýslu því að við fengum tækifæri til að leigja lítið býli þar. Systir á staðnum, Deirdre að nafni, tók við að kenna okkur. Okkur miðaði ekki hratt í fyrstu því að við vorum önnum kafin að annast bústofninn. En Deirdre var þolinmóð og sannleikurinn festi smám saman rætur í hjörtum okkar.

Gwen: Hjátrúin var heilmikill þröskuldur fyrir mig. En í Jesaja 65:11 sá ég hvernig Jehóva lítur á þá sem ,setja borð fyrir heilladísina‘. (Biblían 1981) Það tók sinn tíma og margar bænir að losna við alla lukku- og verndargripina. Ég lærði líka að „hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða“. (Matt. 23:12) Þá gerði ég mér ljóst hvers konar eiginleika Jehóva vill sjá í fari fólks. Mig langaði til að þjóna Guði sem þykir svo vænt um okkur mennina að hann gaf ástkæran son sinn sem lausnargjald. Við vorum nú búin að eignast aðra dóttur og það var hrífandi tilhugsun að við fjölskyldan gætum lifað að eilífu í paradís á jörð.

David: Ég sannfærðist um að ég hefði fundið sannleikann þegar ég skildi hvernig spádómar Biblíunnar höfðu ræst, svo sem spádómarnir í Daníelsbók og Matteusi 24. kafla. Ég áttaði mig á að ekkert í þessu heimskerfi jafnaðist á við það að eiga gott samband við Jehóva. Það dró því úr metnaðargirninni hjá mér með tímanum. Ég gerði mér grein fyrir að eiginkona mín og dætur voru jafn mikilvægar og ég. Filippíbréfið 2:4 sannfærði mig um að ég ætti ekki að hugsa aðeins um sjálfan mig og um að eignast stærra býli. Ég ætti öllu heldur að einbeita mér að því að þjóna Jehóva. Ég hætti að reykja. En það var ekki hlaupið að því að haga málum okkar þannig að við kæmumst á samkomur á laugardagskvöldum. Þangað voru 10 kílómetrar og það þurfti að mjólka kýrnar um svipað leyti. En við Gwen hjálpuðumst að og misstum aldrei af samkomu. Við gættum þess líka að taka stelpurnar með okkur í boðunina á hverjum sunnudagsmorgni – eftir mjaltir.

Ættingjar okkar voru ekki hrifnir af þessum breytingum sem við gerðum. Faðir Gwen talaði ekki við hana í sex ár. Foreldrar mínir reyndu líka að fá okkur til að hætta samskiptum við vottana.

Gwen: Jehóva studdi okkur í þessum prófraunum. Það var eins og við eignuðumst smám saman  nýja fjölskyldu í söfnuðinum í Oswestry. Bræðurnir og systurnar voru okkur stoð og stytta í erfiðleikum okkar. (Lúk. 18:29, 30) Við vígðum Jehóva líf okkar og létum skírast árið 1972. Mig langaði til að hjálpa eins mörgum og ég gæti til að kynnast sannleikanum þannig að ég gerðist brautryðjandi.

NÝTT OG ÁNÆGJULEGT STARF

David: Búskapurinn var erfiðisvinna en við reyndum að vera dætrum okkar góð fyrirmynd í þjónustunni við Jehóva. Það kom þó að því að við þurftum að hætta búskap vegna minnkandi styrkja frá stjórnvöldum. Við vorum nú heimilislaus, atvinnulaus og þriðja dóttirin bara ársgömul. Við báðum Jehóva um hjálp og leiðsögn. Við ákváðum að nýta okkur það sem við kunnum og opnuðum dansskóla til að sjá fyrir fjölskyldunni. Það bar góðan árangur að láta þjónustuna við Jehóva sitja í fyrirrúmi. Okkur til mikillar ánægju gerðust allar dæturnar brautryðjendur þegar þær luku skólagöngu. Gwen var líka brautryðjandi og gat því stutt stelpurnar daglega.

Við lokuðum dansskólanum eftir að eldri dæturnar, þær Gilly og Denise, giftu sig. Við skrifuðum deildarskrifstofunni til að kanna hvar við gætum orðið að liði. Okkur var bent á bæi í suðausturhluta Englands. Nú var bara yngsta dóttirin, Debbie, eftir heima þannig að ég gerðist líka brautryðjandi. Fimm árum síðar vorum við beðin að aðstoða aðra söfnuði norðar í landinu. Eftir að Debbie gifti sig fengum við að starfa um tíu ára skeið við byggingarstörf í Simbabve, Moldóvu, Ungverjalandi og á Fílabeinsströndinni. Síðan snerum við aftur heim til Englands til að aðstoða við byggingarstörf við Betel í Lundúnum. Þar sem ég hafði reynslu af búskap var ég beðinn að leggja lið á Betelbúgarðinum sem var starfræktur á þeim tíma. Núna erum við brautryðjendur í norðvesturhluta Englands.

Við höfðum mikla ánægju af því að starfa við byggingarstörf víða um lönd.

Gwen: Í fyrstu helguðum við okkur ballettinum. Það var ánægjulegt en ánægjan var stundleg. Nú höfum við helgað Jehóva líf okkar og það er mun mikilvægara. Það hefur veitt okkur mikla gleði og hún er eilíf. Við erum enn þá félagar en núna notum við fæturna til að starfa saman sem brautryðjendur. Það hefur veitt okkur óviðjafnanlega ánægju að fá að hjálpa mörgum að læra þau dýrmætu sannindi sem veita fólki líf. Þetta eru „meðmælabréf“ okkar og eru miklu betri en frami í heiminum. (2. Kor. 3:1, 2) Ef við hefðum ekki fundið sannleikann stæði ekkert eftir af starfi okkar nema minningar, ljósmyndir og gamlar leikskrár.

David: Það hefur skipt sköpum í lífi okkar að velja okkur ævistarf í þjónustu Jehóva. Ég veit að það hefur gert mig að betri eiginmanni og föður. Í Biblíunni segir að Mirjam, Davíð konungur og fleiri hafi tjáð gleði sína með dansi. Og við þráum að dansa af gleði ásamt mörgum öðrum í nýjum heimi Jehóva. – 2. Mós. 15:20; 2. Sam. 6:14.