Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að búa þjóðirnar undir kenningu Jehóva

Að búa þjóðirnar undir kenningu Jehóva

„Landstjórinn ... varð ... gagntekinn af kenningu Drottins og tók trú.“ – POST. 13:12.

1-3. Hvers vegna var það þrautin þyngri fyrir lærisveina Jesú að boða ,öllum þjóðum‘ fagnaðarerindið?

ÞAÐ var gríðarlegt verkefni sem Jesús Kristur fól fylgjendum sínum. Hann sagði þeim: „Farið ... og gerið allar þjóðir að lærisveinum.“ Þeir þurftu að boða „fagnaðarerindið um ríkið ... um alla heimsbyggðina til þess að allar þjóðir [fengju] að heyra það“. – Matt. 24:14; 28:19.

2 Lærisveinunum þótti ákaflega vænt um Jesú og fagnaðarerindið. En þeim var kannski spurn hvernig í ósköpunum þeir ættu að geta gert eins og Jesús sagði þeim. Ekki voru þeir nú margir. Þeir boðuðu að Jesús væri sonur Guðs en hann hafði verið tekinn af lífi. Í augum flestra voru þeir „ekki lærðir, heldur óbrotnir alþýðumenn“. (Post. 4:13) Þeir áttu hins vegar að flytja boðskap sem stakk í stúf við kenningar hinna virtu trúarleiðtoga sem voru menntaðir í ævafornum erfikenningum. Lærisveinarnir voru ekki hátt skrifaðir í heimalandi sínu þannig að  þeim kann að hafa verið spurn hvort nokkur myndi hlusta á þá í hinu volduga Rómaveldi.

3 Jesús hafði auk þess varað lærisveinana við því að þeir yrðu hataðir og ofsóttir, og sumir þeirra yrðu líflátnir. (Lúk. 21:16, 17) Þeir yrðu framseldir í hendur óvina og auk þess myndu þeir eiga í höggi við falsspámenn og vaxandi lögleysi. (Matt. 24:10-12) Og hvernig áttu þeir að geta flutt boðskapinn „allt til endimarka jarðarinnar“ jafnvel þótt viðtökurnar yrðu góðar? (Post. 1:8) Þeim hlýtur að hafa þótt verkefnið yfirþyrmandi í ljósi alls þessa.

4. Hver var árangurinn af boðuninni á fyrstu öld?

4 Lærisveinarnir létu hendur standa fram úr ermum þó að þeir vissu að verkefnið væri ekki auðvelt. Þeir boðuðu fagnaðarerindið bæði í Jerúsalem, Samaríu og út um hinn þekkta heim. Þrátt fyrir ýmiss konar mótlæti höfðu þeir boðað fagnaðarerindið „öllu sem skapað er í heiminum“ á innan við 30 árum og það ,bar ávöxt og óx í öllum heiminum‘. (Kól. 1:6, 23) Sem dæmi má nefna að starf Páls postula á eynni Kýpur varð til þess að Sergíus Páll, landstjóri Rómaveldis, varð „gagntekinn af kenningu Drottins og tók trú“. – Lestu Postulasöguna 13:6-12.

5. (a) Hverju lofaði Jesús lærisveinunum? (b) Hvað hafa sumir sagt um aðstæður á fyrstu öld?

5 Lærisveinar Jesú vissu að þeir gætu ekki boðað fagnaðarerindið um allan heim í eigin krafti. Jesús hafði sagt að hann yrði með þeim og að heilagur andi myndi styðja þá. (Matt. 28:20) Að ýmsu leyti má segja að aðstæður í heiminum á þeim tíma hafi verið hagstæðar boðuninni. Í bókinni Evangelism in the Early Church segir: „Sennilega hefur ekkert tímabil í sögu veraldar verið móttækilegra fyrir hinni ungu kirkju en fyrsta öld e.Kr. ... Á annarri öld voru kristnir menn ... farnir að halda því fram að guðleg forsjá hefði búið heiminn undir komu kristninnar.“

6. Hvað skoðum við (a) í þessari grein? (b) í þeirri næstu?

6 Í Biblíunni er ósagt látið hvort Guð hafi haft áhrif á gang sögunnar til að greiða fyrir boðuninni á fyrstu öld. Eitt er þó víst: Jehóva vildi að fagnaðarerindið yrði boðað en Satan vildi það ekki. Í þessari grein lítum við á nokkrar aðstæður sem gerðu að verkum að það var líklega auðveldara að boða fagnaðarerindið á fyrstu öld en á öðrum tímabilum sögunnar. Í næstu grein skoðum við framvindu mála á okkar tímum sem auðveldar okkur að boða ríki Guðs til endimarka jarðar.

RÓMARFRIÐURINN

7. Hvað var Rómarfriðurinn og að hvaða leyti var hann sérstakur?

7 Rómaveldi skapaði kristnum mönnum hagstæð skilyrði að sumu leyti. Nefna má Rómarfriðinn sem dæmi. Hið víðáttumikla Rómaveldi hélt uppi vissum stöðugleika í þeim löndum sem það réð yfir. Stundum kom vissulega til hernaðarátaka eins og Jesús hafði sagt fyrir. (Matt. 24:6) Rómverskur her jafnaði Jerúsalem við jörðu árið 70 e.Kr. og af og til urðu minni háttar átök á ytri mörkum heimsveldisins. Um 200 ára skeið eftir daga Jesú  var þó tiltölulega friðsamt í löndunum umhverfis Miðjarðarhaf. Í heimildarriti segir: „Aldrei fyrr í sögu mannkyns hafði verið jafn friðsælt um svo langan tíma, og aldrei aftur hélst jafn stöðugur friður meðal svo margra þjóða.“

8. Hvernig nutu frumkristnir menn góðs af því að ástandið var tiltölulega friðsamt?

8 Origenes, guðfræðingur á þriðju öld, sagði eftirfarandi: „Ef ríkin hefðu verið mörg hefði það tafið fyrir því að kenning Jesú breiddist út um allan heim ... því að menn hefðu alls staðar neyðst til að gegna herþjónustu og berjast til varnar landi sínu ... Hvernig hefði þessi kenning, sem boðar frið og leyfir mönnum ekki einu sinni að hefna sín á óvinum, fengið framgang nema aðstæður í heiminum hefðu alls staðar breyst um þær mundir sem Jesús kom og menn væru orðnir mildari?“ Boðberar Guðsríkis voru ofsóttir í Rómaveldi en þeir voru friðsamir og nutu greinilega góðs af því að það voru friðartímar. – Lestu Rómverjabréfið 12:18-21.

GREIÐAR SAMGÖNGUR

9, 10. Hvers vegna áttu lærisveinarnir fremur auðvelt með að ferðast um Rómaveldi?

9 Kristnir menn notfærðu sér vegakerfi Rómaveldis. Rómverjar voru með öflugan her til að verja ríkið og halda þegnunum í skefjum. Það þurfti góða vegi til að koma hersveitum með hraði milli staða og Rómverjar voru góðir vegagerðarmenn. Vegirnir lágu gegnum skóga, um eyðimerkur og yfir fjöll. Vegakerfið var meira en 80.000 kílómetrar að lengd og tengdi nálega öll skattlönd heimsveldisins.

10 Auk þess að ferðast landleiðis eftir vegum var hægt að sigla um 27.000 kílómetra eftir ám og skipaskurðum. Um 900 siglingaleiðir tengdu saman hafnir í hundraðatali. Kristnir menn gátu því ferðast um allt Rómaveldi. Ferðalögin voru ekki alltaf auðveld en Páll postuli og fleiri gátu samt ferðast um allt heimsveldið án vegabréfa eða vegabréfsáritana. Þeir þurftu ekki að glíma við tolla- og útlendingaeftirlit. Glæpamenn óttuðust refsingar þannig að það var tiltölulega hættulaust að ferðast landleiðis. Sjóferðir voru sömuleiðis fremur öruggar því að sjóher Rómar sá til þess að sjórán voru fátíð á almennum siglingaleiðum. Sjóferðirnar voru ekki hættulausar og Páll varð skipreka nokkrum sinnum, en þess er ekki getið sérstaklega í Biblíunni að honum hafi stafað hætta af sjóræningjum á ferðum sínum. – 2. Kor. 11:25, 26.

GRÍSK TUNGA

Bókin auðveldaði mönnum til muna að fletta upp á ákveðnu biblíuversi. (Sjá 12. grein.)

11. Hvers vegna völdu lærisveinarnir að nota gríska tungu?

11 Alexander mikli hafði ráðið yfir mörgum af þeim svæðum sem tilheyrðu Rómaveldi og útbreitt gríska tungu. Þessi almenna gríska, nefnd koine-gríska, stuðlaði að góðum samskiptum og einingu kristnu safnaðanna, og þjónar Guðs áttu jafnframt auðvelt með að ná til almennings. Það flýtti fyrir útbreiðslu fagnaðarerindisins. Gyðingar í Egyptalandi höfðu auk þess þýtt Hebresku ritningarnar á grísku. Fólk þekkti þessa þýðingu, sem var nefnd Sjötíumannaþýðingin, og fylgjendur Krists á fyrstu öld vitnuðu oft í hana. Gríska var einnig  kjörið tungumál fyrir skrif kristinna manna. Orðaforðinn var mikill og málið auðugt af hugtökum til að skýra andleg málefni.

12. (a) Hvað hafði bókin fram yfir bókrolluna? (b) Hvenær voru kristnir menn almennt farnir að nota bókina?

12 Hvernig gátu kristnir menn notað Biblíuna þegar þeir boðuðu fagnaðarerindið? Bókrollurnar voru ómeðfærilegar því að það þurfti að rúlla handritinu milli kefla til að fletta upp á ákveðnu versi, og yfirleitt var aðeins skrifað á það öðru megin. Það þurfti heila bókrollu fyrir Matteusarguðspjall, svo dæmi sé tekið. En svo var farið að nota bækur með blöðum sem voru saumuð saman og hægt var að fletta. Það var hægðarleikur að fletta upp í bókinni og finna biblíuvers. Ekki er vitað með vissu hvenær kristnir menn byrjuðu að nota bækur í stað bókrollna en í heimildarriti segir: „Á annarri öld voru kristnir menn almennt farnir að nota bókina og því má ætla að hún hafi verið komin í notkun töluvert fyrir 100 e.Kr.“

RÓMVERSK LÖG

13, 14. (a) Hvernig notfærði Páll sér að hann hafði rómverskan ríkisborgararétt? (b) Hvernig nýttu kristnir menn sér rómversk lög?

13 Rómversk lög giltu út um allt heimsveldið og rómversku ríkisfangi fylgdu mikilvæg réttindi og ákveðin friðhelgi. Páll notfærði sér það nokkrum sinnum að hann hafði rómverskan ríkisborgararétt. Einu sinni átti að húðstrýkja hann í Jerúsalem og hann spurði þá hundraðshöfðingjann: „Leyfist ykkur að húðstrýkja rómverskan mann og það án dóms og laga?“ Svo var ekki. Páll benti á að hann væri fæddur með rómverskt ríkisfang. „Þeir sem áttu að kúga hann til sagna viku ... jafnskjótt frá honum. Og hersveitarforinginn varð hræddur er hann varð þess vís að það var rómverskur maður sem hann hafði látið binda.“ – Post. 22:25-29.

14 Að Páll skyldi vera rómverskur ríkisborgari hafði áhrif á þá meðferð sem hann fékk í Filippí. (Post. 16:35-40) Borgarritarinn í Efesus vitnaði til rómverskra laga eftir að hafa róað æstan múg. (Post. 19:35-40) Í Sesareu krafðist Páll lögvarins réttar síns  til að verja trú sína frammi fyrir keisaranum í Róm. (Post. 25:8-12) Kristnir menn gátu því notfært sér lög Rómaveldis til að „verja fagnaðarerindið og staðfesta það“. – Fil. 1:7, Biblían 1981.

GYÐINGAR BJUGGU VÍÐA UM LÖND

15. Hve víða bjuggu Gyðingar á fyrstu öld?

15 Að sumu leyti kann það að hafa auðveldað kristnum mönnum boðunina að Gyðingar voru dreifðir víða um Rómaveldi. Öldum áður höfðu Assýringar og síðar Babýloníumenn gert Gyðinga burtræka úr heimalandi þeirra. Á fimmtu öld f.Kr. bjuggu Gyðingar í öllum 127 héruðum Persaveldis. (Est. 9:30) Meðan Jesús var á jörð bjuggu Gyðingar í Egyptalandi og víðar í Norður-Afríku, svo og í Grikklandi, Litlu-Asíu og Mesópótamíu. Áætlað er að þegnar Rómaveldis hafi þá verið 60 milljónir talsins og þar af hafi um 1 af hverjum 14 verið Gyðingar. Þeir tóku trú sína með sér hvert sem þeir fóru. – Matt. 23:15.

16, 17. (a) Hvernig nutu margir góðs af því að Gyðingar skyldu búa víða um lönd? (b) Hvaða siði Gyðinga tóku kristnir menn sér til fyrirmyndar?

16 Þar sem Gyðingar bjuggu víða um lönd kynntust margir aðrir Hebresku ritningunum. Þeir uppgötvuðu að það var aðeins til einn sannur Guð og að siðferði þeirra sem þjónuðu honum var til fyrirmyndar. Og í Hebresku ritningunum var fjöldi spádóma um Messías. (Lúk. 24:44) Bæði Gyðingar og kristnir menn vissu að Hebresku ritningarnar voru innblásið orð Guðs. Það gerði Páli kleift að ræða á sameiginlegum grundvelli við þá sem hneigðust til réttlætis. Páll fór því oft í samkunduhús Gyðinga og rökræddi við þá með vísunum í Ritninguna. – Lestu Postulasöguna 17:1, 2.

17 Trúardýrkun Gyðinga var með föstu sniði. Þeir söfnuðust reglulega saman í samkunduhúsum eða undir berum himni. Þeir sungu, báðust fyrir og ræddu um Ritninguna. Kristnir menn nú á dögum tilbiðja Guð með svipuðu sniði.

JEHÓVA HJÁLPAÐI ÞEIM AÐ BOÐA FAGNAÐARERINDIÐ

18, 19. (a) Hvað auðvelduðu aðstæður á fyrstu öld kristnum mönnum að gera? (b) Hvað finnst þér um Jehóva þegar þú hugsar til efnisins í þessari grein?

18 Aðstæður á fyrstu öld voru því um margt sérstakar og greiddu fyrir boðun fagnaðarerindisins. Rómarfriðurinn, tiltölulega greiðar samgöngur, sameiginlegt tungumál, rómversk lög og Gyðingabyggðir víða um lönd auðveldaði lærisveinum Jesú að vinna það verk sem Guð hafði falið þeim.

19 Fjórum öldum áður lagði gríski heimspekingurinn Platón einni af sögupersónum sínum eftirfarandi orð í munn: „Erfitt yrði að finna höfund og föður þessa alheims sem við byggjum, og þó að við fyndum hann yrði ógerlegt að segja öllum frá honum.“ Jesús sagði hins vegar: „Það sem mönnum er um megn, það megnar Guð.“ (Lúk. 18:27) Skapari alheims vill að fólk finni sig og kynnist sér. Auk þess sagði Jesús fylgjendum sínum: „Gerið allar þjóðir að lærisveinum.“ (Matt. 28:19) Það er gerlegt með hjálp Jehóva Guðs. Í greininni á eftir er rætt hvernig þetta verk er unnið nú á tímum.