Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Láttu Jehóva styrkja og vernda hjónabandið

Láttu Jehóva styrkja og vernda hjónabandið

„Ef Drottinn verndar eigi borgina vakir vörðurinn til ónýtis.“ – SÁLM. 127:1b.

1, 2. (a) Hvers vegna misstu 24.000 Ísraelsmenn af mikilli blessun? (b) Hvaða þýðingu hefur þessi atburður forðum daga fyrir okkur?

STUTTU áður en Ísraelsmenn gengu inn í fyrirheitna landið fóru þúsundir karlmanna að „hórast með móabískum konum“. Fyrir vikið dóu 24.000 manns fyrir hendi Jehóva. Hugsaðu þér. Ísraelsmenn voru rétt í þann mund að hljóta arfleifðina sem þeir höfðu beðið eftir svo lengi en misstu af henni vegna þess að þeir féllu í freistni. – 4. Mós. 25:1-5, 9.

2 Sagt er frá þessu skelfilega dæmi „til viðvörunar okkur sem endir aldanna er kominn yfir“. (1. Kor. 10:6-11) Við lifum núna við lok ,síðustu daga‘ og þjónar Guðs standa á þröskuldi nýs heims þar sem réttlæti ríkir. (2. Tím. 3:1; 2. Pét. 3:13) En því miður hafa sumir þjónar Jehóva slakað á verðinum. Þeir hafa gert sig seka um kynferðislegt siðleysi og þurft að taka dapurlegum afleiðingum þess. Þeir eiga jafnvel á hættu að missa af þeirri blessun að hljóta eilíft líf í paradís á jörð.

3. Hvers vegna þurfa hjón á leiðsögn og vernd Jehóva að halda? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

 3 Kynferðislegt siðleysi gengur eins og plága yfir heiminn og hjón þurfa á leiðsögn og vernd Jehóva að halda til að þeim takist að varðveita hjónabandið. (Lestu Sálm 127:1.) Við ræðum nú hvernig hjón geta styrkt hjónabandið með því að varðveita hjartað, styrkja sambandið við Guð, íklæðast hinum nýja manni, eiga innihaldsrík tjáskipti og gæta skyldu sinnar gagnvart hvort öðru.

VERNDAÐU HJARTAÐ

4. Hvernig hafa sumir þjónar Guðs leiðst út í siðleysi?

4 Hvernig getur það gerst að kristinn maður leiðist út í kynferðislegt siðleysi? Oft eru það augun sem leiða mann fyrsta skrefið í þá áttina. Jesús sagði: „Hver sem horfir á konu í girndarhug hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“ (Matt. 5:27, 28; 2. Pét. 2:14) Margir þjónar Guðs, sem hafa gerst sekir um ranga breytni, hafa veikt siðferðilegar varnir sínar með því að horfa á klám, lesa kynæsandi efni eða horfa á slíkt efni á Netinu. Sumir hafa horft á djarft efni í kvikmyndum, leikhúsum eða sjónvarpi. Aðrir hafa sótt næturklúbba og horft á nektardans eða farið í erótískt nudd.

5. Hvers vegna þurfum við að vernda hjartað?

5 Sumir falla í freistni vegna þess að þeir sækjast eftir athygli á röngum stað. Við búum í heimi sem nærist á alls konar kynferðislegu siðleysi og setur sér litlar hömlur. Og hjartað er svikult og örvæntingarfullt þannig að það er hægur vandi að leyfa sér að verða hrifinn af einhverjum öðrum en maka sínum. (Lestu Jeremía 17:9, 10.) „Frá hjartanu koma illar hugsanir, manndráp, hórdómur, saurlifnaður,“ sagði Jesús. – Matt. 15:19.

6, 7. (a) Hvernig getur svikult hjartað leitt fólk út á ranga braut? (b) Hvernig er hægt að forðast alvarlega synd?

6 Þegar óleyfilegar langanir hafa skotið rótum í svikulu hjartanu má búast við að karl og kona, sem laðast hvort að öðru, fari að ræða mál sem þau ættu ekki að ræða við annan en maka sinn. Áður en langt um líður fara þau að skapa sér fleiri tækifæri til að vera saman og hittast oftar, að því er virðist af tilviljun og í mesta sakleysi. Eftir því sem tilfinningarnar verða sterkari verða hinar siðferðilegu varnir veikari. Því lengra sem þau ganga því erfiðara er fyrir þau að stoppa, jafnvel þó að þau viti að þau eru að gera rangt. – Orðskv. 7:21, 22.

7 Andlegu varnirnar láta smám saman undan eftir því sem þau ganga lengra. Það nægir þeim ekki lengur að tala saman. Rangar langanir leiða til þess að þau fara að haldast í hendur, kyssast, gæla hvort við annað, snertast kynferðislega og tjá tilfinningar sínar með öðrum hætti. Þau eru því miður farin að sýna hvort öðru ástaratlot sem þau ættu ekki að sýna neinum öðrum en maka sínum. Það er ,eigin girnd sem freistar þeirra, dregur þau og tælir‘, og þegar girndin nær fullum þroska „elur hún synd“ – í þessu tilfelli kynferðislegt siðleysi. (Jak. 1:14, 15) Það er dapurlegt. Þau hefðu getað forðast þessa alvarlegu synd ef þau hefðu bæði tvö tekið við leiðsögn Jehóva og styrkt virðingu sína fyrir hjónabandinu sem er heilagt. Hvernig þá?

 STYRKTU SAMBANDIÐ VIÐ GUÐ

8. Hvers vegna er það siðferðileg vernd að vera vinur Jehóva?

8 Lestu Sálm 97:10Það er mikilvæg siðferðileg vernd að vera vinur Jehóva. Við fáum kraft til að hafna kynferðislegu siðleysi og alls konar óhreinleika þegar við kynnumst aðlaðandi eiginleikum Guðs og reynum að vera ,eftirbreytendur hans svo sem elskuð börn hans og lifa í kærleika‘. (Ef. 5:1-4) Hjón vita að Guð dæmir þá sem gera sig seka um kynferðislegt siðleysi þannig að þau leggja hart að sér til að hjónabandið sé hreint og heiðvirt. – Hebr. 13:4.

9. (a) Hvernig stóðst Jósef þegar hans var freistað? (b) Hvaða lærdóm getum við dregið af Jósef?

9 Sumir þjónar Guðs hafa veikt siðferðilegu varnirnar með því að eiga félagsskap utan vinnutíma við vinnufélaga sem eru ekki í söfnuðinum. Og freistingar geta líka orðið í vinnutímanum. Myndarlegur ungur maður, sem hét Jósef, uppgötvaði á vinnustað að eiginkona vinnuveitandans var mjög hrifin af honum. Dag eftir dag reyndi hún að draga hann á tálar. Að lokum „greip hún í skikkju hans og sagði: ,Leggstu með mér!‘“ En Jósef losaði sig og forðaði sér. Hvernig tókst honum að halda uppi andlegum vörnum þegar hans var freistað svona? Hann vildi alls ekki spilla sambandi sínu við Guð heldur vera hreinn og ráðvandur. Hann missti vinnuna og var varpað í fangelsi að ósekju en Jehóva blessaði hann. (1. Mós. 39:1-12; 41:38-43) Hvort sem við erum á vinnustað eða annars staðar þurfum við að forðast aðstæður þar sem við gætum orðið fyrir freistingu.

ÍKLÆÐIST HINUM NÝJA MANNI

10. Hvaða siðferðilegu vernd veitir hinn nýi maður?

10 Hinn nýi maður er skapaður „eins og Guð vill og lætur réttlæti og sannleika helga líf sitt“. (Ef. 4:24) Hann er þess vegna mikilvægur þáttur í andlegum vörnum hjóna. Þeir sem íklæðast þessum nýja manni ,deyða‘ í fari sínu „hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn og ágirnd“. (Lestu Kólossubréfið 3:5, 6.) Orðið ,deyðið‘ gefur til kynna að við þurfum að leggja mikið á okkur til að berjast gegn siðlausum löngunum. Við forðumst allt sem getur vakið með okkur kynferðislegar langanir í garð einhvers annars en maka okkar. (Job. 31:1) Þegar við lögum okkur að vilja Guðs lærum við að ,hafa andstyggð á hinu vonda en halda fast við hið góða‘. – Rómv. 12:2, 9.

11. Hvernig getur hinn nýi maður styrkt hjónabandið?

11 Hinn nýi maður endurspeglar mynd þess sem skapaði hann, það er að segja mynd Jehóva sjálfs. (Kól. 3:10) Það er mikil blessun þegar hjón styrkja andlegu varnirnar með því að íklæðast „hjartagróinni meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi“. (Kól. 3:12) Þau verða líka samrýmdari þegar þau láta „frið Krists ríkja í hjörtum [sínum]“. (Kól. 3:15) Það veitir hjónum mikla gleði að vera ,ástúðleg hvort við annað‘ og leggja sig fram um að ,sýna hvort öðru virðingu‘. – Rómv. 12:10.

12. Hvaða eiginleikar eru mikilvægir að þínu mati til að hjón séu hamingjusöm?

12 Þegar Sid var spurður hvað hafi gert hjónabandið hamingjuríkt svaraði hann: „Við höfum alltaf einbeitt okkur að kærleikanum. Og við höfum  líka uppgötvað að það er mjög mikilvægt að vera hógvær.“ Sonja, eiginkona hans, tekur undir og bætir við: „Góðvild er ákaflega mikilvæg. Og við höfum líka reynt að sýna auðmýkt þó að það sé ekki alltaf auðvelt.“

INNIHALDSRÍK TJÁSKIPTI

13. Hver er lykillinn að sterku hjónabandi og hvers vegna?

13 Eitt það besta, sem hægt er að gera til að styrkja hjónabandið, er að tala vingjarnlega og hlýlega hvort við annað. Það væri miður ef hjón töluðu hvort við annað af minni virðingu en þau tala við bláókunnuga eða jafnvel gæludýrin sín. Hjón brjóta niður andlegar varnir hjónabandsins ef þau ráðast hvort á annað með „beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli“. (Ef. 4:31) Hjón þurfa að styrkja hjónabandið með hlýjum orðum og umhyggju í stað þess að grafa undan því með stöðugri gagnrýni og meiðandi orðum. – Ef. 4:32.

14. Hvað er skynsamlegt að forðast?

14 „Að þegja hefur sinn tíma,“ segir í Biblíunni. (Préd. 3:7) Þetta merkir auðvitað ekki að það sé dyggð að vera þegjandalegur því að góð tjáskipti eru afar mikilvæg í hjónabandi. Eiginkona í Þýskalandi segir: „Við þessar aðstæður getur þögnin verið særandi fyrir makann.“ Hún bætir við: „Þó að það sé ekki alltaf auðvelt að halda ró sinni undir álagi er ekki gott að rasa bara út. Þá segir maður eitthvað í fljótfærni sem getur sært makann, og það gerir bara illt verra.“ Hjón leysa ekki vandamál sín til langs tíma litið með því að æpa eða vilja ekki tala hvort við annað. Þau styrkja aftur á móti hjónabandið ef þau velja þann kost að vera fljót að leysa úr ágreiningi og forðast rifrildi.

15. Hvernig geta góð tjáskipti styrkt hjónabandið?

15 Það styrkir tengslin þegar hjón gefa sér tíma til að tjá tilfinningar sínar  og sjónarmið. Það skiptir vissulega máli hvað við segjum en það er ekki síður mikilvægt að segja það á réttan hátt. Reyndu því að velja réttu orðin og vera hlýlegur í tali, jafnvel undir álagi. Þá auðveldar þú makanum að hlusta á þig. (Lestu Kólossubréfið 4:6.) Hjón styrkja hjónabandið með góðum tjáskiptum og með því að segja „það eitt sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gerist, til þess að það verði til góðs“ fyrir makann. – Ef. 4:29.

Góð tjáskipti styrkja hjónabandið. (Sjá 15. grein.)

GÆTTU SKYLDU ÞINNAR GAGNVART MAKANUM

16, 17. Hvers vegna er mikilvægt að hjón séu næm fyrir tilfinningalegum og kynferðislegum þörfum hvort annars?

16 Hjón geta líka styrkt tengslin til muna með því að taka þarfir hvort annars fram yfir sínar eigin. (Fil. 2:3, 4) Þau þurfa bæði að vera næm á tilfinningalegar og kynferðislegar þarfir hvort annars. – Lestu 1. Korintubréf 7:3, 4.

17 Hjón eiga það stundum til að sýna ekki hvort öðru ástúð eða neita hinu um kynlíf. Sumir karlmenn ímynda sér að það sé ekki karlmannlegt að sýna blíðu. Í Biblíunni eru eiginmenn hvattir til að sýna eiginkonu sinni nærgætni og skilning. (1. Pét. 3:7) Eiginmaður þarf að átta sig á að hjúskaparskyldan er meira en kynmökin ein. Það er líklegra að konan njóti kynslífsins ef eiginmaðurinn er ekki aðeins hlýr og ástúðlegur þegar þau hjónin hafa kynmök. Ef bæði hjónin eru blíð og ástúðleg eiga þau auðveldara með að fullnægja tilfinningalegum og líkamlegum þörfum hvort annars.

18. Hvernig geta hjón styrkt hjónabandið?

18 Það er aldrei afsakanlegt að vera maka sínum ótrúr. Ef hjón sýna ekki hvort öðru blíðu getur það hins vegar stuðlað að því að makinn leiti eftir ástúð og innilegu sambandi annars staðar. (Orðskv. 5:18; Préd. 9:9) Hjón fá því eftirfarandi ráð í Biblíunni: „Haldið ykkur eigi hvort frá öðru nema þá eftir samkomulagi um stundarsakir.“ Hvers vegna? „Til þess að Satan freisti ykkar ekki vegna ístöðuleysis ykkar.“ (1. Kor. 7:5) Það væri sorglegt ef hjón leyfðu Satan að notfæra sér þetta ,ístöðuleysi‘ með þeim afleiðingum að annað hvort þeirra félli í freistni og fremdi hjúskaparbrot. Bæði hjónin ættu að bera hag hvort annars fyrir brjósti. Þau ættu að gæta skyldu sinnar hvort við annað, ekki af skyldukvöð einni saman heldur sökum ástar. Þá geta ástaratlotin styrkt hjónabandið. – 1. Kor. 10:24.

STANDIÐ VÖRÐ UM HJÓNABANDIÐ

19. Hvað ættum við að einsetja okkur og hvers vegna?

19 Við stöndum á þröskuldi nýrrar jarðar þar sem réttlæti ríkir. Það gæti því verið jafn hættulegt fyrir okkur að láta undan röngum löngunum eins og það var fyrir Ísraelsmennina 24.000 á Móabsvöllum. Eftir að hafa lýst þessum sorglega atburði segir í Biblíunni: „Sá er hyggst standa gæti því vel að sér að hann falli ekki.“ (1. Kor. 10:12) Það er ákaflega mikilvægt að styrkja hjónabandið með því að vera trú föðurnum á himnum og maka okkar. (Matt. 19:5, 6) Það er brýnna en nokkru sinni fyrr að ,kappkosta að lifa í friði frammi fyrir honum, flekklaus og vammlaus‘. – 2. Pét. 3:13, 14.