Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna höldum við kvöldmáltíð Drottins?

Hvers vegna höldum við kvöldmáltíð Drottins?

„Gjörið þetta í mína minningu.“ – 1. KOR. 11:24.

1, 2. Hvað gerði Jesús kvöldið 14. nísan árið 33? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

MYRKUR er skollið á en fullt tunglið baðar Jerúsalem daufri birtu. Þetta er kvöldið 14. nísan árið 33. Jesús og postular hans hafa haldið páska til minningar um að Ísraelsmenn voru frelsaðir úr þrælkun Egypta 15 öldum áður. Að viðstöddum 11 dyggum postulum sínum stofnar Jesús nú til sérstakrar máltíðar til að minnast dauða síns sem hann á eftir að líða áður en dagurinn er á enda. * – Matt. 26:1, 2.

2 Jesús fer með þakkarbæn og lætur síðan ósýrt brauð ganga milli postulanna. „Takið og etið,“ segir hann. Hann tekur síðan vínbikar, fer aftur með þakkarbæn og segir: „Drekkið allir hér af.“ (Matt. 26:26, 27) Jesús réttir trúum fylgjendum sínum ekki annað til að borða eða drekka þetta þýðingarmikla kvöld, en hann á eftir að segja þeim margt.

3. Um hvaða spurningar er rætt í þessari grein?

3 Þannig stofnaði Jesús til minningarhátíðarinnar um dauða sinn en hún er einnig kölluð kvöldmáltíð Drottins. (1. Kor. 11:20) Sumum er kannski spurn hvers vegna við eigum að  minnast dauða Jesú. Hvað tákna brauðið og vínið? Hvernig getum við búið okkur undir minningarhátíðina? Hverjir eiga að neyta brauðsins og vínsins? Og hvernig bregðast kristnir menn við því sem segir í Biblíunni um von þeirra?

HVERS VEGNA MINNUMST VIÐ DAUÐA JESÚ?

4. Hvaða leið opnaðist með dauða Jesú?

4 Við erum afkomendur Adams og erfðum synd og dauða frá honum. (Rómv. 5:12) Enginn ófullkominn maður getur greitt Guði lausnargjald fyrir líf sitt eða annarra. (Sálm. 49:7-10) Með dauða sínum greiddi Jesús hins vegar eina fullnægjandi lausnargjaldið – fullkominn líkama sinn og blóðið sem hann úthellti. Með því að leggja andvirði fórnarinnar fyrir Guð opnaði hann leiðina til að hægt væri að frelsa okkur undan synd og dauða og gefa okkur eilíft líf. – Rómv. 6:23; 1. Kor. 15:21, 22.

5. (a) Hvernig vitum við að Guð og Kristur elska mannkynið? (b) Hvers vegna ættum við að vera viðstödd minningarhátíðina um dauða Jesú?

5 Lausnargjaldið sannar að Guð elskar mannkynið. (Jóh. 3:16) Fórn Jesú vitnar um að hann elskar okkur líka. Áður en hann varð maður vann hann með Guði og „fagnaði með mannanna börnum“. (Orðskv. 8:30, 31) Við ættum að sýna Guði og syni hans þakklæti okkar með því að sækja minningarhátíðina um dauða Jesú og hlýða þar með fyrirmælum hans: „Gjörið þetta í mína minningu.“ – 1. Kor. 11:23-25.

HVAÐ MERKJA BRAUÐIÐ OG VÍNIÐ?

6. Hvernig eigum við að líta á brauðið og vínið við minningarhátíðina?

6 Sumir benda á að Jesús hafi sagt: „Þetta er líkami minn“ og „þetta er blóð mitt“. (Mark. 14:22-24) Þeir trúa að brauðið og vínið hafi fyrir kraftaverk breyst í bókstaflegt hold og blóð Jesú. En það fær ekki staðist. Líkami Jesú blasti við postulunum og hið sama er að segja um ósýrða brauðið sem þeir voru í þann mund að borða. Jesús notaði greinilega líkingamál hér eins og hann gerði við mörg önnur tækifæri. – Jóh. 2:19-21; 4:13, 14; 10:7; 15:1.

7. Hvað táknar brauðið við minningarhátíðina?

7 Þetta mikilvæga kvöld árið 33 notaði Jesús ósýrt brauð sem hafði gengið af við páskamáltíðina. (2. Mós. 12:8) Í Biblíunni er súrdeig stundum notað til að tákna spillingu eða synd. (Matt. 16:6, 11, 12; Lúk. 12:1) Að Jesús skyldi nota ósýrt brauð hafði sérstaka þýðingu vegna þess að það var viðeigandi tákn um syndlausan líkama hans. (Hebr. 7:26) Þess konar brauð er því notað við minningarhátíðina.

8. Hvað táknar vínbikarinn við minningarhátíðina?

8 Vínið, sem Jesús notaði 14. nísan árið 33, táknaði blóð hans, rétt eins og vínbikarinn við minningarhátíðina nú á dögum. Blóði hans var úthellt „til fyrirgefningar synda“ við Golgata sem er rétt utan við Jerúsalem. (Matt. 26:28; 27:33) Þar sem brauðið og vínið við minningarhátíðina tákna ómetanlega fórn Jesú í þágu hlýðinna manna er við hæfi að við búum okkur vel undir hina árlegu kvöldmáltíð Drottins.

AÐ UNDIRBÚA SIG

9. (a) Hvers vegna er mikilvægt að lesa í Biblíunni fyrir minningarhátíðina? (b) Hvað finnst þér um lausnargjaldið?

9 Við getum íhugað það sem Jesús gerði rétt áður en hann dó með því að lesa í Biblíunni fyrir minningarhátíðina  eins og lagt er til í Rannsökum daglega ritningarnar. Það getur hjálpað okkur að búa hugann og hjartað undir kvöldmáltíð Drottins. * „Við hlökkum til minningarhátíðarinnar,“ skrifar systir nokkur. „Hún verður okkur kærari með hverju árinu sem líður. Ég man að ég stóð í útfararstofunni ... og horfði á elskulegan pabba minn þegar það rann fyllilega upp fyrir mér hve mikils virði lausnargjaldið er ... Ég þekkti auðvitað öll versin og gat útskýrt þau. En það var ekki fyrr en ég fann fyrir ísköldum veruleika dauðans að hjartað hoppaði af gleði yfir því sem þetta dýrmæta lausnargjald áorkar.“ Þegar við búum okkur undir minningarhátíðina er gott að hugleiða hvernig fórn Jesú frelsar okkur undan plágu syndar og dauða.

Notaðu tiltæk hjálpargögn til að búa hjarta þitt undir minningarhátíðina. (Sjá 9. grein.)

10. Hvernig getum við búið okkur undir minningarhátíðina með því að auka boðunina?

10 Við getum líka búið okkur undir minningarhátíðina með því að áforma að auka við boðunina, ef til vill með því að gerast aðstoðarbrautryðjendur á vormánuðum. Við höfum ánægju af að segja frá Guði, syni hans og blessuninni sem bíður þeirra sem þóknast Guði og lofa hann. Það getum við gert þegar við bjóðum biblíunemendum og öðrum að sækja minningarhátíðina. – Sálm. 148:12, 13.

11. Hvers vegna neyttu sumir Korintumenn brauðsins og vínsins á óverðugan hátt?

11 Þegar þú býrð þig undir kvöldmáltíð Drottins skaltu hugleiða það sem Páll postuli skrifaði kristna söfnuðinum í Korintu. (Lestu 1. Korintubréf 11:27-34.) Páll benti á að hver sem æti brauðið og drykki vínið á óverðugan hátt yrði „sekur við líkama og blóð Drottins“ Jesú Krists. Sá sem er andasmurður ætti því ekki að neyta brauðsins og vínsins fyrr en hann hefur ,prófað sjálfan sig‘. Annars „etur [hann] og drekkur sér til dómsáfellis“. Margir Korintumenn voru „sjúkir og lasburða“ vegna óviðeigandi hegðunar og jafnvel dánir í andlegum skilningi. Hugsanlegt er að sumir hafi borðað og drukkið svo mikið fyrir eða við minningarhátíðina að þeir voru sljóir og andlega sofandi. Þeir kölluðu yfir sig vanþóknun Guðs með því að neyta brauðsins og vínsins á óverðugan hátt.

12. (a) Við hvað líkti Páll minningarhátíðinni og við hverju varaði hann? (b) Hvað ætti sá sem neytir brauðsins og vínsins að gera ef hann hefur drýgt alvarlega synd?

 12 Páll líkti minningarhátíðinni við sameiginlega máltíð og sagði til viðvörunar þeim sem neyttu brauðsins og vínsins: „Ekki getið þið drukkið bikar Drottins og bikar illra anda. Ekki getið þið tekið þátt í borðhaldi Drottins og borðhaldi illra anda.“ (1. Kor. 10:16-21) Ef sá sem neytir brauðsins og vínsins við kvöldmáltíð Drottins hefur drýgt alvarlega synd ætti hann að leita sér aðstoðar. (Lestu Jakobsbréfið 5:14-16.) Ef hann ,sýnir í verki að hann hafi tekið sinnaskiptum‘ er það ekki óvirðing af hans hálfu við fórn Jesú að neyta brauðsins og vínsins. – Lúk. 3:8.

13. Hvers vegna er gott að ræða við Guð í bænum okkar um vonina sem hann hefur gefið okkur?

13 Þegar við búum okkur undir minningarhátíðina er gott að hugleiða vonina sem Guð hefur gefið okkur og ræða hana í bænum okkar. Enginn vígður þjónn Jehóva og trúr fylgjandi sonar hans vill sýna lausnarfórninni óvirðingu með því að neyta brauðsins og vínsins ef hann hefur ekki örugga vissu fyrir því að hann sé andasmurður. Hvernig getur kristinn maður komist að niðurstöðu um hvort hann eigi að neyta brauðsins og vínsins eða ekki?

HVERJIR ÆTTU AÐ NEYTA BRAUÐSINS OG VÍNSINS?

14. Hvernig tengist nýi sáttmálinn því að neyta brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni?

14 Þeir sem neyta brauðsins og vínsins með réttu eru algerlega sannfærðir um að þeir eigi aðild að nýja sáttmálanum. Jesús sagði um vínið: „Þessi bikar er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði.“ (1. Kor. 11:25) Fyrir munn Jeremía spámanns sagðist Guð ætla að gera nýjan sáttmála ólíkan lagasáttmálanum sem hann gerði við Ísraelsmenn. (Lestu Jeremía 31:31-34.) Guð hefur gert nýja sáttmálann við andlega Ísraelsmenn. (Gal. 6:15, 16) Þessi sáttmáli var fullgiltur með fórn Krists og úthelltu blóði hans. (Lúk. 22:20) Nýi sáttmálinn er gerður fyrir milligöngu Jesú og dyggir andasmurðir þjónar Guðs fá aðild að honum og hljóta himneska arfleifð. – Hebr. 8:6; 9:15.

15. Hverjir eiga aðild að sáttmálanum um ríkið og hvaða verkefni bíður þeirra ef þeir reynast trúir?

15 Þeir sem eiga rétt á að neyta brauðsins og vínsins vita að þeir eiga líka aðild að sáttmálanum um ríkið. (Lestu Lúkas 12:32.) Andasmurðir fylgjendur Jesú, sem fylgdu honum dyggilega og þoldu illt með honum, áttu að ríkja með honum á himnum. (Fil. 3:10) Trúir andasmurðir þjónar Guðs nú á dögum eiga einnig aðild að sáttmálanum um ríkið og eiga að ríkja með Kristi að eilífu sem konungar á himnum. (Opinb. 22:5) Þeir neyta með réttu brauðsins og vínsins við kvöldmáltíð Drottins.

16. Skýrðu Rómverjabréfið 8:15-17 í stuttu máli.

16 Þeir einir sem hafa vitnisburð andans fyrir því að þeir séu börn Guðs eiga að neyta brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni. (Lestu Rómverjabréfið 8:15-17.) Við tökum eftir að Páll segir að þeir ákalli Guð með orðunum: „Abba, faðir.“ Barn gat notað arameíska orðið „abba“ til að ávarpa föður sinn því að það er hlýlegt orð sem sameinar innileika orðsins pabbi og virðuleika orðsins faðir. Það lýsir því sérstaka sambandi sem hinir andasmurðu eignast við Jehóva þegar þeir fá „þann anda sem gerir mann  að barni Guðs“. Andi hans vitnar með þeirra eigin anda þannig að þeir vita að þeir eru andagetnir synir hans. Það er ekki þannig að þeir hafi bara misst áhugann á að lifa á jörðinni. Þeir eru sannfærðir um að þeir verði samerfingjar Jesú að ríkinu á himnum ef þeir eru trúir allt til dauða. Núna eru fáir eftir á jörðinni af þeim 144.000 sem fylgja Jesú og ,Hinn heilagi, Jehóva Guð, hefur smurt anda sínum‘. (1. Jóh. 2:20; Opinb. 14:1) Þeir eiga svo náin tengsl við Jehóva að þeir ávarpa hann: „Abba, faðir.“

VIÐBRÖGÐ VIÐ VONINNI SEM BIBLÍAN VEITIR

17. Hvaða von hafa hinir andasmurðu og hvernig líta þeir á hana?

17 Ef þú ert andasmurður minnist þú oft á himnesku vonina í bænum þínum. Í Biblíunni er talað um að hinir andasmurðu séu ,fastnaðir‘ himneska brúðgumanum Jesú Kristi. Þú veist að þessi orð eiga við þig og þú hlakkar til að tilheyra „brúði“ Krists. (2. Kor. 11:2; Jóh. 3:27-29; Opinb. 21:2, 9-14) Þegar Biblían talar um að Guð elski andleg börn sín veistu að þú ert eitt þeirra. Og þegar þú lest fyrirmæli í Biblíunni til andasmurðra sona hans knýr heilagur andi þig til að hlýða þeim og segja í hjarta þínu: „Þetta á við mig.“ Andi Guðs og andi þinn vitna því sameiginlega um að þú hafir himneska von.

18. Hvaða von eiga ,aðrir sauðir‘ og hvað finnst þér um hana?

18 Ef þú tilheyrir hins vegar ,múginum mikla‘ og ert af hópi ,annarra sauða‘ hefur Guð gefið þér jarðneska von. (Opinb. 7:9; Jóh. 10:16) Þig langar til að lifa að eilífu í paradís og þú hefur yndi af því að hugleiða það sem segir í Biblíunni um lífið á jörð í framtíðinni. Þú hlakkar til að búa við algeran frið ásamt fjölskyldu þinni og öðru réttlátu fólki. Þú bíður þess með óþreyju að matarskortur, fátækt, þjáningar, veikindi og dauði hætti að þjaka mannkynið. (Sálm. 37:10, 11, 29; 67:7; 72:7, 16; Jes. 33:24) Þú þráir heitt að taka á móti þeim sem verða reistir upp frá dauðum og eiga fyrir sér eilíft líf á jörð. (Jóh. 5:28, 29) Þú ert Jehóva innilega þakklátur fyrir að veita þér von um að lifa á jörð. Þú neytir ekki brauðsins og vínsins en ert viðstaddur minningarhátíðina til að tjá hve þakklátur þú ert fyrir lausnarfórn Jesú Krists.

VERÐUR ÞÚ VIÐSTADDUR?

19, 20. (a) Hvað þarftu að gera til að sjá vonina, sem Guð hefur gefið þér, rætast? (b) Hvers vegna ættirðu að vera viðstaddur kvöldmáltíð Drottins?

19 Hvort sem þú átt jarðneska von eða himneska getur hún því aðeins orðið að veruleika að þú trúir á Jehóva Guð, Jesú Krist og lausnargjaldið. Með því að sækja minningarhátíðina færð þú tækifæri til að hugleiða von þína og íhuga hve mikla þýðingu dauði Jesú hefur. Settu þér það markmið að tilheyra þeim milljónum sem verða viðstaddar kvöldmáltíð Drottins eftir sólsetur föstudaginn 3. apríl 2015 í ríkissölum og á öðrum samkomustöðum um heim allan.

20 Ef þú verður viðstaddur minningarhátíðina verður þú trúlega enn þakklátari fyrir lausnarfórn Jesú. Hlustaðu með athygli á ræðuna. Það getur orðið þér hvatning til að sýna náunganum kærleika með því að segja honum frá því sem þú hefur lært um kærleika Jehóva og stórfenglega fyrirætlun hans með mannkynið. (Matt. 22:34-40) Vertu fyrir alla muni viðstaddur kvöldmáltíð Drottins.

^ gr. 1 Hjá Hebreum hófst dagurinn við sólsetur og stóð fram að næsta sólsetri.

^ gr. 9 Sjá Varðturninn apríl-júní 2011, bls. 23-24, eða viðauka B12 í New World Translation.