Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Byggið upp sterkt og hamingjuríkt hjónaband

Byggið upp sterkt og hamingjuríkt hjónaband

„Ef Drottinn byggir ekki húsið erfiða smiðirnir til ónýtis.“ – SÁLM. 127:1a.

1-3. Hvaða áskoranir þurfa hjón að takast á við? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

„JEHÓVA blessar okkur ef við leggjum okkur vel fram og sýnum að við viljum að hjónabandið verði farsælt.“ Þetta segir eiginmaður sem hefur búið í hamingjuríku hjónabandi í 38 ár. Já, hjón geta staðið saman í blíðu og stríðu og verið hamingjusöm. – Orðskv. 18:22.

2 Hjón geta þó ekki reiknað með að lífið verði alltaf dans á rósum. (1. Kor. 7:28) Hvers vegna? Það eitt að takast á við erfiðleika daglegs lífs getur reynt á hjónabandið. Það gerist jafnvel í bestu hjónaböndum að hjón særa hvort annað, misskilja hvort annað eða tjá sig illa og óskýrt vegna þess að þau eru ófullkomin. (Jak. 3:2, 5, 8) Vinnan og uppeldi barnanna getur líka verið krefjandi. Álag og þreyta gerir stundum að verkum að hjón gefa sér ekki nægan tíma til að styrkja innviði hjónabandsins. Ást þeirra og gagnkvæm virðing getur dvínað smám saman vegna fjárhagserfiðleika, veikinda eða annarra þrauta. Og „holdsins verk“, svo sem kynferðislegt siðleysi, blygðunarlaus hegðun, fjandskapur, deilur, afbrýðisemi, reiðiköst og eigingirni, geta veikt  eða jafnvel eyðilagt grunninn að hjónabandi sem virtist að minnsta kosti vera traust. – Gal. 5:19-21.

3 Til að bæta gráu ofan á svart eru margir eigingjarnir og bera enga virðingu fyrir Guði núna á „síðustu dögum“. Hvort tveggja er stórskaðlegt hjónabandinu. (2. Tím. 3:1-4) Síðast en ekki síst þarf hjónabandið að standast stöðugar og illskeyttar árásir. Pétur postuli varar við þeim og segir: „Óvinur ykkar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur tortímt.“ – 1. Pét. 5:8; Opinb. 12:12.

4. Hvernig er hægt að eiga traust og hamingjuríkt hjónaband?

4 Eiginmaður í Japan viðurkennir: „Það var mikið álag fyrir mig að ná endum saman. Svo var ég frekar fámáll við konuna mína og það olli henni miklu álagi. Þar að auki veiktist hún alvarlega fyrir skömmu. Þetta álag olli því að það kom stundum til árekstra milli okkar.“ Sumar áskoranir eru óumflýjanlegar í hjónabandinu en þær eru ekki óyfirstíganlegar. Með hjálp Jehóva geta hjón búið við traust og hamingjuríkt hjónaband. (Lestu Sálm 127:1.) Við skulum nú ræða um fimm andlega „byggingarsteina“ sem geta hjálpað hjónum að byggja upp traust og varanlegt hjónaband. Síðan könnum við hvernig hægt er að binda þessa byggingarsteina saman með hjálp kærleikans.

LÁTIÐ JEHÓVA VERA ÞRIÐJA ÞRÁÐINN Í HJÓNABANDINU

5, 6. Hvernig geta hjón látið Jehóva vera þriðja þráðinn í hjónabandinu?

5 Hornsteinninn að traustu hjónabandi er hollusta og undirgefni við höfund þess. (Lestu Prédikarann 4:12.) Hjón geta látið Jehóva vera þriðja þráðinn í hjónabandi sínu með því að fylgja kærleiksríkri leiðsögn hans. Í Biblíunni segir Guð við þjóð sína til forna: „[Þú munt] heyra orð að baki þér með eigin eyrum: ,Þetta er vegurinn, farið hann, hvort sem þér farið til hægri eða vinstri.‘“ (Jes. 30:20, 21) Hjón geta „heyrt“ orð Jehóva með því að lesa saman í Biblíunni. (Sálm. 1:1-3) Þau geta sömuleiðis styrkt hjónabandið með reglulegu biblíunámi sem er bæði ánægjulegt og endurnærandi. Það er líka mikilvægt fyrir hjón að biðja saman til Guðs á hverjum degi. Það er góð vörn gegn stöðugum atlögum heimsins sem Satan ræður yfir.

Hjón tengjast Guði og hvort öðru nánum böndum með því að sinna andlegum hugðarefnum saman. (Sjá 5. og 6. grein.)

6 „Þegar missætti eða misskilningur hefur skyggt á gleði okkar hafa leiðbeiningar Biblíunnar hjálpað okkur að fyrirgefa og temja okkur þolinmæði,“ segir Gerhard sem býr í Þýskalandi. „Þetta tvennt er ómissandi í farsælu hjónabandi.“ Hjón ættu að leggja sig í líma við að láta Jehóva vera þriðja þráðinn í hjónabandinu með því að sinna andlegum hugðarefnum saman. Þá tengjast þau honum og hvort öðru nánum og innilegum böndum.

EIGINMENN, FARIÐ MEÐ KÆRLEIKSRÍKA FORYSTU

7. Hvernig á eiginmaður að fara með forystuhlutverkið?

7 Eiginmaður getur átt drjúgan þátt í að byggja upp sterkt og hamingjuríkt hjónaband með því að fara rétt með forystuhlutverk sitt. Í Biblíunni segir: „Kristur er höfuð sérhvers karlmanns ... karlmaðurinn er höfuð konunnar.“  (1. Kor. 11:3) Af þessum orðum má álykta að eiginmaður eigi að koma fram við konuna sína eins og Kristur kemur fram við lærisveinana. Jesús var aldrei ráðríkur eða hranalegur heldur var hann alltaf kærleiksríkur, vinsamlegur, sanngjarn, mildur og lítillátur. – Matt. 11:28-30.

8. Hvernig getur eiginmaður áunnið sér ást og virðingu konunnar sinnar?

8 Kristinn eiginmaður þarf ekki að minna konuna sína á það í sífellu að hún eigi að bera virðingu fyrir honum. Hann ,sýnir eiginkonu sinni nærgætni sem hinni veikari og virðir hana mikils‘. (1. Pét. 3:7) Hann lætur í ljós með orðum sínum og hlýlegri framkomu að eiginkonan sé honum dýrmæt, og hann gerir það bæði heima fyrir og meðal almennings. (Orðskv. 31:28) Með kærleiksríkri forystu sinni ávinnur hann sér ást og virðingu eiginkonunnar og Jehóva blessar hjónabandið.

EIGINKONUR, VERIÐ AUÐMJÚKAR OG UNDIRGEFNAR

9. Hvernig getur eiginkona verið auðmjúk og undirgefin?

9 Ef við elskum Jehóva á óeigingjarnan hátt er það okkur hvatning til að beygja okkur undir volduga hönd hans. (1. Pét. 5:6) Undirgefin eiginkona sýnir meðal annars virðingu fyrir yfirráðum Jehóva með því að vera samvinnuþýð og styðja eiginmann sinn. Í Biblíunni segir: „Konur, verið undirgefnar eiginmönnum ykkar eins og sómir þeim er Drottni heyra til.“ (Kól. 3:18) Það er ekki hægt að reikna með að allar ákvarðanir eiginmannsins séu konunni að skapi. En undirgefin eiginkona er fús til að gefa eftir ef ákvarðanir hans stangast ekki á við lög Guðs. – 1. Pét. 3:1.

10. Hvers vegna er undirgefni mikilvæg?

10 Það er göfugt hlutverk fyrir eiginkonu að vera „förunautur“ manns síns. (Mal. 2:14) Þegar taka þarf ákvarðanir  segir hún hvernig hún lítur á málin og hvað henni býr í brjósti en sýnir manninum sínum þó fulla virðingu. Skynsamur eiginmaður hlustar vel á það sem konan hans hefur til málanna að leggja. (Orðskv. 31:10-31) Undirgefni byggð á kærleika stuðlar að gleði, friði og einingu í fjölskyldunni. Hjónin vita að þau þóknast Guði og það veitir þeim innri frið. – Ef. 5:21, 22.

FYRIRGEFIÐ HVORT ÖÐRU FÚSLEGA

11. Hvers vegna er nauðsynlegt að fyrirgefa?

11 Hjón þurfa að vera fús til að fyrirgefa. Það er ákaflega mikilvægt til að hjónabandið sé traust. Það styrkir hjónabandið að ,umbera hvort annað og fyrirgefa hvort öðru‘. (Kól. 3:13) Það veikir hins vegar hjónabandið ef hjónin eru sífellt að rifja upp gamlar sakir og bauna þeim hvort á annað. Hús verður ótraust ef sprungur koma í veggina. Að sama skapi verður sífellt erfiðara að fyrirgefa ef við leyfum gremju og beiskju að festa rætur í hjarta okkar. Það styrkir hins vegar hjónabandið ef hjónin fyrirgefa hvort öðru, rétt eins og Jehóva fyrirgefur þeim. – Míka 7:18, 19.

12. Hvernig hylur kærleikurinn „fjölda synda“?

12 Sannur kærleikur er „ekki langrækinn“. Hann er ekki langminnugur á misgerðir heldur „hylur fjölda synda“. (1. Kor. 13:4, 5; lestu 1. Pétursbréf 4:8.) Með öðrum orðum setur kærleikurinn ekki þak á það hve margar syndir sé hægt að fyrirgefa. Þegar Pétur postuli spurði hve oft hann ætti að fyrirgefa svaraði Jesús að hann ætti að gera það „sjötíu og sjö sinnum“. (Matt. 18:21, 22, neðanmáls) Með öðrum orðum eru því eiginlega engin takmörk sett hve oft kristinn maður á að fyrirgefa öðrum. – Orðskv. 10:12. *

13. Hvað geturðu gert þegar þér finnst erfitt að fyrirgefa?

13 „Ef hjón vilja ekki fyrirgefa veldur það gremju og tortryggni og það eitrar hjónabandið,“ segir Annette. „Það styrkir hjónabandið að fyrirgefa og hjónin verða nánari hvort öðru.“ Ef þér finnst erfitt að fyrirgefa skaltu venja þig á að vera þakklátur og hrósa maka þínum í einlægni. (Kól. 3:15) Þeir sem fyrirgefa fúslega upplifa hugarfrið, einingu og blessun Guðs. – Rómv. 14:19.

FYLGIÐ GULLNU REGLUNNI

14, 15. Hver er gullna reglan og hvaða gildi hefur hún í hjónabandinu?

14 Þú vilt eflaust að þér sé sýnd virðing. Þú kannt að meta að það sé hlustað á þig og tekið sé tillit til skoðana þinna. En hefurðu einhvern tíma heyrt einhvern segja: „Hann skal sko fá að súpa seyðið af þessu“? Slík viðbrögð geta stundum verið skiljanleg en í Biblíunni segir hins vegar: „Segðu ekki: ,Eins og hann gerði mér, eins ætla ég að gera honum.‘“ (Orðskv. 24:29) Jesús mælti með jákvæðari viðbrögðum við mótlæti. Hegðunarreglan, sem hann setti fram, er svo þekkt að hún er oft kölluð gullna reglan. Hún er svona: „Eins og þér viljið að aðrir menn geri við yður, svo skuluð þér og þeim gera.“ (Lúk. 6:31) Með öðrum orðum eigum við ekki að launa illt með illu heldur koma fram við aðra eins og okkur langar til að komið sé fram  við okkur. Í hjónabandi merkir það að við þurfum að leggja inn það sama og við vonumst til að taka út.

15 Hjón styrkja böndin sín á milli þegar þau eru næm fyrir tilfinningum hvort annars. „Við höfum reynt að fylgja gullnu reglunni,“ segir eiginmaður í Suður-Afríku. „Auðvitað verðum við stundum æst en við höfum lagt okkur í líma við að koma fram hvort við annað eins og við viljum láta koma fram við okkur – af virðingu.“

16. Hvað ættu hjón ekki að gera hvort öðru?

16 Þú skalt ekki afhjúpa veikleika maka þíns eða stagast á sérvisku hans eða kækjum – ekki einu sinni í gríni. Mundu að hjónaband er ekki keppni um það hvort ykkar sé sterkara, hvort geti öskrað hærra eða hvort geti sært meira með orðum sínum. Við höfum öll okkar galla og stundum ergjum við aðra. En það er aldrei réttlætanlegt af hjónum að vera kaldhæðin eða niðurlægjandi í orðum, og þaðan af síður að hrinda eða lemja. – Lestu Orðskviðina 17:27; 31:26.

17. Hvernig getur eiginmaður fylgt gullnu reglunni?

17 Í sumum menningarsamfélögum þykir það karlmannlegt að kúga eða lemja konuna sína. Í Biblíunni segir hins vegar: „Sá sem er seinn til reiði er betri en kappi og sá sem stjórnar geði sínu er meiri en sá sem vinnur borgir.“ (Orðskv. 16:32) Það þarf mikinn siðferðisstyrk til að hafa stjórn á skapi sínu og líkja eftir Jesú Kristi, mesta mikilmenni sem uppi hefur verið. Sá sem beitir konuna sína líkamlegu eða andlegu ofbeldi er allt annað en karlmannlegur, og hann fyrirgerir sambandi sínu við Jehóva. Sálmaskáldið Davíð var sterkur og hugrakkur maður. Hann skrifaði: „Skelfist en syndgið ekki, hugleiðið þetta í hvílum yðar og verið hljóðir.“ – Sálm. 4:5.

,ÍKLÆÐIST ELSKUNNI‘

18. Hvers vegna er mikilvægt að halda áfram að hlúa að kærleikanum?

18 Lestu 1. Korintubréf 13:4-7Ekkert er mikilvægara í hjónabandi en kærleikurinn. „Íklæðist ... hjartagróinni meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi. En íklæðist yfir allt þetta elskunni sem bindur allt saman og fullkomnar allt.“ (Kól. 3:12, 14) Fórnfús kristinn kærleikur er steinlímið sem festir saman byggingarsteinana í traustu hjónabandi. Það er órjúfanlegt þrátt fyrir pirrandi skapgerðargalla, þungbær veikindi, alvarlega fjárhagserfiðleika og stirð samskipti við tengdafólkið.

19, 20. (a) Hvernig er hægt að skapa traust og farsælt hjónaband? (b) Um hvað er rætt í næstu grein?

19 Það þarf tryggð, hollustu og einlæga viðleitni til að skapa farsælt hjónaband. Í stað þess að leggja árar í bát þegar erfiðleikar koma upp ættu hjónin að vera ákveðin í að láta hjónabandið blómstra, ekki bara skrimta. Kristin hjón, sem elska Jehóva og hvort annað, ættu að vera staðráðin í að leysa vandamál sín því að „kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“. – 1. Kor. 13:8; Matt. 19:5, 6; Hebr. 13:4.

20 Það er sérstakur vandi á þeim erfiðu tímum, sem við lifum, að byggja upp traust og hamingjuríkt hjónaband. (2. Tím. 3:1) Það er samt hægt með hjálp Jehóva. En hjón þurfa að halda uppi sterkum vörnum gegn siðspillingu heimsins. Í greininni á eftir er rætt hvað hægt sé að gera til að styrkja andlegar varnir hjónabandsins.

^ gr. 12 Hjón reyna að fyrirgefa og vinna í sameiningu úr erfiðleikum. Ef annað þeirra fremur hjúskaparbrot heimilar Biblían hins vegar saklausa makanum að ákveða hvort hann fyrirgefi eða ekki. (Matt. 19:9) Sjá „Afstaða Biblíunnar til skilnaðar“ á bls. 219-221 í bókinni „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“.