Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þökkum Jehóva og hljótum blessun hans

Þökkum Jehóva og hljótum blessun hans

„Þakkið Drottni því að hann er góður.“ – SÁLM. 106:1.

1. Hvers vegna verðskuldar Jehóva þakkir okkar?

JEHÓVA verðskuldar þakkir okkar vegna þess að „sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa“ er frá honum. (Jak. 1:17) Hann er kærleiksríkur hirðir okkar og annast allar líkamlegar og andlegar þarfir okkar. (Sálm. 23:1-3) Hann hefur reynst okkur öruggt „hæli og styrkur“, ekki síst á neyðartímum. (Sálm. 46:2) Við höfum ótal ástæður til að taka heilshugar undir með sálmaskáldinu sem orti: „Þakkið Drottni því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu.“ – Sálm. 106:1.

Árstextinn 2015 er: Þakkið Jehóva því að hann er góður. – Sálmur 106:1.

2, 3. (a) Hvaða hætta fylgir því að líta á blessunina, sem við njótum, sem sjálfsagðan hlut? (b) Hvaða spurningar eru ræddar í þessari grein?

2 Hvers vegna er rík ástæða til að minna okkur á að vera þakklát? Eins og spáð var er fólk orðið vanþakklátt núna á síðustu dögum. (2. Tím. 3:2) Margir líta á þá blessun, sem þeir njóta dagsdaglega, sem sjálfsagðan hlut. Viðskiptaöflin og auglýsingarnar hvetja fólk til að eignast meira í stað þess að vera nægjusamt og ánægt með það sem það hefur. Þetta útbreidda vanþakklæti getur líka haft áhrif á okkur.  Við getum orðið vanþakklát líkt og Ísraelsmenn til forna með þeim afleiðingum að við kunnum ekki lengur að meta blessunina sem Jehóva hefur veitt okkur og hið dýrmæta samband sem við eigum við hann. – Sálm. 106:7, 11-13.

3 Höfum líka í huga hvað getur gerst þegar erfiðar prófraunir verða á vegi okkar. Erfiðleikarnir geta virst yfirþyrmandi og við gætum misst sjónar á blessuninni sem við njótum. (Sálm. 116:3) Hvað getum við gert til að temja okkur þakklæti? Og hvað getur hjálpað okkur að vera jákvæð jafnvel þegar við lendum í erfiðum prófraunum? Við skulum kanna málið.

„MÖRG ERU MÁTTARVERK ÞÍN“

4. Hvað þurfum við að gera til að vera Jehóva þakklát?

4 Við þurfum að leggja eitthvað á okkur til að vera Jehóva þakklát. Við þurfum að byrja á því að íhuga hvernig Jehóva hefur blessað okkur. Síðan þurfum við að hugleiða vandlega hvernig þessi blessun vitnar um kærleika hans til okkar. Sálmaskáldið gerði það og var djúpt snortið af öllum máttarverkum Jehóva. – Lestu Sálm 40:6; 107:43.

5. Hvað má læra um þakklæti af Páli postula?

5 Við getum lært margt um þakklæti af Páli postula. Ljóst er að hann hugleiddi þá blessun sem hann naut því að hann þakkaði Guði oftsinnis í bænum sínum. Páll vissi mætavel að hann hafði áður ,lastmælt Kristi og ofsótt og smánað‘ lærisveina hans. Hann var þess vegna þakklátur fyrir að Guð og Kristur skyldu hafa sýnt honum miskunn og trúað honum fyrir þjónustu. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 1:12-14) Páli þótti líka ákaflega vænt um trúsystkini sín og þakkaði Jehóva oft fyrir trúa þjónustu þeirra og góða eiginleika. (Fil. 1:3-5, 7; 1. Þess. 1:2, 3) Og Páll var fljótur til að þakka Jehóva fyrir stuðning trúsystkina þegar prófraunir urðu á vegi hans. (Post. 28:15; 2. Kor. 7:5-7) Það kemur því ekki á óvart að Páll skyldi skrifa trúsystkinum sínum: „Verið þakklát ... áminnið hvert annað og syngið Guði sætlega lof í hjörtum ykkar með sálmum, lofsöngvum og andlegum ljóðum.“ – Kól. 3:15-17.

HUGLEIÐING OG BÆNIR HJÁLPA OKKUR AÐ VERA ÞAKKLÁT

6. Fyrir hvað ertu Jehóva sérstaklega þakklátur?

6 Hvernig getum við líkt eftir Páli og tamið okkur að vera þakklát? Eins og hann þurfum við að hugleiða það sem Jehóva hefur gert fyrir okkur. (Sálm. 116:12) Hverju myndirðu svara ef þú værir spurður hvaða blessun Jehóva þú værir þakklátur fyrir? Myndirðu nefna hið dýrmæta samband sem þú átt við hann? Eða að hann skuli fyrirgefa syndir þínar vegna þess að þú trúir á lausnarfórn Krists? Myndirðu nefna trúsystkini sem hafa stutt þig og styrkt í ýmsum prófraunum? Eflaust myndirðu minnast á ástfólginn maka þinn og börn. Gefðu þér tíma til að hugleiða allt það góða, sem Jehóva, kærleiksríkur faðir þinn, hefur gefið þér. Þá fyllist hjarta þitt þakklæti og þú færir honum þakkir dag hvern. – Lestu Sálm 92:2, 3.

7. (a) Hvers vegna ættum við að þakka Jehóva í bænum okkar? (b) Hvernig er það til góðs fyrir þig að tjá þakkir þínar í bæn?

7 Eftir að hafa hugleitt hvernig Jehóva hefur blessað okkur erum við tilbúin til að biðja til hans og færa honum  þakkir okkar. (Sálm. 95:2; 100:4, 5) Í hugum margra eru bænir eingöngu leið til að biðja Guð um eitthvað. Við vitum hins vegar að við gleðjum Jehóva þegar við þökkum honum það sem við höfum. Í Biblíunni eru mörg dæmi um innilegar þakkarbænir, til dæmis bænir þeirra Hönnu og Hiskía. (1. Sam. 2:1-10; Jes. 38:9-20) Líktu eftir þakklæti þessara trúu þjóna Guðs og þakkaðu honum í bænum þínum fyrir þá blessun sem þú nýtur. (1. Þess. 5:17, 18) Það gerir þér gott á marga vegu. Það er endurnærandi og styrkir kærleikann til Jehóva og tengslin við hann. – Jak. 4:8.

Hvaða blessun Jehóva ert þú þakklátur fyrir? (Sjá greinar 6, 7.)

8. Hvað gæti orðið til þess að við misstum sjónar á því góða sem Jehóva hefur gefið okkur?

8 Ef við höldum ekki vöku okkar gætum við gleymt því góða sem Jehóva hefur gefið okkur. Hvers vegna? Vegna þess að við höfum fengið þá tilhneigingu í arf að vera vanþakklát. Foreldrar mannkyns, þau Adam og Eva, fengu að búa í paradís. Séð var fyrir öllum þörfum þeirra og þau áttu fyrir sér að lifa að eilífu í friðsælum heimi. (1. Mós. 1:28) En þau kunnu ekki að meta blessun Guðs heldur girntust meira. Fyrir vikið misstu þau allt. (1. Mós. 3:6, 7, 17-19) Við búum í vanþakklátum heimi og gætum þess vegna smám saman misst sjónar á því sem Jehóva hefur gefið okkur, svo sem vináttu hans og því að fá að tilheyra alþjóðlegu bræðralagi. Við gætum orðið upptekin af heiminum og því sem hann hefur fram að færa. (1. Jóh. 2:15-17) Til að falla ekki í þá gildru þurfum við að íhuga þær mörgu blessanir sem Jehóva veitir okkur og þakka honum oft fyrir að fá að tilheyra söfnuði hans. – Lestu Sálm 27:4.

ÞEGAR PRÓFRAUNIR VERÐA Á VEGI OKKAR

9. Hvers vegna ættum við að hugleiða blessun Jehóva ef erfiðar prófraunir verða á vegi okkar?

9 Þakklátt hjarta getur hjálpað okkur að standast erfiðar prófraunir. Við finnum kannski til vanmáttar okkar ef óvæntar breytingar umturna lífi okkar, svo sem ef makinn er ótrúr, við greinumst með lífshættulegan sjúkdóm, ástvinur deyr eða náttúruhamfarir verða. Þá er hughreystandi og styrkjandi að hugleiða hvernig Jehóva hefur blessað okkur. Lítum á fáein dæmi.

10. Hvernig var það Irinu til góðs að hugsa um það sem hún á Jehóva að þakka?

 10 Irina * er brautryðjandi í Norður-Ameríku. Hún var gift safnaðaröldungi en hann reyndist henni ótrúr og yfirgaf hana og börnin. Hvað hjálpaði Irinu að halda áfram að þjóna Jehóva dyggilega? Hún segir: „Ég er Jehóva þakklát fyrir að annast mig. Ég hugsa til þess daglega hvað ég á honum að þakka, og mér er ljóst að það er mikill heiður að hann skuli þekkja mig, elska mig og vernda mig. Ég veit að hann yfirgefur mig aldrei.“ Þó að Irina hafi mátt þola ýmsa erfiðleika í lífinu má segja að gleði og jákvætt hugarfar haldi henni uppi, og hún er öðrum til hvatningar.

11. Hvað hefur hjálpað Kyung-sook að takast á við alvarlegan sjúkdóm?

11 Kyung-sook býr í Asíu. Hún hafði verið brautryðjandi ásamt eiginmanni sínum í meira en 20 ár. Dag einn greindist hún með langt gengið lungnakrabbamein og var sagt að hún ætti þrjá til sex mánuði ólifaða. Þótt þau hjónin hefðu gengið í gegnum ýmsa erfiðleika áður höfðu þau alltaf verið við góða heilsu. Kyung-sook segir: „Þessi veikindi voru mikið áfall fyrir mig. Mér fannst ég hafa misst allt og var dauðskelfd.“ Hvað hefur hjálpað henni að takast á við áfallið? Hún segir: „Ég fer út á þaksvalirnar heima á hverju kvöldi áður en ég fer í háttinn og bið upphátt. Ég nefni fimm atriði sem ég er sérstaklega þakklát fyrir þann daginn. Það róar mig og ég tjái Jehóva kærleika minn.“ Hvernig hafa þessar kvöldbænir verið Kyung-sook til góðs? Hún segir: „Ég hef áttað mig á að Jehóva hjálpar okkur í prófraunum og að blessanirnar eru miklu þyngri á metunum en prófraunirnar.“

Með John, bróður sínum, sem komst lífs af. (Sjá grein 13.)

12. Hvað hughreysti Jason eftir að hann missti konuna?

12 Jason starfar við eina af deildarskrifstofunum í Afríku og hefur þjónað Jehóva í fullu starfi í meira en 30 ár. Hann segir: „Ég missti konuna fyrir sjö árum og sársaukinn er stundum óbærilegur. Ég get orðið mjög niðurdreginn ef ég hugsa um það sem hún mátti þola meðan hún var að berjast við krabbameinið.“ Hvað hefur hjálpað honum? Hann segir: „Einu sinni rifjaðist upp fyrir mér ánægjustund sem við hjónin höfðum átt saman, og ég bað til Jehóva og þakkaði honum fyrir að eiga þessa minningu. Mér létti við það og eftir það fór ég að þakka Jehóva að staðaldri fyrir þessar ánægjulegu minningar. Þakklætið hefur breytt viðhorfum mínum til muna. Mér finnst enn sárt að hafa misst hana, en ég er orðinn jákvæðari eftir að ég fór að þakka Jehóva fyrir að hafa átt gott hjónaband og fengið að þjóna honum með ástvini sem elskaði hann heitt.“

„Ég er ákaflega þakklát fyrir að Jehóva skuli vera Guð minn.“ – Sheryl

13. Hvað hjálpaði Sheryl eftir að hún missti næstum alla fjölskyldu sína?

13 Sheryl var aðeins 13 ára þegar fellibylurinn Haiyan gekk yfir miðbik Filippseyja síðla árs 2013. Hún missti næstum allt sem hún átti. „Ég missti næstum alla fjölskyldu mína og var heimilislaus,“ segir hún. Foreldrar hennar og þrjú systkini fórust í flóðunum sem fylgdu fellibylnum. Hvað hjálpaði Sheryl að verða ekki bitur eftir þennan harmleik? Hún er Jehóva þakklát fyrir þær blessanir sem hann hefur veitt henni. „Ég sá að bræður og systur lögðu mikið á sig til að hjálpa þeim sem  voru hjálparþurfi og uppörva þá. Ég vissi að bræður og systur um allan heim báðu fyrir mér.“ Hún bætir við: „Ég er ákaflega þakklát fyrir að Jehóva skuli vera Guð minn. Hann gefur okkur alltaf það sem við þurfum.“ Já, að vera vakandi fyrir þeirri blessun sem við njótum er góð vörn gegn því að verða heltekinn af sorg. Þakklátt hjarta hjálpar okkur að halda áfram þrátt fyrir erfiðleika sem við verðum fyrir. – Ef. 5:20; lestu Filippíbréfið 4:6, 7.

,ÉG SKAL SAMT GLEÐJAST Í JEHÓVA‘

14. Hvaða spennandi framtíðarhorfur höfum við? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

14 Þjónar Jehóva hafa alla tíð verið þakklátir fyrir blessun hans. Eftir að Jehóva bjargaði Ísraelsmönnum undan faraó og hersveitum hans við Rauðahaf sungu þeir fagnandi lofsöng og þökkuðu honum. (2. Mós. 15:1-21) Einhver dýrmætasta blessunin, sem við njótum núna, er vissan um að Jehóva eigi eftir að frelsa okkur frá öllu sem veldur okkur þjáningum og erfiðleikum. (Sálm. 37:9-11; Jes. 25:8; 33:24) Hugsaðu þér hvernig okkur verður innanbrjósts þegar Jehóva útrýmir öllum óvinum sínum og býður okkur að ganga inn í nýjan heim friðar og réttlætis. Þá verður svo sannarlega ástæða til að þakka Jehóva! – Opinb. 20:1-3; 21:3, 4.

15. Hvað ættum við öll að gera árið 2015?

15 Við hlökkum til allra þeirra mörgu blessana sem Jehóva á eftir að veita okkur árið 2015. Auðvitað getum við líka orðið fyrir ýmsum prófraunum. En hvað sem drífur á daga okkar vitum við að Jehóva yfirgefur okkur aldrei. (5. Mós. 31:8; Sálm. 9:10, 11) Hann heldur áfram að gefa okkur allt sem við þurfum til að þjóna honum í trúfesti. Við skulum því vera ákveðin í að hugsa eins og Habakkuk spámaður sem skrifaði: „Þótt fíkjutréð beri ekki blóm og vínviðurinn engan ávöxt; þótt gróði ólífutrésins bregðist og akrarnir gefi enga fæðu; þótt sauðféð hverfi burt úr kvíum og nautgripir úr fjósum, skal ég samt gleðjast í Drottni og fagna yfir Guði hjálpræðis míns.“ (Hab. 3:17, 18) Við skulum halda áfram að hugleiða alla blessunina, sem við njótum, og gera eins og hvatt er til í árstextanum 2015: „Þakkið Jehóva því að hann er góður.“ – Sálm. 106:1.

^ gr. 10 Sumum nöfnum í þessari grein er breytt.