Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Stöndum saman við endalok þessa heims

Stöndum saman við endalok þessa heims

„Við erum hvert annars limir.“ – EF. 4:25.

1, 2. Hvernig vill Guð að tilbiðjendur sínir séu, óháð aldri?

ERTU ungur eða ung að árum? Þar sem þú tilheyrir alþjóðlegum söfnuði Jehóva máttu treysta að þú sért mikils metinn. Í mörgum löndum er ungt fólk stórt hlutfall þeirra sem láta skírast. Það er ákaflega hvetjandi að sjá svona mörg ungmenni ganga í lið með þeim sem hafa ákveðið að þjóna Jehóva.

2 Ungu fólki finnst yfirleitt gaman að vera með öðrum á svipuðu reki. Þú ert líklega engin undantekning. Það er ánægjulegt að eiga góðar stundir með jafnöldrum sínum. En Guð vill að við tilbiðjum hann í sameiningu, hvort sem við erum ung eða gömul og hver sem uppruni okkar er. Páll postuli skrifaði að það sé vilji Guðs að „allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum“. (1. Tím. 2:3, 4) Í Opinberunarbókinni 7:9 er lýsing á tilbiðjendum Guðs sem eru „af öllum þjóðum og kynkvíslum, lýðum og tungum“.

3, 4. (a) Hvaða hugarfar er algengt meðal margra unglinga í heiminum? (b) Hvaða hugarfar samræmist Efesusbréfinu 4:25?

3 Það er reginmunur á ungum þjónum Jehóva og unglingum sem tilheyra heiminum. Margir sem þjóna ekki Jehóva  eru eigingjarnir og hugsa helst um það sem þá sjálfa langar í. Sumir rannsóknarmenn kalla þá „ég-kynslóðina“. Þessir unglingar sýna með klæðnaði sínum og talsmáta að þeir líta niður á eldri kynslóðina og finnst hún ekki vera með á nótunum.

4 Þessi andi er alls staðar. Ungir þjónar Jehóva þurfa þar af leiðandi að taka á honum stóra sínum til að forðast hann og tileinka sér sjónarmið Guðs. Á fyrstu öld þurfti Páll að hvetja trúsystkini sín til að forðast „anda þess, sem nú verkar í þeim, sem ekki trúa“ en þau höfðu áður lifað samkvæmt þessum anda. (Lestu Efesusbréfið 2:1-3.) Ungt fólk á hrós skilið ef það gerir sér grein fyrir að það þarf að forðast þennan anda og vinna náið með öllum trúsystkinum sínum. Þetta viðhorf kemur vel heim og saman við að ,við séum hvert annars limir‘ eins og Páll segir. (Ef. 4:25) Það verður sífellt mikilvægara að vinna saman eftir því sem endir þessa gamla heims nálgast. Við skulum líta á nokkur dæmi í Biblíunni sem minna á hve mikilvægt það er að halda hópinn og vera sameinuð.

ÞAU HÉLDU HÓPINN

5, 6. Hvað lærum við af frásögunni af Lot og dætrum hans um gildi þess að halda hópinn?

5 Jehóva hjálpaði þjónum sínum forðum daga þegar þeir héldu hópinn og hjálpuðust að á erfiðum tímum. Þjónar Guðs nú á dögum, bæði ungir og gamlir, geta lært af þeim. Lot er einn þeirra sem sagt er frá í Biblíunni.

6 Lot og fjölskylda hans voru í lífshættu vegna þess að það átti að eyða Sódómu, borginni þar sem þau bjuggu. Englar Guðs hvöttu Lot til að forða sér og leita skjóls uppi til fjalla. „Forðið ykkur. Líf ykkar liggur við,“ sögðu þeir. (1. Mós. 19:12-22) Lot hlýddi og dætur hans tvær komust undan með honum. En aðrir þeim nákomnir voru ekki svona lánsamir. Ungu mennirnir, sem voru trúlofaðir dætrum hans, „héldu að hann væri að gera að gamni sínu“. Það kostaði þá lífið. (1. Mós. 19:14) Enginn komst af nema Lot og dætur hans. Þau héldu hópinn.

7. Hvernig hjálpaði Jehóva hinum sameinaða hópi sem yfirgaf Egyptaland?

7 Lítum á annað dæmi. Þegar Ísraelsmenn yfirgáfu Egyptaland fóru þeir ekki í mörgum sjálfstæðum hópum sem hver valdi sína leið. Og þegar Móse „rétti ... hönd sína út yfir hafið“ og Jehóva klauf það fór Móse ekki einn yfir eða með fáeinum Ísraelsmönnum. Allur söfnuðurinn gekk saman yfir á hinn bakkann undir verndarhendi Jehóva. (2. Mós. 14:21, 22, 29, 30) Ísraelsmenn héldu hópinn og með þeim var „fjölmennur, sundurleitur hópur fólks“ sem var ekki af ísraelskum uppruna en tók afstöðu með þeim. (2. Mós. 12:38) Það er óhugsandi að fáeinir einstaklingar, kannski hópur unglinga, hafi lagt af stað út af fyrir sig og farið aðra leið sem þeim fannst betri. Hefði ekki verið hreint glapræði að gera það og fara á mis við vernd Jehóva? – 1. Kor. 10:1.

8. Hvernig stóðu þjónar Guðs saman á dögum Jósafats?

8 Á dögum Jósafats konungs átti þjóð Guðs í höggi við öflugan óvin. Þetta var „mikill her“ frá svæðunum umhverfis. (2. Kron. 20:1, 2) Það er hrósvert að þjónar Guðs skyldu ekki reyna að sigra óvininn af eigin rammleik heldur leita til Jehóva. (Lestu 2. Kroníkubók 20:3, 4.) Og þeir gerðu það ekki upp á eigin spýtur eins og hverjum þótti best. Í Biblíunni segir: „Allir Júdamenn stóðu frammi fyrir Drottni ásamt ungbörnum sínum, konum og sonum.“  (2. Kron. 20:13) Bæði ungir og gamlir treystu Jehóva og gerðu sitt ýtrasta til að fylgja leiðsögn hans, og hann verndaði þá fyrir óvinum þeirra. (2. Kron. 20:20-27) Er þetta ekki gott dæmi um að takast á við erfiðleika sem ein heild?

9. Hvað má læra um einingu af verkum og viðhorfum frumkristinna manna?

9 Frumkristnir menn voru líka samheldnir og unnu vel saman. Eftir að margir Gyðingar og trúskiptingar tóku kristna trú „ræktu [þeir] trúlega uppfræðslu postulanna og samfélagið, brotning brauðsins og bænirnar“. (Post. 2:42) Eining þeirra kom vel í ljós þegar þeir voru ofsóttir og þurftu mest hver á öðrum að halda. (Post. 4:23, 24) Ertu ekki sammála því að það sé mikilvægt að vinna saman á erfiðleikatímum?

VERUM SAMEINUÐ ÞEGAR DAGUR JEHÓVA NÁLGAST

10. Hvenær verður sérlega mikilvægt fyrir þjóna Guðs að vera sameinaðir?

10 Einhver myrkasti tími mannkynssögunnar er fram undan. Jóel spámaður lýsir honum þannig að þetta sé „dagur myrkurs og drunga“. (Jóel 2:1, 2; Sef. 1:14) Þá ríður á fyrir þjóna Guðs að standa saman. Munum eftir orðum Jesú: „Hvert það ríki sem er sjálfu sér sundurþykkt leggst í auðn.“ – Matt. 12:25.

11. Hvað kemur fram í Sálmi 122:3, 4 sem er hægt að heimfæra á þjóna Guðs nú á dögum? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

11 Við verðum að vera mjög samheldin á þeim erfiðleikatímum sem eru fram undan í þessum heimi. Það má líkja einingunni, sem við þurfum á að halda, við það hve húsin stóðu þétt í Jerúsalem forðum daga. Sálmaskáldið talaði um að borgin væri „þéttbyggð og traust“. Það auðveldaði borgarbúum að hjálpast að og vernda hver annan. Og nálægðin, sem þeir bjuggu við, lýsir vel einingu þjóðarinnar þegar allir „ættbálkar Drottins“ söfnuðust saman til tilbeiðslu. (Lestu Sálm 122:3, 4.) Við þurfum líka að mynda þétta og trausta heild, bæði núna og á þeim erfiðu tímum sem bíða okkar.

12. Hvað verður okkur til hjálpar þegar ráðist verður á þjóna Guðs?

12 Hvers vegna er ákaflega mikilvægt að mynda sterka heild á þeim tíma? Í 38. kafla hjá Esekíel er spádómur þar sem segir að „Góg í landinu Magóg“ ráðist á þjóna Guðs. Þá megum við ekki láta neitt sundra okkur. Ekki viljum við leita aðstoðar hjá heiminum. Við viljum öllu heldur standa þétt saman sem bræður og systur. Við lifum auðvitað ekki af aðeins vegna þess að við tilheyrum ákveðnum hópi. Jehóva og sonur hans sjá til þess að þeir sem ákalla nafn Jehóva komist óhultir gegnum þessa hættutíma. (Jóel 3:5; Matt. 28:20) En er hægt að ímynda sér að þeir sem hafa ekki gætt þess að vera sameinaðir hjörð Guðs bjargist – þeir sem hafa villst frá hjörðinni? – Míka 2:12.

13. Hvað geta guðhræddir unglingar lært af því sem við höfum rætt í þessari grein?

13 Er þá ekki ljóst að það er óskynsamlegt að líkja eftir unglingum sem fjarlægjast söfnuðinn og einangra sig í sínum eigin heimi? Sá tími nálgast að við getum ekki án hvert annars verið. Og það gildir um okkur öll, hvort sem við erum ung eða gömul. Við þurfum að læra að vinna saman og styrkja eininguna sem er svo mikilvæg í náinni framtíð.

,VIÐ ERUM HVERT UM SIG ANNARS LIMIR‘

14, 15. (a) Hvert er markmið Jehóva með því að kenna bæði ungum og gömlum? (b) Hvernig hvetur Jehóva okkur til að vera sameinuð?

14 Jehóva hjálpar okkur að þjóna sér „einhuga“. (Sef. 3:8, 9) Hann kennir  okkur þannig að við getum átt heima í eilífri fyrirætlun hans. Hvað er fólgið í henni? Jehóva ætlar sér að „safna öllu ... undir eitt höfuð í Kristi“. (Lestu Efesusbréfið 1:9, 10.) Hann vill sameina allar fúsar sköpunarverur sínar í alheiminum og honum mun takast það. Þú sem ert ungur að árum, áttarðu þig á hve mikilvægt það er að starfa náið með söfnuði Jehóva?

15 Jehóva er að kenna okkur núna að vera sameinuð. Markmið hans er að við verðum sameinuð að eilífu. Við erum minnt á það aftur og aftur í Biblíunni að „bera sameiginlega umhyggju hver fyrir öðrum“, að ,vera ástúðleg hvert við annað‘, að ,uppörva hvert annað‘ og ,uppbyggja hvert annað‘. (1. Kor. 12:25; Rómv. 12:10; 1. Þess. 4:18; 5:11) Jehóva veit að við erum ófullkomin þó að við séum kristin, og það gerir okkur stundum erfitt fyrir að vera sameinuð. Við þurfum þess vegna að vera „fús til að fyrirgefa hvert öðru“. – Ef. 4:32.

16, 17. (a) Hvert er eitt af markmiðunum með safnaðarsamkomum? (b) Hvað geta börn og unglingar lært af því sem Jesús gerði 12 ára?

16 Jehóva sér okkur líka fyrir safnaðarsamkomum til að kenna okkur að halda hópinn. Við höfum oft lesið hvatninguna í Hebreabréfinu 10:24, 25. Eitt markmiðið með samkomunum er að við „gefum gætur hvert að öðru og hvetjum hvert annað til kærleika og góðra verka“. Samkomurnar eru einmitt til þess ætlaðar að við ,uppörvum hvert annað og það því fremur sem við sjáum að dagurinn færist nær‘.

17 Jesús kunni vel að meta samkomur þegar hann var drengur. Hann sótti fjölmenna trúarhátíð með foreldrum sínum þegar hann var 12 ára. Foreldrar hans týndu honum í það skiptið. Hann var þó ekki að flækjast einhvers staðar með öðrum krökkum heldur fundu Jósef og María hann í musterinu þar sem hann var að ræða andleg mál við lærifeðurna. – Lúk. 2:45-47.

18. Hvernig geta bænir okkar stuðlað að einingu?

18 Við eigum að læra að elska hvert annað og nota samkomurnar til að styrkja einingarböndin en við getum líka beðið hvert fyrir öðru. Við ræktum umhyggjuna fyrir trúsystkinum okkar með því að vera markviss og nákvæm þegar við biðjum fyrir þeim. Það eru  ekki bara fullorðnir sem ættu að gera það og geta gert það. Þið unglingar, notið þið samkomurnar til að styrkja tengslin við andlega fjölskyldu ykkar og biðjið þið fyrir trúsystkinum? Það getur hjálpað ykkur að vera ekki bundin þessum gamla heimi þegar hann líður undir lok.

Við getum öll beðið fyrir trúsystkinum okkar. (Sjá 18. grein.)

SÝNUM AÐ VIÐ SÉUM „HVERT UM SIG ANNARS LIMIR“

19-21. (a) Við hvaða aðstæður sýnum við vel að við séum „hvert um sig annars limir“? Nefndu dæmi. (b) Hvað lærum við af viðbrögðum trúsystkina við náttúruhamförum?

19 Þjónar Jehóva lifa í samræmi við meginregluna í Rómverjabréfinu 12:5 þar sem segir að við séum „hvert um sig annars limir“. Við sjáum sönnun þess þegar náttúruhamfarir verða. Hitabeltisstormur olli miklum flóðum í desember 2011 á eynni Mindanao sem tilheyrir Filippseyjum. Meira en 40.000 heimili urðu flóðunum að bráð á einni nóttu, þar á meðal fjöldi heimila í eigu trúsystkina okkar. Í greinargerð frá deildarskrifstofunni kemur fram að „bræður og systur annars staðar hafi byrjað að senda hjálpargögn áður en hjálparstarfsnefndir voru einu sinni teknar til starfa“.

20 Mörg trúsystkini okkar urðu fyrir miklum eignamissi þegar öflugur jarðskjálfti og hamfaraflóðbylgja olli miklu tjóni í austurhluta Japans. Sumir voru eiginlega allslausir. Yoshiko, sem missti heimili sitt, bjó um 40 kílómetra frá ríkissalnum. Hún segir: „Við vorum hissa þegar við fréttum seinna að farandhirðirinn og annar bróðir hefðu komið til að leita að okkur daginn eftir skjálftann.“ Hún brosir breitt og bætir við: „Það var ómetanlegt að söfnuðurinn skyldi sjá svona vel fyrir andlegum þörfum okkar. Auk þess fengum við kápur, skó, töskur og náttföt.“ Bróðir í hjálparstarfsnefndinni segir: „Bræður alls staðar frá Japan reyndu að hjálpa hver öðrum og unnu saman eins og einn maður. Bræður komu jafnvel alla leið frá Bandaríkjunum til að hjálpa. Þegar þeir voru spurðir hvers vegna þeir væru komnir þessa löngu leið svöruðu þeir: ,Við erum sameinaðir bræðrum og systrum í Japan og þau eru hjálparþurfi.‘“ Ertu ekki stoltur að tilheyra söfnuði sem lætur sér svona annt um safnaðarmenn? Þú mátt vera viss um að það gleður Jehóva ákaflega að sjá þessa einingu.

21 Ef við höfum þetta hugarfar núna hjálpar það okkur að mæta ókomnum erfiðleikum sem einn maður, jafnvel þó að það sé skorið á tengsl okkar við trúsystkini sums staðar í heiminum. Þetta hugarfar býr okkur reyndar undir þær háskalegu aðstæður sem verða líklega á vegi okkar þegar þessi gamli heimur líður undir lok. Fumiko varð illa úti í fellibyl í Japan. Hún segir: „Endirinn er mjög nálægur. Við þurfum að halda áfram að aðstoða trúsystkini okkar meðan við bíðum þess að náttúruhamfarir verði liðin tíð.“

22. Hvernig er kristin eining til góðs til langs tíma litið?

22 Bæði ungir og gamlir, sem læra að vera sameinaðir núna, eru í rauninni að búa sig undir að lifa af þegar þessi óguðlegi og sundraði heimur ferst. Guð á eftir að frelsa þjóna sína rétt eins og hann gerði áður fyrr. (Jes. 52:9, 10) Gleymdu aldrei að þú getur bjargast ef þú leggur þig fram um að tilheyra hópi þeirra sem þjóna Guði í sameiningu. Það er líka góð hjálp að vera þakklátur fyrir það sem við höfum fengið nú þegar. Um það er rætt í næstu grein.