Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva launar örlæti

Jehóva launar örlæti

SKAPARINN hefur sýnt mönnunum þá virðingu að gefa þeim frjálsan vilja. Hann blessar ríkulega þá sem nýta frelsi sitt á óeigingjarnan hátt til að efla sanna tilbeiðslu, og leggja sitt af mörkum til að helga nafn hans og vinna að því að vilji hans nái fram að ganga. Jehóva vill ekki að við hlýðum honum vélrænt eða vegna hótana eða þvingana. Hann metur mikils hollustu sem er sprottin af ósvikunum kærleika og djúpu þakklæti.

Þegar Ísraelsmenn voru í Sínaíeyðimörkinni sagði Jehóva þeim að gera tjaldbúð helgaða tilbeiðslunni á honum. Hann sagði: „Færið Drottni gjafir af eignum ykkar. Sérhver skal færa Drottni gjöf eftir því sem hjarta hans býður honum.“ (2. Mós. 35:5) Ísraelsmenn gátu gefið eftir efnum sínum og hægt var að nota gjöfina, hver sem hún var og hvert sem verðmætið var, til að þjóna vilja Guðs. Hvernig brást þjóðin við?

Allir „sem gefa vildu af fúsum hug“ komu með gjafir sínar „af frjálsum vilja“. Karlar og konur gáfu af örlæti til verkefnisins armbönd, nefhringi, fingurgull, gull, silfur og eir, bláan purpura, rauðan purpura, skarlat, fínt lín, geitahár, rauðlituð hrútsskinn og höfrungaskinn, akasíuvið, gimsteina, ilmefni og olíu. Að lokum var komið „meira en nóg, til að vinna allt verkið“. – 2. Mós. 35:21-24, 27-29; 36:7.

Það sem gladdi Jehóva mest voru þó ekki gjafirnar sjálfar heldur örlæti þeirra sem vildu styðja hreina tilbeiðslu með þessum hætti. Fólk bauð einnig fram tíma sinn og krafta. „Sérhver kona, sem var vel að sér í handavinnu, spann,“ segir frásagan og bætir við: „Allar konur, sem fúsar voru til og höfðu til þess kunnáttu, spunnu geitahár.“ Jehóva gaf Besalel ,visku, skilning, kunnáttu og hvers konar hagleik‘. Hann veitti honum og Oholíab alla þá hæfileika sem þeir þurftu á að halda til að vinna verkið. – 2. Mós. 35:25, 26, 30-35.

Þegar Jehóva bauð Ísraelsmönnum að gefa treysti hann að þeir myndu styðja hreina tilbeiðslu ,eftir því sem hjarta þeirra bauð þeim‘. Hann blessaði hina örlátu, leiðbeindi þeim og gladdi þá. Þannig sýndi Jehóva að hann getur séð til þess að það skorti hvorki efni né kunnáttu til að vilji hans nái fram að ganga. (Sálm. 34:10) Þú getur treyst að Jehóva blessar örlæti þitt þegar þú leggur þig fúslega fram í þjónustu hans.