Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Skilur þú merkinguna?

Skilur þú merkinguna?

„Síðan lauk hann upp huga þeirra að þau skildu ritningarnar.“ – LÚK. 24:45.

1, 2. Hvernig styrkti Jesús lærisveinana daginn sem hann reis upp?

DAGINN sem Jesús var reistur upp voru tveir lærisveinar hans á leið til þorps sem var um 11 kílómetra frá Jerúsalem. Þeir vissu ekki að Jesús var upprisinn og voru sorgmæddir yfir því sem gerst hafði. Skyndilega birtist Jesús og gekk með þeim. Hann gat hughreyst lærisveinana tvo. Hvernig? „Hann byrjaði á Móse og öllum spámönnunum og útlagði fyrir þeim það sem um hann er ritað í öllum ritningunum.“ (Lúk. 24:13-15, 27) ,Hjartað brann í þeim‘ þegar hann ,lauk upp fyrir þeim‘ ritningunum og skýrði merkingu þeirra. – Lúk. 24:32.

2 Lærisveinarnir tveir sneru aftur til Jerúsalem sama kvöld. Þeir fundu postulana og sögðu þeim frá því sem gerst hafði. Jesús birtist þeim öllum meðan þeir voru að segja frá. En postularnir skelfdust. Það vöknuðu efasemdir í hjörtum þeirra. Hvernig styrkti Jesús þá? Í Biblíunni segir: „Síðan lauk hann upp huga þeirra að þau skildu ritningarnar.“ – Lúk. 24:45.

3. Hvað getur gerst hjá okkur og hvað getur hjálpað okkur að sjá boðunina og kennsluna í réttu ljósi?

3 Við getum stundum orðið döpur rétt eins og lærisveinarnir. Við erum kannski önnum kafin í þjónustu Drottins en niðurdregin vegna þess að við sjáum ekki  árangur af starfi okkar. (1. Kor. 15:58) Það getur líka gerst að biblíunemendur okkar taki litlum framförum. Eða segjum að einhverjir sem við erum að aðstoða snúi baki við Jehóva. Hvernig getum við séð þjónustu okkar í réttu ljósi? Eitt sem getur hjálpað okkur er að skilja til hlítar hvað dæmisögur Jesú í Biblíunni merkja. Við skulum nú líta á þrjár af þessum dæmisögum og kanna hvað við getum lært af þeim.

SÁÐMAÐURINN SEM SEFUR

4. Hvað merkir dæmisaga Jesú um sáðmanninn sem sefur?

4 Lestu Markús 4:26-29. Hvað merkir dæmisaga Jesú um sáðmanninn sem sefur? Maðurinn í dæmisögunni táknar boðbera fagnaðarerindis sem einstaklinga. Sæðið er boðskapurinn um ríkið sem er boðaður hjartahreinu fólki. Lífið gengur sinn vanagang og sáðmaðurinn „sefur ... og vakir, nætur og daga“. Vöxturinn tekur ákveðinn tíma frá því að sæðinu er sáð þangað til kemur loks að uppskerunni. „Sæðið grær og vex“ á þessu tímabili. Það vex „sjálfkrafa“, jafnt og þétt, stig af stigi. Andlegur vöxtur á sér líka stað smám saman, stig af stigi. Þegar biblíunemandi nær því stigi að hann langar til að þjóna Jehóva ber hann ávöxt í þeim skilningi að hann vígir honum líf sitt og lætur skírast.

5. Hvers vegna segir Jesús dæmisöguna um sáðmanninn sem sefur?

5 Hvers vegna segir Jesús þessa dæmisögu? Hann sýnir okkur fram á að það er Jehóva sem lætur sannleikann vaxa í hjörtum þeirra sem ,hneigjast til eilífs lífs‘. (Post. 13:48, NW; 1. Kor. 3:7) Við gróðursetjum og vökvum en við stjórnum ekki vextinum. Við getum hvorki þvingað fram vöxt né flýtt honum. Rétt eins og maðurinn í dæmisögunni vitum við ekki hvernig vöxturinn á sér stað. Við tökum jafnvel ekki eftir honum í dagsins önn. En með tíð og tíma getur þó sáðkorn Guðsríkis borið ávöxt. Nýi lærisveinninn gengur síðan í uppskerustörfin með okkur og við njótum góðs af kröftum hans. – Jóh. 4:36-38.

6. Hvað verðum við að viðurkenna varðandi andlegan vöxt?

6 Hvað lærum við af þessari dæmisögu? Í fyrsta lagi verðum við að viðurkenna að við ráðum engu um andlegan vöxt biblíunemanda. Við þurfum að vera hógvær og forðast freistinguna að þrýsta á nemanda eða reyna að neyða hann til að láta skírast. Við gerum allt sem við getum til að aðstoða hann og styðja, en við viðurkennum í auðmýkt að hann verður sjálfur að ákveða hvort hann vígist Guði. Sá sem vígist Guði þarf að gera það af því að hann langar til þess og elskar Guð. Öðruvísi er ekki hægt að þóknast honum. – Sálm. 51:14; 54:8; 110:3.

7, 8. (a) Hvað annað lærum við af dæmisögu Jesú um sáðmanninn sem sefur? Nefndu dæmi. (b) Hvað lærum við um Jehóva og Jesú af þessari dæmisögu?

7 Í öðru lagi getur dæmisagan hjálpað okkur að verða ekki niðurdregin þó að við sjáum ekki árangur erfiðis okkar í fyrstu. Við þurfum að vera þolinmóð. (Jak. 5:7, 8) Þó að sæðið beri ekki ávöxt vitum við að það er ekki merki um ótrúmennsku af okkar hálfu, svo framarlega sem við höfum gert okkar besta til að hjálpa nemandanum. Jehóva lætur sáðkorn sannleikans aðeins vaxa í hjörtum þeirra sem eru auðmjúkir og fúsir til að breyta sér. (Matt. 13:23) Við ættum því ekki að meta árangurinn af starfi okkar einvörðungu eftir því hvort fólk tekur við fagnaðarerindinu. Í augum  Jehóva ræðst árangurinn af starfi okkar ekki af viðbrögðum þeirra sem við kennum. Hann virðir trúfesti okkar og erfiði óháð því hvort fólk tekur við boðskapnum. – Lestu Lúkas 10:17-20; 1. Korintubréf 3:8.

8 Í þriðja lagi sjáum við ekki alltaf breytingarnar sem eiga sér stað innra með fólki. Trúboði var með hjón í biblíunámi og þau spurðu hann hvort þau gætu orðið óskírðir boðberar. Hann minnti þau á að þau yrðu að hætta reykingum til að geta orðið boðberar. Honum til undrunar sögðust þau hafa hætt fyrir nokkrum mánuðum. Hvers vegna hættu þau? Þau höfðu gert sér grein fyrir að Jehóva gat séð þau reykja og að hann hatar hræsni. Hjartað knúði þau þess vegna til að taka ákvörðun – annaðhvort að reykja að trúboðanum ásjáandi eða hætta alveg. Þau voru farin að elska Jehóva og það hjálpaði þeim að taka rétta ákvörðun. Þau höfðu tekið út andlegan vöxt þó að trúboðinn hefði ekki hugmynd um breytinguna sem hafði átt sér stað.

NETIÐ

9. Hvað merkir dæmisagan um netið?

9 Lestu Matteus 13:47-50. Hvað merkir dæmisaga Jesú um netið? Jesús líkti boðun fagnaðarerindisins meðal mannkyns við að leggja stórt net í sjó. Netið safnar „alls kyns fiski“ og boðunin laðar sömuleiðis að alls konar fólk í milljónatali. (Jes. 60:5) Allur fjöldinn, sem sækir mótin og minningarhátíðina á hverju ári, ber vitni um það. Sumir þessara táknrænu fiska eru ,góðir‘ og er safnað inn í kristna söfnuðinn. En aðrir eru eins og ,óætur‘ fiskur. Það eru ekki allir þóknanlegir Jehóva þó að þeir laðist að söfnuðinum.

Eftir að hafa lesið Matteus 13:47-50 ...

10. Hvers vegna sagði Jesús dæmisöguna um netið?

10 Hvers vegna sagði Jesús þessa dæmisögu? Að aðskilja fiskinn táknar ekki lokadóminn sem á sér stað í þrengingunni miklu. Það lýsir öllu heldur því sem gerist á síðustu dögum þessa illa heims. Jesús sýndi fram á að það myndu ekki allir taka afstöðu með Jehóva þó að þeir löðuðust að sannleikanum. Margir hafa sótt samkomur með okkur. Aðrir hafa þegið biblíukennslu hjá okkur en ekki verið tilbúnir til að skuldbinda sig. (1. Kon. 18:21) Og sumir hafa hætt að sækja samkomur. Til eru ungmenni sem hafa ekki enn lært að elska meginreglur Jehóva þó að þau eigi kristna foreldra. Jesús leggur áherslu á að allir þurfi að taka sína eigin ákvörðun óháð aðstæðum sínum. Þeir sem ákveða að þjóna Jehóva eru sem „gersemar allra þjóða“ í augum hans. – Hag. 2:7, Biblían 1981.

... hugleiddu hvernig orð Jesú eiga við núna.

11, 12. (a) Hvernig getum við notið góðs af dæmisögunni um netið? (b) Hvað lærum við um Jehóva og Jesú af þessari dæmisögu?

11 Hvernig getum við notið góðs af dæmisögunni um netið? Ef við skiljum lærdóminn í þessari dæmisögu er minni hætta á að við verðum niðurdregin úr hófi fram eða vonsvikin um of ef biblíunemandi eða eitt af börnum okkar tileinkar sér ekki sannleikann. Það getur gerst þó að við leggjum okkur fram í hvívetna. Fólk myndar ekki sjálfkrafa sterk tengsl við Jehóva þó að það þiggi biblíukennslu eða hafi einhver tengsl við sannleikann á uppvaxtarárunum. Þeir sem vilja ekki lúta stjórn Jehóva eru að lokum fjarlægðir úr hópi þjóna hans.

Sumir þeirra sem laðast að sannleikanum taka afstöðu með Jehóva. (Sjá 9.-12. grein.)

12 Merkir þetta að þeir sem hafa yfirgefið sannleikann fái aldrei að snúa aftur til safnaðarins? Eða er öll von  úti fyrir þá sem hafa ekki vígst Jehóva? Nei. Þeir sem hafa tekið þessa afstöðu hafa tækifæri þangað til þrengingin mikla brýst út. Það er rétt eins og Jehóva kalli til þeirra: „Snúið aftur til mín, þá sný ég aftur til ykkar.“ (Mal. 3:7) Þetta kemur skýrt fram í einni af dæmisögum Jesú, dæmisögunni um týnda soninn. – Lestu Lúkas 15:11-32.

TÝNDI SONURINN

13. Hvað merkir dæmisagan um týnda soninn?

13 Hvað merkir dæmisaga Jesú um týnda soninn? Brjóstgóði faðirinn í þessari dæmisögu táknar Jehóva, kærleiksríkan föður okkar á himnum. Sonurinn, sem biður um arfinn sinn og sólundar honum svo, táknar þá sem hafa villst frá söfnuðinum. Með því að yfirgefa söfnuðinn er eins og þeir fari burt „í fjarlægt land“ en það táknar heim Satans sem er fjarlægur Jehóva. (Ef. 4:18; Kól. 1:21) En sumir koma til sjálfs sín um síðir og leggja upp í ferðalag heim til safnaðar Jehóva þótt það reyni á. Hann er fús til að fyrirgefa þessum auðmjúku og iðrandi einstaklingum og þeir fá hlýlegar móttökur. – Jes. 44:22; 1. Pét. 2:25.

14. Hvers vegna sagði Jesús dæmisöguna um týnda soninn?

14 Hvers vegna sagði Jesús þessa dæmisögu? Jesús lýsir á mjög aðlaðandi hátt að Jehóva vill að þeir sem hafa villst frá snúi aftur. Faðirinn í dæmisögunni missti aldrei vonina um að sonurinn kæmi aftur heim. Hann kom auga á soninn þegar „hann var enn langt í burtu“ og var fljótur til að bjóða hann velkominn heim. Þetta er sterk hvatning fyrir þá sem hafa yfirgefið sannleikann til að snúa tafarlaust aftur til Jehóva. Þeir geta verið örmagna andlega séð og leiðin til baka getur virst erfið og vandræðaleg. En það er erfiðisins virði því að það verður meira að segja fögnuður á himni þegar þeir snúa aftur. – Lúk. 15:7.

15, 16. (a) Hvað lærum við af dæmisögu Jesú um týnda soninn? Nefndu dæmi. (b) Hvað lærum við um Jehóva og Jesú af dæmisögunni?

15 Hvernig getum við notið góðs af dæmisögunni um týnda soninn? Við ættum að líkja eftir fordæmi Jehóva. Ekki viljum við vera ,um of réttlát‘ svo að við neitum að taka við iðrandi syndurum sem snúa aftur. Það væri ávísun á ,tortímingu‘ í andlegum skilningi.  (Préd. 7:16) Við getum dregið annan lærdóm af dæmisögunni. Við eigum að líta á þá sem yfirgefa söfnuðinn sem ,týnda sauði‘ en ekki glataða fyrir fullt og allt. (Sálm. 119:176) Hvað gerum við ef við hittum einhvern sem hefur villst frá söfnuðinum? Erum við hlýleg og bjóðum honum aðstoð við að snúa aftur? Látum við öldungana vita strax svo að þeir geti veitt viðeigandi hjálp? Við gerum það ef við lærum af dæmisögu Jesú um týnda soninn.

16 Þeir sem hafa villst frá söfnuðinum en snúið aftur eru innilega þakklátir fyrir miskunn og kærleika Jehóva og stuðning safnaðarins. Bróður nokkrum var vikið úr söfnuðinum og var fjarri honum í 25 ár. Hann talar um að hann hafi upplifað „endurlífgunartíma“ frá Jehóva og segir að gleði sín hafi vaxið jafnt og þétt síðan hann var tekinn inn í söfnuðinn aftur. (Post. 3:20) „Allir eru svo hjálpsamir og kærleiksríkir. Núna á ég yndislega andlega fjölskyldu,“ segir hann. Ung systir villtist frá Jehóva og var í burtu í fimm ár. Hún segir um endurkomu sína: „Ég get ekki lýst hvernig tilfinning það var að finna greinilega fyrir kærleikanum sem Jesús talaði um. Það er ómetanlegt að fá að tilheyra söfnuði Jehóva.“

17, 18. (a) Hvað höfum við lært af dæmisögunum þrem sem við höfum rætt um í þessari grein? (b) Hverju ættum við að halda áfram?

17 Hvað höfum við lært af þessum þrem dæmisögum? Í fyrsta lagi verðum við að viðurkenna að við ráðum engu um andlega vöxtinn. Jehóva ræður honum. Í öðru lagi er ekki raunhæft að ætla að allir sem sækja samkomur eða þiggja biblíukennslu taki afstöðu með sannleikanum. Að síðustu skulum við aldrei missa vonina um að þeir sem yfirgefa sannleikann og snúa baki við Jehóva komi aftur til baka. Og ef þeir gera það skulum við taka vel á móti þeim í samræmi við sjónarmið Jehóva.

18 Við skulum öll halda áfram að sækjast eftir þekkingu, skilningi og visku. Þegar við lesum dæmisögur Jesú skulum við spyrja hvað þær merki, hvers vegna þær hafi verið skrásettar í Biblíuna, hvernig við getum heimfært þær og hvað við lærum af þeim um Jehóva og Jesú. Ef við gerum það sýnum við að við skiljum merkingu þess sem Jesús sagði.