Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Láttu þér annt um að mega starfa með Jehóva

Láttu þér annt um að mega starfa með Jehóva

„Samverkamenn Guðs erum við.“ – 1. KOR. 3:9.

1. Hvernig lítur Jehóva á vinnu og hvað hefur hann þess vegna gert?

JEHÓVA hefur ánægju af störfum sínum og verkum. (Sálm. 135:6; Jóh. 5:17) Hann hefur gefið viti bornum sköpunarverum sínum gefandi og ánægjuleg verkefni svo að þær geti haft sams konar ánægju og hann af störfum sínum. Til dæmis fékk hann frumgetinn son sinn til að vinna með sér að sköpuninni. (Lestu Kólossubréfið 1:15, 16.) Í Biblíunni kemur fram að Jesús hafi verið „verkstýra“ við hlið Guðs á himnum áður en hann kom til jarðar. – Orðskv. 8:30, Biblían 1981.

2. Hvernig vitum við að andaverur hafa alltaf haft gefandi verkefni í þjónustu Guðs?

2 Í Biblíunni er að finna fjölda dæma sem sýna að Jehóva hefur alla tíð falið andasonum sínum ýmis verkefni. Eftir að Adam og Eva syndguðu og voru rekin út úr paradís setti Jehóva „kerúbana fyrir austan Eden og loga hins sveipanda sverðs til þess að gæta vegarins að lífsins tré“. (1. Mós. 3:24) Og í Opinberunarbókinni 22:6 kemur fram að Jehóva „sendi engil sinn til að sýna þjónum sínum það sem verða á innan skamms“.

 HVAÐ UM MENNINA?

3. Hvernig fór Jesús að dæmi föður síns meðan hann var á jörð?

3 Meðan Jesús var fullkominn maður á jörð naut hann þess að vinna það verk sem Jehóva hafði falið honum. Hann fetaði í fótspor föður síns og fékk lærisveinum sínum mikilvæg verkefni. Hann vakti eftirvæntingu hjá þeim þegar hann benti á að þeir gætu áorkað mjög miklu. Hann sagði: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir á mig mun einnig gera þau verk sem ég geri. Og hann mun gera meiri verk en þau því ég fer til föðurins.“ (Jóh. 14:12) Hann lagði áherslu á að þetta væru áríðandi verkefni og sagði: „Okkur ber að vinna verk þess er sendi mig meðan dagur er. Það kemur nótt þegar enginn getur unnið.“ – Jóh. 9:4.

4-6. (a) Hvers vegna megum við vera þakklát fyrir að Nói og Móse skyldu gera allt sem Jehóva bað þá um? (b) Hvað er sameiginlegt með öllum verkefnum sem Guð felur mönnunum?

4 Jehóva fól ýmsum mönnum gefandi verkefni löngu fyrir daga Jesú. Þeir gerðu eins og Guð bað þá um, ólíkt Adam og Evu sem luku ekki verkinu sem þeim var falið. (1. Mós. 1:28) Nói fékk skýr fyrirmæli um örkina sem hann átti að smíða til að hann og fjölskylda hans kæmust lifandi gegnum flóðið mikla. Hann gerði samviskusamlega allt sem Jehóva bað hann um. Það er verki hans að þakka að við erum til. – 1. Mós. 6:14-16, 22; 2. Pét. 2:5.

5 Móse fékk nákvæmar leiðbeiningar um hvernig ætti að gera tjaldbúðina og skipuleggja störf prestanna. Hann fylgdi þeim í einu og öllu. (2. Mós. 39:32; 40:12-16) Við njótum góðs af því enn þann dag í dag að hann skyldi gera verki sínu góð skil. Hvernig þá? Páll postuli bendir á að tjaldbúðin og prestdómurinn hafi táknað ,hið góða sem var í vændum‘. – Hebr. 9:1-5, 9; 10:1.

6 Guð felur þjónum sínum breytileg verkefni frá einum tíma til annars eftir því hvernig fyrirætlun hans miðar fram. En hver sem verkefnin eru hafa þau alltaf verið Jehóva til lofs og trúuðum mönnum til góðs. Það má með sanni segja um verkefni Jesú, bæði áður en hann kom til jarðar og eins meðan hann var hér á jörð. (Jóh. 4:34; 17:4) Verkefnið, sem okkur er falið, er Jehóva sömuleiðis til vegsemdar. (Matt. 5:16; lestu 1. Korintubréf 15:58.) Hvernig getum við fullyrt það?

VERUM JÁKVÆÐ GAGNVART VERKEFNUM SEM VIÐ FÁUM

7, 8. (a) Lýstu því verki sem kristnir menn nú á dögum fá að vinna. (b) Hvernig eigum við að bregðast við leiðsögn Jehóva?

7 Það er ótrúlegt til þess að hugsa að Jehóva skuli hafa boðið ófullkomnum mönnum að vera samverkamenn sínir. (1. Kor. 3:9) Þeir sem vinna við að byggja mótshallir, ríkissali og deildarskrifstofur taka þátt í bókstaflegum byggingarstörfum líkt og þeir Nói og Móse. Hvort sem þú vinnur við að gera upp ríkissal eða byggja nýju aðalstöðvarnar okkar í Warwick í New York skaltu sinna því af alúð og kostgæfni. (Sjá teikningu listamanns í upphafi greinar.) Það er heilög þjónusta. Sumir þjónar Guðs vinna við bókstafleg byggingarstörf en allir taka þátt í andlegu byggingarstarfi. Það hefur líka það markmið að upphefja Jehóva og vera hlýðnu fólki til góðs. (Post. 13:47-49) Við fáum viðeigandi leiðbeiningar um þetta starf fyrir milligöngu safnaðar Guðs. Stundum fela þær í sér að okkur eru fengin ný verkefni.

 8 Trúir þjónar Jehóva hafa alltaf fylgt leiðsögn hans fúslega. (Lestu Hebreabréfið 13:7, 17.) Í fyrstu skiljum við ekki alltaf til hlítar hvers vegna við eigum að vinna ákveðið verk á ákveðinn hátt. Hins vegar vitum við mætavel að það er alltaf til góðs að laga sig að þeim breytingum sem Jehóva telur rétt að gera.

9. Hvernig eru öldungarnir söfnuðinum til fyrirmyndar?

9 Öldungunum er mikið í mun að gera vilja Jehóva og forysta þeirra í söfnuðinum er til vitnis um það. (2. Kor. 1:24; 1. Þess. 5:12, 13) Þeir leggja sig alla fram í þjónustunni við Jehóva og fylgja leiðbeiningum hans. Þeir eru fljótir að laga sig að nýjum aðferðum við að boða stofnsett ríki Guðs. Sumir voru ef til vill hikandi í fyrstu að skipuleggja boðun í síma, á hafnarsvæðum og fjölförnum stöðum en árangurinn lét ekki á sér standa. Fjórir brautryðjendur í Þýskalandi ákváðu að starfa á viðskiptasvæði sem hafði orðið út undan. Michael segir: „Við höfðum ekki starfað með þessum hætti í nokkur ár þannig að við vorum með fiðring í maganum. Jehóva hlýtur að hafa vitað þetta vegna þess að hann gaf okkur ógleymanlegan morgun í starfinu. Við vorum himinlifandi að hafa farið eftir leiðbeiningum Ríkisþjónustunnar og treyst á stuðning Jehóva.“ Ertu fús til að reyna nýjar boðunaraðferðir á starfssvæði safnaðarins?

10. Hvaða skipulagsbreytingar hafa verið gerðar á síðustu árum?

10 Stundum þarf að gera ákveðnar skipulagsbreytingar. Á síðustu árum hafa margar deildarskrifstofur verið sameinaðar stærri skrifstofum. Bræður og systur, sem starfa á þessum skrifstofum, þurfa að laga sig að breyttum aðstæðum, en áður en langt um líður átta þau sig á kostunum sem fylgja því. (Préd. 7:8) Það er ánægjulegt fyrir fúsa þjóna Guðs að eiga þátt í þessari sögulegu framvindu í söfnuðinum.

11-13. Hvað hafa sumir þurft að leggja á sig vegna skipulagsbreytinga?

11 Við getum lært ýmislegt af þeim sem störfuðu á deildarskrifstofunum sem voru lagðar niður. Sumir höfðu starfað þar áratugum saman. Hjón, sem höfðu tilheyrt lítilli Betelfjölskyldu í Mið-Ameríku, voru beðin að flytja á Betelheimilið í Mexíkó sem er næstum 30 sinnum fjölmennara. „Það var mjög erfitt að kveðja ættingja og vini,“ segir Rogelio. „Þetta er næstum eins og að fæðast aftur,“ segir Juan sem var einnig beðinn að flytja til Mexíkó. „Maður þarf að byggja upp ný vináttutengsl og laga sig að nýjum siðum og hugsunarhætti.“  

12 Betelítar í sumum Evrópulöndum voru beðnir að flytja til deildarskrifstofunnar í Þýskalandi. Það var ekki auðvelt fyrir þá heldur. Þeir sem kunna að meta fjallasýn skilja mætavel að það var átak að flytja frá Sviss og kveðja tignarleg Alpafjöllin. Og þeir sem fluttust frá Austurríki söknuðu í fyrstu hins rólega umhverfis heima fyrir.

13 Fyrir þá sem fluttu til annars lands hafði þetta í för með sér að venjast nýju heimili, vinna með bræðrum og systrum sem þeir þekktu ekki fyrir og ef til vill að læra nýtt starf. Það hafði í för með sér að kynnast nýjum söfnuði og boða fagnaðarerindið á nýju svæði, kannski á öðru tungumáli. Slíkar breytingar geta reynt á en margir Betelítar hafa þó gert þetta. Hvers vegna?

14, 15. (a) Hvernig hafa margir sýnt að þeir eru þakklátir fyrir að mega starfa með Jehóva að hvaða verkefnum sem er? (b) Á hvaða hátt eru þeir okkur öllum góð fyrirmynd?

14 Grethel segir: „Ég þáði boðið vegna  þess að þannig gat ég sýnt Jehóva að ég elskaði hann meir en eitthvert land, byggingu eða verkefni.“ Dayska segir: „Ég þáði boðið með þökkum þegar ég hugsaði um að það kom frá Jehóva.“ André og Gabriela taka undir það: „Við litum á þetta sem nýtt tækifæri til að þjóna Jehóva með því að setja okkar eigin langanir til hliðar. Við sögðum sem svo að þegar Jehóva geri breytingar sé betra að vinda upp seglin en reisa sér skjólvegg.“

Mesti heiður, sem við hljótum, er að vinna verk Jehóva.

15 Þegar deildarskrifstofur eru sameinaðar eru sumir Betelítar beðnir að gerast brautryðjendur. Það gerðist hjá mörgum Betelítum þegar skrifstofurnar í Danmörku, Noregi og Svíþjóð voru sameinaðar og ný deildarskrifstofa stofnuð fyrir Skandinavíu. Florian og Anja voru í þeim hópi. Þau segja: „Við lítum á nýja verkefnið sem spennandi áskorun. Okkur finnst frábært að starfa fyrir Jehóva á hvaða vettvangi sem er. Við getum sagt í fullri hreinskilni að hann hafi blessað okkur ríkulega.“ Sennilega þurfa fæst okkar nokkurn tíma að gera viðlíka breytingar. Við getum hins vegar verið jafn fús og þessi trúsystkini okkar til að láta ríki Guðs ganga fyrir. (Jes. 6:8) Jehóva blessar alltaf þá sem eru innilega þakklátir fyrir þann heiður að mega starfa með honum hvar sem það kann að vera.

HAFÐU ÁNÆGJU AF ÞVÍ SEM ÞÚ GERIR Í SAMSTARFI VIÐ JEHÓVA

16. (a) Hvaða hvatningu fáum við í Galatabréfinu 6:4? (b) Hver er mesti heiður sem nokkur maður getur notið?

16 Ófullkomnum mönnum hættir til að bera sig saman við aðra Í Biblíunni erum við hins vegar hvött til að horfa á það sem við sjálf getum gert. (Lestu Galatabréfið 6:4.) Fæst okkar gegna ábyrgðarstöðu í söfnuðinum. Það geta ekki heldur allir verið brautryðjendur, trúboðar eða starfað á Betel. Það er auðvitað heiður að mega starfa þannig en við skulum aldrei gleyma að við njótum  öll mesta heiðurs sem hugsast getur. Við fáum að vera samverkamenn Jehóva að boðun fagnaðarerindisins. Það er heiður sem við ættum öll að vera þakklát fyrir.

17. Hvaða veruleiki blasir við meðan heimur Satans stendur en hvers vegna ættum við ekki að láta það draga úr okkur kjark?

17 Meðan heimur Satans stendur er óvíst að við getum þjónað Jehóva í þeim mæli sem við helst vildum. Við ráðum kannski litlu um fjölskylduábyrgð okkar, heilsu eða aðrar aðstæður. En það er engin ástæða til að láta það draga úr sér kjark. Þú skalt aldrei vanmeta þá möguleika sem þú hefur til að starfa með Guði. Notaðu hvert tækifæri til að vitna um nafn hans og kunngera ríki hans. Mestu máli skiptir að þú starfar með honum í þeim mæli sem aðstæður þínar leyfa, og að þú biður hann að blessa trúsystkini þín sem eru í aðstöðu til að gera meira en þú. Mundu að hver sem lofar nafn Jehóva er dýrmætur í augum hans.

18. Hverju ættum við að vera fús til að slá á frest og hvers vegna?

18 Jehóva er ánægður með að eiga okkur fyrir samverkamenn þrátt fyrir veikleika okkar og ófullkomleika. Það er ómetanlegur heiður að mega starfa með Guði núna á síðustu dögum. Við ættum því að vera fús til að slá því á frest að sinna eigin hugðarefnum því að við vitum að í nýja heiminum leyfir Jehóva okkur að ,höndla hið sanna líf‘ – eilíft líf við hamingju og frið. – 1. Tím. 6:18, 19.

Læturðu þér annt um verkefni þín í þjónustu Jehóva? (Sjá 16.-18. grein.)

19. Hvaða framtíð lofar Jehóva okkur?

19 Við stöndum nú á þröskuldi nýja heimsins. Það er gott að hugsa til þess sem Móse sagði Ísraelsmönnum skömmu áður en þeir gengu inn í fyrirheitna landið: „Drottinn, Guð þinn, mun veita þér ríkulega í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur.“ (5. Mós. 30:9) Eftir að Harmagedón er liðið hjá eignast þeir sem hafa starfað með Guði landið sem hann lofaði þeim. Þá beinum við kröftum okkar að nýju verkefni – að breyta jörðinni í unaðslega paradís.