Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Hugsið um það sem er hið efra“

„Hugsið um það sem er hið efra“

„Hugsið um það sem er hið efra en ekki um það sem á jörðinni er.“ – KÓL. 3:2.

1, 2. (a) Hvers vegna var eining safnaðarins í Kólossu í hættu? (b) Hvaða leiðbeiningar fengu bræður og systur í Kólossu sem hjálpuðu þeim að vera staðföst í trúnni?

EINING kristna safnaðarins í Kólossu var í hættu. Sumir í söfnuðinum hvöttu til þess að fólk fylgdi Móselögunum og ollu þar með sundrungu. Aðrir aðhylltust meinlætalifnað og öfgafulla sjálfsafneitun að hætti heiðinnar heimspeki. Páll skrifaði söfnuðinum í Kólossu uppörvandi bréf til að vara við þessum falskenningum og sagði: „Gætið þess að láta engan hertaka ykkur með marklausu, villandi spekitali sem byggist á mannasetningum og er komið frá heimsvættunum en ekki frá Kristi.“ – Kól. 2:8.

2 Ef þessir andasmurðu kristnu menn fylgdu speki heimsins myndu þeir snúa baki við hjálpræðisleið Jehóva. (Kól. 2:20-23) Páll hvatti þá til að varðveita hið dýrmæta samband við Jehóva og sagði: „Hugsið um það sem er hið efra en ekki um það sem á jörðinni er.“ (Kól. 3:2) Bræður Krists áttu að hafa hugann við þá von að hljóta óforgengilega arfleifð sem þeim var ,geymd í himnunum‘. – Kól. 1:4, 5.

3. (a) Hvaða von hafa hinir andasmurðu í huga? (b) Um hvaða spurningar er rætt í þessari grein?

 3 Andasmurðir kristnir menn nú á tímum hafa hugann líka við ríki Guðs á himnum og vonina um að verða „samarfar Krists“. (Rómv. 8:14-17) En hvað um þá sem hafa von um að lifa á jörð? Hvernig eiga orð Páls við þá? Hvernig geta ,aðrir sauðir‘ hugsað um „það sem er hið efra“? (Jóh. 10:16) Og hvernig getum við öll lært af trúmönnum fortíðar, svo sem Abraham og Móse? Þeir hugsuðu um það sem er hið efra þrátt fyrir ýmsar raunir sem þeir máttu þola.

HVAÐ FELST Í ÞVÍ AÐ HUGSA UM ÞAÐ SEM ER HIÐ EFRA?

4. Hvernig geta aðrir sauðir hugsað um það sem er hið efra?

4 Aðrir sauðir geta hugsað um það sem er hið efra þó að þeir vonist ekki eftir að fara til himna. Hvernig? Með því að láta Jehóva Guð og ríki hans vera í fyrirrúmi í lífinu. (Lúk. 10:25-27) Kristur gerði það og við líkjum eftir honum. (1. Pét. 2:21) Í heimi Satans erum við umkringd villandi hugmyndum, veraldlegri heimspeki og efnishyggju, rétt eins og trúsystkini okkar á fyrstu öld. (Lestu 2. Korintubréf 10:5.) Við þurfum að líkja eftir Jesú og vera á verði gegn öllu sem gæti spillt sambandi okkar við Jehóva.

5. Hvaða spurninga getum við spurt okkur til að kanna hvernig við hugsum um efnislega hluti?

5 Höfum við leyft skoðun heimsins á peningum og efnislegum hlutum að hafa áhrif á okkur? Það kemur yfirleitt fram í hugsunum okkar og verkum hvað okkur þykir vænst um. Jesús sagði: „Hvar sem fjársjóður þinn er þar mun og hjarta þitt vera.“ (Matt. 6:21) Það er gott að gera sjálfsrannsókn stöku sinnum til að kanna hvert hjarta okkar stefni. Hve mikinn tíma notarðu í að hugsa um peninga? Hugsarðu mikið um viðskiptatækifæri, fjárfestingar eða möguleikann á að lifa þægilegu lífi? Eða reynirðu að lifa einföldu lífi og einbeita þér að sambandinu við Jehóva? (Matt. 6:22) Jesús sagði að þeir sem leggi mest upp úr því að safna „fjársjóðum á jörðu“ stefni sambandi sínu við Jehóva í stórkostlega hættu. – Matt. 6:19, 20, 24.

6. Hvernig getum við sigrað í baráttunni við þær tilhneigingar sem fylgja ófullkomleikanum?

6 Við erum ófullkominn þannig að við höfum tilhneigingu til að láta undan löngunum okkar. (Lestu Rómverjabréfið 7:21-24.) Það er hætta á að við látum „verk myrkursins“ taka völdin ef við reiðum okkur ekki á anda Guðs. Þetta gæti til dæmis verið ,ofát, ofdrykkja, saurlífi og svall‘. (Rómv. 13:12, 13) Við þurfum að hugsa um það sem er hið efra til að sigra í baráttunni við „það sem á jörðinni er“, það er að segja það sem höfðar til holdsins. Það kostar áreynslu. Þess vegna sagði Páll postuli: „Ég aga líkama minn og geri hann að þræli mínum.“ (1. Kor. 9:27) Ef við viljum halda áfram að keppa eftir eilífa lífinu megum við ekki vera eftirlát við sjálf okkur. Við skulum rifja upp hvað tveir trúmenn fortíðar gerðu til að „þóknast Guði“. – Hebr. 11:6.

ABRAHAM TRÚÐI JEHÓVA

7, 8. (a) Hvaða erfiðleika máttu Abraham og Sara þola? (b) Að hverju einbeitti Abraham sér?

7 Abraham hlýddi fúslega þegar Jehóva bað hann að flytja með fjölskyldu  sinni til Kanaanslands. Jehóva umbunaði honum trúna og hlýðnina og gerði við hann sáttmála. Hann sagði: „Ég mun gera þig að mikilli þjóð og blessa þig.“ (1. Mós. 12:2) En árin liðu og þau Sara voru enn barnlaus. Hafði Jehóva gleymt því sem hann lofaði Abraham? Auk þess var ekki beinlínis auðvelt að búa í Kanaanslandi. Abraham og heimafólk hans hafði yfirgefið heimili og ættingja í borginni Úr í Mesópótamíu sem var auðug mjög. Þau höfðu ferðast 1.600 kílómetra leið til Kanaanslands, búið þar í tjöldum, þolað hungursneyð og átt í höggi við ræningjaflokka. (1. Mós. 12:5, 10; 13:18; 14:10-16) Þau höfðu þó enga löngun til að snúa aftur í þægindin í Úr. – Lestu Hebreabréfið 11:8-12, 15.

8 Abraham „trúði Drottni“ í stað þess að hugsa um „það sem á jörðinni er“. (1. Mós. 15:6) Hann hugsaði um það sem er hið efra með því að einbeita sér að loforðum Guðs. Jehóva launaði honum trúna þegar hann birtist honum og sagði: „,Líttu til himins og teldu stjörnurnar ef þú getur.‘ Og hann sagði: ,Svo margir munu niðjar þínir verða.‘“ (1. Mós. 15:5) Þetta hlýtur að hafa verið ákaflega hughreystandi. Í hvert sinn sem Abraham horfði á stjörnum prýddan himininn var hann minntur á loforð Jehóva um að gefa honum ótal niðja. Og í fyllingu tímans eignaðist Abraham erfingja eins og Jehóva hafði lofað. – 1. Mós. 21:1, 2.

9. Hvernig getum við líkt eftir Abraham í þjónustu Guðs?

9 Líkt og Abraham bíðum við þess að loforð Guð rætist. (2. Pét. 3:13) Ef við hugsum ekki um það sem er hið efra gæti okkur fundist að Jehóva sé seinn að uppfylla loforð sín og við gætum hægt á okkur í þjónustu hans. Þú færðir kannski fórnir einhvern tíma til að geta verið brautryðjandi eða til að auka þjónustu þína á einhverju öðru sviði. Ef svo er áttu hrós skilið. En hver er staðan núna? Mundu að Abraham „vænti þeirrar borgar sem hefur traustan grunn“. (Hebr. 11:10) Hann „trúði Guði og það var honum til réttlætis reiknað“. – Rómv. 4:3.

MÓSE SÁ „HINN ÓSÝNILEGA“

10. Við hvaða aðstæður bjó Móse sem ungur maður?

10 Móse hugsaði einnig um það sem er hið efra. Sem ungur maður var hann „fræddur í allri speki Egypta“. Þetta var engin venjuleg menntun. Egyptaland var ekki aðeins voldugasta ríki þess tíma heldur var Móse auk þess alinn upp í fjölskyldu faraós og fékk menntun samkvæmt því. Það er skiljanlegt að hann skyldi verða „máttugur í orðum sínum og verkum“. (Post. 7:22) Hugsaðu þér hvílík tækifæri hljóta að hafa staðið honum til boða. En það voru háleitari mál sem áttu hug hans allan. Hann vildi gera vilja Guðs.

11, 12. Hvaða menntun mat Móse mikils og hvernig vitum við það?

11 Meðan Móse var á barnsaldri hefur Jókebed, móðir hans, örugglega frætt hann um Guð Hebrea. Móse mat það svo að þekkingin á Jehóva væri meira virði en nokkuð annað. Þess vegna afsalaði hann sér þeim forréttindum og tækifærum sem hafa líklega fylgt því að búa á heimili faraós. (Lestu Hebreabréfið 11:24-27.) Kennslan, sem hann fékk hjá móður  sinni, og trúin á Jehóva varð til þess að hann hugsaði um það sem er hið efra.

12 Móse hlaut bestu menntun sem heimurinn hafði upp á að bjóða á þeim tíma. En notaði hann hana til að koma sér áfram í Egyptalandi, skapa sér nafn eða verða ríkur? Nei. Ef hann hefði gert það hefði hann ekki hafnað því „að vera talinn dóttursonur faraós“. Hann hefði ekki kosið fremur að „þola illt með lýð Guðs en njóta skammvinns unaðar af syndinni“. Móse notaði greinilega þekkingu sína á Jehóva til að stuðla að því að vilji hans næði fram að ganga.

13, 14. (a) Hvernig varð Móse hæfur til að fara með það hlutverk sem Jehóva gaf honum? (b) Hvað þurfum við líka að læra?

13 Móse þótti ákaflega vænt um Jehóva og þjóð hans. Hann hélt að hann væri tilbúinn til að frelsa þjóðina úr ánauð Egypta þegar hann var fertugur. (Post. 7:23-25) En Móse átti ýmislegt ólært áður en Jehóva gat falið honum þetta verkefni. Hann þurfti að þroska með sér auðmýkt, þolinmæði, mildi og sjálfstjórn svo nokkuð sé nefnt. (Orðskv. 15:33) Það þurfti að búa hann undir þær prófraunir og þá erfiðleika sem biðu hans. Með því að starfa sem fjárhirðir í nokkra áratugi gat hann lært það sem þurfti til að tileinka sér þessa eiginleika.

14 Lærði Móse það sem hann þurfti? Já. Í Biblíunni segir að Móse hafi orðið „hógvær maður, hógværari en nokkur annar á jörðinni“. (4. Mós. 12:3) Hann lærði auðmýkt og hún hjálpaði honum að vera þolinmóður í samskiptum við alls konar fólk sem átti við alls konar vandamál að glíma. (2. Mós. 18:26) Við þurfum líka að þroska með okkur eiginleika sem geta hjálpað okkur að komast gegnum ,þrenginguna miklu‘ inn í nýjan réttlátan heim Guðs. (Opinb. 7:14) Lyndir okkur við alla, meðal annars þá sem okkur finnst vera uppstökkir eða óhóflega viðkvæmir? Við skulum gera eins og Pétur postuli hvatti trúsystkini sín til: „Virðið alla menn, elskið samfélag þeirra sem trúa.“ – 1. Pét. 2:17.

HUGSUM EINBEITT UM ÞAÐ SEM ER HIÐ EFRA

15, 16. (a) Hvers vegna er mikilvægt að einbeita sér að því sem er rétt? (b) Af hverju þurfa kristnir menn að hegða sér vel?

15 Við lifum á erfiðum tímum. (2. Tím. 3:1) Það er því mikilvægt að einbeita sér að því sem er rétt til að halda andlegri vöku sinni. (1. Þess. 5:6-9) Við skulum líta á þrjú svið í lífinu þar sem við getum gert það.

16 Hegðun okkar: Pétur bendir á að góð hegðun skipti miklu máli. Hann segir: „Hegðið ykkur vel meðal þjóðanna, til þess að þeir ... sjái góðverk ykkar og vegsami Guð.“ (1. Pét. 2:12) Hvort sem við erum heima, í vinnu, í skóla, að leika okkur eða að boða fagnaðarerindið leggjum við okkur í líma við að heiðra Jehóva með því að hegða okkur vel. Við erum auðvitað ófullkomin og gerum ýmis mistök. (Rómv. 3:23) Með því að berjast „trúarinnar góðu baráttu“ getum við hins vegar sigrað í baráttunni við ófullkomleika okkar. – 1. Tím. 6:12.

17. Hvernig getum við líkt eftir hugarfari Jesú? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

17 Hugarfar okkar: Góð hegðun er nátengd réttu hugarfari. „Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var,“ skrifaði Páll postuli. (Fil. 2:5) Hvernig  var hugarfar Jesú? Hann var auðmjúkur og þess vegna var hann líka fórnfús. Það var honum alltaf efst í huga að boða fagnaðarerindið um ríki Guðs. (Mark. 1:38; 13:10) Jesús leit svo á að heilög ritning hefði síðasta orðið. (Jóh. 7:16; 8:28) Hann var duglegur að lesa og hugleiða orð Guðs til að geta vitnað í það, varið það og skýrt. Ef við reynum að hugsa eins og Kristur erum við líka auðmjúk, dugleg að boða fagnaðarerindið og iðin við biblíunám.

Það var Jesú efst í huga að boða fagnaðarerindið um ríki Guðs. (Sjá 17. grein.)

18. Á hvaða mikilvæga hátt getum við stutt starf Jehóva?

18 Stuðningur okkar: Það er vilji Jehóva að „fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni [og] jörðu“. (Fil. 2:9-11) Jafnvel þó að Jesús fari með svona háa stöðu er hann föður sínum undirgefinn. (1. Kor. 15:28) Við ættum að vera það líka. Hvernig sýnum við það? Með því að styðja af heilum hug það starf sem okkur hefur verið falið að gera, það er að segja að ,gera allar þjóðir að lærisveinum‘. (Matt. 28:19) Við viljum líka „gera öllum gott“, bæði náunganum og trúsystkinum okkar. – Gal. 6:10.

19. Hvað ættum við að vera ákveðin í að gera?

19 Við erum Jehóva innilega þakklát fyrir að minna okkur á að hugsa um það sem er hið efra. Við þurfum að ,þreyta þolgóð það skeið sem við eigum fram undan‘. (Hebr. 12:1) Við skulum öll starfa „af heilum huga eins og Drottinn ætti í hlut“ vitandi að hann, faðirinn á himnum, launar okkur fyrir. – Kól. 3:23, 24.