Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ertu sannfærður um að þú hafir fundið sannleikann? Hvers vegna?

Ertu sannfærður um að þú hafir fundið sannleikann? Hvers vegna?

„Fullvissið ykkur um hver sé hinn góði, geðfelldi og fullkomni vilji Guðs.“ – RÓMV. 12:2, NW.

1. Hvað hafa prestar kristna heimsins gert á stríðstímum?

ER ÞAÐ vilji Guðs að sannkristnir menn fari í stríð og drepi fólk af öðru þjóðerni? Síðastliðin 100 ár hafa margir sem kalla sig kristna gert það. Kaþólskir herprestar hafa blessað hersveitir og vopn í stríði gegn kaþólskum mönnum af annarri þjóð. Herprestar mótmælenda hafa gert slíkt hið sama. Síðari heimsstyrjöldin er átakanlegt dæmi um manndrápin sem það hafði í för með sér.

2, 3. Hvaða afstöðu tóku vottar Jehóva í síðari heimsstyrjöldinni og á öðrum tímum og hvers vegna?

2 Hvað gerðu vottar Jehóva í síðari heimsstyrjöldinni? Þeir voru hlutlausir eins og sögulegar heimildir bera með sér. Á hverju byggðu þeir afstöðu sína? Hún byggðist fyrst og fremst á fordæmi og kenningum Jesú. Hann sagði: „Á því munu allir þekkja að þér eruð mínir lærisveinar ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóh. 13:35) Þeir tóku líka mið af rökfærslu Páls postula í síðara bréfi hans til kristinna manna í Korintu. – Lestu 2. Korintubréf 10:3, 4.

3 Sannskristnir menn vilja hvorki læra að berjast né taka þátt í hernaði vegna þess að þeir hafa þjálfað samviskuna  með hjálp Biblíunnar. Þúsundir votta, jafnt ungir sem gamlir og karlar sem konur, hafa verið ofsóttir vegna þess að þeir kusu að lifa eins og sannkristnir menn. Margir hafa verið fangelsaðir eða hnepptir í þrælabúðir og sumir jafnvel myrtir. Það gerðist meðal annars í Þýskalandi í valdatíð nasista. En þrátt fyrir grimmilegar ofsóknir í Evrópu gleymdu vottarnir aldrei að það væri verkefni þeirra að boða fagnaðarerindið um ríki Jehóva. Þeir gerðu það dyggilega – í fangelsi, fangabúðum og útlegð. * Vottarnir tóku engan þátt í fjöldamorðunum í Rúanda árið 1994. Þeir voru líka hlutlausir í blóðsúthellingunum á Balkanskaga þegar Júgóslavía var að liðast í sundur.

4. Hvaða áhrif hefur hlutleysi votta Jehóva haft á fólk?

4 Hlutleysi votta Jehóva hefur sannfært þúsundir manna um heim allan um að vottarnir elski Guð og náungann í raun og veru. Með öðrum orðum iðka þeir sanna kristni. En ýmislegt annað varðandi tilbeiðslu okkar hefur líka sannfært marga um að vottar Jehóva séu sannir fylgjendur Krists.

MESTA FRÆÐSLUÁTAK SÖGUNNAR

5. Hvaða breytingu þurftu lærisveinar Jesú að laga sig að?

5 Allt frá því að Jesús hóf þjónustu sína lagði hann áherslu á að það ætti að boða fagnaðarerindið um ríki Guðs. Hann valdi 12 lærisveina til að leggja grunninn að þessari boðun sem átti síðar að fara fram um allan heim. Eftir það kenndi hann 70 lærisveinum til viðbótar. (Lúk. 6:13; 10:1, neðanmáls) Þeir áttu að flytja öðrum fagnaðarerindið. Í fyrstu áttu þeir að fara til Gyðinga en síðar áttu þeir að boða það óumskornu fólki af þjóðunum. Það hlýtur að hafa verið mikil nýlunda fyrir Gyðingana, sem voru lærisveinar hans, að boða öðrum þjóðum fagnaðarerindið. – Post. 1:8.

6. Hvernig skildi Pétur að Jehóva fer ekki í manngreinarálit?

6 Pétur postuli var sendur á heimili Kornelíusar en hann var óumskorinn og af öðru þjóðerni. Pétur gerði sér þá ljóst að Guð fór ekki í manngreinarálit. Kornelíus og heimafólk hans lét skírast. Kristnin hélt nú innreið sína á þessum nýja vettvangi og fólk af öllum þjóðum gat fengið að heyra sannleikann og tekið við honum. (Post. 10:9-48) Akurinn hafði stækkað og var nú allur heimurinn.

7, 8. Hvað hefur söfnuður Jehóva gert til að auðvelda fólki að taka við fagnaðarerindinu? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

7 Þeir sem fara með forystuna í söfnuði votta Jehóva nú á dögum hafa beitt sér af krafti fyrir því að fagnaðarerindið sé boðað og kennt um allan heim. Næstum átta milljónir votta Jehóva leggja sig alla fram um að boða boðskap Krists á rösklega 600 tungumálum, og talan hækkar jafnt og þétt. Vottar Jehóva eru auðþekktir á því að þeir boða trúna hús úr húsi og á götum úti, stundum með sýningarborð og ritatrillur.

8 Meira en 2.900 þýðendur hafa fengið sérhæfða kennslu til að þýða Biblíuna og biblíutengd rit. Þeir einskorða sig alls ekki við þau mál sem oft eru talin helstu tungumál heims. Þeir þýða einnig á hundruð tungumála sem eru lítt þekkt en eru samt töluð af milljónum  manna. Svo dæmi sé tekið er katalónska móðurmál milljóna manna á Spáni og þeir tala hana dagsdaglega. Undanfarið hafa katalónska og mállýskur hennar náð sér á strik að nýju í Andorra, Alicante, Valencia og á Baleareyjum. Vottar Jehóva gefa nú út biblíutengd rit á katalónsku og samkomur eru haldnar á málinu sem nær til hjartans hjá þeim sem búa á svæðinu.

9, 10. Hvað er til vitnis um að söfnuði Guðs sé annt um andlegar þarfir allra?

9 Út um allan heim eru þýdd biblíutengd rit og fólki er kennt á því máli sem það skilur best. Mexíkó er spænskumælandi land en þar eru líka allstórir hópar frumbyggja sem tala önnur tungumál. Majar eru einn þeirra. Deildarskrifstofan í Mexíkó ákvað að teymið, sem þýðir á maja, skyldi búa á svæði þar sem þýðendurnir geta talað málið og heyrt það daglega. Nepalska er annað dæmi en hún er eitt af 120 tungumálum sem eru töluð í Nepal. Rúmlega 29 milljónir manna búa í Nepal en rösklega 10 milljónir eiga nepölsku að móðurmáli. Fjöldi annarra talar hana einnig auk móðurmáls síns. Þeir geta allir lesið biblíutengd rit sem við gefum út á nepölsku.

10 Söfnuður Jehóva tekur það verkefni að boða fagnaðarerindið um ríkið út um allan heim mjög alvarlega. Allir þýðendurnir, sem starfa á okkar vegum, eru til vitnis um það. Smáritum, bæklingum og tímaritum hefur verið dreift í milljónatali alls staðar í heiminum án endurgjalds. Frjáls framlög votta Jehóva standa undir kostnaðinum en þeir gera eins og Jesús sagði: „Gefins hafið þér fengið, gefins skuluð þér láta í té.“ – Matt. 10:8.

Teymi þýðenda vinnur að útgáfu rita á lágþýsku. (Sjá 10. grein.)

Rit á lágþýsku koma að góðum notum í Paragvæ.

(Sjá einnig mynd í upphafi greinar.)

11, 12. Hvaða áhrif hefur boðun votta Jehóva út um allan heim haft á fólk?

11 Vottar Jehóva eru algerlega sannfærðir um að þeir hafi fundið sannleikann og færa þess vegna miklar fórnir til að geta boðað hann og kennt fólki af öðrum þjóðum og menningarsamfélögum. Margir hafa einfaldað líf sitt, lært annað tungumál og lagað sig að framandi menningu til að geta tekið þátt í þessu mikilvæga verki. Boðunin og kennslan, sem fer fram um allan heim, er annað sem sannfærir marga  um að vottar Jehóva fylgi Kristi Jesú í raun og sannleika.

12 Vottar Jehóva gera allt þetta vegna þess að þeir eru sannfærðir um að þeir hafi fundið sannleikann. En hvað annað hefur sannfært milljónir manna um að svo sé? – Lestu Rómverjabréfið 14:17, 18.

HVERS VEGNA TRÚA ÞAU?

13. Hvernig hafa Vottar Jehóva haldið söfnuðinum hreinum?

13 Það getur verið hvetjandi fyrir okkur að heyra bræður og systur lýsa hvers vegna þau eru sannfærð um að þau hafi fundið sannleikann. Gamalreyndur þjónn Jehóva sagði: „Allt er gert til að halda söfnuði Jehóva siðferðilega hreinum og óspilltum, óháð því hver það er sem þarf að fá leiðbeiningar eða ögun.“ Hvernig heldur söfnuðurinn uppi þessu háleita siðferði? Með því að fylgja þeim siðferðisreglum sem er að finna í Biblíunni og með því að líkja eftir Jesú og lærisveinum hans. Það er því fremur sjaldgæft að það þurfi að víkja fólki úr söfnuðinum fyrir að fylgja ekki siðferðisreglum Guðs. Yfirgnæfandi meirihluti lifir hreinu lífi og er til fyrirmyndar. Meðal þeirra eru margir sem lifðu ekki í samræmi við mælikvarða Jehóva en breyttu sér þegar þeir gerðust vottar. – Lestu 1. Korintubréf 6:9-11.

14. Hvað hafa margir gert eftir að þeim var vikið úr söfnuðinum og hvaða áhrif hefur það haft á aðra?

14 Hvað um þá sem er vikið úr söfnuðinum í samræmi við leiðbeiningar Biblíunnar? Þúsundir hafa iðrast þess að lifa ókristilega og snúið aftur til safnaðarins. (Lestu 2. Korintubréf 2:6-8.) Kristni söfnuðurinn er hreinn vegna þess að hann fylgir háleitum siðferðisreglum Biblíunnar, og það er traustvekjandi. Í mörgum kirkjufélögum má fólk hegða sér eins og því sýnist en þjónar Jehóva fylgja mælikvarða hans. Það hefur sannfært marga um að vottarnir ástundi sannleikann.

15. Hvað hefur sannfært bróður nokkurn um að hann hafi fundið sannleikann?

15 Hvað annað hefur sannfært reynda votta um að þeir hafi fundið sannleikann? Rúmlega fimmtugur bróðir segir: „Síðan ég var unglingur hef ég litið svo á að trú mín byggist á þrem forsendum: (1) að Guð sé til, (2) að hann hafi innblásið Biblíuna og (3) að Vottar Jehóva séu söfnuðurinn sem hann styður og leggur blessun sína yfir nú á dögum. Í biblíunámi mínu hef ég alltaf reynt að sannprófa þessar forsendur og spurt mig hvort þær hvíli á traustum grunni. Rökin fyrir þeim öllum hafa vaxið ár frá ári og styrkt trú mína og þá sannfæringu að við höfum í alvöru fundið sannleikann.“

16. Hvað hefur sannfært systur nokkra um að hún hafi fundið sannleikann?

 16 Gift systir, sem starfar við aðalstöðvarnar í New York, segir um söfnuð Jehóva: „Þetta er eini söfnuðurinn sem boðar nafn Jehóva staðfastlega. Það er fullkomlega rökrétt þegar maður hugsar til þess að nafn Guðs stendur um 7.000 sinnum í Biblíunni. Mér finnst hvetjandi að lesa í 2. Kroníkubók 16:9: ,Augu Drottins skima um alla jörðina til þess að geta komið þeim til hjálpar sem eru heils hugar við hann.‘“ Hún heldur áfram: „Sannleikurinn hefur kennt mér að vera heilshugar þannig að Jehóva geti veitt mér styrk að vild sinni. Sambandið við Jehóva er mér ákaflega dýrmætt. Og ég er þakklát fyrir að Jesús skuli veita nána þekkingu á Guði sem heldur mér uppi.“

17. Hvað er fyrrverandi trúleysingi sannfærður um og hvers vegna?

17 Bróðir, sem var áður trúleysingi, segir: „Sköpunarverkið sannfærir mig um að Guð vilji að mannkynið njóti tilverunnar og þess vegna láti hann ekki þjáningarnar halda endalaust áfram. Heimurinn fjarlægist Guð sífellt meira en þjónar Jehóva styrkja trúna, kostgæfnina og kærleikann. Ekkert nema andi Jehóva getur gert þetta kraftaverk.“ – Lestu 1. Pétursbréf 4:1-4.

18. Hvernig lýsa tveir bræður afstöðu sinni og hvað finnst þér um það sem þeir segja?

18 Annar vottur, sem hefur verið lengi í trúnni, útskýrir hvers vegna hann trúi að það sem við boðum sé sannleikurinn: „Af áralöngu biblíunámi mínu hef ég sannfærst um að vottarnir hafi gert sitt ýtrasta til að fylgja fyrirmynd kristinna manna á fyrstu öld. Á ferðum mínum um heiminn hef ég séð með eigin augum að vottar Jehóva alls staðar eru sameinaðir. Sannleikur Biblíunnar hefur veitt mér lífsfyllingu og hamingju.“ Þegar rúmlega sextugur bróðir var spurður hvers vegna hann væri sannfærður um að hann hefði fundið sannleikann beindi hann athyglinni að Jesú Kristi og sagði: „Við höfum kynnt okkur vandlega ævi og þjónustu Jesú og erum þakklát fyrir fyrirmynd hans. Við höfum breytt ýmsu í lífi okkar til að geta nálgast Guð fyrir milligöngu Krists Jesú. Við höfum viðurkennt að hjálpræði okkar byggist á lausnarfórn Krists. Og við vitum að hann var reistur upp frá dauðum. Við höfum vitnisburð áreiðanlegra sjónarvotta fyrir því.“ – Lestu 1. Korintubréf 15:3-8.

SEGÐU ÖÐRUM FRÁ SANNLEIKANUM

19, 20. (a) Hvaða ábyrgð nefnir Páll í bréfi sínu til safnaðarins í Róm? (b) Hvað þurfa allir þjónar Jehóva að gera?

19 Sannkristnir menn elska náungann. Þess vegna segja þeir fólki frá sannleikanum sem er þeim svo kær. Páll skrifaði trúsystkinum sínum í söfnuðinum í Róm: „Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn, og trúir í hjarta þínu að Guð hafi upp vakið hann frá dauðum verður þú hólpinn. Með hjartanu er trúað til réttlætis, með munninum játað til hjálpræðis.“ – Rómv. 10:9, 10.

20 Við erum vígðir vottar Jehóva og erum sannfærð um að við höfum fundið sannleikann. Við vitum líka að það er mikill heiður að fá að kenna fólki fagnaðarerindið um ríki Guðs. Þegar þú tekur þátt í boðuninni skaltu hafa það sem markmið bæði að fræða aðra um Biblíuna og jafnframt sýna að þú sért algerlega sannfærður um að þú hafir fundið sannleikann.

^ gr. 3 Sjá bókina Jehovah’s Witnesses – Proclaimers of God’s Kingdom, bls. 191-198, 448-454.