Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þjónum Guði trúföst þrátt fyrir „margar þrautir“

Þjónum Guði trúföst þrátt fyrir „margar þrautir“

„Við verðum að þola margar þrautir áður en við komumst inn í Guðs ríki.“ – POST. 14:22.

1. Hvers vegna kemur það þjónum Guðs ekki á óvart að þeir þurfi að þola ýmsar þrautir?

BREGÐUR þér við að heyra að þú megir búast við að ganga gegnum „margar þrautir“ áður en þú hlýtur eilíft líf? Sennilega ekki. Hvort sem þú ert nýr í trúnni eða hefur þjónað Jehóva lengi veistu að þrautir og þrengingar tilheyra lífinu í heimi Satans. – Opinb. 12:12.

2. (a) Hvers konar þrautum verða kristnir menn fyrir auk þeirra erfiðleika sem allir ófullkomnir menn eiga við að glíma? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hver stendur á bak við ofsóknirnar og hvernig vitum við það?

2 Kristnir menn þurfa að þola ýmsar þrautir auk þeirra erfiðleika sem verða á vegi allra ófullkominna manna. (1. Kor. 10:13) Hvaða þrautir eru það? Þetta er sú mikla andstaða sem þeir verða fyrir vegna þess að þeir fylgja lögum Guðs staðfastlega. Jesús sagði við fylgjendur sína: „Þjónn er ekki meiri en herra hans. Hafi menn ofsótt mig þá munu þeir líka ofsækja yður.“ (Jóh. 15:20) Hver stendur á bak við þessar ofsóknir? Það er Satan en í Biblíunni er hann kallaður „öskrandi ljón“ og sagt að hann sækist eftir að ,tortíma‘ þjónum Guðs. (1. Pét. 5:8) Satan beitir öllum brögðum til  að gera okkur ótrú Guði. Páll postuli kynntist því af eigin raun.

ÞRAUTIR Í LÝSTRU

3-5. (a) Í hvaða þrautum lenti Páll í Lýstru? (b) Hvers vegna var það styrkjandi sem hann sagði um þrautirnar?

3 Páll var oftar en einu sinni ofsóttur vegna trúar sinnar. (2. Kor. 11:23-27) Eitt skiptið gerðist það í Lýstru. Eftir að Páll hafði læknað mann, sem var lamaður frá fæðingu, voru þeir Barnabas hylltir eins og væru þeir guðir. Mannfjöldinn ærðist og tvímenningarnir urðu að sárbæna fólk um að tilbiðja sig ekki. En fyrr en varði komu andstæðingar af hópi Gyðinga og rægðu þá Pál og Barnabas. Mannfjöldinn trúði Gyðingum, kúventi, grýtti Pál og taldi sig hafa ráðið honum bana. – Post. 14:8-19.

4 Eftir að Páll og Barnabas höfðu heimsótt Derbe „sneru þeir aftur til Lýstru, Íkóníum og Antíokkíu, styrktu lærisveinana og hvöttu þá til að vera staðfastir í trúnni. Þeir sögðu: ,Við verðum að þola margar þrautir áður en við komumst inn í Guðs ríki.‘“ (Post. 14:21, 22) Við fyrstu sýn gæti þetta virst undarlega að orði komist. Það er nú ekki beinlínis hvetjandi að sjá fyrir sér að þurfa að þola „margar þrautir“. Hvernig getur það staðist að Páll og Barnabas hafi ,styrkt lærisveinana‘ með því að segja þeim að meiri erfiðleikar væru fram undan?

5 Við fáum svar við spurningunni ef við skoðum vel það sem Páll skrifaði. Hann talaði ekki bara um að við yrðum að þola margar þrautir heldur sagði: „Við verðum að þola margar þrautir áður en við komumst inn í Guðs ríki.“ Við sjáum að Páll styrkti lærisveinana með því að benda á jákvæðar afleiðingar þess að vera trúr. Launin voru engin tálsýn því að Jesús sagði: „Sá sem staðfastur er allt til enda mun frelsast.“ – Matt. 10:22.

6. Hvaða laun hljóta þeir sem eru staðfastir?

6 Við eigum laun í vændum ef við erum staðföst. Andasmurðir kristnir menn hljóta þau laun að verða ódauðlegir meðstjórnendur Jesú á himnum. ,Aðrir sauðir‘ fá að launum eilíft líf á jörð „þar sem réttlæti býr“. (Jóh. 10:16; 2. Pét. 3:13) En eins og Páll bendir á verða margar þrautir á vegi okkar áður en að því kemur. Við skulum líta á tvenns konar þrautir sem við getum lent í.

BEINAR ÁRÁSIR

7. Hvaða beinu árásir gerir Satan?

7 Jesús sagði: „Menn munu draga yður fyrir dómstóla, í samkundum verðið þér húðstrýkt og þér munuð leidd fyrir landshöfðingja og konunga.“ (Mark. 13:9) Eins og þessi orð bera með sér mega sumir þjónar Guðs búast við þrautum í mynd beinna ofsókna, ef til vill að undirlagi trúar- eða stjórnmálaleiðtoga. (Post. 5:27, 28) Við skulum aftur líta til Páls. Hryllti hann við tilhugsuninni að verða ofsóttur? Alls ekki. – Lestu Postulasöguna 20:22, 23.

8, 9. Hvernig lét Páll í ljós að hann væri staðráðinn í að halda út, og hvað hafa sumir mátt þola vegna trúar sinnar?

8 Páll veigraði sér ekki við að taka beinum árásum Satans. Hann sagði: „Mér er líf mitt einskis virði fái ég aðeins að fullna skeið mitt og þá þjónustu sem Drottinn Jesús fól mér: Að bera vitni fagnaðarerindinu um Guðs náð.“ (Post. 20:24) Það er greinilegt að Páll var óhræddur þó að hann mætti búast við ofsóknum. Hann var ákveðinn í að  halda út, hvað sem yrði á vegi hans. Honum var mikið í mun að „bera vitni fagnaðarerindinu“ í blíðu og stríðu.

9 Bræður okkar og systur nú á dögum eru sömuleiðis staðráðin í að vera Guði trú. Í einu landi hafa nokkrir vottar setið í fangelsi í næstum 20 ár vegna hlutleysis síns. Þeir hafa aldrei verið leiddir fyrir rétt og þar í landi er ekki hægt að fá undanþágu frá herþjónustu af samviskuástæðum. Ættingjar hafa ekki einu sinni mátt heimsækja þá í fangelsið, og sumir fanganna hafa verið barðir og pyndaðir.

10. Hvers vegna ættum við ekki að óttast skyndilegar þrautir og þrengingar?

10 Bræður og systur standast þrautir og þrengingar sem verða skyndilega á vegi þeirra. En vertu óhræddur ef það hendir þig. Hugsaðu til Jósefs. Hann var seldur í þrælkun en Jehóva „frelsaði hann úr öllum þrengingum hans“. (Post. 7:9, 10) Jehóva getur frelsað þig líka. Mundu að hann „veit ... hvernig hann á að hrífa hina guðhræddu úr freistingu“ og prófraunum. (2. Pét. 2:9) Ætlarðu að treysta Jehóva skilyrðislaust, vitandi að hann getur frelsað þig úr þessum illa heimi og gefið þér tækifæri til að lifa að eilífu undir stjórn ríkis hans? Þú hefur fulla ástæðu til þess og til að vera hugrakkur í ofsóknum. – 1. Pét. 5:8, 9.

LÚMSKAR ÁRÁSIR

11. Lýstu muninum á lúmskum árásum Satans og beinum árásum.

11 Við getum líka orðið fyrir lúmskum árásum. Hver er munurinn á þeim og beinum árásum í mynd ofsókna? Beinar árásir eru eins og skýstrókur sem gengur yfir bæinn og eyðileggur hús á augabragði. Lúmskum árásum má hins vegar líkja við termíta sem éta smám saman upp innviði húss uns það hrynur skyndilega. Það er óvíst að maður viti af hættunni fyrr en um seinan.

12. (a) Hvaða lúmsku aðferð beitir Satan oft og hvers vegna er hún mjög áhrifarík? (b) Hvernig var Páli stundum innanbrjósts?

12 Satan vill spilla sambandi þínu við Jehóva, annaðhvort með beinum ofsóknum eða með því að grafa hægt og bítandi undan trú þinni með lúmskum aðferðum. Einhver áhrifaríkasta aðferð hans er að gera okkur kjarklítil og niðurdregin. Páll postuli viðurkennir að hann hafi stundum verið niðurdreginn. (Lestu Rómverjabréfið 7:21-24.) Hví skyldi Páll hafa kallað sig ,auman mann‘ – hann sem var þvílíkur „klettur“ og sat sennilega í stjórnandi ráði fyrstu aldar? Páll segir að það hafi verið ófullkomleikinn sem vakti þessa tilfinningu hjá honum. Hann vildi fyrir alla muni gera rétt en fann fyrir öðru afli sem vann gegn honum. Áttu stundum í baráttu við slíkar kenndir? Finnst þér þá ekki hughreystandi að vita að Páll postuli skuli hafa átt í sömu baráttu og þú?

13, 14. (a) Hvað veldur því að þjónar Guðs verða stundum niðurdregnir og kjarklitlir? (b) Hver vill spilla trú okkar og hvers vegna?

13 Flestir þjónar Jehóva þekkja það að vera stundum niðurdregnir, kvíðnir og finnast þeir jafnvel einskis virði. Dugleg brautryðjandasystir, sem við skulum kalla Debóru, segir: „Þegar ég geri mistök hendir það mig að hugsa um það aftur og aftur og líða verr í hvert sinn. Þegar ég hugsa um allt sem mér hefur orðið á líður mér stundum eins og enginn geti nokkurn tíma elskað mig, ekki einu sinni Jehóva.“

14 Hvað veldur því að sumir duglegir þjónar Jehóva eins og Debóra verða niðurdregnir? Orsakirnar geta verið  margar. Sumir hafa hreinlega tilhneigingu til að hugsa neikvætt um sjálfa sig eða aðstæður sínar. (Orðskv. 15:15) Hjá öðrum geta neikvæðar kenndir átt sér líkamlegar orsakir sem hafa áhrif á tilfinningarnar. Hver sem ástæðan er þurfum við að hafa hugfast hver það er sem vill notfæra sér slíkar tilfinningar. Hver vill að við verðum svo niðurdregin og kjarklítil að við gefumst upp? Það er auðvitað Satan. Hann hefur fengið dauðadóm og vill að þér finnist þú vera í sömu vonlausu aðstöðunni og hann. (Opinb. 20:10) Sannleikurinn er sá að Satan hefur sama markmiðið með beinum árásum sínum og þeim lúmsku – að valda okkur áhyggjum, draga úr okkur þrótt og fá okkur til að gefast upp. Þjónar Guðs eiga í andlegum hernaði, á því leikur enginn vafi.

15. Hvernig getum við sýnt að við séum staðráðin í að láta ekki depurð eða kjarkleysi taka völdin?

15 Vertu staðráðinn í að gefast ekki upp í baráttunni. Horfðu á launin. Páll skrifaði kristnum mönnum í Korintu: „Fyrir því læt ég ekki hugfallast. Jafnvel þótt minn ytri maður hrörni þá endurnýjast dag frá degi minn innri maður. Þrenging mín er skammvinn og léttbær og aflar mér eilífrar dýrðar sem stórum yfirgnæfir allt.“ – 2. Kor. 4:16, 17.

BÚÐU ÞIG NÚNA UNDIR ÞRAUTIR OG ERFIÐLEIKA

Bæði ungir og gamlir æfa sig í að verja trúna. (Sjá 16. grein.)

16. Hvers vegna er mikilvægt að búa sig núna undir þrautir og erfiðleika?

16 Eins og við höfum séð hefur Satan alls konar „vélabrögð“ á takteinum. (Ef. 6:11) Við þurfum öll að gera eins og ráðlagt er í 1. Pétursbréfi 5:9. Þar segir: „Standið gegn honum stöðug í trúnni.“ Til að gera það þurfum við að vera undirbúin í huga og hjarta. Við þurfum að  þjálfa okkur núna í að gera rétt. Lýsum þessu með dæmi: Hermenn eru oft látnir ganga í gegnum strangar æfingar löngu áður en það er nokkur hætta á átökum. Hið sama er að segja um andlegan her Jehóva. Við vitum ekki í hvers konar átökum við eigum eftir að lenda í framtíðinni. Þess vegna er skynsamlegt að æfa okkur af krafti meðan það ríkir sæmilegur friður. Páll skrifaði söfnuðinum í Korintu: „Rannsakið hvort trú ykkar kemur fram í breytni ykkar, prófið ykkur sjálf.“ – 2. Kor. 13:5.

17-19. (a) Hvernig getum við rannsakað sjálf okkur? (b) Hvernig geta börn og unglingar verið tilbúin til að verja trú sína í skólanum?

17 Ítarleg sjálfsrannsókn er ein leið til að gera eins og Páll ráðleggur. Spyrðu þig spurninga á borð við: Bið ég reglulega? Hlýði ég Guði frekar en mönnum þegar ég verð fyrir hópþrýstingi? Sæki ég samkomur reglulega? Er ég ófeiminn að tala um trú mína? Reyni ég í alvöru að umbera galla trúsystkina minna, rétt eins og þau umbera mína? Er ég eftirlátur öldungunum í heimasöfnuðinum mínum og þeim sem fara með forystuna í alþjóðasöfnuðinum?

18 Tvær af spurningunum snúast um að vera ófeiminn að verja trúna og að standast hópþrýsting. Mörg af börnunum okkar þurfa að gera það í skólanum. Þau hafa lært að verja trú sína óttalaust. Þau hafa stuðst við tillögur sem er að finna í blöðunum okkar. Til dæmis var rætt í Varðturninum 15. maí 2013, bls. 6, hvernig hægt væri að beita spurningum til að rökræða við skólafélagana og gera það af sannfæringu. Foreldrar, hjálpið börnunum að æfa sig í að verja trú sína svo að þau séu undirbúin að gera það í skólanum.

19 Vitanlega er ekki alltaf auðvelt að verja trú sína eða gera annað sem Jehóva vill að við gerum. Við getum þurft að taka á honum stóra okkar til að fara á samkomu eftir langan og strangan vinnudag. Það getur verið töluvert átak að hífa sig upp úr hlýju rúminu að morgni dags til að fara í boðunarstarfið. En mundu að það verður auðveldara að standast erfiðari þrautir í framtíðinni ef þú temur þér góðar venjur á þessu sviði núna.

20, 21. (a) Hvernig getum við barist gegn neikvæðum kenndum með því að hugsa um lausnargjaldið? (b) Í hverju ættum við að vera staðráðin?

20 Hvað um lúmsku árásirnar? Hvernig getum við unnið bug á depurð og kjarkleysi, svo dæmi sé tekið? Einhver besta leiðin er að hugleiða lausnargjaldið. Páll postuli gerði það. Stundum leið honum ömurlega. En hann vissi að Kristur dó ekki fyrir fullkomið fólk heldur syndara. Og Páll var einn af þessum syndurum. Hann skrifaði: „Ég [lifi] í trúnni á Guðs son sem elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig.“ (Gal. 2:20) Páll trúði á lausnargjaldið og vissi að það náði til hans persónulega.

21 Þetta viðhorf – að sjá lausnargjaldið sem persónulega gjöf frá Jehóva – getur hjálpað þér meira en nokkuð annað. Það er ekki þar með sagt og depurðin og kjarkleysið hverfi eins og dögg fyrir sólu. Að vissu marki þurfa mörg okkar eflaust að berjast við þennan lúmska óvin þangað til nýi heimurinn gengur í garð. En mundu að þeir sem gefast ekki upp fá launin. Með hverjum deginum sem líður nálgast sá tími þegar ríki Guðs kemur á friði og allir sem þjóna Guði verða fullkomnir. Vertu staðráðinn í að ganga inn í ríki Guðs, jafnvel þó að þú þurfir að þola margar þrautir þangað til.