Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig nálgast Jehóva okkur?

Hvernig nálgast Jehóva okkur?

„Nálægið ykkur Guði og þá mun hann nálgast ykkur.“ – JAK. 4:8.

1. Hvaða þörf hafa mennirnir og hverjir geta fullnægt þessari þörf?

VIÐ mennirnir höfum sterka þörf fyrir að eiga náin tengsl við aðra. Fólk er sagt eiga náin tengsl ef því geðjast vel hvert að öðru og þekkist vel. Það er notaleg tilfinning að eiga ættingja og vini sem elska okkur, meta okkur og skilja okkur. En sá sem við þurfum að eiga nánasta sambandið við er skapari okkar, Jehóva. – Préd. 12:1.

2. Hverju lofar Jehóva en hvers vegna eiga margir erfitt með að trúa því?

2 Í Biblíunni erum við hvött til að ,nálægja okkur‘ Jehóva og hann lofar að ,nálgast okkur‘ ef við gerum það. (Jak. 4:8) Það er mjög ánægjuleg tilhugsun. En margir telja óraunhæft að trúa því að Guð vilji eiga náið samband við þá. Þeim finnst þeir ekki þess verðir að nálgast hann eða að hann sé of fjarlægur til að það sé hægt. Er í alvöru hægt að eiga náin tengsl við Jehóva?

3. Hvað þurfum við að skilja varðandi Jehóva?

3 Sannleikurinn er sá að Jehóva er ekki „langt frá neinum af okkur“ ef við viljum finna hann. Það er hægt að kynnast honum. (Lestu Postulasöguna 17:26, 27; Sálm 145:18.) Það var ætlun Guðs að ófullkomnir menn gætu átt náin tengsl  við hann og hann er reiðubúinn til að eiga þá sem nána vini. (Jes. 41:8; 55:6) Sálmaskáldið talaði af eigin reynslu og ávarpaði Jehóva þannig: „Þú, sem heyrir bænir, til þín leita allir menn. Sæll er sá sem þú velur og lætur nálgast þig.“ (Sálm. 65:3, 5) Í frásögu Biblíunnar af Asa Júdakonungi segir frá manni sem myndaði náin tengsl við Guð og hún sýnir einnig hvernig Guð brást við. *

DRÖGUM LÆRDÓM AF FORNU DÆMI

4. Hvernig var Asa konungur Júdamönnum góð fyrirmynd?

4 Asa konungur hafði brennandi áhuga á hreinni tilbeiðslu. Hann upprætti musterisvændi og skurðgoðadýrkun sem hafði fest djúpar rætur í landinu. (1. Kon. 15:9-13) Hann var ómyrkur í máli þegar hann hvatti fólkið til að „leita Drottins, Guðs feðra sinna, og framfylgja lögmálinu og boðorðunum“. Jehóva blessaði fyrstu tíu stjórnarár Asa og veitti honum algeran frið. Og hverjum þakkaði Asa friðinn? Hann sagði þjóðinni: „Við höfum landið enn á valdi okkar. Af því að við höfum leitað Drottins, Guðs okkar, heils hugar veitti hann okkur frið á alla vegu.“ (2. Kron. 13:22 – 14:6) Hvað gerðist svo?

5. Hvernig reyndi á traust Asa til Guðs og hvernig fór?

5 Settu þig í spor Asa. Serak frá Eþíópíu hélt gegn honum með milljón manna her og 300 stríðsvagna. (2. Kron. 14:7-9) Hvernig hefði þér orðið við að sjá þennan gríðarlega her ganga fylktu liði inn í ríki þitt? Liðið þitt er ekki nema 580.000 manns. Innrásarmennirnir eru tvöfalt fleiri. Ætli þú hefðir velt fyrir þér hvers vegna Guð leyfði svona lagað? Hefðir þú reynt að bregðast við hættunni eftir eigin höfði? Viðbrögð Asa lýsa hve náið samband hann átti við Jehóva og hvernig hann treysti honum. Hann bað innilega til Jehóva: „Hjálpa þú okkur, Drottinn, Guð okkar, því að við styðjumst við þig. Í þínu nafni höldum við gegn þessum fjölmenna her. Drottinn, þú ert Guð okkar, enginn maður getur hindrað þig.“ Hvernig svaraði Jehóva ákalli Asa? Hann gersigraði Eþíópíumennina. Enginn þeirra komst lifandi úr bardaganum. – 2. Kron. 14:10-12.

6. Hverju ættum við að líkja eftir í fari Asa?

6 Hvers vegna gat Asa treyst fullkomlega á leiðsögn og vernd Guðs? Í Biblíunni segir: „Asa gerði það sem rétt var í augum Drottins“ og fylgdi honum „af heilum hug“. (1. Kon. 15:11, 14) Við þurfum líka að þjóna Guði af heilum hug. Við verðum að gera það til að eiga náið samband við hann núna og í framtíðinni. Við megum vera innilega þakklát fyrir að Jehóva skuli hafa dregið okkur til sín að fyrra bragði og hjálpað okkur að eignast náið samband við sig og varðveita það. Lítum á tvennt sem hann hefur gert til þess.

JEHÓVA DREGUR OKKUR TIL SÍN FYRIR ATBEINA LAUSNARGJALDSINS

7. (a) Hvað hefur Jehóva gert fyrir mennina sem laðar okkur að honum? (b) Hvernig dregur Guð okkur til sín, öðru fremur?

7 Jehóva sýndi kærleika sinn til mannanna þegar hann skapaði fagurt heimili handa þeim, jörðina. Hann sýnir okkur enn kærleika sinn með því að viðhalda lífi okkar hvern einasta dag. (Post. 17:28; Opinb. 4:11) Hann  fullnægir einnig andlegum þörfum okkar og það er ekki síður mikilvægt. (Lúk. 12:42) Hann fullvissar okkur líka um að hann hlusti sjálfur þegar við biðjum til hans. (1. Jóh. 5:14) Síðast en ekki síst dregur Guð okkur til sín með lausnargjaldinu og við löðumst að honum enda er það er sterkasta merkið um kærleika hans til okkar. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 4:9, 10, 19.) Jehóva sendi „einkason sinn“ til jarðar til að frelsa okkur úr fjötrum syndar og dauða. – Jóh. 3:16.

8, 9. Hvaða hlutverki gegnir Jesús í fyrirætlun Jehóva?

8 Jehóva gaf lausnargjaldið í þágu allra, meira að segja fólks sem var uppi fyrir daga Krists. Þegar Jehóva bar fram spádóminn um tilvonandi frelsara mannkyns má segja að frá hans sjónarhóli hafi lausnargjaldið þegar verið greitt því að hann vissi að vilji hans næði örugglega fram að ganga (1. Mós. 3:15) Löngu síðar lýst Páll postuli hve þakklátur hann væri fyrir ,endurlausnina í Kristi Jesú‘ og bætti við: „Hann [Guð] hafði umborið þær syndir sem áður voru drýgðar.“ (Rómv. 3:21-26) Við getum því ekki átt náin tengsl við Guð án Jesú.

9 Það er aðeins fyrir milligöngu Jesú sem auðmjúkt fólk getur kynnst Jehóva og átt innilegt og náið samband við hann. Hvernig kemur það fram í Biblíunni? Páll skrifaði: „Guð auðsýnir kærleika sinn til okkar í því að Kristur dó fyrir okkur þegar við vorum enn syndarar.“ (Rómv. 5:6-8) Lausnargjaldið var ekki greitt af því að við eigum það skilið heldur vegna þess að Jehóva og Jesús elska okkur. „Enginn getur komið til mín nema faðirinn, sem sendi mig, laði hann,“ sagði Jesús. Við annað tækifæri sagði hann: „Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.“ (Jóh. 6:44; 14:6) Jehóva dregur fólk til sín með heilögum anda og fyrir milligöngu Jesú. Hann lætur kærleika sinn varðveita okkur með eilíft líf í vændum. (Lestu Júdasarbréfið 20, 21.) Við skulum líta á annað sem Jehóva hefur gert til að draga okkur til sín.

JEHÓVA NOTAR BIBLÍUNA TIL AÐ DRAGA OKKUR TIL SÍN

10. Hvað kemur fram í Biblíunni sem laðar okkur að Jehóva?

10 Í þessari grein er búið að vitna eða vísa í 14 bækur Biblíunnar. Án hennar hefðum við ekki vitað að við gætum átt náið samband við Guð. Hvernig hefðum við vitað um lausnargjaldið? Hvernig hefðum við vitað að Jesús gerir okkur kleift að nálgast Jehóva? Jehóva beitti anda sínum til að innblása ritun Biblíunnar og þar opinberar hann aðlaðandi persónuleika sinn og stórfenglega fyrirætlun. Í 2. Mósebók 34:6, 7 segir Jehóva Móse að hann sé „miskunnsamur og náðugur Guð, seinn til reiði, gæskuríkur og trúfastur. Hann sýnir þúsundum gæsku, fyrirgefur misgjörðir, afbrot og syndir.“ Hver laðast ekki að slíkri persónu? Jehóva veit að því betur sem við kynnumst honum af lestri Biblíunnar því raunverulegri er hann í augum okkar og við finnum til meiri nálægðar við hann.

11. Hvers vegna ættum við að reyna að kynnast eiginleikum og starfsháttum Jehóva? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

11 Í formála bókarinnar Nálægðu þig Jehóva er lýst hvernig við getum eignast náið samband við hann. Þar segir: „Vinátta byggist alltaf á því að þekkja hina persónuna, dá hana og meta að verðleikum. Þess vegna er mikilvægt að  kynna sér vel það sem Biblían opinberar um eiginleika Guðs og starfshætti.“ Við skulum vera þakklát fyrir að Jehóva skuli hafa látið skrifa Biblíuna þannig að við mennirnir getum skilið hana.

12. Hvers vegna fól Jehóva mönnum það verkefni að skrifa Biblíuna?

12 Jehóva hefði getað látið engla skrifa Biblíuna. Þeir hafa mikinn áhuga á okkur og því sem við tökum okkur fyrir hendur. (1. Pét. 1:12) Englarnir hefðu örugglega getað skrásett boðskap Guðs til mannanna. En hefðu þeir séð hlutina frá mannlegum sjónarhóli? Hefðu þeir getað sett sig í spor okkar og skilið þarfir okkar, veikleika og langanir? Nei, Jehóva vissi að þeim voru takmörk sett að þessu leyti. Hann gerði Biblíuna persónulegri fyrir okkur með því að fela mönnum að skrifa hana. Við getum skilið hugsunarhátt og tilfinningar biblíuritaranna og annarra sem sagt er frá í Biblíunni. Við getum fundið til með þeim, skilið vonbrigði þeirra, efasemdir, ótta og ófullkomleika, og sömuleiðis glaðst með þeim þegar vel gekk. Elía spámaður var „maður eins og við“ og hið sama er að segja um alla biblíuritarana. – Jak. 5:17.

Hvaða áhrif hafa samskipti Jehóva við Jónas og Pétur á þig? (Sjá 13. og 15. grein.)

13. Hvaða áhrif hefur bæn Jónasar á þig?

13 Heldurðu til dæmis að engill hefði getað lýst tilfinningum Jónasar fyllilega þegar spámaðurinn reyndi að komast undan verkefninu sem Guð hafði falið honum? Það er miklu betra að Jehóva skyldi láta Jónas segja sjálfan frá, meðal annars frá innilegri bæn sinni úr hafdjúpinu. Jónas bað: „Er ég var að dauða kominn minntist ég Drottins.“ – Jónas 1:3, 10; 2:2-10.

14. Hvers vegna getum við sett okkur í spor Jesaja?

14 Lítum á annað dæmi. Jehóva lét  Jesaja lýsa hvernig honum var innanbrjósts eftir að hann sá dýrð Jehóva í sýn. Hann talar um sig sem syndugan mann og segir: „Vei mér, það er úti um mig því að ég er maður með óhreinar varir og bý meðal fólks með óhreinar varir en samt hafa augu mín séð konunginn, Drottin allsherjar.“ (Jes. 6:5) Hvaða engli hefði dottið í hug að segja eitthvað þessu líkt? En Jesaja gat það og við getum mætavel skilið hvernig honum leið.

15, 16. (a) Hvers vegna getum við sett okkur í spor annarra manna? Nefndu dæmi. (b) Hvað hjálpar okkur að styrkja tengslin við Jehóva?

15 Hefði engill getað sagt að hann væri „ekki verður allra ... velgjörða“ Guðs eins og Jakob gerði, eða „syndugur“ eins og Pétri fannst hann vera? (1. Mós. 32:10; Lúk. 5:8) Hefðu englar sagst vera „hræddir“ eins og lærisveinar Jesú eða þurft að treysta á að ,Guð gæfi þeim djörfung‘ til að boða fagnaðarerindið í mótlæti eins og Páll og fleiri þurftu að gera? (Jóh. 6:19; 1. Þess. 2:2) Nei, englarnir eru ofurmannlegir og fullkomnir á allan hátt. En þegar ófullkomnir menn tjá slíkar tilfinningar getum við strax sett okkur í spor þeirra vegna þess að við erum líka menn. Við getum ,fagnað með fagnendum og grátið með grátendum‘ þegar við lesum í orði Guðs. – Rómv. 12:15.

16 Við skulum hugleiða það sem segir í Biblíunni um samskipti Jehóva við trúa þjóna sína áður fyrr. Þá lærum við um frábæra eiginleika hans og sjáum hvernig hann laðaði ófullkomna menn að sér með þolinmæði og kærleika. Þannig kynnumst við Jehóva vel og þykir sífellt vænna um hann. Og það verður til þess að styrkja tengslin við hann. – Lestu Sálm 25:14.

MYNDAÐU ÓRJÚFANLEG TENGSL VIÐ GUÐ

17. (a) Hvað ráðlagði Asarja spámaður Asa konungi? (b) Hvernig hunsaði Asa ráð spámannsins og hvaða afleiðingar hafði það?

17 Eftir að Asa konungur gersigraði her Eþíópa gaf Asarja, spámaður Guðs, honum og þjóð hans góð ráð. Hann sagði: „Drottinn er með ykkur á meðan þið eruð með honum. Ef þið leitið til hans lætur hann ykkur finna sig en ef þið yfirgefið hann yfirgefur hann ykkur.“ (2. Kron. 15:1, 2) En Asa fór ekki eftir þessum góðu ráðum þegar fram liðu stundir. Þegar norðurríkið Ísrael lagði í hernað gegn honum leitaði hann stuðnings Sýrlendinga. Í stað þess að ákalla Jehóva og biðja hann um hjálp á nýjan leik gerði hann bandalag við heiðna þjóð. Jehóva sagði honum þá: „Þú hefur breytt heimskulega í þessu máli, þess vegna muntu eiga í ófriði héðan í frá.“ Asa átti í sífelldum stríðsátökum það sem eftir var. (2. Kron. 16:1-9) Hvaða lærdóm getum við dregið af því?

18, 19. (a) Hvað ættum við að gera ef við höfum fjarlægst Jehóva? (b) Hvernig getum við styrkt tengslin við Jehóva?

18 Gætum þess að missa ekki tengslin við Jehóva. Ef við höfum fjarlægst hann ættum við tafarlaust að gera eins og hvatt er til í Hósea 12:7. Þar stendur: „Þú skalt snúa aftur til Guðs þíns. Vertu trúr og réttlátur og vona stöðugt á Guð.“ Við skulum því styrkja tengslin við Jehóva jafnt og þétt með því að hugleiða lausnargjaldið og vera duglegir biblíunemendur. – Lestu 5. Mósebók 13:5.

19 „Mín gæði eru það að vera nálægt Guði,“ orti sálmaskáldið. (Sálm. 73:28) Við skulum öll halda áfram að læra meira um Jehóva og minna okkur á þær ótal ástæður sem við höfum til að elska hann. Og megi Jehóva nálgast okkur meir og meir, núna og um alla eilífð.

^ gr. 3 Sjá grein um Asa sem heitir „Ykkur verður umbunað fyrir verk ykkar“. Hún birtist í Varðturninum 15. ágúst 2012.