Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Heyrðu rödd Jehóva hvar sem þú ert

Heyrðu rödd Jehóva hvar sem þú ert

,Þú munt heyra orð að baki þér með eigin eyrum: „Þetta er vegurinn“.‘ – JES. 30:20, 21.

1, 2. Hvernig kemur Jehóva boðum til þjóna sinna?

JEHÓVA hefur alla tíð leiðbeint þjónum sínum með ýmsum hætti. Hann talaði við suma fyrir milligöngu engla. Aðrir sáu sýnir eða dreymdi drauma sem opinberuðu þeim hvað framtíðin bæri í skauti sér. Jehóva fól þeim líka sérstök verkefni. (4. Mós. 7:89; Esek. 1:1; Dan. 2:19) Sumir fengu fyrirmæli frá mönnum sem voru fulltrúar Jehóva í söfnuði hans á jörð. Það var fólki alltaf til blessunar að fara eftir fyrirmælum Jehóva, hvernig sem þeim var komið á framfæri.

2 Nú á dögum leiðbeinir Jehóva þjónum sínum í Biblíunni, með heilögum anda sínum og fyrir atbeina safnaðarins. (Post. 9:31; 15:28; 2. Tím. 3:16, 17) Leiðsögnin, sem við fáum frá honum, er svo skýr að það er eins og við ,heyrum orð að baki okkur með eigin eyrum: „Þetta er vegurinn, farið hann“.‘ (Jes. 30:21) Við heyrum líka rödd Jehóva á þann hátt að Jesús flytur söfnuðinum fyrirmæli hans fyrir milligöngu ,trúa og hyggna þjónsins‘. (Matt. 24:45) Við þurfum að taka leiðsögnina og fyrirmælin alvarlega því að eilíft líf okkar er undir því komið að við séum hlýðin. – Hebr. 5:9.

3. Hvað gæti haft áhrif á viðbrögð okkar við leiðsögn Jehóva? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

3 Satan djöfullinn veit að líf okkar er háð leiðsögn Jehóva þannig að hann reynir að yfirgnæfa rödd hans eða draga  athygli okkar frá henni. Auk þess er hjarta okkar „svikult“ og það getur haft áhrif á viðbrögð okkar við leiðbeiningum Jehóva. (Jer. 17:9) Við skulum því skoða hvað við getum gert til að sigrast á þessum áhrifum og vera næm fyrir rödd Guðs. Við skulum líka kanna hvernig við getum varðveitt náið samband við Jehóva óháð aðstæðum með því að hlusta á hann og eiga gott bænasamband við hann.

LÁTTU EKKI BLEKKJAST AF BRÖGÐUM SATANS

4. Hvernig reynir Satan að hafa áhrif á hugsunarhátt fólks?

4 Satan beitir villandi upplýsingum og áróðri til að reyna að hafa áhrif á hugsunarhátt fólks. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 5:19.) Útvarp, sjónvarp, Netið og prentað mál ná jafnvel til afskekktustu staða á jörð. Þó að þessir miðlar flytji ýmislegt sem er áhugavert, eru þeir oft talsmenn hegðunar og lífsskoðana sem stangast á við siðferðisreglur Jehóva. (Jer. 2:13) Fjölmiðlar og afþreyingariðnaðurinn lýsa hjónaböndum fólks af sama kyni sem sjálfsögðum hlut svo dæmi sé tekið, og mörgum finnst afstaða Biblíunnar til samkynhneigðar vera öfgakennd. – 1. Kor. 6:9, 10.

5. Hvað getum við gert til að láta ekki áróður Satans hafa áhrif á okkur?

5 Hvað geta þeir sem elska réttlæti Guðs gert til að láta ekki áróðursvél Satans hafa áhrif á sig? Hvernig geta þeir skilið hið góða frá hinu illa? „Með því að gefa gaum að orði [Guðs].“ (Sálm. 119:9) Í Biblíunni, sem er orð Guðs, er að finna þá leiðsögn sem þarf til að greina sannar upplýsingar frá villandi áróðri. (Orðskv. 23:23) Jesús vitnaði í orð Guðs og sagði að maðurinn lifði „á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni“. (Matt. 4:4) Við þurfum að læra að fara eftir meginreglum Biblíunnar. Löngu áður en Móse skráði lög Jehóva sem bönnuðu hjúskaparbrot skildi Jósef að það væri synd gegn Guði. Það hvarflaði ekki að honum að óhlýðnast Jehóva þegar eiginkona Pótífars reyndi að tæla hann til að syndga. (Lestu 1. Mósebók 39:7-9.) Þótt hún nauðaði í honum lengi vel kaus hann að hlusta á rödd Jehóva en ekki hennar. Til að greina rétt frá röngu er nauðsynlegt að hlusta á rödd Jehóva og útiloka stöðugan áróðursgný Satans.

6, 7. Hvað þurfum við að gera til að forðast skaðleg ráð Satans?

6 Heimurinn er gagnsýrður ruglingslegum trúarkenningum þannig að margir halda að það sé vonlaust að leita að sannri trú. En leiðsögn Jehóva er augljós þeim sem eru fúsir til að taka við henni. Við verðum að velja á hvern við hlustum. Það er næstum ómögulegt að hlusta á tvær raddir í einu þannig að við þurfum að ,þekkja raust Jesú‘ og hlusta á hann. Það er hann sem Jehóva hefur falið að gæta sauða sinna. – Lestu Jóhannes 10:3-5.

 7 „Gætið að hvað þið heyrið,“ sagði Jesús. (Mark. 4:24) Leiðbeiningar Jehóva eru réttar og skýrar en við þurfum að hafa eyrun opin og gera hjörtu okkar móttækileg fyrir þeim. Ef við vörum okkur ekki gætum við farið að leggja eyrun við skaðlegum ráðum Satans í stað þess að hlusta á kærleiksríkar ráðleggingar Guðs. Látum ekki veraldlega tónlist, myndbönd, sjónvarpsþætti, bækur, kunningja, kennara eða svokallaða sérfræðinga stjórna lífi okkar. – Kól. 2:8.

8. (a) Hvernig getur hjartað gert okkur berskjölduð fyrir brögðum Satans? (b) Hvernig getur farið fyrir okkur ef við lokum augunum fyrir hættumerkjum?

8 Satan veit að við höfum syndugar tilhneigingar og hann reynir að fá okkur til að fullnægja þeim. Þegar hann sækir að okkur með þessum hætti kostar það heilmikla baráttu að vera ráðvandur. (Jóh. 8:44-47) Hvernig getum við staðist árásir hans? Hugsum okkur einstakling sem verður svo upptekinn af ánægju líðandi stundar að það endar með því að hann gerir eitthvað rangt sem hafði ekki hvarflað að honum að hann myndi gera. (Rómv. 7:15) Hvað varð til þess að það fór svona illa? Sennilega hefur hann smám saman orðið ónæmur fyrir rödd Jehóva. Annaðhvort tók hann ekki eftir því sem var að gerast í hjarta hans eða kaus að loka augunum fyrir því. Hann hætti ef til vill að biðja, fór að slá slöku við boðunarstarfið eða að sleppa úr samkomum. Að lokum lét hann undan löngunum sínum og gerði það sem hann vissi að var rangt. Við getum forðast sorgleg mistök af þessu tagi ef við erum vakandi fyrir hættumerkjum og bætum tafarlaust úr því sem þarf. Og ef við hlustum á rödd Jehóva leyfum við okkur ekki að gæla við fráhvarfshugmyndir af nokkru tagi. – Orðskv. 11:9.

9. Af hverju er mjög mikilvægt að uppgötva syndugar tilhneigingar sem fyrst?

9 Oft er hægt að bjarga mannslífum ef sjúkdómar uppgötvast í tæka tíð. Við getum líka afstýrt stórslysi ef við komum nógu snemma auga á tilhneigingar sem gætu leitt okkur í freistni. Það er viturlegt að gera eitthvað í málinu þegar í stað – áður en við festumst í „snöru djöfulsins“ sem reynir að veiða fólk „til að gera vilja sinn“. (2. Tím. 2:26) Hvað eigum við að gera ef við tökum eftir að við höfum látið hugsanir okkar og langanir fjarlægjast þau viðmið sem Jehóva setur okkur? Við þurfum að snúa aftur til hans í auðmýkt þegar í stað, opna eyrun fyrir ráðum hans og hlusta á hann af öllu hjarta. (Jes. 44:22) Við verðum að gera okkur  grein fyrir því að rangar ákvarðanir geta haft alvarlegar afleiðingar og sársauka í för með sér, jafnvel þó að við snúum aftur til Jehóva. Það er miklu betra að bregðast skjótt við, forðast mistökin og fara ekki út af sporinu.

Hvernig geta góðar venjur í þjónustu Jehóva verndað okkur gegn brögðum Satans? (Sjá 4.-9. grein.)

AÐ SIGRAST Á STOLTI OG ÁGIRND

10, 11. (a) Hvernig getur stolt birst? (b) Hvaða lærdóm má draga af uppreisn Kóra, Datans og Abírams?

10 Við þurfum að horfast í augu við að hjartað getur leitt okkur afvega. Syndugar tilhneigingar okkar eru býsna sterkar. Tökum stolt og ágirnd sem dæmi. Skoðum aðeins hvernig hvort tveggja getur gert okkur erfitt fyrir að hlusta á rödd Jehóva og leitt okkur út á hættulega braut. Stoltur maður hefur óhóflegt álit á sjálfum sér. Honum finnst hann kannski eiga rétt á að gera allt sem hann vill og að enginn geti sagt honum fyrir verkum. Ef til vill telur hann sig yfir það hafinn að fá ráð og leiðbeiningar frá trúsystkinum, öldungunum eða jafnvel hinum trúa og hyggna þjóni. Rödd Jehóva verður ósköp dauf í eyrum þess sem hugsar þannig.

11 Þeir Kóra, Datan og Abíram gerðu uppreisn gegn forystu Móse og Arons á eyðimerkurgöngu Ísraels. Svo stoltir voru þeir að þeir ákváðu að tilbiðja Jehóva eftir sínu eigin höfði. Hvernig brást Jehóva við? Hann tók þá af lífi. (4. Mós. 26:8-10) Við getum dregið alvarlegan lærdóm af þessari frásögu. Það er ávísun á ógæfu að gera uppreisn gegn Jehóva. Við skulum líka hafa hugfast að „dramb er falli næst“. – Orðskv. 16:18; Jes. 13:11.

12, 13. (a) Nefndu dæmi sem sýnir hvernig ágirnd getur valdið mikilli ógæfu. (b) Hvernig getur ágirnd stigmagnast ef ekkert að að gert?

12 Ágirnd er líka hættuleg. Ágjarn maður tekur sér oft bessaleyfi og gengur lengra en góðu hófi gegnir. Eftir að sýrlenski hershöfðinginn Naaman var læknaður af holdsveiki vildi hann gefa Elísa spámanni gjafir en Elísa afþakkaði. Gehasí, þjónn Elísa, girntist gjafirnar. Hann hugsaði með sér: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir skal ég hlaupa á eftir [Naaman] og fá eitthvað hjá honum.“ Án þess að Elísa vissi hljóp Gehasí á eftir Naaman og laug að honum til að fá gefins „eina talentu silfurs og tvo hátíðarklæðnaði“. Hvernig fór fyrir þessum ágjarna manni fyrst hann gerði þetta og laug að spámanni Jehóva? Hann sat uppi með holdsveiki Naamans. – 2. Kon. 5:20-27.

13 Ágirnd getur byrjað smátt en ef ekkert er að gert getur hún vaxið hratt og tekið völdin. Frásaga Biblíunnar af Akan lýsir vel hve máttug ágirndin getur verið og hve fljótt hún getur stigmagnast. Akan „sá fallega skikkju frá Sínear í herfanginu og tvö hundruð sikla silfurs og gulltungu sem vó fimmtíu sikla“. Hann ,girntist þetta og tók það‘. Í stað þess að berjast gegn rangri löngun lét hann ágirndina ná tökum á sér, stal þessum verðmætum og faldi í tjaldi sínu. Þegar synd Akans uppgötvaðist sagði Jósúa honum að Jehóva myndi leiða ógæfu yfir hann. Akan og fjölskylda hans voru grýtt til bana samdægurs. (Jós. 7:11, 21, 24, 25) Það er sífellt hætta á að ágirndin nái tökum á okkur. Við skulum því ,varast alla ágirnd‘. (Lúk. 12:15) Þó að rangar eða siðlausar hugsanir sæki stundum á okkur verðum við að hafa stjórn á huga okkar og láta ekki langanirnar stigmagnast svo að við drýgjum synd. – Lestu Jakobsbréfið 1:14, 15.

14. Hvað ættum við að gera ef við finnum votta fyrir stolti eða ágirnd í fari okkar?

14 Bæði stolt og ágirnd geta valdið okkur mikilli ógæfu. Það er gott að hugleiða hvaða afleiðingar það hefði að leiðast út á ranga braut. Það getur hjálpað  okkur að láta ekki þessar tilhneigingar verða til þess að við heyrum ekki rödd Jehóva. (5. Mós. 32:29) Hinn sanni Guð segir frá því í Biblíunni hvað sé rétt að gera og skýrir líka hvernig það sé okkur til góðs, og hvaða afleiðingar það hafi að fara út á ranga braut. Ef hjartað freistar okkar til að íhuga eitthvað sem er sprottið af stolti eða ágirnd er skynsamlegt að hugsa um afleiðingarnar. Við ættum að hugleiða hvaða áhrif það myndi hafa á sjálf okkur, ástvini okkar og sérstaklega á sambandið við Jehóva ef við syndguðum.

EIGÐU NÁIN SAMSKIPTI VIÐ JEHÓVA

15. Hvað má læra af Jesú um samskipti við Jehóva?

15 Jehóva vill okkur allt hið besta. (Sálm. 1:1-3) Hann leiðbeinir okkur eftir þörfum hverju sinni. (Lestu Hebreabréfið 4:16.) Þótt Jesús væri fullkominn treysti hann á reglulegt bænasamband við Jehóva og bað án afláts. Jehóva studdi Jesú og leiðbeindi honum á ótal vegu. Hann sendi engla til að þjóna honum, gaf honum heilagan anda og leiðbeindi honum þegar hann valdi postulana 12. Jehóva talaði af himni og lét í ljós að hann styddi Jesú og hefði velþóknun á honum. (Matt. 3:17; 17:5; Mark. 1:12, 13; Lúk. 6:12, 13; Jóh. 12:28) Við þurfum að úthella hjörtum okkar í bæn til Guðs eins og Jesús gerði. (Sálm. 62:8, 9; Hebr. 5:7) Með bæninni getum við átt náin samskipti við Jehóva og lifað þannig að við séum honum til heiðurs.

16. Hvernig hjálpar Jehóva okkur að heyra rödd sína?

16 Þó að Jehóva leiðbeini okkur ríkulega neyðir hann engan til að fylgja ráðum sínum. Við þurfum að biðja um heilagan anda og hann gefur okkur ríkulega af honum. (Lestu Lúkas 11:10-13.) En við þurfum að ,gæta að hvernig við heyrum‘. (Lúk. 8:18) Það væri til dæmis hræsni að biðja Jehóva um hjálp til að sigrast á siðlausum tilhneigingum en halda samt áfram að horfa á klám eða siðlausar kvikmyndir. Við þurfum hreinlega að sækja á staði og í aðstæður þar sem andi Jehóva er. Við vitum að anda hans er að finna á safnaðarsamkomum. Margir þjónar Jehóva hafa afstýrt ógæfu með því að hlusta á Jehóva á samkomum. Þeir hafa þar af leiðandi uppgötvað langanir í hjarta sér sem þeir þurftu að uppræta og bætt ráð sitt. – Sálm. 73:12-17; 143:10.

HLUSTAÐU ALLTAF VANDLEGA Á RÖDD JEHÓVA

17. Af hverju er hættulegt að treysta á sjálfan sig?

17 Við getum dregið lærdóm af Davíð Ísraelkonungi. Sem ungur maður vann hann filistarisann Golíat. Davíð varð hermaður og síðar konungur. Það var hlutaverk hans að vernda þjóðina og taka ákvarðanir fyrir hennar hönd. En hjartað leiddi hann afvega þegar hann treysti á sjálfan sig. Hann drýgði alvarlega synd með Batsebu og kom því meira að segja í kring að Úría, eiginmaður hennar, félli í bardaga. Þegar hann var leiðréttur viðurkenndi hann synd sína auðmjúklega og endurheimti sambandið við Jehóva. – Sálm. 51:6, 8, 12, 13.

18. Hvað getur hjálpað okkur að halda áfram að hlusta á rödd Jehóva?

18 Við skulum gera eins og ráðlagt er í 1. Korintubréfi 10:12 og vera ekki of sjálfsörugg. Við erum ekki fær um að ,stýra skrefum okkar‘ þannig að fyrr eða síðar hlustum við annaðhvort á rödd Jehóva eða rödd óvinarins. (Jer. 10:23) Við skulum biðja stöðugt, fylgja handleiðslu heilags anda og hlusta alltaf vel á rödd Jehóva.