Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Er líkbrennsla viðeigandi fyrir kristna menn?

Í Biblíunni er ekki að finna nein grundvallarrök gegn því að brenna jarðneskar leifar fólks.

Biblían segir frá nokkrum dæmum þar sem lík eða bein látinna voru brennd. (Jós. 7:25; 2. Kron. 34:4, 5) Í sumum tilfellum mætti álykta að þetta fólk hafi ekki verið talið verðugt þess að hljóta sæmandi greftrun. En þegar lík voru brennd forðum daga fól það ekki alltaf í sér slíka merkingu.

Frásagan af dauða Sáls konungs og sona hans þriggja ber þetta með sér. Þeir féllu allir í bardaga við Filistea. Jónatan var einn þeirra en hann var góður vinur Davíðs og dyggur stuðningsmaður hans. Hugrakkir Ísraelsmenn í Jabes í Gíleað fréttu hvað gerst hafði, náðu í líkin fjögur, brenndu þau og grófu síðan beinin. Davíð hrósaði þeim síðar fyrir afrek þeirra. – 1. Sam. 31:2, 8-13; 2. Sam. 2:4-6.

Biblían veitir þá von að dánir rísi upp, að Guð veki persónuna aftur til lífsins. Hvort sem látin manneskja er brennd eða ekki er Jehóva fullkomlega fær um að vekja hana aftur til lífs í nýjum líkama. Hebrearnir þrír, sem Nebúkadnesar konungur fyrirskipaði að brenna í eldsofni, þurftu ekki að óttast að Guð væri ófær um að reisa þá upp ef líkamar þeirra eyddust í eldi. (Dan. 3:16-18) Hið sama er að segja um trúa þjóna Jehóva sem sáu fram á að deyja í fangabúðum nasista og vera síðan brenndir. Ýmsir dyggir þjónar Guðs hafa látið lífið í sprengingum eða með öðrum hætti sem eyddi jarðneskum leifum þeirra. Það er samt sem áður öruggt að þeir rísi upp. – Opinb. 20:13.

Jehóva þarf ekki að setja saman fyrri líkama fólks til að reisa það upp frá dauðum. Það má sjá af því að hann reisir andasmurða þjóna sína upp til lífs á himnum. Jesús var „lifandi ger í anda“ og hinir andasmurðu eru sömuleiðis reistir upp í andlegum líkama en sem sama persónan. Enginn hluti fyrri efnislíkama fylgir þeim til himna. – 1. Pét. 3:18; 1. Kor. 15:42-53; 1. Jóh. 3:2.

Von okkar um upprisu byggist ekki á því hvað verður um líkamann heldur því að við treystum að Guð geti efnt loforð sín og langi til þess. (Post. 24:15) Við skiljum ekki til fulls hvernig Guð vann það kraftaverk forðum daga að reisa fólk upp frá dauðum né hvernig hann gerir það í framtíðinni. En við setjum traust okkar á hann. Hann hefur „sannað“ að hann ætli að gera það með því að reisa Jesú upp frá dauðum. – Post. 17:31; Lúk. 24:2, 3.

Kristnir menn ættu að taka mið af siðvenjum í samfélaginu, almennum viðhorfum fólks og ákvæðum laga um það hvað gera skuli við lík látinna. (2. Kor. 6:3, 4) Það er því persónuleg ákvörðun hvers og eins eða fjölskyldunnar hvort valin er bálför eða ekki.