Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vertu hughraustur – Jehóva er hjálpari þinn

Vertu hughraustur – Jehóva er hjálpari þinn

„Því getum við örugg sagt: Drottinn er minn hjálpari.“ – HEBR. 13:6.

1, 2. Hvaða áskoranir blasa við mörgum sem snúa heim eftir að hafa unnið erlendis? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

„ÉG VAR í góðri vinnu erlendis og þénaði vel,“ segir Eduardo. * „En þegar ég fór að kynna mér Biblíuna með hjálp votta Jehóva áttaði ég mig á að ég hafði aðrar og mikilvægari skyldur – að hugsa um samband fjölskyldunnar við Jehóva en ekki aðeins að sjá fyrir henni. Ég sneri því heim.“ – Ef. 6:4.

2 Eduardo vissi að hann breytti í samræmi við vilja Jehóva með því að snúa heim til fjölskyldunnar. En hann þurfti að byggja upp sambandið við fjölskylduna að nýju, rétt eins og Marilyn sem rætt er um í greininni á undan. Hann stóð líka frammi fyrir því að þurfa að framfleyta fjölskyldunni við mun lakara efnahagsástand en í landinu þar sem hann vann. Hvernig átti hann að sjá fyrir sér og sínum? Hvaða stuðnings mátti hann vænta frá söfnuðinum?

AÐ KOMA LAGI Á FJÖLSKYLDULÍFIÐ OG ÞJÓNUSTUNA VIÐ JEHÓVA

3. Hvaða áhrif hefur það á börn að foreldri sé langdvölum að heiman?

3 Eduardo viðurkennir að hann hafi vanrækt börnin þegar þau þurftu mest á leiðsögn hans og ástúð að halda. „Ég hafði ekki verið heima til að lesa fyrir þau biblíusögur, biðja  með þeim, knúsa þau og leika við þau,“ segir hann. (5. Mós. 6:7) Anna, elsta dóttir hans, segir: „Ég var óörugg með mig af því að pabbi var ekki hjá okkur. Þegar hann kom aftur þekktum við hann bara af andlitinu og röddinni. Mér fannst það ekki eðlilegt þegar hann faðmaði mig.“

4. Hvers vegna er erfitt fyrir föður að veita fjölskyldu sinni góða forystu ef hann er langdvölum að heiman?

4 Ef faðir er langdvölum að heiman getur hann átt erfitt með að vera höfuð fjölskyldunnar. Ruby, eiginkona Eduardos, segir: „Ég þurfti að fara með tvö hlutverk – vera bæði pabbi og mamma – og ég vandist því að taka flestar ákvarðanir í fjölskyldunni. Þegar Eduardo kom heim aftur þurfti ég að læra hvernig kristin eiginkona á að vera undirgefin. Ég þarf enn að minna mig á það stundum að maðurinn minn sé heima.“ (Ef. 5:21-23) „Stelpurnar voru vanar að spyrja mömmu sína hvort þær mættu gera þetta eða hitt,“ bætir Eduardo við. „Við hjónin áttuðum okkur á að við þurftum að vera samstíga gagnvart börnunum og ég þurfti að læra að fara með forystu eins og kristinn maður.“

5. Hvað gerði Eduardo til að bæta fyrir skaðann sem fjarvera hans hafði valdið, og með hvaða árangri?

5 Eduardo var ákveðinn í að gera allt sem hann gæti til að bæta sambandið við fjölskylduna og styrkja tengsl hennar við Jehóva. „Ég ætlaði mér að kenna börnunum bæði með orðum mínum og verkum – ekki segja þeim bara að ég elskaði Jehóva heldur sýna þeim það.“ (1. Jóh. 3:18) Blessaði Jehóva Eduardo? „Það var mikils virði að sjá hvernig hann einbeitti sér að því að vera góður faðir og styrkja böndin milli okkar,“ segir Anna. „Við vorum stolt af honum þegar við sáum hann leggja sig fram í söfnuðinum. Heimurinn reyndi að draga okkur burt frá Jehóva en við sáum að foreldrar okkar einbeittu sér að sannleikanum og við reyndum að líkja eftir þeim. Pabbi lofaði að yfirgefa okkur aldrei framar og hann stóð við það. Ef hann hefði farið væri ég sennilega ekki í söfnuði Jehóva núna.“

AÐ VIÐURKENNA ÁBYRGÐ SÍNA

6. Hvað uppgötvuðu margir foreldrar í stríðinu á Balkanskaga?

6 Meðan stríðið á Balkanskaga stóð yfir sýndi það sig að börn votta Jehóva, sem bjuggu þar, voru sum hver ánægð þótt aðstæður væru erfiðar. Hvers vegna? Þegar foreldrarnir gátu ekki farið til vinnu voru þeir heima og töluðu við börnin, kenndu þeim og léku við þau. Lærdómurinn er sá að börn hafa ánægju af að vera með foreldrum sínum. Það er meira virði fyrir þau en peningar eða gjafir. Eins og segir í Biblíunni er það börnunum til góðs að foreldrarnir séu með þeim og kenni þeim. – Orðskv. 22:6.

7, 8. (a) Hvaða mistök gera sumir foreldrar þegar þeir snúa aftur heim? (b) Hvernig geta foreldrar hjálpað börnunum að sigrast á neikvæðum tilfinningum?

7 Foreldrar, sem hafa verið langdvölum að heiman, verða oft fyrir áfalli þegar heim kemur því að börnin eru þeim gröm eða eru tómlát gagnvart þeim. „Ég er búinn að færa miklar fórnir fyrir þig. Hvernig geturðu verið svona vanþakklátur?“ spyr foreldrið. Það er miður því að börnin eru líklega sár yfir því að foreldrið skyldi fara burt. Hvað getur foreldri gert til að græða sárin?

8 Biddu Jehóva að hjálpa þér að vera skilningsríkur gagnvart fjölskyldunni. Viðurkenndu síðan fyrir fjölskyldunni að þú berir sjálfur vissa sök á þessu ástandi. Það getur haft góð áhrif að biðjast í einlægni afsökunar. Þegar maki þinn og börn sjá að þú reynir í alvöru að bæta úr því sem miður hefur farið skynja þau einlægnina sem býr að baki. Það eru góðar líkur á að þú endurheimtir smám saman  ást og virðingu fjölskyldunnar ef þú ert þolinmóður og gefst ekki upp.

AÐ SJÁ FYRIR FJÖLSKYLDUNNI

9. Þurfum við að keppast við að eignast sífellt meira til að sjá fyrir fjölskyldunni?

9 Páll postuli benti á að börn og barnabörn eigi að „endurgjalda foreldrum sínum“ ef þeir eru orðnir aldraðir og ná ekki endum saman. Síðan hvetur hann alla kristna menn til að láta sér nægja daglegar nauðsynjar, það er að segja fæði, klæði og húsaskjól. Við ættum ekki að keppast í sífellu við að reyna að bæta lífsgæðin eða tryggja fjárhagslegt öryggi okkar til framtíðar. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 5:4, 8; 6:6-10.) Þessi heimur líður bráðlega undir lok og kristinn maður þarf ekki að verða ríkur til að sjá fyrir „skylduliði sínu“. (1. Jóh. 2:15-17) Við megum ekki láta „tál auðæfanna“ eða „áhyggjur þessa lífs“ verða til þess að fjölskyldan höndli ekki „hið sanna líf“ í réttlátum nýjum heimi Guðs. – Mark. 4:19; Lúk. 21:34-36; 1. Tím. 6:19.

10. Hvers vegna er skynsamlegt að safna ekki skuldum?

10 Jehóva veit að við þurfum á einhverjum peningum að halda. En peningar geta ekki verndað okkur og viðhaldið eins og viskan frá Jehóva. (Préd. 7:12; Lúk. 12:15) Margir vanmeta hvað það kostar að fara til útlanda til að vinna, og það er engin trygging fyrir því að góð laun séu í boði erlendis. Sannleikurinn er sá að hætturnar eru margar. Margir snúa heim enn skuldugri en þeir voru. Í stað þess að fá meira frelsi til að þjóna Guði þurfa þeir að þjóna lánveitendunum. (Lestu Orðskviðina 22:7.) Það er skynsamlegt að stofna ekki til skulda.

11. Hvernig getur fjárhagsáætlun dregið úr álagi?

11 Eduardo vissi að hann þyrfti að fara vel með peninga til að honum gengi vel að annast fjölskylduna eftir að hann flutti heim. Þau hjónin gerðu fjárhagsáætlun sem byggðist á raunverulegum þörfum fjölskyldunnar. Þau þurftu auðvitað að vera sparsamari en áður. En þau lögðu öll sitt af mörkum og eyddu ekki peningum að nauðsynjalausu. * „Ég lét börnin til dæmis færa sig úr einkaskólum yfir í góða almenna skóla,“ segir Eduardo. Fjölskyldan bað Jehóva að hjálpa honum að finna vinnu sem myndi ekki stangast á við tilbeiðsluna. Hvernig svaraði Jehóva bænum þeirra?

12, 13. Hvað gerði Eduardo til að sjá fyrir fjölskyldunni og hvernig blessaði Jehóva þau fyrir að lifa einföldu lífi?

12 „Við rétt skrimtum fyrstu tvö árin,“ segir Eduardo. „Það gekk á spariféð, ég var á lágum launum og þau hrukku ekki alltaf fyrir útgjöldum. Ég var þreyttur, en við gátum þó sótt allar samkomur og farið saman í boðunarstarfið.“ Eduardo ákvað að það kæmi ekki til greina að ráða sig í vinnu sem útheimti að hann væri mánuðum eða árum saman fjarri fjölskyldunni. „Ég lærði að vinna ýmiss konar störf þannig að ég sæti ekki auðum höndum þegar ákveðin vinna væri ekki í boði.“

Geturðu lært að vinna fleiri störf til að draga björg í bú? (Sjá 12. grein.)

13 Það tók Eduardo langan tíma að greiða skuldir sínar þannig að hann þurfti að greiða talsverða vexti. En hann taldi það vel þess virði til að geta þjónað Jehóva með fjölskyldunni eins og kristnir foreldrar eiga að gera. „Tekjurnar voru innan við 10 prósent af því sem ég hafði haft erlendis en við höfum þó til hnífs og skeiðar,“ segir Eduardo. „,Hönd Jehóva er ekki stutt.‘ Við ákváðum að gerast brautryðjendur.“ Skömmu síðar batnaði efnahagsástandið og það varð miklu auðveldara fyrir þau að sjá fyrir fjölskyldunni. – Jes. 59:1.

 ÞRÝSTINGUR FRÁ ÆTTINGJUM

14, 15. Hvernig er hægt að standast þrýstinginn til að láta efnislega hluti ganga fyrir og hvaða áhrif er hægt að hafa með góðu fordæmi?

14 Víða um lönd telur fólk sér skylt að gefa vinum og ættingjum peninga og gjafir. „Það tilheyrir menningu okkar og við höfum ánægju af því að gefa,“ segir Eduardo og bætir við: „En það þarf að stilla því í hóf. Ég útskýri vinsamlega fyrir stórfjölskyldunni að ég gefi eins mikið og ég geti án þess að það bitni á andlegum þörfum og venjum konu minnar og barna.“

15 Þeir sem snúa aftur heim frá útlöndum eða grípa ekki tækifæri sem gefast til að vinna erlendis mega oft þola reiði, fyrirlitningu og vonbrigði af hálfu ættingja sem hafa litið á þá sem fyrirvinnu. Sumir saka þá um að vera ekki kærleiksríkir. (Orðskv. 19:6, 7) Anna, dóttir Eduardos, bendir á eftirfarandi: „Ef við viljum ekki fórna andlegum gæðum fyrir efnisleg skilja ættingjarnir kannski með tímanum hve mikilvægt það er fyrir okkur að þjóna Jehóva. En hvernig er hægt að sýna þeim fram á það ef við látum undan kröfum þeirra?“ – 1. Pét. 3:1, 2.

TREYSTU GUÐI

16. (a) Hvernig er hægt að blekkja sjálfan sig? (Jak. 1:22) (b) Hvers konar ákvarðanir blessar Jehóva?

16 Systir nokkur fluttist til annars lands til að vinna en eiginmaðurinn og börnin urðu eftir heima. Hún sagði við öldungana: „Við þurftum að færa miklar fórnir til að ég gæti komið hingað. Maðurinn minn þurfti meira að segja að láta af störfum sem öldungur. Ég vona sannarlega að Jehóva blessi þessa ráðstöfun.“ Jehóva blessar alltaf ákvarðanir sem endurspegla trú á hann. En varla blessar hann ákvarðanir sem eru ekki í samræmi við vilja hans, hvað þá ef þær kosta að maður afsali sér að óþörfu verkefnum í þjónustu hans. – Lestu Hebreabréfið 11:6; 1. Jóhannesarbréf 5:13-15.

17. Hvers vegna ættum við að leita leiðsagnar Jehóva áður en við tökum ákvarðanir og hvernig getum við gert það?

17 Leitaðu leiðsagnar Jehóva áður en þú tekur ákvarðanir og skuldbindur þig, ekki eftir á. Biddu hann að gefa þér  heilagan anda, visku og leiðsögn. (2. Tím. 1:7) Spyrðu þig við hvaða aðstæður þú sért fús til að hlýða Jehóva. Ertu jafnvel tilbúinn til að gera það ef þú ert ofsóttur? Ef svo er, ertu þá tilbúinn til að hlýða honum ef það kostar að lifa við heldur lakari lífskjör? (Lúk. 14:33) Biddu öldungana að gefa þér biblíuleg ráð og fylgdu þeim svo. Þá sýnirðu að þú treystir að Jehóva hjálpi þér eins og hann hefur lofað að gera. Öldungarnir geta ekki tekið ákvarðanir fyrir þig. Þeir geta hins vegar hjálpað þér að taka ákvarðanir sem eru þér til góðs þegar til langs tíma er litið. – 2. Kor. 1:24.

18. Hver á að sjá fyrir fjölskyldunni og við hvaða aðstæður gefst tækifæri til að hlaupa undir bagga með trúsystkinum?

18 Jehóva hefur falið höfði fjölskyldunnar að styðja hana og styrkja dag frá degi. Við ættum að hrósa þeim sem rækja þessa skyldu án þess að yfirgefa maka eða börn, þó að það geti verið freistandi eða þrýst sé á þá. Biðjum fyrir þeim. Óvæntar aðstæður, svo sem náttúruhamfarir eða veikindi, bjóða upp á tækifæri til að sýna hvert öðru sannkristinn kærleika og umhyggju. (Gal. 6:2, 5; 1. Pét. 3:8) Getur þú aðstoðað fjárhagslega á neyðarstund eða hjálpað trúsystkini að finna vinnu í grenndinni? Ef svo er eru minni líkur á að þeim finnist þau þurfa að yfirgefa fjölskylduna til að vinna annars staðar. – Orðskv. 3:27, 28; 1. Jóh. 3:17.

MUNDU AÐ JEHÓVA ER HJÁLPARI ÞINN

19, 20. Hvers vegna geta kristnir menn treyst á hjálp Jehóva?

19 Í Biblíunni segir: „Verið ekki fégráðug en látið ykkur nægja það sem þið hafið. Guð hefur sjálfur sagt: ,Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.‘ Því getum við örugg sagt: Drottinn er minn hjálpari, eigi mun ég óttast. Hvað geta mennirnir gert mér?“ (Hebr. 13:5, 6) Hvernig gengur þetta eftir?

20 „Fólk hefur oft á orði að vottar Jehóva séu glaðir í bragði,“ segir gamalreyndur öldungur í einu af þróunarlöndunum. „Fólk veitir líka eftirtekt að jafnvel fátækir vottar eru alltaf vel til fara og virðast spjara sig betur en aðrir.“ Þetta kemur heim og saman við loforð Jesú við þá sem leita fyrst ríkis Guðs. (Matt. 6:28-30, 33) Jehóva elskar þig og vill þér og börnum þínum allt það besta. „Augu Drottins skima um alla jörðina til þess að geta komið þeim til hjálpar sem eru heils hugar við hann.“ (2. Kron. 16:9) Boðorð hans, meðal annars um fjölskyldulífið og efnislegu þarfirnar, eru okkur til góðs. Við sýnum að við elskum Jehóva og treystum honum með því að halda þau. „Elskan til Guðs birtist í að við höldum boðorð hans. Og boðorð hans eru ekki þung.“ – 1. Jóh. 5:3.

21, 22. Hvers vegna ertu ákveðinn í að sýna að þú treystir Jehóva?

21 Eduardo veit að hann fær aldrei til baka þann tíma sem hann var fjarri konunni og börnunum. En hann lætur ekki hugann dvelja við fortíðina. „Margir af gömlu vinnufélögunum eru efnaðir en óhamingjusamir,“ segir hann. „Fjölskyldur þeirra eiga í alvarlegum erfiðleikum. Við erum hins vegar hamingjusöm. Og það er ánægjulegt að sjá hvernig aðrir vottar hér á landi láta tilbeiðsluna á Jehóva sitja í fyrirrúmi þó að þeir séu fátækir. Við höfum öll kynnst af eigin raun að loforð Jesú rætist.“ – Lestu Matteus 6:33.

22 Vertu hughraustur. Taktu þá ákvörðun að hlýða Jehóva og treysta honum. Þú getur rækt skyldur þínar við fjölskylduna ef þú elskar Jehóva, maka þinn og börn. Þá kynnist þú af eigin raun að Jehóva er hjálpari þinn.

^ gr. 1 Nöfnum er breytt.

^ gr. 11 Sjá greinaröðina „Að fara vel með peninga“ í Vaknið! október-desember 2011.