Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 Ævisaga

Þjónusta í fullu starfi hefur gefið mér mikið

Þjónusta í fullu starfi hefur gefið mér mikið

Þegar ég lít um öxl eftir að hafa þjónað Jehóva í fullu starfi í 65 ár get ég svo sannarlega sagt að ég hafi átt ánægjulega ævi. Það þýðir samt ekki að það hafi aldrei komið dagar sem ég var dapur eða kjarklaus. (Sálm. 34:13; 94:19) En þegar á heildina er litið hefur líf mitt verið bæði mjög gefandi og innihaldsríkt.

ÞANN 7. september 1950 byrjaði ég að starfa á Betel í Brooklyn. Á þeim tíma samanstóð Betelfjölskyldan af 355 bræðurm og systrum af ýmsu þjóðerni á aldrinum 19 til 80 ára. Mörg þeirra voru andasmurð.

ÉG KYNNIST JEHÓVA

Þegar ég skírðist 10 ára gamall.

Móðir mín kenndi mér að þjóna ,hinum sæla Guði‘. (1. Tím. 1:11, Biblían 1912) Hún byrjaði að þjóna Jehóva þegar ég var lítill drengur. Ég lét skírast tíu ára gamall, þann 1. júlí 1939 á svæðismóti í Columbus í Nebraska í Bandaríkjunum. Við vorum um 100 talsins saman komin í samkomusal sem hafði verið tekinn á leigu, og hlustuðum á hljóðupptöku af fyrirlestrinum „Fasismi eða frelsi“ sem Joseph Rutherford flutti. Þegar fyrirlesturinn var hálfnaður hafði skríll safnast saman fyrir utan samkomusalinn. Hópurinn ruddist inn, leysti upp samkomuna og rak okkur út úr bænum. Við fórum öll að sveitabæ í nágrenninu sem trúbróðir okkar átti, og hlustuðum þar á það sem eftir var af dagskránni. Eins og nærri má geta gleymi ég aldrei þessari dagsetningu, skírnardeginum mínum.

Móðir mín lagði sig fram við að ala mig upp í sannleikanum. Þótt faðir minn hafi verið góður maður og góður faðir hafði hann lítinn áhuga á trúmálum og trúaruppeldi mínu. Móðir mín og aðrir vottar í söfnuðinum í Omaha veittu mér þá hvatningu sem ég þurfti svo sannarlega oft á að halda.

NÝ STAÐA

Um það leyti sem ég útskrifaðist úr framhaldsskóla þurfti ég að fara að ákveða hvernig ég ætlaði að verja lífi mínu. Ég hafði verið frítímabrautryðjandi (sem núna kallast aðstoðarbrautryðjandi) á hverju sumri ásamt öðrum unglingum.

Tveir ungir, einhleypir bræður, sem voru nýútskrifaðir úr sjöunda bekk Gíleaðskólans, þeir John Chimiklis og Ted Jaracz, voru sendir til að sinna farandstarfi þar sem við bjuggum. Ég var alveg undrandi þegar ég frétti að þeir væru rétt rúmlega tvítugir. Ég var þá 18 ára og um það bil að útskrifast úr framhaldsskóla. Mér er enn í fersku minni þegar bróðir Chimiklis spurði mig hvort ég hefði ákveðið hvernig ég ætlaði að verja lífi mínu. Þegar ég svaraði honum sagði hann hvetjandi: „Gott, byrjaðu endilega sem fyrst að  þjóna Jehóva í fullu starfi. Það er aldrei að vita hvað það gæti veitt þér.“ Þessi hvatning, ásamt fordæmi bræðranna tveggja, hafði sterk áhrif á mig. Ég gerðist síðan brautryðjandi eftir að ég útskrifaðist úr skóla árið 1948.

ÉG FER Á BETEL

Í júlí 1950 ferðaðist ég með foreldrum mínum á alþjóðamótið sem var haldið á Yankee Stadium í New York-borg. Ég sótti fund á mótinu sem var haldinn fyrir þá sem höfðu áhuga á að vinna á Betel. Ég lagði inn umsókn, og í henni stóð að mér yrði sönn ánægja að starfa á Betel.

Þótt faðir minn hefði ekkert haft á móti því að ég væri brautryðjandi og byggi heima vildi hann að ég borgaði heim sanngjarna upphæð fyrir fæði og húsnæði. Dag einn í byrjun ágúst, þegar ég var að fara að leita að vinnu, ákvað ég að líta fyrst í póstkassann. Þar var bréf til mín frá Brooklyn. Það var undirritað af Nathan H. Knorr, en hann skrifaði: „Umsókn þín um Betelþjónustu hefur verið móttekin. Mér skilst að þú fallist á að vera á Betel meðan Drottinn leyfir. Þess vegna langar mig að biðja þig að mæta 7. september 1950 á Betel, Columbia Heights 124, Brooklyn, New York.“

Þegar faðir minn kom heim úr vinnunni sagði ég honum að ég væri búinn að fá vinnu. Hann sagði: „Gott, hvar?“ Ég svaraði: „Á Betel í Brooklyn, kaupið er 10 dollarar á mánuði.“ Honum var nokkuð brugðið, en sagði að ef þetta væri það sem ég vildi ætti ég að reyna að standa mig vel. Hann lét skírast nokkru síðar á móti sem var haldið á Yankee Stadium árið 1953.

Við Alfred Nussrallah vorum brautryðjendur saman.

Svo skemmtilega vildi til að brautryðjandafélaga mínum, Alfred Nussrallah, var líka boðið á Betel á sama tíma, svo að við gátum farið þangað saman. Hann kvæntist síðar og fór ásamt konu sinni í Gíleaðskólann og þau fóru síðan sem trúboðar til Líbanon og þaðan aftur til Bandaríkjanna í farandstarf.

VERKEFNIN Á BETEL

Fyrsta verkefni mitt á Betel var að sauma saman bækur í bókbandsdeildinni. Fyrsta ritið, sem ég vann við, var bókin Hvað hafa trúarbrögðin gert fyrir mannkynið? Eftir um það bil átta mánuði í bókbandsdeildinni var ég fluttur í þjónustudeildina. Þar vann ég svo undir stjórn bróður Thomasar J. Sullivans. Það var mér sönn ánægja að vinna með honum og njóta góðs af visku hans og því innsæi sem hann hafði öðlast á löngum ferli í þjónustu Jehóva.

Eftir að ég hafði verið næstum þrjú ár í þjónustudeildinni sagði Max Larson, umsjónarmaður prentsmiðjunnar, að bróðir Knorr vildi hitta mig. Ég velti fyrir mér hvort mér hefði orðið eitthvað á. En mér létti þegar bróðir Knorr sagðist vilja vita hvort ég væri á förum frá Betel á næstunni. Hann vantaði tímabundið aðstoðarmann á skrifstofuna og vildi vita hvort ég gæti tekið að mér verkefnið. Ég sagði að það væri ekkert á döfinni að fara frá Betel. Það fór svo að ég vann á skrifstofunni hans næstu 20 árin.

Ég hef oft sagt að ég hefði alls ekki haft efni á að borga fyrir alla þá menntun sem ég hlaut þegar ég vann með þeim Thomas J. Sullivan og Nathan H. Knorr og öðrum bræðrum á Betel eins og Milton Henschel, Klaus Jensen, Max Larson, Hugo Riemer og Grant Suiter. *

Þeir bræður, sem ég hef unnið með, hafa haft mjög gott skipulag á vinnu sinni í þágu safnaðarins.  Bróðir Knorr var óþreytandi og vildi sjá veg allrar starfseminnar í þágu Guðsríkis sem mestan. Öllum starfsmönnunum á skrifstofu hans fannst auðvelt að nálgast hann. Við gátum tjáð okkur frjálslega jafnvel þótt við hefðum annað sjónarmið, án þess að missa trúnað hans.

Eitt skiptið talaði bróðir Knorr við mig um mikilvægi þess að sinna því sem mætti kalla minni háttar mál. Til að útskýra það sagði hann mér frá atviki sem átti sér stað þegar hann var umsjónarmaður prentsmiðjunnar. Bróðir Rutherford hringdi í hann og sagði: „Bróðir Knorr, þegar þú kemur úr prentsmiðjubyggingunni í hádegismat viltu þá færa mér nokkur strokleður. Ég þarf að hafa þau á skrifborðinu mínu.“ Bróðir Knorr sagðist hafa farið strax á ritfangalagerinn til að sækja strokleður og sett þau í vasann. Í hádeginu fór hann síðan með þau á skrifstofu bróður Rutherfords. Þetta var ósköp lítið mál, en kom sér samt mjög vel fyrir bróður Rutherford. Þá sagði bróðir Knorr við mig: „Ég vil hafa vel yddaða blýanta á skrifborðinu mínu. Viltu vera svo vænn að hafa þá klára á hverjum morgni?“ Ég sá árum saman til þess að blýantarnir hans væru vel yddaðir.

Bróðir Knorr talaði oft um hvað það væri mikilvægt að hlusta vel þegar við værum beðnir um að sinna ákveðnum verkefnum. Einu sinni gaf hann mér nákvæm fyrirmæli um hvernig ég ætti að sinna ákveðnu verkefni, en ég hlustaði ekki nógu vel. Málið varð mjög vandræðalegt fyrir hann. Ég var alveg miður mín og skrifaði stutt bréf til að útskýra að ég sæi mjög mikið eftir því sem ég hafði gert og að best væri að ég yrði fluttur til í starfi. Seinna um morguninn kom bróðir Knorr til mín og sagði: „Ég fékk bréfið frá þér, Robert. Þér urðu á mistök. Ég er búinn að ræða þetta við þig og er viss um að þú passar þig betur hér eftir. Nú skulum við báðir koma okkur að verki.“ Ég kunni svo sannarlega að meta hugulsemi hans.

HJÓNABANDSHUGLEIÐINGAR

Þegar ég hafði unnið á Betel í átta ár hafði ég engin önnur áform en að halda því áfram. En það átti eftir að breytast. Þegar alþjóðamótið var haldið á Yankee Stadium og Polo Grounds árið 1958 sá ég Lorraine Brookes sem ég hafði hitt árið 1955 þegar hún var brautryðjandi í Montreal í Kanada. Ég heillaðist af viðhorfi hennar til þjónustunnar í fullu starfi og hvað hún var fús að fara hvert sem hún yrði send til að starfa fyrir Jehóva. Lorraine hafði alltaf haft það markmið að fara í Gíleðskólann. Árið 1956, þegar hún var 22 ára, var henni boðið að sækja 27. bekk skólans. Eftir útskriftina var hún send sem trúboði til Brasilíu. Árið 1958 endurnýjuðum við Lorraine svo kunningsskap okkar og hún tók bónorði mínu. Við ráðgerðum að ganga í hjónaband árið eftir og vonuðumst svo til að hefja trúboðsstarf saman.

Þegar ég sagði bróður Knorr frá áformum mínum lagði hann til að við myndum bíða í þrjú ár, ganga síðan í hjónaband og starfa svo á Betel í Brooklyn. Til að par gæti á þeim tíma haldið áfram  að vera á Betel eftir giftingu þurfti annað þeirra að hafa starfað á Betel í tíu ár eða lengur og hitt í að minnsta kosti þrjú ár. Lorraine féllst því á að starfa í tvö ár á Betel í Brasilíu og eftir það eitt ár á Betel í Brooklyn áður en við gengjum í hjónaband.

Fyrstu tvö árin, sem við vorum trúlofuð, var eina sambandið, sem við höfðum, í gegnum bréfaskriftir. Það var of dýrt að hringja og í þá daga var enginn tölvupóstur. Þegar við gengum í hjónaband 16. september 1961 sýndi bróðir Knorr okkur þann heiður að flytja brúðkaupsræðuna. Vissulega virtust þessi fáu ár, sem við biðum, vera langur tími. En núna, þegar við lítum um öxl á rúmlega 50 ára hjónaband, sátt og ánægð, erum við sammála um að það hafi verið vel þess virði að bíða.

Á brúðkaupsdaginn okkar. Frá vinstri: Nathan H. Knorr, Patricia Brookes (systir hennar Lorraine), Lorraine og ég, Curtis Johnson, Faye og Roy Wallen (foreldrar mínir).

DÝRMÆT ÞJÓNUSTUVERKEFNI

Árið 1964 fékk ég það ánægjulega verkefni að heimsækja deildarskrifstofur í öðrum löndum sem sérstakur umsjónarmaður. Á þeim tíma fóru eiginkonur ekki með mönnum sínum í slíkar ferðir. En árið 1977 var þessu breytt og eftir það fylgdu þær mönnum sínum á ferðunum. Það ár fórum við Lorraine ásamt Grant og Edith Suiter að heimsækja deildarskrifstofurnar í Þýskalandi, Austurríki, Grikklandi, Kýpur, Tyrklandi og Ísrael. Ég hef heimsótt alls um 70 lönd víðs vegar um heiminn.

Í einni slíkri ferð til Brasilíu árið 1980 áttum við að heimsækja borgina Belém sem er við miðbaug, en Lorraine hafði einmitt dvalið þar sem trúboði. Við heimsóttum líka bræður okkar í borginni Manaus. Á fyrirlestri, sem var haldinn á leikvangi, sáum við hóp fólks sem sat saman. Hópurinn fylgdi ekki hefðbundnum brasilískum kurteisisvenjum, en þar heilsast konur með því að kyssa hver aðra á kinnina og bræður heilsast með handabandi. Hver var ástæðan fyrir því að hópurinn skar sig úr að þessu leyti?

Þetta voru kær trúsystkini okkar frá holdsveikrahæli lengst inni í regnskógum Amason. Þau forðuðust að snerta annað fólk á leikvanginum til að smita það ekki. En þau snertu svo sannarlega hjörtu okkar, og við gleymum aldrei gleðinni sem skein úr andlitum þeirra. Orð Jehóva lýsa þessu mjög vel: „Þjónar mínir munu fagna af hjartans gleði.“ – Jes. 65:14, Biblían 1981.

GEFANDI OG INNIHALDSRÍK ÆVI

Við Lorraine lítum oft yfir farinn veg sem við höfum helgað þjónustunni við Jehóva í rúmlega sex áratugi. Við erum mjög ánægð með þá blessun sem við höfum hlotið af því að við höfum leyft Jehóva að leiða okkur fyrir milligöngu safnaðar síns. Þótt ég geti ekki ferðast um heiminn eins og á mínum yngri árum, get ég sinnt daglegum störfum sem aðstoðarmaður hins stjórnandi ráðs og unnið með ritaranefndinni og þjónustunefndinni. Ég er mjög þakklátur fyrir að geta átt smá þátt í að styðja söfnuði Jehóva um allan heim á þennan hátt. Við erum alltaf jafn undrandi að sjá hversu margir ungir menn og konur hafa farið að þjóna Jehóva í fullu starfi. Þetta unga fólk hefur sama hugarfar og Jesaja sem sagði: „Hér er ég. Send þú mig.“ (Jes. 6:8) Þessi fjöldi endurspeglar sannleikann í orðum farandumsjónarmannsins sem sagði endur fyrir löngu við mig: „Byrjaðu endilega sem fyrst að þjóna Jehóva í fullu starfi. Það er aldrei vita hvað það gæti veitt þér.“

^ gr. 20 Hægt er að lesa ævisögur sumra þessara bræðra í eftirfarandi tölublöðum Varðturnsins á ensku: Thomas J. Sullivan (15. ágúst 1965), Klaus Jensen (15. október 1969), Max Larson (1. september 1989), Hugo Riemer (15 september 1964) og Grant Suiter (1. september 1983).