Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kanntu að meta að Jehóva skuli vaka yfir þér?

Kanntu að meta að Jehóva skuli vaka yfir þér?

Augu Drottins eru alls staðar og vaka yfir vondum og góðum.“ – ORÐSKV. 15:3.

1, 2. Hver er munurinn á rafrænni vöktun og vakandi auga Jehóva?

Í MÖRGUM löndum eru eftirlitsmyndavélar settar upp í auknum mæli til að fylgjast með umferð og ná slysum á mynd. Ef myndavélar ná myndum af bílslysi, þar sem ökumaður flýr af slysstað, geta yfirvöld notað myndirnar til að finna hann og taka hann fastan. Þar sem rafræn vöktun er orðin svo algeng verður sífellt erfiðara fyrir fólk að komast hjá afleiðingum gerða sinna.

2 En er eitthvað sameiginlegt með rafrænni vöktun og himneskum föður okkar? Biblían segir að augu Jehóva séu „alls staðar“. (Orðskv. 15:3) En þýðir það að hann horfi rannsakandi augum á allt sem við gerum? Vakir hann yfir okkur í þeim tilgangi að hegna okkur fyrir að brjóta lög sín? (Jer. 16:17; Hebr. 4:13) Alls ekki! Þvert á móti fylgist Jehóva með okkur af því að hann elskar hvert og eitt okkar og vill að okkur vegni vel. – 1. Pét. 3:12.

3. Á hvaða fimm vegu kemur umhyggja Jehóva í ljós?

3 Hvernig getum við lært að meta kærleikann sem Jehóva sýnir með því að vaka yfir okkur? Lítum á hvernig Jehóva sýnir að hann elski okkur. Hann gerir það með því að  (1) vara okkur við þegar slæmar tilhneigingar gera vart við sig, (2) leiðrétta okkur þegar við gerum rangt, (3) leiðbeina okkur með meginreglum Biblíunnar, (4) hjálpa okkur þegar við lendum í ýmiss konar raunum og (5) launa okkur það góða sem hann sér í fari okkar.

GUÐ GÆTIR OKKAR OG GERIR OKKUR VIÐVART

4. Hvernig vildi Jehóva að Kain brygðist við viðvörun sinni?

4 Skoðum fyrst hvernig Guð gerir okkur viðvart þegar við förum að rækta með okkur slæmar tilhneigingar. (1. Kron. 28:9) Til að skilja hvernig það ber vitni um umhyggju Jehóva skulum við sjá hvað hann gerði þegar Kain reiddist yfir því að Jehóva skuli ekki hafa verið ánægður með hann. (Lestu 1. Mósebók 4:3-7.) Jehóva hvatti Kain til að ,gera rétt‘ því að annars myndi ,syndin liggja við dyrnar‘. Hann sagði: „Þú getur sigrast á henni.“ Jehóva vildi að Kain tæki til sín viðvörunina því að þá gæti Kain „verið upplitsdjarfur“, endurheimt velþóknun Guðs og átt gott samband við hann.

5. Á hvaða hátt varar Jehóva okkur við slæmum tilhneigingum?

5 Hvað um okkur? Augu Jehóva sjá hvað býr í hjarta okkar. Við getum ekki falið innstu tilhneigingar okkar og hvatir fyrir honum. Kærleiksríkur faðir okkar vill að við fylgjum vegi réttlætisins en hann þvingar okkur ekki til þess. Í orði sínu varar Jehóva okkur við rangri stefnu. Í daglegum biblíulestri rekumst við til dæmis oft á ritningarstaði sem hjálpa okkur að vinna bug á slæmum tilhneigingum og röngum löngunum. Einnig gætu ritin okkar fjallað um eitthvað vandamál sem við eigum við að glíma og sýnt okkur hvernig við getum tekist á við það. Og á samkomunum gefur Jehóva okkur öllum góð ráð sem koma á réttum tíma.

6, 7. (a) Hvernig getur námsefni, sem er samið fyrir milljónir manna, verið merki um að Jehóva þyki vænt um þig persónulega? (b) Hvernig geturðu haft gagn af persónulegri athygli Jehóva?

6 Allar slíkar viðvaranir eru merki um að Jehóva þykir vænt um okkur og fylgist með hverju og einu okkar. Það er reyndar rétt að Biblían er gömul bók, ritin okkar skrifuð fyrir milljónir manna og ráðin á samkomunum ætluð öllum söfnuðinum. En samt notaði Jehóva þessar leiðir til að beina athygli þinni að orði sínu svo að þú gætir barist gegn slæmum tilhneigingum. Þær eru því merki um að Jehóva lætur sér annt um okkur sem einstaklinga.

Samviska, sem er mótuð af meginreglum Biblíunnar, hjálpar okkur að forðast hætturnar í kringum okkur. (Sjá 6. og 7. grein.)

7 Til að hafa gagn af viðvörunum Jehóva verðum við að trúa því að honum þyki vænt um okkur. Síðan verðum við að taka ráð hans til okkar og reyna að losa okkur við hverja þá hugsun sem Jehóva mislíkar. (Lestu Jesaja 55:6, 7.) Ef við förum eftir viðvörunum Jehóva á það eftir að hlífa okkur við miklu hugarangri. En hvað ef við látum undan slæmum tilhneigingum? Hvaða hjálp sér Jehóva okkur þá fyrir?

UMHYGGJUSAMUR FAÐIR OKKAR LEIÐRÉTTIR OKKUR

8, 9. Hvernig sýnir leiðréttingin, sem Jehóva gefur fyrir milligöngu þjóna sinna, að honum er innilega annt um okkur? Lýstu með dæmi.

8 Við verðum hvað best vör við umhyggju Jehóva þegar hann leiðréttir okkur. (Lestu Hebreabréfið 12:5, 6.) Að sjálfsögðu er ekkert gaman að fá leiðréttingu eða aga. (Hebr. 12:11) En settu þig í spor þess sem reynir að leiðrétta þig. Hvað leggur hann á sig? Honum er ekki sama um þig. Þess vegna er hann vakandi  fyrir því ef þú gerir eitthvað sem gæti haft slæm áhrif á samband þitt við Jehóva. Hann tekur frá tíma til að geta sýnt þér úr Biblíunni hvernig þú getur leiðrétt stefnuna og verið velþóknanlegur í augum Jehóva. Ráðin koma í rauninni frá Jehóva og honum er ekkert síður annt um þig.

9 Tökum dæmi um það hvernig við getum endurspeglað umhyggjusemi Jehóva þegar við þurfum að gefa ráð. Bróðir nokkur var vanur að horfa á klám áður en hann kynntist sannleikanum en sigraðist á þeim ávana. Gamla tilhneigingin kraumaði þó enn undir niðri. Þegar hann fékk nýjan farsíma blossaði löngunin upp aftur. (Jak. 1:14, 15) Hann notaði símann til að fara inn á klámsíður á Netinu. Einn daginn þegar hann var í símastarfinu lánaði hann öldungi símann til að geta flett upp heimilisföngum. Þegar öldungurinn byrjaði að nota símann sá hann að bróðirinn hafði skoðað vafasamar síður. Þetta var til góðs fyrir bróður okkar sem var kominn út á hálan ís. Hann fékk leiðréttingu og hjálp í tæka tíð og sigraðist að lokum á þessum slæma ávana. Við getum sannarlega verið þakklát umhyggjusömum himneskum föður okkar sem getur jafnvel séð leyndar syndir og leiðréttir okkur áður en við erum of djúpt sokkin.

ÞAÐ ER OKKUR TIL GÓÐS AÐ FYLGJA MEGINREGLUM BIBLÍUNNAR

10, 11. (a) Hvernig geturðu leitað leiðsagnar Guðs? (b) Hvernig var það fjölskyldu á Filippseyjum til góðs að fylgja leiðsögn Jehóva?

10 Sálmaskáldið söng: „Þú [Jehóva] leiðir mig eftir ályktun þinni.“ (Sálm. 73:24) Þegar við þurfum leiðsögn ættum við að muna eftir Jehóva með því að leita eftir ráðum í orði hans. Þannig getum við séð hvernig Jehóva lítur á málin. Þegar við fylgjum meginreglum Biblíunnar styrkist trú okkar og Jehóva getur einnig blessað okkur með því að sjá fyrir efnislegum þörfum okkar. – Orðskv. 3:6.

11 Bóndi á leigujörð í fjallahéraðinu Masbate á Filippseyjum er gott dæmi um hvernig Jehóva leiðbeinir þjónum sínum. Bæði hann og konan hans hafa verið brautryðjendur þótt þau hafi þurft að sjá fyrir mörgum börnum. Dag einn fengu þau uppsagnarbréf frá landeigandanum sem kom þeim alveg í opna skjöldu. Þau voru ranglega sökuð um óheiðarleika. Þótt bróðirinn hefði  áhyggjur af því hvar fjölskyldan ætti að búa sagði hann: „Jehóva bjargar okkur. Hann sér alltaf fyrir því sem við þurfum, hvað sem á dynur.“ Nokkrum dögum seinna var fjölskyldunni mjög létt við að heyra að hún þyrfti ekki að flytja burt. Hvað kom til? Landeigandinn hafði tekið eftir því að þrátt fyrir ásakanirnar sýndi vottafjölskyldan honum virðingu og hélt ró sinni af því að hún fylgdi meginreglum Biblíunnar. Hann varð svo hrifinn að hann leyfði fjölskyldunni að vera um kyrrt og gaf henni þar að auki stærri landskika. (Lestu 1. Pétursbréf 2:12.) Já, Jehóva leiðbeinir okkur í orði sínu til að hjálpa okkur þegar erfiðleika ber að garði.

VINUR SEM HJÁLPAR OKKUR Í PRÓFRAUNUM

12, 13. Hvað gæti fengið einhverja til að velta fyrir sér hvort Jehóva taki eftir erfiðleikum þeirra?

12 Stundum þurfum við að þola erfiðar aðstæður mjög lengi. Kannski erum við að berjast við langvarandi sjúkdóm, þráláta andstöðu frá nánum ættingjum eða við verðum fyrir stöðugum ofsóknum, svo ekki sé minnst á það þegar okkur greinir alvarlega á við einhvern í söfnuðinum.

13 Einhver gæti til dæmis sagt eitthvað sem særir þig. Þú hugsar með þér: „Þetta á ekki að koma fyrir í söfnuði Jehóva.“ Bróðirinn sem sagði þetta fær meira að segja að sinna ábyrgðarstarfi í söfnuðinum og aðrir virðast hafa mikið álit á honum. „Þetta getur ekki staðist,“ hugsarðu kannski. „Sér Jehóva ekki hvað er að gerast? Ætlar hann ekki að gera neitt í málinu?“ – Sálm. 13:2, 3; Hab. 1:2, 3.

14. Hvers vegna gæti Guð ákveðið að grípa ekki inn í ágreiningsmál okkar?

14 Jehóva getur haft góðar og gildar ástæður fyrir að gera ekkert í málinu. Þótt þér finnist hinn aðilinn eiga meiri sök en þú er ekki víst að Guð sé sama sinnis. Honum finnst þú kannski eiga meiri sök en þú gerir þér grein fyrir. Vel má vera að athugasemdin, sem særði þig svona mikið, hafi verið þörf áminning sem þú ættir að taka til þín. Karl Klein, bróðir sem sat í hinu stjórnandi ráði, sagði í ævisögu sinni frá atviki þegar J. F. Rutherford setti ofan í við hann. Stuttu seinna heilsaði bróðir Rutherford honum glaðlega: „Blessaður, Karl.“ En bróðir Klein var enn þá sár út í hann og muldraði kveðju á móti. Rutherford skynjaði að Klein væri gramur út í sig og varaði hann við að hann gæti orðið Satan að bráð. Seinna skrifaði bróðir Klein: „Stundum ölum við með okkur gremju í garð bróður fyrir að segja eitthvað sem hann hefur fullan rétt á og er í hans verkahring að segja. En ef við gerum það getum við auðveldlega fallið í snöru Satans.“ *

15. Hvað getur hjálpað okkur að bíða þolinmóð eftir Jehóva þegar við eigum í erfiðleikum?

15 Við gætum orðið óþolinmóð þegar erfiðleikar virðast aldrei ætla að taka enda. Hvernig getum við gert gott úr erfiðum aðstæðum? Segjum sem svo að þú sért fastur í umferðarteppu og veist ekki hversu langan tíma þú átt eftir að sitja fastur. Ef þú verður pirraður og reynir að stytta þér leið gætirðu villst og orðið mun lengur á leiðinni. Það er betra að bíða þolinmóður. Ef þú heldur þig á veginum sem orð Guðs hvetur til kemstu á leiðarenda.

16. Nefndu aðra ástæðu fyrir því að Jehóva ákveður stundum að skerast ekki í leikinn þegar við göngum í gegnum prófraunir?

16 Jehóva gæti líka haldið aftur af sér  vegna þess að hann vill að við fáum nauðsynlega þjálfun. (Lestu 1. Pétursbréf 5:6-10.) En prófraunir okkar eru ekki Jehóva að kenna. (Jak. 1:13) Það er ,óvinur okkar, djöfullinn,‘ sem veldur flestum þeirra. Guð getur hins vegar notað erfiðar aðstæður til að hjálpa okkur að þroskast í trúnni. Og þar sem hann „ber umhyggju“ fyrir okkur tekur hann eftir þjáningum okkar og sér til þess að þær standi aðeins „um lítinn tíma“. Kanntu að meta að Jehóva skuli vaka yfir þér þegar þú gengur í gegnum prófraunir? Treystirðu því að hann leiði þig í gegnum þær? – 2. Kor. 4:7-9.

NJÓTTU ÞESS AÐ GLEÐJA JEHÓVA

17. Hverju er Jehóva að skima eftir og hvers vegna?

17 Síðasta ástæðan fyrir því að Jehóva hefur vakandi auga með okkur er mjög hvetjandi. Jehóva lét Hananí sjáanda flytja Asa konungi þessi boð: „Augu Drottins skima um alla jörðina til þess að geta komið þeim til hjálpar sem eru heils hugar við hann.“ (2. Kron. 16:9) Asa var ekki heils hugar við Jehóva en ef þú leggur þig fram við að gera það sem er rétt kemur Jehóva þér til hjálpar.

18. Hvað er gott að muna þegar okkur finnst enginn taka eftir góðum verkum okkar? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

18 Guð vill að við ,leitum hins góða‘, ,elskum hið góða‘ og ,gerum gott‘ svo að hann „miskunni sig yfir“ okkur. (Amos 5:14, 15; 1. Pét. 3:11, 12) Jehóva tekur eftir hinum réttlátu og blessar þá. (Sálm. 34:16) Tökum sem dæmi hebresku ljósmæðurnar Sifru og Púu. Ísraelsmenn voru þrælar í Egyptalandi og faraó hafði gefið út skipun um að drepa öll hebresk sveinbörn við fæðingu. Sifra og Púa óttuðust Guð meira en faraó og björguðu lífi barnanna. Samviska þeirra fékk þær til að gera það sem er rétt í augum Guðs og hann launaði þeim með því að gefa þeim sínar eigin fjölskyldur. (2. Mós. 1:15-17, 20, 21) Jehóva sá það góða sem þær gerðu. Stundum finnst okkur kannski að enginn taki eftir því þegar við gerum eitthvað gott. En Jehóva tekur eftir því. Hann tekur eftir öllum góðverkum okkar og umbunar okkur. – Matt. 6:4, 6; 1. Tím. 5:25; Hebr. 6:10.

19. Hvernig launaði Jehóva trúsystur okkar fyrir erfiði hennar?

19 Trúsystir okkar í Austurríki komst að raun um að erfiði hennar fór ekki fram hjá Jehóva. Hún var af ungverskum ættum og var beðin um að heimsækja konu sem talaði ungversku. Hún fór strax til konunnar en enginn var heima. Hún reyndi aftur og aftur að hitta konuna. Stundum fannst henni eins og einhver væri heima en enginn kom til dyra. Hún skildi eftir rit, skrifaði bréf, skildi eftir símanúmer og þar fram eftir götunum. Loksins, eftir eitt og hálft ár, kom einhver til dyra. Vingjarnleg kona heilsaði systurinni og sagði: „Komdu inn fyrir. Ég hef lesið allt sem þú gafst mér og hef verið að bíða eftir þér.“ Konan hafði verið í krabbameinsmeðferð og ekki treyst sér til að hitta neinn. Hún þáði biblíunámskeið. Já, Guð launaði systurinni fyrir erfiði hennar.

20. Hvaða tilfinningu vekur það hjá þér að Jehóva skuli vaka yfir þér?

20 Jehóva sér allt sem við gerum og launar okkur fyrr eða síðar. Við ættum ekki að hugsa að Jehóva sé að fylgjast með okkur líkt og eftirlitsmyndavél sem tekur upp öll mistök sem okkur verða á. Öllu heldur ætti umhyggja Jehóva að draga okkur nær honum. Jehóva er virkilega annt um okkur. Hann vill hjálpa okkur og launa fyrir það góða sem við gerum.

^ gr. 14 Ævisaga Karls Kleins birtist í Varðturninum (enskri útgáfu) 1. október 1984.