Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Temjum okkur fórnfýsi

Temjum okkur fórnfýsi

„Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér.“ – MATT. 16:24.

1. Hvernig er Jesús fullkomin fyrirmynd um fórnfýsi?

ENGINN maður hefur verið jafn góð fyrirmynd um fórnfýsi og Jesús. Hann tók vilja Guðs fram yfir sínar eigin langanir og þægindi. (Jóh. 5:30) Með því að vera trúr allt til dauða á aftökustaur sýndi hann að fórnfýsi hans átti sér engin takmörk. – Fil. 2:8.

2. Hvernig getum við verið fórnfús og hvers vegna ættum við að vera það?

2 Við sem erum fylgjendur Jesú þurfum líka að vera fórnfús. Hvað merkir það að vera fórnfús? Það merkir einfaldlega að taka þarfir annarra fram yfir sínar eigin. Á vissan hátt er fórnfýsi andstæða eigingirni. (Lestu Matteus 16:24.) Óeigingirni getur auðveldað okkur að láta okkar eigin tilfinningar og óskir víkja fyrir þörfum annarra. (Fil. 2:3, 4) Jesús kenndi að fórnfýsi sé snar þáttur í tilbeiðslu okkar. Hvernig þá? Hvötin að baki fórnfýsinni er að hluta til kristinn kærleikur og hann er aðalsmerki sannra lærisveina Jesú. (Jóh. 13:34, 35) Og hugsaðu þér blessunina sem við njótum vegna þess að við tilheyrum alþjóðlegu bræðralagi sem einkennist af fórnfýsi.

3. Hvað gæti grafið undan fórnfýsi okkar?

3 Við eigum hins vegar í höggi við óvin sem getur grafið undan fórnfýsi okkar með lúmskum hætti. Þessi óvinur er okkar eigin tilhneiging til að vera eigingjörn. Þú manst hvernig  Adam og Eva sýndu af sér eigingirni. Evu langaði til að vera eins og Guð. Adam sýndi þá eigingirni að vilja þóknast henni. (1. Mós. 3:5, 6) Satan hélt áfram að reyna að freista fólks til að vera eigingjarnt eftir að hann hafði fengið Adam og Evu til að snúa baki við sannri tilbeiðslu. Hann notaði jafnvel þá aðferð þegar hann reyndi að freista Jesú. (Matt. 4:1-9) Á okkar tímum hefur Satan tekist að afvegaleiða flesta svo að þeir sýna af sér eigingirni á ótal vegu. Það er umhugsunarvert fyrir okkur vegna þess að við gætum smitast af eigingirni umheimsins. – Ef. 2:2.

4. (a) Getum við losað okkur við eigingjarnar tilhneigingar núna? Skýrðu svarið. (b) Hvaða spurningar ætlum við að skoða?

4 Það má líkja eigingirni við ryð sem myndast á járni. Ef hlutur úr járni er óvarinn fyrir veðri og vindum fer hann að ryðga. Ef við látum sem við sjáum ekki ryðið og gerum ekki neitt getur það valdið varanlegum skemmdum eða bilun. Við getum ekki losnað við ófullkomleikann og eigingjarnar tilhneigingar núna þannig að við þurfum að vera vakandi fyrir hættunum og halda áfram að berjast gegn slíkum tilhneigingum. (1. Kor. 9:26, 27) Hvernig getum við komið auga á það ef eigingirni lætur á sér kræla í fari okkar? Og hvernig getum við þroskað fórnfýsina í meira mæli?

NOTAÐU BIBLÍUNA TIL AÐ HAFA HEMIL Á EIGINGIRNI

5. (a) Að hvaða leyti er Biblían eins og spegill? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hvað þurfum við að forðast ef við ætlum að nota Biblíuna til að koma auga á galla eins og eigingirni?

5 Við getum notað Biblíuna til að skoða okkar innri mann og laga það sem er að, ekki ósvipað og við notum spegil til að skoða hvernig við lítum út. (Lestu Jakobsbréfið 1:22-25.) En spegill kemur að litlu gagni nema við notum hann rétt. Ef við látum okkur nægja að líta örstutt í spegil tökum við kannski ekki eftir litlum en þó áberandi bletti. Ef við horfum í spegil frá hlið sjáum við ef til vill annarri manneskju bregða fyrir. Ef við viljum nota Biblíuna sem spegil til að koma auga á galla eins og eigingirni er ekki nóg að lesa lauslega í henni eða nota hana til að sjá galla annarra.

6. Hvernig höldum við okkur við hið fullkomna lögmál?

6 Við gætum sem sagt lesið reglulega í Biblíunni, jafnvel daglega, án þess að koma auga á að eigingirni sé farin að skjóta upp kollinum hjá okkur. Hvernig getur það gerst? Lítum nánar á líkingu Jakobs um spegilinn. Það var ekki svo að maðurinn liti ekki almennilega í spegilinn. Jakob segir að hann ,skoði sjálfan sig‘. Hann notar hérna grískt orð sem lýsir því að grandskoða eða íhuga vandlega. Hvað var þá að hjá manninum? Jakob heldur áfram: „Hann ... fer burt og gleymir jafnskjótt hvernig það var.“ Hann snýr sér frá speglinum án þess að gera eitthvað í sínum málum. Farsæll maður lætur sér hins vegar ekki nægja að ,skyggnast inn í hið fullkomna lögmál‘ heldur segir Jakob að hann ,haldi sér við það‘. Hann snýr ekki baki við fullkomnu lögmáli Guðs. Hann heldur sér við það með því að fylgja því. Jesús tók í sama streng þegar hann sagði: „Ef þér farið eftir því sem ég segi eruð þér sannir lærisveinar mínir.“ – Jóh. 8:31.

7. Hvernig getum við notað Biblíuna til að kanna hvort eigingirni sé farin að skjóta upp kollinum hjá okkur?

7 Til að hafa sigur í baráttunni við eigingirnina þurfum við að lesa Biblíuna vandlega. Það getur hjálpað okkur að koma auga á svið þar sem við þurfum að bæta okkur. En við þurfum að gera meira – kafa dýpra í efnið. Þegar þú ert búinn að glöggva þig vel á ákveðinni frásögu í  Biblíunni skaltu reyna að sjá sjálfan þig í sögunni og spyrja þig: Hvað hefði ég gert við þessar aðstæður? Hefði ég gert hið rétta? Eftir að þú hefur hugleitt vel það sem þú lest skaltu reyna eins og þú getur að fara eftir því. (Matt. 7:24, 25) Við skulum nú skoða hvernig frásögurnar af Sál konungi og Pétri postula geta hjálpað okkur að temja okkur fórnfýsi.

LÆRÐU AF MISTÖKUM SÁLS KONUNGS

8. Hvernig var hugarfar Sáls þegar hann tók við konungdómi og hvernig birtist það?

8 Sál Ísraelskonungur er glöggt dæmi um hvernig eigingirni getur gert fórnfýsi að engu. Sál var hógvær og lítillátur þegar hann tók við konungdómi. (1. Sam. 9:21) Nokkrir Ísraelsmenn sýndu honum fyrirlitningu og honum hefði getað þótt réttlætanlegt að refsa þeim fyrir að virða ekki þá stöðu sem Guð hafði veitt honum. En hann kaus að gera það ekki. (1. Sam. 10:27) Sál fylgdi handleiðslu anda Guðs og leiddi þjóðina til sigurs í orustu við Ammóníta. Það vitnar um auðmýkt hans að hann skyldi gefa Jehóva heiðurinn af sigrinum. – 1. Sam. 11:6, 11-13.

9. Hvernig sýndi Sál af sér eigingirni?

9 Síðar meir leyfði Sál eigingirni og hroka að ná tökum á sér, rétt eins og óvarið járn ryðgar með tímanum. Þegar hann sigraði Amalekíta í bardaga hlýddi hann ekki Jehóva heldur lét sínar eigin langanir ráða ferðinni. Í græðgi sinni tók hann herfang þótt Jehóva hefði bannað það. Í ofanálag sýndi hann þann hroka að reisa sér minnismerki. (1. Sam. 15:3, 9, 12) Þegar Samúel spámaður sagði honum að Jehóva hefði vanþóknun á því sem hann hafði gert reyndi hann að réttlæta sjálfan sig. Hann beindi athyglinni að þeim hluta af fyrirmælum Jehóva sem hann hafði hlýtt en kenndi öðrum um það sem hann hafði brotið af sér. (1. Sam. 15:16-21) Og stoltið gerði að verkum að honum var meira í mun að halda andlitinu frammi fyrir fólkinu en að þóknast Jehóva. (1. Sam. 15:30) Hvernig getum við notað frásöguna af Sál eins og spegil til að hjálpa okkur að vera fórnfús?

10, 11. (a) Hvað má læra um fórnfýsi af sögu Sáls? (b) Hvað getum við gert til að falla ekki í sömu gryfjuna og Sál?

10 Í fyrsta lagi sýnir sagan af Sál að við megum ekki vera of sjálfsörugg. Við megum ekki hugsa sem svo að við hljótum að vera fórnfús áfram ef við höfum verið það einhvern tíma. (1. Tím. 4:10) Höfum hugfast að Sál stóð sig vel og naut hylli Jehóva um tíma. En hann upprætti ekki eigingjarnar tilhneigingar þegar þær tóku að skjóta rótum. Að lokum hafnaði Jehóva Sál vegna óhlýðni hans.

11 Í öðru lagi ættum við að gæta okkar á því að horfa ekki bara á þau svið lífsins þar sem við stöndum okkur vel en loka augunum fyrir því sem við þurfum að bæta. Það væri ekki ósvipað og að horfa í spegil og dást að nýju fötunum sínum en taka ekki eftir að maður er óhreinn í framan. Það er ólíklegt að við verðum eins sjálfsánægð og Sál en við ættum að sporna eindregið gegn öllum tilhneigingum sem gætu leitt okkur út á óheillabraut. Við skulum ekki reyna að réttlæta okkur ef við fáum tiltal, gera lítið úr ávirðingum okkar eða skella skuldinni á aðra. Það er miklu betra að taka leiðréttingu heldur en að vera eins og Sál. – Sálm. 141:5.

12. Hvernig getur fórnfýsi hjálpað okkur ef við drýgjum alvarlega synd?

12 En segjum sem svo að við drýgðum alvarlega synd. Sál hafði áhyggjur af mannorði sínu og það kom í veg fyrir að hann gerði það sem þurfti til að endurheimta sambandið við Guð. Ef við erum fórnfús getur það á hinn bóginn hjálpað okkur að kyngja stoltinu og leita  hjálpar. (Orðskv. 28:13; Jak. 5:14-16) Tökum dæmi: Bróðir nokkur fór að horfa á klám þegar hann var 12 ára og hélt því áfram í laumi í meira en áratug. Hann segir: „Það var ákaflega erfitt að viðurkenna þetta fyrir konunni minni og öldungunum. En nú er þungu fargi létt af mér eftir að ég hef játað sök mína. Sumir af vinum mínum voru vonsviknir þegar ég var tekinn af skrá sem safnaðarþjónn, rétt eins og ég hefði brugðist þeim. En ég veit að Jehóva er ánægðari með þjónustu mína núna heldur en hann var meðan ég horfði á klámið, og það er álit hans sem skiptir mestu máli.“

PÉTUR SIGRAÐIST Á EIGINGIRNI

13, 14. Hvernig komu eigingjarnar tilhneigingar Péturs í ljós?

13 Pétur sýndi af sér fórnfýsi meðan Jesús var að kenna honum og leiðbeina. (Lúk. 5:3-11) Hann átti engu að síður í baráttu við eigingjarnar tilhneigingar. Honum gramdist til dæmis þegar postularnir Jakob og Jóhannes lögðu á ráðin um að næla sér í háa stöðu við hlið Jesú í ríki Guðs. Kannski fannst Pétri að annað þessara sæta tilheyrði honum vegna þess að Jesús var búinn að segja að hann ætti að gegna sérstöku hlutverki. (Matt. 16:18, 19) Jesús varaði að minnsta kosti þá Jakob og Jóhannes, og sömuleiðis Pétur og hina postulana, við því að reyna í eigingirni að „drottna yfir“ bræðrum sínum. – Mark. 10:35-45.

14 En baráttu Péturs við sjálfan sig var ekki lokið þótt Jesús væri búinn að leiðrétta hann. Þegar Jesús sagði postulunum að þeir myndu yfirgefa hann um stund gerði Pétur lítið úr hinum. Hann hóf sjálfan sig yfir þá með því að fullyrða að hann einn myndi vera trúr. (Matt. 26:31-33) En þar ofmat hann sjálfan sig því að þessa sömu nótt mistókst honum að vera fórnfús. Hann afneitaði Jesú þrisvar til að reyna að bjarga eigin skinni. – Matt. 26:69-75.

15. Hvers vegna er frásaga Biblíunnar af Pétri hughreystandi?

15 Þrátt fyrir baráttu Péturs og mistök er frásaga Biblíunnar af honum hughreystandi. Pétur lagði sig fram um að sigrast á veikleikum sínum og sýna sjálfstjórn  og óeigingjarnan kærleika, og honum tókst það með hjálp anda Guðs. (Gal. 5:22, 23) Hann stóðst prófraunir sem segja má að hafi verið erfiðari en þær sem felldu hann áður. Hann sýndi auðmýkt með viðbrögðum sínum þegar Páll áminnti hann opinberlega. (Gal. 2:11-14) Pétri fannst hann ekki hafa lækkað í áliti við áminninguna. Hann lagði ekki fæð á Pál heldur bar áfram hlýjan hug til hans. (2. Pét. 3:15) Fordæmi Péturs getur verið okkur hvatning til að temja okkur fórnfýsi.

Hvernig brást Pétur við leiðréttingu? Hefðir þú brugðist eins við? (Sjá 15. grein.)

16. Hvernig getum við sýnt fórnfýsi þegar erfiðleikar verða á vegi okkar?

16 Veltu fyrir þér hvernig þú bregst við erfiðleikum. Pétur og hinir postularnir voru fangelsaðir og síðan húðstrýktir fyrir að boða fagnaðarerindið en þeir voru „glaðir yfir því að þeir höfðu verið virtir þess að þola háðung vegna nafns Jesú“. (Post. 5:41) Þú getur líka litið á ofsóknir sem tækifæri til að líkja eftir Pétri og Jesú og sýna fórnfýsi. (Lestu 1. Pétursbréf 2:20, 21.) Þetta viðhorf getur jafnvel hjálpað þér að taka við nauðsynlegum leiðbeiningum frá öldungunum. Líktu eftir Pétri í stað þess að móðgast. – Préd. 7:9.

17, 18. (a) Hvaða spurninga gætum við spurt okkur varðandi markmið í þjónustu Jehóva? (b) Hvað getum við gert ef það örlar á eigingirni í hjarta okkar?

17 Þú getur einnig tekið Pétur til fyrirmyndar þegar þú setur þér markmið í þjónustu Guðs. Þú getur unnið að þeim á þann hátt að það endurspegli fórnfýsi. En gættu þess að markmiðin snúist ekki upp í löngun í upphefð. Spyrðu sjálfan þig af hverju þig langi til að taka framförum eða gera meira í þjónustu Jehóva. Er það að einhverju leyti sprottið af því að þú sækist eftir meiri viðurkenningu eða áhrifum? Sú virðist einmitt hafa verið raunin hjá þeim Jakobi og Jóhannesi þegar þeir báðu Jesú um að fá að sitja við hlið hans í Guðsríki.

18 Ef það örlar á einhverri eigingirni í hjarta þér skaltu biðja Jehóva um hjálp til að bæta hugsun þína og tilfinningar. Leggðu þig síðan enn betur fram við að upphefja Jehóva en ekki sjálfan þig. (Sálm. 86:11) Þú gætir líka sett þér markmið sem draga ekki athyglina að sjálfum þér. Til dæmis gætirðu reynt að þroska enn betur einhvern af ávöxtum andans sem þér finnst sérlega krefjandi. Eða segjum sem svo að þú búir þig vel undir verkefni sem þú ert með á samkomum en hafir lítinn áhuga á að ræsta ríkissalinn. Þá gætirðu lagt áherslu á að tileinka þér leiðbeiningarnar í Rómverjabréfinu 12:16Lestu.

19. Hvað getum við gert til að missa ekki móðinn þegar við speglum okkur í orði Guðs?

19 Okkur gætu fallist hendur þegar við speglum okkur í orði Guðs og komum auga á einhverja galla, jafnvel merki um eigingirni. Ef þú verður fyrir því skaltu hugsa til þess hvernig manninum tókst til sem gleymdi ekki því sem hann sá heldur framkvæmdi það. Jakob lætur ósagt hve fljótur maðurinn var að bæta úr því sem var að hjá honum eða hvort honum tókst einu sinni að lagfæra allt sem hann kom auga á. Jakob segir aðeins að hann hafi ,haldið sér við hið fullkomna lögmál‘. (Jak. 1:25) Maðurinn gleymdi ekki því sem hann sá í speglinum heldur hélt áfram að reyna að bæta sig. Hugsaðu jákvætt um sjálfan þig og sjáðu galla þína í réttu ljósi. (Lestu Prédikarann 7:20.) Haltu áfram að skyggnast inn í hið fullkomna lögmál og temdu þér fórnfýsi. Jehóva er fús til að hjálpa þér, rétt eins og hann hefur hjálpað ótal trúsystkinum þínum. Þau eru ófullkomin en Jehóva hefur samt sem áður velþóknun á þeim og blessar þau.