Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að annast hina öldruðu

Að annast hina öldruðu

„Börnin mín, elskum ekki með tómum orðum heldur í verki og sannleika.“ – 1. JÓH. 3:18.

1, 2. (a) Hvaða erfiðleikar blasa við mörgum og hvaða spurningar vakna? (b) Hvernig geta foreldar og börn tekist á við erfiðleikana sem fylgja breyttum aðstæðum?

ÞAÐ er sárt að horfa upp á foreldra sína verða ósjálfbjarga. Einu sinni voru þau svo hraust og sjálfstæð en þurfa nú umönnun annarra. Annað þeirra gæti hafa dottið nýlega og mjaðmarbrotnað, orðið áttavillt og ráfað burt eða greinst með alvarlegan sjúkdóm. Og svo er það hin hliðin á peningnum. Hinn aldraði á kannski erfitt með að sætta sig við að ellin eða aðrar aðstæður takmarki sjálfstæði hans. (Job. 14:1) Hvað er til ráða? Hvernig er hægt að annast hina öldruðu?

2 Í grein um umönnun aldraðra segir: „Þótt erfitt sé að ræða um fylgifiska ellinnar eru fjölskyldur betur í stakk búnar að taka því sem að höndum ber ef þær hafa rætt um valkostina og gert áætlun.“ Slíkar umræður skila bestum árangri þegar við viðurkennum að erfiðleikarnir, sem fylgja ellinni, eru óumflýjanlegir. Við getum samt undirbúið okkur að vissu marki og ákveðið fyrir fram hvað gera skuli. Við skulum nú kanna hvernig fjölskyldur geta unnið saman í kærleika til að takast á við suma af erfiðleikunum sem búast má við.

 AÐ BÚA SIG UNDIR ,VONDU DAGANA‘

3. Hvað gætu fjölskyldur þurft að gera þegar aldraðir foreldrar þarfnast meiri aðstoðar? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

3 Það kemur yfirleitt að því að aldraðir eru ekki lengur færir um að annast sig sjálfir að öllu leyti heldur þarfnast aðstoðar. (Lestu Prédikarann 12:1-7.) Þegar aldraðir foreldrar geta ekki lengur séð um sig sjálfir þurfa þeir og börn þeirra að ákveða í sameiningu hvaða aðstoð þeir þurfi að fá og finna lausnir sem þau hafa ráð á. Yfirleitt er skynsamlegt að fjölskyldan hittist til að ræða um hvernig hægt sé að vinna saman, hverjar þarfirnar séu og hvað hægt sé að gera. Allir hlutaðeigandi, ekki síst foreldrarnir, ættu að tjá skoðun sína opinskátt og af raunsæi. Skoðið hvaða aðstoð foreldrarnir þurfa að fá til að geta búið áfram heima. * Ræðið hvað hver og einn geti gert til að veita nauðsynlegan stuðning. (Orðskv. 24:6) Sumir gætu til dæmis verið í aðstöðu til að hjálpa frá degi til dags en aðrir aðstoðað fjárhagslega. Allir ættu að gera sér grein fyrir að hver og einn hefur hlutverki að gegna en hlutverkin geta breyst með tímanum og fólk gæti þurft að skiptast á.

4. Hvert er hægt að snúa sér til að fá hjálp þegar aðstæður breytast í fjölskyldunni?

4 Ef þú þarft að annast aldrað foreldri skaltu lesa þér til um þá sjúkdóma sem það á við að stríða. Ef um er að ræða hrörnunarsjúkdóm skaltu kynna þér hvernig búast má við að hann þróist. (Orðskv. 1:5) Settu þig í samband við opinbera aðila sem sjá um þjónustu við aldraða. Aflaðu þér upplýsinga um leiðir sem eru í boði til að foreldrar þínir fái sem besta aðstoð og til að auðvelda þér að annast þau. Þegar þú hugsar til þeirra breytinga sem búast má við geturðu upplifað tilfinningarót á borð við sorg eða uppnám eða orðið ráðvilltur. Talaðu við góðan vin og segðu honum hvernig þér líður. Og úthelltu umfram allt hjarta þínu fyrir Jehóva. Hann getur veitt þér hugarfriðinn sem þú þarft til að takast á við allt sem að höndum ber. – Sálm. 55:23; Orðskv. 24:10; Fil. 4:6, 7.

5. Hvers vegna er skynsamlegt að afla sér upplýsinga tímanlega um hvernig hægt sé að annast aldraða foreldra?

5 Það getur verið gott ráð fyrir aldraða og fjölskyldur þeirra að velta fyrir sér möguleikum, og viða að sér upplýsingum fyrir fram um hugsanlega aðstoð. Væri til dæmis hentugt fyrir foreldri að búa hjá syni eða dóttur, fara á heimili fyrir aldraða eða þiggja önnur úrræði? Það ber vott um fyrirhyggju að búa sig undir þá mæðu sem fylgir ellinni. (Sálm. 90:10) Það er allt of algengt að fjölskyldur séu ekki undirbúnar og neyðist síðan til að taka erfiðar ákvarðanir í flýti þegar aðstæður breytast. Þetta er „næstum alltaf versti tíminn til að taka slíka ákvörðun“, segir sérfræðingur nokkur. Þegar taka þarf ákvarðanir í skyndi er hætt við að fólk sé taugaspennt og það komi til árekstra. Það er hins vegar auðveldara að aðlagast breyttum aðstæðum ef fólk undirbýr sig tímanlega. – Orðskv. 20:18.

Fjölskyldan getur hist til að ræða hvernig hægt sé að fullnægja þörfum foreldranna. (Sjá 6.-8. grein.)

6. Hvers vegna er gott að ræða hvar og hvernig hinir öldruðu muni búa þegar aðstæður breytast?

6 Þér þykir ef til vill vandræðalegt að ræða við foreldra þína um það hvar og hvernig þeir eigi að búa og um hugsanlegar breytingar þegar þar að kemur. Margir segja þó að það hafi reynst gagnlegt að ræða málin fyrir fram. Hvers vegna? Vegna þess að gagnkvæmur skilningur og hlýja auðveldaði þeim  að gera skynsamlegar áætlanir. Þeir komust að raun um að það var auðveldara að taka ákvarðanir þegar þar að kom vegna þess að fjölskyldan var búin að skiptast á skoðunum og ræða saman í vinsemd og kærleika. Margir hinna öldruðu vilja búa sem lengst á eigin heimili og ráða málum sínum sjálfir. Það er þó augljóslega gott fyrir þá að ræða við börnin um það hvers konar umönnun þeir vilja helst fá ef þörf krefur.

7, 8. Hvaða mál ættu fjölskyldur að ræða og hvers vegna?

7 Þegar þið foreldrar ræðið málin í fjölskyldunni skuluð þið upplýsa börnin um óskir ykkar, fjárhag og þá valkosti sem þið teljið besta. Þá eru þau í aðstöðu til að taka viðeigandi ákvarðanir ef til þess kemur að þið verðið ófær um það sjálf. Að öllum líkindum vilja þau virða óskir ykkar og gera ykkur kleift að halda sjálfstæði ykkar eins lengi og kostur er. (Ef. 6:2-4) Gerið þið ráð fyrir að eitt af börnunum bjóði ykkur að flytja til sín eða reiknið þið með einhverju öðru? Verið raunsæ og hafið hugfast að það er ekki víst að allir sjái málin sömu augum og þið. Það getur líka tekið sinn tíma fyrir alla hlutaðeigandi, bæði foreldrana og börnin, að venjast tilhugsuninni.

8 Allir ættu að hafa hugfast að hægt er að afstýra ýmsum vandamálum með því að ræða saman og skipuleggja málin. (Orðskv. 15:22) Þið ættuð meðal annars að ræða um óskir ykkar varðandi læknismeðferð. Það er tvímælalaust ástæða til að ræða það sem fram kemur á yfirlýsingunni um læknismeðferð sem vottar Jehóva nota. Allir eiga rétt á að fá upplýsingar um læknismeðferð sem boðin er, sem og þann rétt að þiggja meðferð eða hafna henni. Með því að útfylla yfirlýsingu um læknismeðferð tjáir fólk fyrir fram óskir sínar þar að lútandi. Með því að tilnefna fulltrúa (þar sem það er hægt og viðurkennt samkvæmt lögum) er hægt að tryggja að traustur aðili taki viðeigandi ákvarðanir ef þess gerist þörf. Þeir sem hlut eiga að máli ættu að eiga afrit af viðeigandi skjölum til að grípa til ef á þarf að halda. Sumir geyma afrit af slíkum skjölum með erfðaskránni og öðrum mikilvægum plöggum um tryggingar, fjármál, samskipti við opinbera aðila og svo framvegis.

ÞEGAR AÐSTÆÐUR BREYTAST

9, 10. Hvaða breytingar geta orðið hjá öldruðum sem kalla á að þeir fái meiri hjálp?

9 Oft eru allir í fjölskyldunni sammála um að foreldrarnir skuli halda sjálfstæðinu í lengstu lög. Þeir geta kannski eldað, þrifið hjá sér, tekið lyfin sín og átt samskipti við aðra án vandræða. Börnin þurfa því ekki að hafa mjög mikil afskipti af daglegu lífi þeirra. En með tímanum getur orðið erfiðara fyrir foreldrana að komast leiðar sinnar og þeir komast kannski ekki lengur út til að versla. Eins gæti alvarlegt minnisleysi gert vart við sig.  Þetta kallar allt á viðbrögð af hálfu barnanna.

10 Aldraðir verða stundum illa áttaðir, þunglyndir, eiga erfitt með að hafa stjórn á hægðum og þvaglátum, og tapa heyrn, sjón og minni. Þegar einhver heilsubrestur af þessu tagi gerir vart við sig er þó oft hægt að meðhöndla hann með góðum árangri. Leitið til læknis ef þessi einkenni koma fram. Börnin gætu þurft að eiga frumkvæðið að því. Þau gætu líka þurft að fara inn á persónulegri svið sem foreldrarnir höfðu séð algerlega um sjálfir. Til að foreldrarnir fái sem besta þjónustu þurfa börnin hugsanlega að tala fyrir þeirra hönd, aðstoða þau við pappírsvinnu, keyra þau milli staða og svo mætti lengi telja. – Orðskv. 3:27.

11. Hvernig er hægt að auðvelda foreldrunum að laga sig að breytingum?

11 Ef heilsufarsleg vandamál foreldranna eru varanleg þarf ef til vill að gera breytingar á umönnun eða aðstæðum á heimilinu. Því minni sem breytingarnar eru því auðveldara er að laga sig að þeim. Ef þú býrð fjarri foreldrum þínum nægir ef til vill að trúsystkini eða nágranni líti reglulega við hjá þeim og láti þig vita hvernig þeim gengur. Þurfa þau aðeins að fá aðstoð við að elda og þrífa? Væri hægt að gera minni háttar breytingar heima fyrir þannig að það sé öruggara og auðveldara fyrir þau að athafna sig, baða sig og svo framvegis? Kannski þarf ekki annað en að útvega hinum öldruðu heimaþjónustu til að þau geti haldið sjálfstæðinu sem þau óska eftir. En ef ekki er óhætt fyrir þau að búa ein þarf að finna varanlegri úrræði. Hver sem staðan er skaltu kanna hvaða þjónusta er í boði á svæðinu. * – Lestu Orðskviðina 21:5.

ÞANNIG HAFA SUMIR TEKIST Á VIÐ VANDANN

12, 13. Hvað geta uppkomin börn, sem búa fjarri, gert til að heiðra foreldra sína og annast þá?

12 Við elskum foreldra okkar og viljum að þeir búi við öryggi og þeim líði sem best. Við höfum hugarfrið þegar við vitum að það er vel hugsað um þau. En aðrar skyldur gera oft að verkum að uppkomin börn búa fjarri foreldrum sínum. Sumir nota þá fríin til að heimsækja þau og létta undir með þeim við ýmis verk sem eru orðin þeim ofviða. Við getum sýnt foreldrum okkar umhyggju með því að hringja oft, jafnvel daglega, skrifa þeim eða senda tölvupóst. – Orðskv. 23:24, 25.

13 Hver sem staðan er þarf að meta hvers konar umönnun foreldrar þínir þarfnast. Ef þau eru vottar og þú býrð fjarri þeim geturðu ráðfært þig við öldungana í söfnuðinum þeirra. Og gleymdu ekki að leggja málið fyrir Jehóva í bæn. (Lestu Orðskviðina 11:14.) Þú vilt „heiðra föður þinn og móður“ hvort sem þau eru vottar eða ekki. (2. Mós. 20:12; Orðskv. 23:22) Eðlilega gera ekki allar fjölskyldur sömu ráðstafanir. Sumir bjóða öldruðum foreldrum að búa hjá sér eða flytja í nágrenni við þau. En það hafa ekki allir tök á því. Sumir foreldrar kjósa að búa ekki hjá uppkomnum börnum sínum og fjölskyldum þeirra. Þeir leggja mikið upp úr því að halda sjálfstæðinu og vilja ekki íþyngja börnunum. Sumir hafa efni á að greiða fyrir heimaþjónustu og kjósa að gera það til að geta búið áfram á heimili sínu. – Préd. 7:12.

14. Hvað getur gerst hjá þeim sem annast foreldrana að mestu leyti?

14 Algengt er að umönnunin lendi að mestu leyti á einum son eða dóttur sem býr næst foreldrunum. En þeir sem eru í slíkri aðstöðu mega ekki láta það koma  niður á sinni eigin fjölskyldu. Því eru takmörk sett hve mikið er hægt að gefa af tíma sínum og kröftum. Og aðstæður þess sem veitir umönnun geta breyst þannig að það þarf að endurskoða hvernig henni er háttað. Hvílir kannski einum of mikið á einum í fjölskyldunni? Geta hin börnin lagt meira af mörkum, til dæmis skipst á að annast foreldrana?

15. Hvernig er hægt að koma í veg fyrir að sá sem annast aldraða foreldra brenni út?

15 Ef aldrað foreldri þarfnast stöðugrar hjálpar er hætta á að sá sem annast það brenni út. (Préd. 4:6) Börnin langar til að gera allt sem þau geta fyrir foreldra sína en linnulausar kröfur geta verið lýjandi. Þeir sem lenda í þessari aðstöðu þurfa að vera raunsæir og ef til vill að biðja um aðstoð. Ef þeir fá hjálp öðru hverju nægir það kannski til þess að foreldrið geti haldið áfram að búa heima en þurfi ekki að fara á elli- eða hjúkrunarheimili.

16, 17. Hvaða tilfinningar geta sótt á þá sem annast aldraða foreldra og hvernig er hægt takast á við þær? (Sjá einnig rammann „Þakklátar systur“.)

16 Það getur verið erfitt að horfa upp á ellina leggjast á ástkæra foreldra. Margir sem annast aldraða foreldra finna til depurðar, kvíða, vonbrigða, gremju, sektarkenndar og jafnvel reiði. Aldrað foreldri getur átt til að vera hranalegt eða jafnvel vanþakklátt. Ef það gerist reyndu þá að taka það ekki of nærri þér. Sálfræðingur segir: „Besta leiðin til að takast á við tilfinningar, ekki síst óþægilegar, er að viðurkenna þær fyrir sjálfum þér. Afneitaðu ekki tilfinningunni og dæmdu þig ekki hart.“ Talaðu um líðan þína við maka þinn, einhvern annan í fjölskyldunni eða góðan vin. Það getur hjálpað þér að skilja tilfinningar þínar betur.

17 Það getur komið að því að fjölskyldan hvorki geti né kunni að annast ástvin heima fyrir. Þá getur eina úrræðið verið að hann fari á hjúkrunarheimili. Systir í söfnuðinum heimsótti móður sína næstum daglega á hjúkrunarheimili. Hún segir um fjölskyldu sína: „Við gátum bara ekki annast mömmu allan sólarhringinn eins og þörf var á. Það var ekki auðveld ákvörðun að hún færi á hjúkrunarheimili. Það var ákaflega þungbært fyrir okkur. Það var hins vegar besti kosturinn fyrir hana síðustu mánuðina sem hún lifði og hún sætti sig við það.“

18. Hverju mega þeir treysta sem annast aldraða foreldra?

18 Það getur verið flókið og tekið á taugarnar að annast aldraða foreldra. Það er engin ein rétt leið til að gera það. Þú getur þó rækt þá skyldu að heiðra ástvini þína ef þú gerir skynsamlegar áætlanir, fjölskyldan vinnur saman, tjáskiptin eru góð og síðast en ekki síst ef þú biður innilega til Jehóva. Þá fá foreldrar þínir þá umönnun og athygli sem þeir þurfa og þú getur verið sáttur. (Lestu 1. Korintubréf 13:4-8.) Síðast en ekki síst hefur þú hugarfrið því að þú veist að Jehóva blessar þá sem heiðra foreldra sína. – Fil. 4:7.

^ gr. 3 Óskir fólks eru breytilegar eftir menningarsamfélögum. Sums staðar er talið eðlilegt og jafnvel æskilegt að foreldrar búi hjá uppkomnum börnum sínum eða eigi náin samskipti við þau.

^ gr. 11 Ef foreldrar þínir búa enn á eigin heimili skaltu ganga úr skugga um að þeir sem annast þau hafi lykla svo að þeir geti aðstoðað þau í neyðartilfellum.