Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 ÚR SÖGUSAFNINU

Stórbrotin sýning fyrir 100 árum

Stórbrotin sýning fyrir 100 árum

„Þetta er líkara bróður Russell en bróðir Russell sjálfur!“ – Áhorfandi að „Sköpunarsögunni í myndum“ árið 1914.

Í ÁR eru liðin 100 ár síðan „Sköpunarsagan í myndum“ var frumsýnd. Þetta var stórbrotin, nýstárleg sýning sem hafði það markmið að styrkja trú á Biblíuna sem orð Guðs. Í byrjun síðustu aldar höfðu þróunarkenningin, æðri biblíugagnrýni og efahyggja grafið undan trú margra en „Sköpunarsagan í myndum“ hélt því á lofti að Jehóva væri skapari allra hluta.

Charles T. Russell, sem fór með forystu meðal Biblíunemendanna á þeim tíma, leitaði sífellt að áhrifaríkustu og fljótvirkustu leiðunum til að útbreiða sannleika Biblíunnar. Biblíunemendurnir höfðu nýtt sér mátt hins prentaða máls í meira en þrjá áratugi. En nú komu þeir auga á nýja leið til að koma boðskapnum á framfæri – kvikmyndir.

FAGNAÐARERINDIÐ FLUTT MEÐ KVIKMYNDUM

Þöglu kvikmyndirnar komu fram á sjónarsviðið á síðasta áratug 19. aldar. Árið 1903 var sýnd trúarleg kvikmynd í kirkju í New York-borg. Kvikmyndaiðnaðurinn var því varla búinn að slíta barnsskónum þegar Russell steig það djarfa skref árið 1912 að leggja drög að „Sköpunarsögunni“. Hann áttaði sig á að hægt væri að nota þennan nýja fræðslumiðil til að koma sannleika Biblíunnar á framfæri með áhrifameiri hætti en hið prentaða mál gat gert.

Það tók átta klukkustundir að sýna „Sköpunarsöguna“ og hún var yfirleitt sýnd í fjórum hlutum. Þar mátti heyra kunnan fyrirlesara flytja 96 stutt erindi um Biblíuna en rödd hans var ein sú þekktasta á þeim tíma. Með mörgum af atriðunum var leikin sígild tónlist. Færir sýningarmenn spiluðu fyrirlestrana og tónlistina af hljómplötum, og hljóðið var samstillt litskyggnum og leiknum kvikmyndum þar sem brugðið var upp þekktum biblíusögum.

„Hún dró upp heildarmyndina frá því að stjörnurnar voru skapaðar þar til þúsundáraríki Krists nær hámarki.“ – Francis Stuart Barnes sem var 14 ára árið 1914.

Flest myndskeiðin og margar af litskyggnunum voru aðkeypt. Listamenn í Fíladelfíu, New York, París og Lundúnum handmáluðu litskyggnurnar og kvikmyndirnar ramma fyrir ramma. Töluvert af efninu var líka málað á listadeildinni á Betel og  starfsmenn þar gerðu oft nýjar litskyggnur í stað skemmdra. Auk aðkeypta efnisins var starfsfólk á Betel kvikmyndað í Yonkers í New York þar sem það lék hlutverk Abrahams, Ísaks og engilsins sem kom í veg fyrir að Abraham fórnaði syni sínum. – 1. Mós. 22:9-12.

Færir sýningarmenn samstilltu af mikilli nákvæmni þrjá kílómetra af filmum, 26 hljómplötur og um 500 litskyggnur úr gleri.

Samstarfsmaður bróður Russells sagði fjölmiðlum að þessi upplýsingamiðill myndi „vekja áhuga þúsunda manna á Biblíunni og hafa meiri áhrif en nokkuð annað sem gert hefði verið boðskapnum til framdráttar“. Ætli prestar kristna heimsins hafi fagnað þessari nýstárlegu leið til að seðja andlegt hungur fjöldans? Nei, á heildina litið fundu prestar „Sköpunarsögunni“ flest til foráttu. Sumir beittu jafnvel slóttugum eða ófyrirleitnum aðferðum til að reyna að hindra að almenningur sæi sýninguna. Á einum sýningarstaðnum létu samtök presta jafnvel taka rafmagnið af húsinu.

Sætavísur frá söfnuðum á svæðinu dreifðu milljónum ókeypis eintaka af bæklingi með myndum úr „Sköpunarsögunni“.

Sýningargestir fengu einnig „friðarnælu“ með mynd af Jesú ungum. Nælan átti að minna eigandann á að vera „friðarsonur“.

Þrátt fyrir það var „Sköpunarsagan“ sýnd fyrir troðfullu húsi út um gervöll Bandaríkin í allt að 80 borgum á dag, og aðgangur var ókeypis. Margir horfðu agndofa á talsetta kvikmynd í fyrsta sinn. Þeir sáu unga brjótast út úr eggi og blóm springa út, en það hafði verið myndað þannig að hægt var að sýna atburðarásina á stuttum tíma. Bent var á vísindalegar upplýsingar sem sýndu fram á stórfenglega visku Jehóva. Eins og fram kom í byrjun greinarinnar sagði áhorfandi nokkur: „Þetta er líkara bróður Russell en bróðir Russell sjálfur!“ og átti þá við upphaf sýningarinnar þar sem Russell birtist á hvíta tjaldinu.

TÍMAMÓT Í BIBLÍUFRÆÐSLU

„Sköpunarsagan í myndum“ var frumsýnd í New York-borg 11. janúar 1914 í þessu virðulega leikhúsi sem Alþjóðasamtök biblíunemenda áttu og starfræktu á þeim tíma.

Tim Dirks er rithöfundur og sérfróður um kvikmyndasögu. Hann segir „Sköpunarsöguna í myndum“ vera „fyrstu stórmyndina með samstilltu hljóði (hljóðrituðu tali), kvikmyndum og litskyggnum“. Sumum af þessum aðferðum hafði verið beitt í kvikmyndum áður en „Sköpunarsagan“ kom til en þær höfðu aldrei verið notaðar allar saman í einni sýningu, að ekki sé nú talað um sýningu með biblíulegu efni. Og engin þeirra státaði af jafn mörgum áhorfendum, en á fyrsta sýningarárinu voru þeir alls níu milljónir í Norður-Ameríku, Evrópu, Ástralíu og Nýja-Sjálandi!

„Sköpunarsagan í myndum“ var frumsýnd í New York-borg 11. janúar 1914. Sjö mánuðum síðar skullu á þær hamfarir sem síðar voru kallaðar fyrri heimsstyrjöldin. En fólk um heim allan hélt áfram að þyrpast að til að sjá „Sköpunarsöguna“. Það sótti hughreystingu í hinar fögru myndir sem brugðið var upp af þeim blessunum sem ríki Guðs hefur í för með sér. Hvernig sem á það er litið var „Sköpunarsagan“ einstök í sinni röð árið 1914.

Í Norður-Ameríku voru notuð 20 sett af „Sköpunarsögunni“.