Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ekkjunni í Sarefta var umbunað fyrir trú sína

Ekkjunni í Sarefta var umbunað fyrir trú sína

FÁTÆK ekkja faðmar drenginn sinn, einkabarnið sitt. Hún trúir ekki eigin augum. Fyrir stundu hafði hún haldið lífvana líkama hans í örmum sér. En nú er hann upprisinn og hún er frá sér numin af gleði. „Sjá,“ segir maðurinn sem er gestur í húsi hennar, „sonur þinn lifir.“

Þessi áhrifamikla upprisa átti sér stað fyrir næstum 3.000 árum. Við getum lesið frásöguna í 17. kafla 1. Konungabókar. Gesturinn er Elía, spámaður Guðs. Móðirin er ónafngreind ekkja sem er búsett í bænum Sarefta. Upprisa drengsins var vafalaust sá atburður sem styrkti trú hennar hvað mest á lífsleiðinni. Við skulum lesa um þessa konu og skoða mikilvæga lærdóma sem draga má af frásögunni.

ELÍA FINNUR EKKJU SEM HEFUR STERKA TRÚ

Jehóva hafði lýst yfir að langvinnir þurrkar skyldu verða í Ísrael, ríki hins illa Akabs konungs. Jehóva faldi Elía fyrir Akab eftir að Elía boðaði þurrkana. Hann lét hrafna færa honum brauð og kjöt. Síðan sagði Jehóva spámanninum: „Búðu þig og farðu til Sarefta sem er rétt hjá Sídon og sestu þar að. Ég hef falið ekkju nokkurri, sem þar býr, að fæða þig.“ – 1. Kon. 17:1-9.

Þegar Elía kom til Sarefta sá hann fátæka ekkju sem var að safna spreki í eldinn. Skyldi hún vera konan sem átti að sjá spámanninum fyrir fæði? Hvernig gat það verið þar sem hún var bláfátæk? Ef til vill efaðist Elía um að hún væri fær um það. Hann kallaði samt til hennar: „Færðu mér vatnssopa í krús að drekka.“ Þegar hún fór að sækja vatnið bætti hann við: „Færðu mér brauðbita um leið.“ (1. Kon. 17:10, 11) Það var enginn vandi fyrir ekkjuna að gefa ókunnum manni að drekka en allt annað mál að gefa honum brauð.

 Konan svaraði: „Svo sannarlega sem Drottinn, Guð þinn lifir á ég ekkert brauð. Ég á aðeins mjölhnefa í krukku og örlitla olíu í krús. Ég er að tína saman nokkur sprek, síðan ætla ég heim að matreiða þetta handa mér og syni mínum. Þegar við höfum matast getum við dáið.“ (1. Kon. 17:12) Við skulum skoða hvað læra má af þessum orðaskiptum.

Ekkjan áttaði sig á að Elía var guðhræddur Ísraelsmaður. Það má sjá af orðum hennar: „Svo sannarlega sem Drottinn, Guð þinn lifir.“ Hún virðist hafa vitað eitthvað um Jehóva, Guð Ísraels, en ekki nóg til að kalla hann sinn Guð. Hún bjó í bænum Sarefta sem var „rétt hjá Sídon“ og bærinn virðist hafa verið undir yfirráðum þessarar fönikísku borgar. Að öllum líkindum voru íbúar Sarefta Baalsdýrkendur. En Jehóva hafði séð eitthvað óvenjulegt í fari þessarar ekkju.

Fátæka ekkjan í Sarefta sýndi trú þó að hún byggi meðal skurðgoðadýrkenda. Jehóva sendi Elía til hennar bæði sjálfrar hennar vegna og spámannsins. Það má draga mikilvægan lærdóm af því.

Íbúar Sarefta voru ekki allir gerspilltir þótt Baalsdýrkun væri almenn í bænum. Með því að senda Elía til ekkjunnar sýndi Jehóva að hann gefur gaum að velviljuðu fólki sem er ekki farið að þjóna honum. „Hann tekur opnum örmum hverjum þeim sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ – Post. 10:35.

Hve margir ætli búi á starfssvæði þínu sem eru í svipuðum sporum og ekkjan í Sarefta? Þeir búa meðal fólks sem aðhyllist falstrú en þrá betri heim. Þeir vita lítið eða ekkert um Jehóva og þurfa að fá aðstoð til að tileinka sér sanna trú. Leitar þú að þessu fólki og réttir því hjálparhönd?

„BAKAÐU FYRST LÍTIÐ BRAUÐ OG FÆRÐU MÉR“

Veltu nú vel fyrir þér því sem Elía bað ekkjuna að gera. Hún var nýbúin að segja honum að hún ætlaði að elda eina máltíð til viðbótar handa sér og syni sínum. Þau myndu borða hana og deyja síðan. En hvað sagði Elía? „Óttastu ekki. Farðu heim og gerðu það sem þú sagðir. En bakaðu fyrst lítið brauð og færðu mér, síðan skaltu matreiða handa þér og syni þínum. Því að svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Mjölkrukkan skal ekki tæmast, olíukrúsin ekki þorna fyrr en Drottinn lætur rigna á jörðina.“ – 1. Kon. 17:11-14.

,Að gefa þér síðasta matarbitann? Þér getur ekki verið alvara,‘ hefði kannski einhver sagt. En ekkjan brást ekki þannig við. Þótt hún þekkti ekki mikið til Jehóva trúði hún Elía og gerði eins og hann bað um. Það reyndi sannarlega á trú hennar – en hún tók skynsamlega ákvörðun.

Ekkjan trúði á Jehóva, Guð Elía spámanns. Það bjargaði lífi hennar og sonar hennar.

Guð sneri ekki baki við þessari fátæku konu. Eins og Elía hafði lofað margfaldaði Jehóva það litla sem hún átti þannig að það nægði henni, syni hennar og Elía uns þurrkunum linnti. Það fór svo að „mjölkrukkan tæmdist ekki og ekki þraut olíu í krúsinni. Það var í samræmi við orð Drottins sem hann hafði flutt af munni Elía.“ (1. Kon. 17:16; 18:1) Ef konan hefði brugðist öðruvísi við má vel vera að brauðið, sem hún bakaði  úr því litla sem hún átti af mjöli og olíu, hefði orðið síðasta máltíðin hennar. En hún sýndi trú, treysti Jehóva og gaf Elía fyrst að borða.

Það má draga þann lærdóm af þessu að Jehóva blessar þá sem sýna trú í verki. Hann hjálpar þér ef þú sýnir trú þegar reynir á ráðvendni þína. Hann sér fyrir þér, verndar þig og er vinur þinn. Þannig hjálpar hann þér að takast á við prófraunina. – 2. Mós. 3:13-15.

Árið 1898 var dreginn eftirfarandi lærdómur í Varðturninum af frásögunni af ekkjunni: „Ef konan hefði næga trú til að hlýða yrði hún talin verðug þess að hljóta hjálp Drottins fyrir atbeina spámannsins. Ef hún sýndi ekki trú hefði ef til vill fundist önnur ekkja sem gerði það. Eins er það með okkur. Drottinn reynir trú okkar á mismunandi stigum á lífsleiðinni. Ef við sýnum trú hljótum við blessun. Ef við gerum það ekki förum við á mis við hana.“

Þegar prófraunir verða á vegi okkar þurfum við að leita leiðsagnar Guðs í Biblíunni og biblíutengdum ritum. Síðan ættum við að fara eftir leiðsögn Jehóva óháð því hve erfitt það virðist að fylgja henni. Það er okkur til blessunar að fara eftir þessum viturlega orðskvið: „Treystu Drottni af öllu hjarta en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Minnstu hans á öllum vegum þínum, þá mun hann gera leiðir þínar greiðar.“ – Orðskv. 3:5, 6.

,ERTU KOMINN TIL AÐ SVIPTA SON MINN LÍFI?‘

Það átti eftir að reyna aftur á trú ekkjunnar. „Nokkru síðar bar svo við að sonur konunnar, sem átti húsið, veiktist,“ segir í Biblíunni. „Honum þyngdi svo mjög að hann gaf að lokum upp andann.“ Sorgmædd móðirin leitar skýringa á þessum harmleik og spyr Elía: „Hvað viltu mér, guðsmaður? Ertu aðeins kominn til að minna mig á synd mína og svipta son minn lífi?“ (1. Kon. 17:17, 18) Hvað má ráða af sársaukafullum orðum hennar?

Rifjaðist upp einhver synd fyrir konunni sem nagaði samvisku hennar? Hélt hún að dauði sonarins væri guðleg refsing og að Guð hefði sent Elía til að boða dauða hans? Það er ósagt látið í Biblíunni en eitt er þó ljóst. Ekkjan sakaði ekki Guð um að vera ranglátur.

Elía hlýtur að hafa verið sleginn yfir því að sonur ekkjunnar skyldi deyja og að henni skyldi detta í hug að hann bæri ábyrgð á missi hennar og djúpstæðri sorg. Hann bar lík drengsins upp á loft í herbergi sitt og hrópaði til Jehóva: „Drottinn, Guð minn, ætlar þú að senda það böl yfir ekkjuna, sem skotið hefur yfir mig skjólshúsi, að svipta son hennar lífi?“ Það var óbærileg tilhugsun fyrir spámanninn að þessi gestrisna kona þyrfti að þjást meira en orðið var og nafn Guðs yrði þannig fyrir lasti. Hann sárbændi Jehóva: „Drottinn, Guð minn, gefðu þessum dreng aftur líf.“ – 1. Kon. 17:20, 21.

„SJÁ, SONUR ÞINN LIFIR“

Jehóva hlustaði á bæn Elía. Ekkjan hafði séð fyrir þörfum spámannsins og sýnt trú. Jehóva hafði greinilega leyft veikindum drengsins að hafa sinn gang. Hann vissi að drengurinn myndi rísa upp og þessi fyrsta upprisa, sem sagt er frá í Biblíunni, myndi veita komandi kynslóðum von. Jehóva gaf drengnum aftur líf þegar Elía sárbændi hann um það. Við getum rétt ímyndað okkur fögnuð ekkjunnar þegar Elía sagði: „Sjá, sonur þinn lifir.“ Þá sagði konan við Elía: „Nú veit ég að þú ert guðsmaður og að orð Drottins er sannarlega á vörum þínum.“ – 1. Kon. 17:22-24.

Konan kemur ekki meira við sögu í frásögninni í 17. kafla 1. Konungabókar. En í ljósi þess hve Jesús fór lofsamlegum orðum um hana er ekki ólíklegt að hún hafi verið trúfastur þjónn Jehóva það sem eftir var ævinnar. (Lúk. 4:25, 26) Af sögu hennar má sjá að Guð blessar þá sem gera þjónum hans gott. (Matt. 25:34-40) Hún sýnir fram á að Guð sér fyrir þörfum dyggra þjóna sinna, jafnvel við erfiðustu aðstæður. (Matt. 6:25-34) Frásagan ber einnig með sér að Jehóva bæði langar til og getur reist upp þá sem dánir eru. (Post. 24:15) Eru þetta ekki góðar ástæður til að minnast ekkjunnar í Sarefta?

Ekkjan trúði á Jehóva, Guð Elía spámanns. Það bjargaði lífi hennar og sonar hennar.