Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Markmið sem ég setti mér í æsku

Markmið sem ég setti mér í æsku

Ég sem drengur.

Ég var bara tíu ára gamall þegar nýir nemendur frá Kambódíu komu í skólann minn í Columbus í Ohio í Bandaríkjunum. Það var árið 1985. Einn drengjanna notaði myndir og þau fáeinu orð sem hann kunni í ensku til að segja mér hræðilegar sögur af pyndingum, morðum og flótta. Ég grét á kvöldin þegar ég hugsaði um þessi börn. Mig langaði til að segja þeim frá voninni um paradís og upprisuna en þau skildu ekki ensku. Þó að ég væri bara 10 ára ákvað ég að læra kambódísku til að geta sagt skólafélögunum frá Jehóva. Ekki óraði mig fyrir hvaða áhrif sú ákvörðun myndi hafa á líf mitt.

Það var erfitt að læra kambódísku. Tvisvar var ég kominn á fremsta hlunn með að gefast upp en Jehóva hvatti mig fyrir atbeina foreldra minna til að halda áfram. Þegar fram liðu stundir fóru kennarar og skólafélagar að hvetja mig til að stefna að vel launuðu starfi. En mig langaði til að gerast brautryðjandi og valdi því fög í skólanum sem myndu auðvelda mér að finna hlutastarf og ná markmiði mínu þegar þar að kæmi. Að skóladegi loknum var ég vanur að hitta nokkra brautryðjendur og fara með þeim í boðunarstarfið. Ég bauð mig líka fram til að leiðbeina nemendum sem voru að læra ensku sem annað tungumál. Það átti eftir að koma sér vel síðar.

Þegar ég var 16 ára frétti ég af kambódískum hópi í Long Beach í Kaliforníu. Ég heimsótti hópinn og þar lærði ég að lesa kambódísku. Eftir að ég útskrifaðist úr skóla gerðist ég brautryðjandi og hélt áfram að boða trúna kambódísku fólki í nágrenni við heimili mitt. Ég var farinn að íhuga að flytja til Kambódíu þegar ég var 18 ára. Hættulegt ástand ríkti enn í landinu en ég vissi að aðeins lítill hluti íbúanna, sem voru um tíu milljónir, höfðu heyrt fagnaðarerindið um ríkið. Á þeim tíma var aðeins einn söfnuður með 13 boðberum í öllu landinu. Ég fór fyrst til Kambódíu þegar ég var 19 ára. Tveimur árum seinna ákvað ég að flytjast þangað. Samhliða boðunarstarfinu sá ég fyrir mér með því að þýða og kenna ensku í hlutastarfi. Ég kynntist trúsystur sem hafði sömu markmið og ég, og við giftum okkur. Saman höfum við orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að hjálpa mörgum Kambódíumönnum að vígjast Guði.

Jehóva hefur sannarlega veitt mér ,það sem hjarta mitt þráir‘. (Sálm. 37:4) Ekkert starf er jafn gefandi og að gera fólk að lærisveinum. Á þeim 16 árum, sem ég hef starfað í Kambódíu, hefur litli 13 boðbera hópurinn stækkað svo að nú eru þar 12 söfnuðir og 4 einangraðir hópar! – Jason Blackwell segir frá.