Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Tilbiðjum Jehóva, konung eilífðar

Tilbiðjum Jehóva, konung eilífðar

„Konungi eilífðar . . . sé heiður og dýrð um aldir alda.“ – 1. TÍM. 1:17.

1, 2. (a) Hver er ,konungur eilífðar‘ og hvers vegna er viðeigandi að kalla hann það? (Sjá myndina að ofan.) (b) Hvers vegna laðar stjórnarfar Jehóva okkur að honum?

SOBHUZA annar var konungur Svasílands í næstum 61 ár. Það er þónokkurt afrek fyrir mennskan konung. En þótt það geti kallast merkilegt að sitja svona lengi að völdum er til annar konungur sem er ekki háður þeim skorðum sem stutt mannsævin setur. Í Biblíunni er hann kallaður ,konungur eilífðar‘. (1. Tím. 1:17) Sálmaskáld nafngreinir hann og segir: „Drottinn [„Jehóva“, NW] er konungur um aldur og ævi.“ – Sálm. 10:16.

2 Þar sem Guð ríkir að eilífu er stjórn hans ólík því sem gerist meðal manna. Það er þó fyrst og fremst stjórnarfar Jehóva sem laðar okkur að honum. Konungur, sem ríkti í Forn-Ísrael í 40 ár, lofaði Guð með þessum orðum: „Náðugur og miskunnsamur er Drottinn, þolinmóður og mjög gæskuríkur. Drottinn hefur reist hásæti sitt á himnum og konungdómur hans drottnar yfir alheimi.“ (Sálm. 103:8, 19) En Jehóva er ekki aðeins konungur okkar heldur einnig faðir – ástríkur faðir á himnum. Að hvaða leyti hefur Jehóva verið eins og faðir? Hvernig hefur hann beitt konungdómi sínum síðan uppreisnin átti sér stað í Eden? Svörin við þessum  spurningum laða okkur að Jehóva og eru okkur hvatning til að tilbiðja hann af öllu hjarta.

KONUNGUR EILÍFÐAR MYNDAR ALHEIMSFJÖLSKYLDU

3. Hver var fyrsta sköpunarveran í alheimsfjölskyldu Jehóva og hverjir voru einnig skapaðir sem „synir“ hans?

3 Jehóva hlýtur að hafa haft yndi af því að skapa einkason sinn. Hann kom ekki fram við frumgetinn son sinn eins og lágt settan þegn. Hann elskaði hann sem son og bauð honum að taka þátt í því ánægjulega verkefni að skapa aðra fullkomna þegna. (Kól. 1:15-17) Í þeim hópi voru milljónir engla. Þeir eru kallaðir ,þjónar Guðs er framkvæma vilja hans‘ og hann sýnir þeim þá virðingu að kalla þá ,syni‘ sína. Þeir tilheyra alheimsfjölskyldu hans. – Sálm. 103:20-22; Job. 38:7.

4. Hvernig bættust mennirnir við alheimsfjölskyldu Jehóva?

4 Eftir að Jehóva hafði skapað himin og jörð bætti hann við alheimsfjölskyldu sína. Þegar hann hafði lokið við að skapa jörðina sem fagurt og sjálfbært heimili, fullkomnaði hann verkið með því að skapa fyrsta manninn, Adam, í sinni eigin mynd. (1. Mós. 1:26-28) Hann gat réttilega ætlast til þess að Adam væri hlýðinn skapara sínum. Jehóva sýndi ást og umhyggju og fræddi hann eins og góður faðir fræðir son sinn. Hann lagði engar óeðlilegar hömlur á frjálsræði mannsins. – Lestu 1. Mósebók 2:15-17.

5. Hvaða ráðstafanir gerði Guð til að fylla jörðina mennskum börnum sínum?

5 Jehóva er að því leytinu ólíkur mörgum einvaldinum meðal manna að hann er meira en fús til að fela þegnum sínum ýmis verkefni og ábyrgðarstörf. Hann kemur fram við þá eins og þeir séu fjölskylda hans. Hann gaf til dæmis Adam forræði yfir öðrum lifandi verum og fékk honum það ánægjulega og krefjandi verkefni að gefa dýrunum nöfn. (1. Mós. 1:26; 2:19, 20) Guð skapaði ekki milljónir fullkominna manna til að fylla jörðina heldur myndaði fullkominn félaga handa Adam – konuna Evu. (1. Mós. 2:21, 22) Síðan fól hann hjónunum það verkefni að fylla jörðina börnum sínum. Þau áttu það fyrir sér að stækka paradísina, sem þau bjuggu í, uns hún næði um allan hnöttinn. Menn og englar gátu síðan tilbeðið Jehóva að eilífu sem sameinuð alheimsfjölskylda. Hvílíkar framtíðarhorfur. Og hvílíkt merki um föðurást Jehóva!

SYNIR GERA UPPREISN OG HAFNA GUÐI SEM KONUNGI

6. (a) Hvernig hófst uppreisn gegn Jehóva í fjölskyldu hans? (b) Þýddi þessi uppreisn að Jehóva hefði misst völdin? Skýrðu svarið.

6 Adam og Eva gerðu sig því miður ekki ánægð með að eiga Jehóva sem konung. Þau völdu að fylgja Satan, engli nokkrum sem gerði uppreisn gegn Guði. (1. Mós. 3:1-6) Með því að slíta tengslin við Guð kölluðu þau sársauka, þjáningar og dauða yfir sig og börn sín. (1. Mós. 3:16-19; Rómv. 5:12) Guð átti sér ekki lengur hlýðna þegna á jörð. Þýddi það að hann hefði misst völdin? Hafði hann afsalað sér drottinvaldi sínu yfir jörðinni og íbúum hennar? Alls ekki. Hann beitti valdi sínu með því að reka manninn og konuna út úr Edengarðinum og láta kerúba standa vörð við innganginn til að þau kæmust ekki inn aftur. (1. Mós. 3:23, 24) Jafnhliða því sýndi Guð föðurást sína með því að ítreka að hann ætti eftir að eignast sameinaða alheimsfjölskyldu engla og manna eins og hann ætlaði sér í upphafi. Hann lofaði að einn af  afkomendum Adams myndi útrýma Satan og bæta allt það tjón sem Adam olli með synd sinni. – Lestu 1. Mósebók 3:15.

7, 8. (a) Hve slæmt var ástandið orðið á jörðinni á dögum Nóa? (b) Hvað gerði Jehóva til að hreinsa jörðina og bjarga mannkyninu?

7 Á næstu öldum voru til menn sem voru Jehóva trúir. Þeirra á meðal voru Abel og Enok. Flestir höfnuðu þó Jehóva sem föður og konungi. Á dögum Nóa var jörðin orðin „full ranglætis“. (1. Mós. 6:11) Þýddi það að Jehóva hefði ekki lengur stjórn á málefnum jarðar? Hvað kemur fram í frásögn Biblíunnar?

8 Skoðum frásöguna af Nóa. Jehóva gaf honum nákvæmar teikningar og leiðbeiningar þannig að hann gæti smíðað risastóra örk til að bjarga sér og fjölskyldu sinni. Hann sýndi öllum mönnum mikinn kærleika þegar hann fól Nóa að vera ,boðberi réttlætisins‘. (2. Pét. 2:5) Nói hefur eflaust varað fólk við yfirvofandi eyðingu og hvatt það til að iðrast. En hann talaði fyrir daufum eyrum. Nói og fjölskylda hans bjuggu áratugum saman í ofbeldisfullum og ákaflega siðlausum heimi. Eins og umhyggjusamur faðir verndaði Jehóva og blessaði þessa átta trúu þjóna sína. Með flóðinu sýndi það sig að hann hafði fullt vald yfir uppreisnargjörnum mönnum og illum englum. Já, Jehóva hélt greinilega um stjórnartaumana. – 1. Mós. 7:17-24.

Jehóva hefur alla tíð beitt konungsvaldi sínu. (Sjá 6., 8., 10., 12. og 17. grein.)

KONUNGSVALD JEHÓVA EFTIR FLÓÐIÐ

9. Hvaða tækifæri gaf Jehóva mönnunum eftir flóðið?

9 Nói og fjölskylda hans hljóta að hafa verið Jehóva innilega þakklát fyrir umhyggju hans og vernd þegar þau stigu fyrstu skrefin á hreinsaðri jörð og teyguðu ferskt loftið. Eitt fyrsta verk Nóa var að reisa altari og færa Jehóva fórnir í tilbeiðsluskyni. Guð blessaði Nóa og fjölskyldu hans. Hann sagði þeim að ,vera frjósöm, fjölga sér og fylla jörðina‘. (1. Mós. 8:20 – 9:1) Mennirnir fengu nú aftur tækifæri til að sameinast í tilbeiðslu á Jehóva og fylla jörðina.

10. (a) Hvar og hvernig blossaði uppreisnin gegn Jehóva upp að nýju eftir flóðið? (b) Hvað gerði Jehóva til að tryggja að vilji hans næði fram að ganga?

10 En flóðið þvoði mennina ekki hreina af ófullkomleikanum og þeir áttu enn í höggi við ósýnileg áhrif Satans og englanna sem fylgdu honum í uppreisninni. Ekki leið á löngu áður en uppreisn gegn kærleiksríkri stjórn Jehóva blossaði upp að nýju. Nimrod, sonarsonarsonur Nóa, gekk lengra í henni en áður hafði sést. Hann er kallaður „mikill veiðimaður fyrir Drottni“ og er þar átt við andstöðu hans gegn Jehóva. Hann stofnaði miklar borgir eins og Babel og tók sér konungsvald „í Sínearlandi“. (1. Mós. 10:8-12) Konungur eilífðar hafði sagt mönnunum að ,fylla jörðina‘. Hvernig brást hann við uppreisn Nimrods og tilraunum hans til að hindra að það næði fram að ganga? Jehóva ruglaði tungumál fólks þannig að þegnar Nimrods tvístruðust „um alla jörðina“. Þeir tóku falstrú sína og stjórnaraðferðir með sér. – 1. Mós. 11:1-9.

11. Hvernig sýndi Jehóva Abraham, vini sínum, tryggð?

11 Þó að margir dýrkuðu falsguði eftir flóðið voru til trúir menn sem heiðruðu Jehóva. Abraham var einn þeirra. Hann hlýddi boði Guðs, yfirgaf þægindin í heimaborg sinni Úr og bjó árum saman í tjöldum. (1. Mós. 11:31; Hebr. 11:8, 9) Eftir að hann gerðist hirðingi var hann oft í nábýli við mennska konunga sem bjuggu margir hverjir í víggirtum borgum. En Jehóva verndaði Abraham og fjölskyldu hans. Sálmaskáldið orti  um föðurlega vernd Jehóva: „Hann leið engum að kúga þá en hegndi konungum þeirra vegna.“ (Sálm. 105:13, 14) Jehóva sýndi Abraham, vini sínum, tryggð og gaf honum eftirfarandi loforð: „Út af þér skulu konungar koma.“ – 1. Mós. 17:6; Jak. 2:23.

12. Hvernig sýndi Jehóva Egyptum að hann væri alvaldur og hvaða áhrif hafði það á útvalda þjóð hans?

12 Guð ítrekaði við Ísak, son Abrahams, og Jakob, sonarson hans, að hann myndi blessa þá og að konungar myndu koma af þeim. (1. Mós. 26:3-5; 35:11) En áður en konungarnir komu voru afkomendur Jakobs hnepptir í þrælkun í Egyptalandi. Þýddi það að Jehóva ætlaði ekki að standa við loforð sitt eða hefði afsalað sér drottinvaldi sínu yfir jörðinni? Nei. Þegar fram liðu stundir sýndi Jehóva guðlegan mátt sinn og það var ljóst að hann var voldugri en hinn þrjóski faraó. Ísraelsmenn treystu á Jehóva og hann frelsaði þá úr þrælkuninni með stórfenglegum hætti og leiddi þá yfir Rauðahaf. Ljóst er að Jehóva var enn Drottinn alheims og sem umhyggjusamur faðir beitti hann miklum mætti sínum til að vernda þjóna sína. – Lestu 2. Mósebók 14:13, 14.

JEHÓVA VERÐUR KONUNGUR ÍSRAELS

13, 14. (a) Hvað boðuðu Ísraelsmenn í sálmi um konungdóm Jehóva? (b) Hverju lofaði Jehóva Davíð?

13 Strax eftir að Jehóva hafði unnið kraftaverk til að frelsa Ísraelsmenn frá Egyptalandi sungu þeir sigursöng honum til lofs. Sönginn er að finna í 15. kafla 2. Mósebókar. Samkvæmt 18. versinu sungu þeir: „Drottinn er konungur um aldur og ævi.“ Jehóva var vissulega konungur hinnar nýju þjóðar. (5. Mós. 33:5) En þjóðin gerði sig ekki ánægða með að eiga Jehóva sem ósýnilegan konung. Um 400 árum eftir að Ísraelsmenn fóru frá Egyptalandi báðu þeir Guð að gefa sér mennskan konung eins og var hjá heiðnu þjóðunum í kring. (1. Sam. 8:5) En Jehóva var konungur eftir sem áður og það sýndi sig vel í stjórnartíð Davíðs konungs.

14 Það var mikill gleðidagur þegar Davíð flutti hina helgu sáttmálsörk til Jerúsalem. Levítarnir sungu þá lofsöng og þar er að finna athyglisverða fullyrðingu: „Menn segi meðal heiðingjanna:  ,Drottinn hefir tekið konungdóm!‘“ (1. Kron. 16:31, Biblían 1981) Okkur er kannski spurn hvernig Jehóva hafi tekið konungdóm á þeim tíma úr því að hann er konungur eilífðar. Jehóva tekur konungdóm þegar hann beitir konunglegu valdi sínu eða gefur öðrum umboð til að koma fram fyrir sína hönd á ákveðnum tíma eða til að bregðast við ákveðnum aðstæðum. Það er mikilvægt að átta sig á hvað er fólgið í því að Jehóva taki konungdóm. Áður en Davíð dó lofaði Jehóva honum að konungdómur hans yrði eilífur. Hann sagði: „Ég [mun] gera son þinn, sem er getinn af þér, að eftirmanni þínum og ég mun styðja konungdóm hans.“ (2. Sam. 7:12, 13) Þetta loforð rættist þegar ,sonur‘ Davíðs kom fram meira en 1.000 árum síðar. Hver var það og hvenær átti hann að verða konungur?

JEHÓVA SKIPAR NÝJAN KONUNG

15, 16. Hvenær var Jesús smurður sem tilvonandi konungur og hvernig undirbjó hann konungdóm sinn meðan hann var á jörð?

15 Árið 29 tók Jóhannes skírari að boða: „Himnaríki er í nánd.“ (Matt. 3:2) Þegar Jóhannes skírði Jesú smurði Jehóva hann sem Messías og tilvonandi konung Guðsríkis. Jehóva tjáði Jesú föðurást sína og sagði: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“ – Matt. 3:17.

16 Jesús upphóf föður sinn meðan hann þjónaði hér á jörð. (Jóh. 17:4) Hann gerði það með því að boða ríki hans. (Lúk. 4:43) Hann kenndi jafnvel fylgjendum sínum að biðja þess að ríkið kæmi. (Matt. 6:10) Þar sem Jesús var tilvonandi konungur þessa ríkis gat hann sagt við andstæðinga sína: „Guðs ríki er meðal yðar.“ (Lúk. 17:21, neðanmáls) Kvöldið áður en Jesús dó gerði hann sáttmála um ríki við fylgjendur sína. Það þýddi að sumir af trúum lærisveinum hans ættu í vændum að verða meðkonungar hans í ríki Guðs. – Lestu Lúkas 22:28-30.

17. Hvaða takmarkaða konungsvald fékk Jesús á fyrstu öld en eftir hverju þurfti hann að bíða?

17 Hvenær átti Jesús að taka völd sem konungur Guðsríkis? Hann gat ekki gert það strax. Síðdegis næsta dag var hann tekinn af lífi og fylgjendur hans tvístruðust. (Jóh. 16:32) En Jehóva var enn við völd, rétt eins og áður. Á þriðja degi reisti hann son sinn upp frá dauðum og á hvítasunnu árið 33 tók Jesús að ríkja yfir söfnuði andasmurðra fylgjenda sinna. (Kól. 1:13) En Jesús þurfti að bíða áður en hann fengi allt vald yfir jörðinni sem hinn fyrirheitni sonur Davíðs. Jehóva sagði honum: „Set þig mér til hægri handar, þá mun ég leggja óvini þína sem skör fóta þinna.“ – Sálm. 110:1.

TILBIÐJUM KONUNG EILÍFÐAR

18, 19. Hvað langar okkur til að gera og um hvað er fjallað í næstu grein?

18 Konungdómi Jehóva hefur verið ögrað á himni og jörð um þúsundir ára. Jehóva heldur enn um stjórnartaumana og hefur aldrei afsalað sér drottinvaldi sínu. Eins og ástríkur faðir verndaði hann og annaðist trúa þegna sína, svo sem Nóa, Abraham og Davíð. Er það ekki hvatning fyrir okkur til að lúta konungi okkar og styrkja tengslin við hann?

19 En okkur er kannski spurn með hvaða hætti Jehóva hafi tekið konungdóm á okkar dögum. Hvernig getum við verið dyggir þegnar ríkis hans og orðið fullkomin börn í alheimsfjölskyldu hans? Hvað merkir það að biðja þess að ríki Guðs komi? Þessum spurningum er svarað í næstu grein.