Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að taka viturlegar ákvarðanir í æsku

Að taka viturlegar ákvarðanir í æsku

„Yngismenn og yngismeyjar . . . lofi nafn Drottins.“ – SÁLM. 148:12, 13.

1. Hvaða frábæru tækifæri standa ungu fólki í söfnuðinum til boða?

VIÐ lifum á mikilvægum tímum. Milljónir manna af öllum þjóðum eru að læra að tilbiðja Jehóva. (Opinb. 7:9, 10) Það er einstakt í sögu mannkyns. Unga fólkið í söfnuðinum upplifir margt spennandi þegar það leggur sig fram við að hjálpa öðrum að skilja sannleika Biblíunnar. (Opinb. 22:17) Mörg þessara ungmenna aðstoða fólk við biblíunám og hjálpa því að bæta líf sitt. Aðrir boða fagnaðarerindið af kappi meðal erlendra málhópa. (Sálm. 110:3; Jes. 52:7) Hvað geturðu gert til að eiga enn meiri þátt í því gefandi starfi sem þjónar Jehóva inna af hendi?

2. Hvernig er Tímóteus dæmi um að Jehóva sé fús til að fela ungu fólki ábyrgðarstörf? (Sjá myndina að ofan.)

2 Ákvarðanir, sem þú tekur ungur að árum, geta síðar meir orðið til þess að þú hljótir ánægjuleg verkefni í þjónustu Guðs. Tímóteus frá Lýstru tók greinilega viturlegar ákvarðanir sem urðu til þess að hann gat orðið trúboði nokkru fyrir tvítugt eða upp úr því. (Post. 16:1-3) Það var líklega aðeins fáeinum mánuðum síðar sem Páll postuli þurfti að yfirgefa hinn nýstofnaða söfnuð í Þessaloníku sökum heiftarlegrar andstöðu Gyðinga. Páll trúði þá hinum unga Tímóteusi fyrir því verkefni að snúa aftur þangað til að styrkja söfnuðinn. (Post. 17:5-15; 1. Þess. 3:1, 2, 6) Geturðu ímyndað þér hvernig Tímóteusi hefur verið innanbrjósts að fá þetta verkefni?

 MIKILVÆGASTA ÁKVÖRÐUNIN

3. Hver er mikilvægasta ákvörðun sem hægt er að taka og hvenær geturðu tekið hana?

3 Fólk tekur mikilvægar ákvarðanir á æskuárunum. En ein þeirra er mikilvægari en allar aðrar – sú ákvörðun að þjóna Jehóva. Hvenær er best að taka þessa ákvörðun? Jehóva segir: „Mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum.“ (Préd. 12:1) Eina boðlega leiðin til að ,muna eftir‘ Jehóva er að þjóna honum af öllu hjarta. (5. Mós. 10:12) Mikilvægasta ákvörðunin, sem þú tekur á lífsleiðinni, er sú að þjóna Guði af heilum hug. Hún hefur veruleg áhrif á líf þitt þaðan í frá. – Sálm. 71:5.

4. Hvaða mikilvægu ákvarðanir hafa áhrif á þjónustu þína við Guð?

4 Sú ákvörðun að þjóna Jehóva er auðvitað ekki eina ákvörðunin sem hefur áhrif á framtíð þína. Þú veltir trúlega líka fyrir þér hvort þú eigir að gifta þig, og þá hverjum, og hvernig þú eigir að sjá fyrir þér. Þetta eru mikilvægar ákvarðanir en það er skynsamlegt að ákveða fyrst að þjóna Jehóva sem best þú getur. (5. Mós. 30:19, 20) Af hverju? Af því að þessar ákvarðanir hafa áhrif hver á aðra. Hjónaband og atvinna ráða töluverðu um það hvernig þú þjónar Guði. (Samanber Lúkas 14:16-20.) Löngunin til að þjóna Guði hefur að sama skapi áhrif á ákvarðanir þínar varðandi hjónaband og vinnu. Þú ættir því að byrja á að gera upp hug þinn um það sem skiptir mestu máli. – Fil. 1:10.

HVAÐ ÆTLARÐU AÐ GERA Á ÆSKUÁRUNUM?

5, 6. Endursegðu frásögu sem sýnir fram á blessunina sem getur fylgt því að taka réttar ákvarðanir. (Sjá einnig greinina „Markmið sem ég setti mér í æsku“ í þessu blaði.)

5 Þegar þú ert búinn að ákveða að þjóna Guði geturðu íhugað hvað hann vilji að þú gerir og þú getur ákveðið hvernig þú viljir þjóna honum. Japanskur bróðir segir: „Þegar ég var 14 ára fór ég í starfið með öldungi í söfnuðinum, og hann veitti því athygli að ég hafði ekki ánægju af starfinu. Hann sagði hlýlega við mig: ,Yuichiro, farðu heim. Sestu við skrifborðið þitt og hugleiddu hvað Jehóva hefur gert fyrir þig.‘ Ég gerði eins og hann sagði. Ég hugleiddi málið í nokkra daga og bað oft til Jehóva. Smám saman breyttist hugarfarið hjá mér. Innan skamms fór ég að hafa ánægju af því að þjóna Jehóva. Mér fannst gaman að lesa um trúboða og ég fór að velta fyrir mér hvernig ég gæti þjónað Guði betur.“

6 Yuichiro heldur áfram: „Ég fór að taka ákvarðanir með það í huga að geta síðar þjónað Jehóva erlendis. Ég fór á námskeið og lærði ensku. Eftir að ég lauk skóla kenndi ég ensku í hlutastarfi til að geta verið brautryðjandi. Þegar ég var tvítugur fór ég að læra mongólsku og fékk tækifæri til að heimsækja hóp mongólskra boðbera. Tveim árum síðar, árið 2007, heimsótti ég Mongólíu. Ég fór út í starfið með brautryðjendum og mér varð ljóst að margir voru að leita sannleikans. Mig langaði til að flytja þangað til að leggja hönd á plóginn. Ég sneri aftur heim til Japan til að undirbúa það. Nú er ég búinn að vera brautryðjandi í Mongólíu síðan í apríl 2008. Lífið er ekki auðvelt hérna. En fólk tekur við fagnaðarerindinu og ég get hjálpað því að nálægjast Jehóva. Mér finnst ég hafa valið bestu lífsleiðina.“

7. Hvaða ákvarðanir verðum við sjálf að taka og hvaða lærdóm má draga af Móse?

7 Hver og einn verður að ákveða sjálfur hvernig hann notar krafta sína í þjónustu Jehóva. (Jós. 24:15) Við getum ekki sagt þér hvort þú eigir að gifta þig og þá hverjum, og ekki heldur hvernig vinnu þú átt  að velja. Ætlarðu að velja þér vinnu sem krefst ekki mikillar menntunar? Sum ykkar búa í fátækum þorpum en önnur í blómlegum borgum. Þið eruð ólík hvað varðar persónuleika, kunnáttu, reynslu, áhugamál og trúarstyrk. Munurinn er eflaust jafn mikill og var á hebreskum ungmennum í Egyptalandi til forna og Móse. Hann bjó við alla þá möguleika sem fylgdu því að alast upp við konungshirðina en aðrir ungir Hebrear voru þrælar. (2. Mós. 1:13, 14; Post. 7:21, 22) Þetta voru örlagaríkir tímar ekki síður en okkar dagar. (2. Mós. 19:4-6) Hver og einn þurfti að ákveða hvernig hann ætlaði að verja lífi sínu. Móse valdi rétt. – Lestu Hebreabréfið 11:24-27.

8. Hvaða aðstoð getur ungt fólk fengið til að taka skynsamlegar ákvarðanir?

8 Jehóva hjálpar þér að taka skynsamlegar ákvarðanir á æskuárunum. Hann hefur gefið þér meginreglur sem þú getur fylgt, hverjar sem aðstæður þínar eru. (Sálm. 32:8) Foreldrar þínir eða öldungar safnaðarins geta auk þess hjálpað þér að koma auga á hvernig þessar meginreglur eiga við í þínu tilfelli. (Orðskv. 1:8, 9) Við skulum líta á þrjár grundvallarreglur sem geta hjálpað þér að taka skynsamlegar ákvarðanir sem verða þér til blessunar.

ÞRJÁR MEGINREGLUR TIL LEIÐSAGNAR

9. (a) Hvaða virðingu sýnir Jehóva okkur? (b) Hvaða tækifæri hefur það í för með sér að leita fyrst ríkis Guðs?

9 Leitaðu fyrst ríkis Guðs og réttlætis. (Lestu Matteus 6:19-21, 24-26, 31-34.) Jehóva sýnir okkur þá virðingu að gefa okkur frjálsan vilja. Hann tiltekur ekki hve mikinn tíma þú eigir að nota til að boða ríki hans. Jesús sagði hins vegar að það væri mikilvægt að leita fyrst ríkis Guðs. Með því að fara að ráðum hans færðu tækifæri til að tjá Guði kærleika þinn, sýna náunganum umhyggju og láta í ljós hve mikils þú metur vonina um eilíft líf. Þegar þú veltir fyrir þér hjónabandi og atvinnu skaltu íhuga hvort ákvarðanir þínar vitni um meiri áhuga á efnislegum hlutum en því að leita fyrst ríkis Guðs og réttlætis.

10. Hvað veitti Jesú hamingju og hvað getur þú gert til að vera hamingjusamur?

10 Það veitir okkur ánægju og gleði að þjóna öðrum. (Lestu Postulasöguna 20:20, 21, 24, 35.) Þetta er ein af grundvallarreglum lífsins sem Jesús kenndi okkur. Hann var hamingjusamur maður vegna þess að hann tók vilja föður síns fram yfir sinn eigin. Hann naut þess að sjá auðmjúkt fólk taka við fagnaðarerindinu. (Lúk. 10:21; Jóh. 4:34) Kannski hefurðu kynnst af eigin raun hve ánægjulegt það er að hjálpa öðrum. Þú verður bæði hamingjusamur og gleður Jehóva ef þú byggir mikilvægustu ákvarðanir lífsins á meginreglunum sem Jesús kenndi. – Orðskv. 27:11.

11. Hvers vegna hafði Barúk ekki lengur ánægju af þjónustu sinni en hvað ráðlagði Jehóva honum?

11 Við erum hamingjsömust ef við þjónum Jehóva. (Orðskv. 16:20) Barúk, ritari Jeremía, virðist hafa gleymt því um sinn. Hann hafði ekki lengur ánægju af því að þjóna Jehóva. Jehóva sagði við hann: „Ætlarðu þér mikinn hlut? Láttu af því. Sjá, ég sendi ógæfu yfir allt dauðlegt ... En þér mun ég gefa líf þitt að herfangi hvert sem þú ferð.“ (Jer. 45:3, 5) Hvað heldur þú? Hvort yrði Barúk til gæfu og gleði – að ætla sér mikinn hlut eða halda lífi sem trúr þjónn Guðs þegar Jerúsalem yrði eytt? – Jak. 1:12.

12. Hvaða ákvörðun tók Ramiro sem veitti honum mikla gleði?

12 Ramiro er dæmi um bróður sem hefur kynnst því hve ánægjulegt það er að þjóna öðrum. Hann segir svo frá: „Ég er kominn af fátæku fólki í litlu þorpi í  Andesfjöllum. Það var því frábært tækifæri fyrir mig þegar eldri bróðir minn bauðst til að styrkja mig til háskólanáms. En ég var þá nýlega skírður sem vottur Jehóva og var búinn að fá annað tilboð því að brautryðjandi hafði boðið mér að starfa með sér í litlum bæ. Ég fór þangað, lærði hárskurð og opnaði rakarastofu til að sjá fyrir mér. Margir voru þakklátir að fá biblíukennsluna sem við buðum fólki. Síðar flutti ég í nýstofnaðan söfnuð sem hélt samkomur einu af frumbyggjamálunum. Ég er nú búinn að vera boðberi í fullu starfi í tíu ár. Ekkert annað starf hefði getað veitt mér þá gleði sem fylgir því að kenna fólki fagnaðarerindið á móðurmáli þess.“

Ramiro hefur notið þess að þjóna Jehóva frá unga aldri. (Sjá 12. grein.)

13. Hvers vegna er gott að þjóna Jehóva af öllu hjarta á æskuárunum?

13 Njóttu þess að þjóna Jehóva í æsku. (Lestu Prédikarann 12:1.) Þú þarft ekki að hugsa sem svo að þú þurfir að byrja á að finna þér góða vinnu til að geta síðan orðið brautryðjandi. Það er gott að byrja að þjóna Jehóva af öllu hjarta meðan maður er ungur og hefur ekki fyrir fjölskyldu að sjá. Þú getur tekist á við ýmis krefjandi verkefni meðan þú ert ungur og hraustur. Hvað langar þig til að gera fyrir Jehóva á æskuárunum? Kannski hefurðu sett þér það markmið að gerast brautryðjandi eða boða fagnaðarerindið á erlendu málsvæði. Eins má vera að þú sjáir færi á að þjóna Guði enn betur í söfnuðinum þar sem þú ert núna. Óháð því hvaða markmið þú hefur í þjónustu Guðs þarftu að sjá fyrir þér. Hvers konar vinnu velurðu þér og hve mikla menntun þarftu til þess?

MEGINREGLUR BIBLÍUNNAR HJÁLPA ÞÉR AÐ TAKA SKYNSAMLEGAR ÁKVARÐANIR

14. Hvers vegna þarftu að vera varkár þegar þú leitar þér að vinnu?

14 Meginreglurnar þrjár, sem við höfum rætt um, geta hjálpað þér að vega og  meta hvers konar vinna henti þér. Námsráðgjafar í skólanum þínum geta eflaust frætt þig um vinnumarkaðinn þar sem þú býrð. Eins má vera að opinber stofnun geti gefið upplýsingar um þau störf sem bjóðast á svæðinu eða á þeim slóðum þar sem þig langar til að þjóna Guði. Þessar upplýsingar geta komið að góðum notum en vertu samt varkár. Þeir sem elska ekki Jehóva reyna ef til vill að vekja ást á heiminum í hjarta þér. (1. Jóh. 2:15-17) Hjartað getur hæglega leitt þig afvega þegar þú virðir fyrir þér það sem heimurinn hefur upp á að bjóða. – Lestu Orðskviðina 14:15; Jer. 17:9.

15, 16. Hverjir geta gefið þér bestu ráðin varðandi atvinnu?

15 Þegar þú ert búinn að átta þig á atvinnumöguleikunum þarftu á góðum ráðum að halda. (Orðskv. 1:5) Hverjir geta hjálpað þér að vega og meta möguleikana með hliðsjón af meginreglum Biblíunnar? Hlustaðu á þá sem elska Jehóva, elska þig og þekkja þig og aðstæður þínar vel. Þeir geta hjálpað þér að sjá hæfni þína og hvatir í réttu ljósi. Ef til vill þarftu að hugleiða markmið þín upp á nýtt eftir að hafa hlustað á þá. Þú ert lánsamur ef foreldrar þínir elska Jehóva. Öldungar safnaðarins búa líka yfir reynslu og trúarþroska til að gefa þér góð ráð. Ræddu einnig við brautryðjendur og farandumsjónarmenn. Af hverju ákváðu þeir að þjóna Jehóva í fullu starfi? Hvernig byrjuðu þeir brautryðjandastarfið og hvernig sáu þeir fyrir sér? Hvernig hefur þjónusta þeirra verið þeim til blessunar? – Orðskv. 15:22.

16 Þeir sem þekkja þig vel geta gefið þér viturleg ráð. Segjum til dæmis að þér finnist skólanámið einum of krefjandi og þú viljir þess vegna hætta í skóla og gerast brautryðjandi. Þeir sem þekkja þig og þykir vænt um þig átta sig ef til vill á þeim hvötum sem búa að baki hjá þér. Þeir geta sýnt þér fram á að skólanámið sé góð leið til að þroska með sér þá þrautseigju sem þú þarft á að halda til að þjóna Jehóva af heilum hug. – Sálm. 141:5; Orðskv. 6:6-10.

17. Hvers konar ákvarðanir ættum við að forðast?

17 Allir sem þjóna Jehóva lenda í aðstæðum sem geta veikt trú þeirra og orðið þess valdandi að þeir fjarlægist Guð. (1. Kor. 15:33; Kól. 2:8) En störf eru misjöfn og sum geta sett mann í meiri hættu en önnur. Veistu af einhverjum sem hafa „liðið skipbrot á trú sinni“ eftir að hafa valið sér starf af ákveðnu tagi? (1. Tím. 1:19) Það er skynsamlegt að taka ekki ákvarðanir sem geta sett vináttusamband þitt við Guð í hættu. – Orðskv. 22:3.

NJÓTTU ÞESS AÐ ÞJÓNA GUÐI Í ÆSKU

18, 19. Hvað er til ráða ef löngunin til að þjóna Jehóva er ekki sérlega sterk?

18 Ef þú hefur byggt upp í hjarta þér löngun til að þjóna Jehóva skaltu nota vel þau tækifæri sem þú hefur til að þjóna honum í æsku. Taktu ákvarðanir sem gera þér kleift þjóna Jehóva með gleði á þessum spennandi tímum. – Sálm. 148:12, 13.

19 En hvað ættir þú að gera ef löngunin til að þjóna Jehóva er ekki sérlega sterk? Haltu endilega áfram að reyna að styrkja trúna. Páll postuli lýsti hvernig hann lagði sig fram til að hljóta blessun Guðs. Síðan sagði hann: „Ef þið hugsið í nokkru öðruvísi, þá mun Guð einnig opinbera ykkur þetta. Við skulum fyrir alla muni ganga þá götu sem við höfum komist á.“ (Fil. 3:15, 16) Mundu að Jehóva elskar þig og leiðbeiningar hans eru þér til góðs. Öðrum fremur getur Jehóva hjálpað þér að taka skynsamlegar ákvarðanir meðan þú ert ungur.