Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sjö hirðar og átta leiðtogar – hvað þýða þeir fyrir okkur?

Sjö hirðar og átta leiðtogar – hvað þýða þeir fyrir okkur?

„Teflum vér gegn þeim sjö hirðum og átta smurðum leiðtogum.“ – MÍKA 5:4.

1. Hvers vegna var samsæri Sýrlendinga og Ísraelsmanna dauðadæmt?

EINHVERN tíma á árabilinu 762 til 759 f.Kr. lýsa konungar Ísraels og Sýrlands yfir stríði á hendur Júdamönnum. Markmiðið er að ráðast inn í Jerúsalem, steypa Akasi konungi af stóli og setja til valda annan mann, hugsanlega mann sem var ekki af ætt Davíðs konungs. (Jes. 7:5, 6) Ísraelskonungur hefði átt að vita betur. Jehóva hafði lýst yfir að einn af afkomendum Davíðs skyldi sitja í hásæti hans til frambúðar og orð hans rætast alltaf. – Jós. 23:14; 2. Sam. 7:16.

2-4. Hvernig rættist Jesaja 7:14 og 16 (a) á áttundu öld f.Kr.? (b) á fyrstu öld?

2 Í byrjun virtust Sýrlendingar og Ísraelsmenn hafa náð undirtökunum. Í einni orustu missti Akas 120.000 hrausta hermenn. Maaseja, sonur konungs, féll. (2. Kron. 28:6, 7) En Jehóva fylgdist með gangi mála. Hann gleymdi ekki fyrirheiti sínu við Davíð og sendi Jesaja spámann til að flytja mjög hvetjandi boðskap.

3 Jesaja sagði: „Sjá, yngismær verður þunguð og fæðir son og lætur hann heita Immanúel. Áður en sveinninn hefur lært að hafna hinu illa og velja hið góða verður mannauðn í landi þeirra tveggja konunga [Sýrlendinga og Ísraelsmanna] sem þú óttast.“ (Jes. 7:14, 16) Fyrri hluti þessa spádóms er oft heimfærður upp á fæðingu Messíasar og það með réttu. (Matt. 1:23) En á fyrstu öld stóð Júdamönnum ekki lengur ógn af ,konungunum tveim‘, það er að segja konungum Sýrlands og Ísraels, þannig að spádómurinn um Immanúel hlýtur að hafa ræst fyrst á dögum Jesaja.

 4 Skömmu eftir að Jesaja flutti þennan athyglisverða boðskap varð eiginkona hans þunguð og fæddi honum son sem er nefndur „Hraðfengi Skyndirán“ (á hebresku Maher-sjalal Kas-bas). Hugsanlegt er að þetta barn hafi verið Immanúel sá sem Jesaja talaði um. * Á biblíutímanum var barni stundum gefið ákveðið nafn við fæðingu, til dæmis til að minna á sérstakan atburð, en foreldrar og ættingjar nefndu það öðru nafni. (2. Sam. 12:24, 25) Ekkert bendir til þess að Jesús hafi nokkurn tíma verið ávarpaður með nafninu Immanúel. – Lestu Jesaja 7:14; 8:3, 4.

5. Hvaða heimskulegu ákvörðun tók Akas konungur?

5 Meðan Ísraelsmenn og Sýrlendingar beindu athygli sinni að Júdaríkinu hafði önnur hernaðarsinnuð þjóð augastað á þessu svæði. Þetta voru Assýringar sem voru vaxandi heimsveldi á þeim tíma. Samkvæmt Jesaja 8:3, 4 áttu Assýringar að leggja hald sitt á ,auðinn frá Damaskus‘ og „herfangið frá Samaríu“ áður en þeir réðust á suðurríkið Júda. Akas konungur treysti ekki orðum Guðs fyrir munn Jesaja heldur gerði sáttmála við Assýringa. Það hafði skelfilegar afleiðingar því að í framhaldinu kúguðu þeir Júdamenn. (2. Kon. 16:7-10) Akas olli sannarlega vonbrigðum sem hirðir Júdamanna. Við gætum spurt okkur hvort við treystum á Guð eða menn þegar við þurfum að taka mikilvægar ákvarðanir. – Orðskv. 3:5, 6.

NÝR HIRÐIR BEITIR ÖÐRUM AÐFERÐUM

6. Berðu saman stjórnartíð Akasar og Hiskía.

6 Akas dó árið 746 f.Kr. og Hiskía, sonur hans, tók við Júdaríkinu af honum. Þjóðin var bæði fátæk og hafði snúið baki við Jehóva. Hvernig ætlaði þessi ungi konungur að forgangsraða? Byrjaði hann á því að reisa við efnahag Júda? Nei, Hiskía var andlega sinnaður maður og verðugur hirðir þjóðarinnar. Fyrsta verk hans var að endurreisa sanna tilbeiðslu og styrkja samband þessarar þrjósku og reikulu þjóðar við Jehóva. Þegar Hiskía skildi til hvers Guð ætlaðist af honum tók hann til óspilltra málanna. Hann er okkur góð fyrirmynd. – 2. Kron. 29:1-19.

7. Hvers vegna var það mikilvægt fyrir Levítana að vita að nýi konungurinn studdi þá?

7 Levítarnir áttu að gegna mikilvægu hlutverki í að endurreisa hreina tilbeiðslu á Jehóva Guði. Hiskía kallaði þá til sín til að fullvissa þá um stuðning sinn. Sjáðu fyrir þér þessa trúu Levíta sem voru á fundinum. Þeir tárast af gleði þegar þeir heyra konunginn segja: „Drottinn hefur valið ykkur til að þjóna frammi fyrir augliti sínu.“ (2. Kron. 29:11) Levítarnir höfðu ótvírætt umboð til að efla hreina tilbeiðslu.

8. Hvað annað gerði Hiskía til að styrkja samband þjóðarinnar við Jehóva og með hvaða árangri?

8 Hiskía bauð öllum Júda- og Ísraelsmönnum til mikillar páskahátíðar. Í framhaldi af henni var haldin hátíð ósýrðu brauðanna en hún stóð í sjö daga. Hátíðin var svo ánægjuleg að hún var framlengd um sjö daga til viðbótar. Í Biblíunni segir svo frá: „Í Jerúsalem var mikil gleði því að ekkert þessu líkt hafði gerst síðan á dögum Salómons, sonar Davíðs, Ísraelskonungs.“  (2. Kron. 30:25, 26) Þessi andlega veisla var mjög hvetjandi fyrir þjóðina alla. Í 2. Kroníkubók 31:1 stendur: „Þegar öllu þessu var lokið ... brutu [þeir] sundur merkisteinana, hjuggu niður Asérustólpana og rifu niður fórnarhæðirnar og ölturun.“ Andleg viðreisn þjóðarinnar var hafin af krafti. Þessi trúarlega hreinsun var ákaflega þýðingarmikil sökum þess sem í vændum var.

KONUNGUR BÝR SIG UNDIR ERFIÐLEIKA

9. (a) Hvernig runnu áform Ísraelsmanna út í sandinn? (b) Hvernig vegnaði Sanheríb í fyrstu?

9 Assýringar unnu norðurríkið Ísrael eins og Jesaja hafði spáð og fluttu íbúana burt. Sú fyrirætlun Ísraelsmanna að koma sínum manni til valda í hásæti Davíðs rann út í sandinn. En hvað ætluðust Assýringar fyrir? Þeir sneru sér nú að Júda. „Á fjórtánda stjórnarári Hiskía konungs réðst Sanheríb Assýríukonungur gegn öllum víggirtum borgum í Júda og tók þær.“ Sagt er að Sanheríb hafi unnið alls 46 borgir í Júda. Reyndu að ímynda þér hvernig þér hefði verið innanbrjósts ef þú hefðir búið í Jerúsalem á þeim tíma, meðan borgir Júda féllu hver á fætur annarri fyrir her Assýringa. – 2. Kon. 18:13.

10. Hvers vegna kann spádómurinn í Míka 5:4, 5 að hafa verið uppörvandi fyrir Hiskía?

10 Hiskía vissi auðvitað af hættunni sem steðjaði að. En hann leitaði ekki í örvæntingu hjálpar heiðinnar þjóðar eins og Akas, faðir hans, hafði gert, heldur treysti á Jehóva. (2. Kron. 28:20, 21) Kannski vissi hann hverju Míka hafði spáð um Assýringa en hann var samtíðarmaður Hiskía. „Ráðist Assýringar inn í land vort ... teflum vér gegn þeim sjö hirðum og átta smurðum leiðtogum. Þeir munu vaka yfir landi Assýringa með sverð í hendi.“ (Míka 5:4, 5) Þessi innblásnu orð hafa eflaust verið uppörvandi fyrir Hiskía. Þau bera með sér að árásinni yrði hrundið og að sérlega óvenjulegur her myndi fara fram gegn Assýringum og sigra þá.

11. Hvenær átti spádómurinn um sjö hirða og átta leiðtoga að hljóta aðaluppfyllingu?

11 Spádómurinn um sjö hirða og átta leiðtoga átti að hljóta aðaluppfyllingu löngu eftir fæðingu Jesú. Um hann var spáð að hann ætti að „drottna ... í Ísrael.  Ævafornt er ætterni hans.“ (Lestu Míka 4:14-5:1.) Á þeim tíma myndu „Assýringar“ í nútímamynd ógna tilveru þjóna Jehóva. Hvaða sveitum teflir Jehóva þá fram, fyrir atbeina sonar síns, gegn þessum ógnvekjandi óvini? Við skoðum það síðar. En fyrst skulum við kanna hvað læra má af viðbúnaði Hiskía þegar Assýringar herjuðu á Júda.

VIÐBÚNAÐUR HISKÍA

12. Hvað gerðu Hiskía og þeir sem með honum voru til að vernda þjóð Guðs?

12 Jehóva er alltaf tilbúinn til að hjálpa okkur með það sem við getum ekki sjálf en hann ætlast samt til þess að við gerum það sem við getum. Hiskía „ráðgaðist því við herforingja sína og kappa“ og þeir ákváðu að „stífla ... uppspretturnar sem voru utan við borgina ... Hiskía herti nú upp hugann, lét gera við borgarmúrinn alls staðar þar sem hann var brotinn, hækka turnana og reisa annan múr fyrir utan borgarmúrinn ... og smíða mörg kastspjót og skildi.“ (2. Kron. 32:3-5) Jehóva kallaði til fjölda hugrakkra manna – Hiskía, leiðtoga og trúfasta spámenn – til að vernda þjóð sína og gæta hennar.

13. Hvað var það mikilvægasta sem Hiskía gerði til að búa fólkið undir yfirvofandi árás? Skýrðu svarið.

13 Það sem Hiskía gerði þessu næst var enn þýðingarmeira en að stífla uppspretturnar og styrkja borgarmúrana. Hann var umhyggjusamur hirðir og kallaði því fólkið saman og hvatti það með eftirfarandi orðum: „Óttist ekki og skelfist ekki frammi fyrir konungi Assýríu ... Sá sem er með okkur er meiri en sá sem er með honum. Með honum er mannlegur máttur en með okkur er Drottinn, Guð okkar. Hann mun hjálpa okkur og berjast með okkur.“ Þetta var trústyrkjandi hvatning. Jehóva ætlaði að berjast fyrir þjóð sína. „Fólkið styrktist við orð Hiskía Júdakonungs.“ Við tökum eftir að það voru „orð Hiskía“ sem fengu fólkið til að herða upp hugann. Hiskía, leiðtogar hans og kappar, auk spámannanna Míka og Jesaja, reyndust góðir hirðar rétt eins og Jehóva hafði boðað fyrir munn spámanns síns. – 2. Kron. 32:7, 8; lestu Míka 5:4, 5.

Hiskía hughreysti fólkið með orðum sínum. (Sjá 12. og 13. grein.)

14. Hvaða aðferðum beitti marskálkur Assýringa og hvernig brást fólkið við?

14 Assýríukonungur sló upp búðum við Lakís, suðvestur af Jerúsalem. Þaðan gerði hann út þrjá sendiboða og skipaði borgarbúum að gefast upp. Talsmaður hans, sem kallaður er marskálkur, beitti ýmsum aðferðum. Hann talaði á hebresku og hvatti fólkið til að svíkja konung sinn og ganga Assýringum á hönd. Hann laug því til að fólk yrði flutt til annars lands þar sem það gæti lifað þægilegu lífi. (Lestu 2. Konungabók 18:31, 32.) Marskálkurinn fullyrti síðan að Jehóva gæti ekkert frekar bjargað Gyðingum úr klóm Assýringa en guðir annarra þjóða hefðu megnað að bjarga dýrkendum sínum. Fólkið sýndi þá skynsemi að reyna ekki að svara þessum lygum og áróðri, og þjónar Jehóva á okkar dögum hafa oft farið að dæmi þeirra. – Lestu 2. Konungabók 18:35, 36.

15. Hvað þurftu Jerúsalembúar að gera og hvernig bjargaði Jehóva borginni?

15 Hiskía var eðlilega órótt en í stað þess að leita stuðnings erlendis frá sendi hann eftir Jesaja spámanni. Jesaja sagði Hiskía: „Hann [Sanheríb] kemur ekki inn í þessa borg, skýtur ekki einni ör þangað.“ (2. Kon. 19:32) Jerúsalembúar þurftu ekki annað en að standa fastir fyrir. Jehóva ætlaði að  berjast fyrir Júda. Og það gerði hann sannarlega. „Þessa sömu nótt fór engill Drottins út og deyddi hundrað áttatíu og fimm þúsund menn í herbúðum Assýringa.“ (2. Kon. 19:35) Júdamenn björguðust en ekki vegna þess að Hiskía stíflaði uppsprettur utan borgarinnar eða gerði við borgarmúrinn heldur vegna þess að Guð skarst í leikinn.

LÆRDÓMUR FYRIR OKKUR

16. Hverja tákna (a) íbúar Jerúsalem? (b) „Assýringar“ og (c) hirðarnir sjö og leiðtogarnir átta?

16 Spádómurinn um sjö hirða og átta leiðtoga á sér aðaluppfyllingu á okkar tímum. Assýringar réðust á íbúa Jerúsalem forðum daga. Þjónar Jehóva virðast varnarlausir og í náinni framtíð verða þeir fyrir árás „Assýringa“ í nútímamynd sem ætla sér að útrýma þeim. Í Biblíunni er þessi árás einnig kölluð árás ,Gógs í Magóg‘, árás ,konungs norðursins‘ og árás „konunga jarðarinnar“. (Esek. 38:2, 10-13; Dan. 11:40, 44, 45; Opinb. 17:14; 19:19) Er um að ræða aðskildar árásir? Svo þarf ekki að vera. Það gæti verið um sömu árás að ræða þó að hún sé nefnd ólíkum nöfnum í Biblíunni. Hvaða „leynivopni“ gefur spádómur Míka til kynna að Jehóva beiti gegn „Assýringum“, þessum svarna óvini? Hann teflir fram „sjö hirðum og átta smurðum leiðtogum“. (Míka 5:4) Hirðarnir og leiðtogarnir í þessum óvenjulega her eru öldungar safnaðanna. (1. Pét. 5:2) Jehóva hefur látið í té fjölda andlegra manna til að gæta dýrmætra sauða sinna nú á dögum, til að styrkja þjóna sína og búa þá undir árás „Assýringa“ nútímans. * Í spádómi Míka segir að þeir ,vaki yfir landi Assýringa með sverð í hendi‘. (Míka 5:5) Meðal vopnanna, sem þeir nota, er „sverð andans“, orð Guðs. – 2. Kor. 10:4; Ef. 6:17.

17. Hvaða fjóra lærdóma geta öldungar dregið af frásögunni sem við höfum skoðað?

17 Safnaðaröldungar geta dregið gagnlega lærdóma af frásögunni sem skoðuð hefur verið í þessari grein: (1) Það besta, sem við getum gert til að búa okkur undir yfirvofandi árás „Assýringa“, er að styrkja trúna á Guð og hjálpa trúsystkinum okkar að gera slíkt hið sama. (2) Þegar „Assýringar“ gera árás verða öldungarnir að vera algerlega sannfærðir um að Jehóva frelsi okkur. (3) Þegar þar að kemur má vera að leiðbeiningarnar frá söfnuði Jehóva virðist ekki raunhæfar frá mannlegum bæjardyrum séð. Við þurfum öll að vera tilbúin til að hlýða þeim fyrirmælum sem við fáum, óháð því hvort þau virðast góð herkænska eða skynsamleg frá mannlegum sjónarhóli. (4) Þeir sem treysta á veraldlega menntun, efnislega hluti eða stofnanir manna þurfa að breyta hugsunarhætti sínum núna. Öldungarnir þurfa að vera tilbúnir til að hjálpa öllum sem eru hikandi í trú sinni.

18. Hvers vegna er gott fyrir okkur að hugleiða þessa frásögu?

18 Það kemur að því að nútímaþjónar Guðs virðast jafn varnarlausir og Gyðingarnir á dögum Hiskía sem voru innikróaðir í Jerúsalem. Þegar það gerist skulum við öll sækja styrk í orð Hiskía. Höfum hugfast að með óvinum okkar er „mannlegur máttur en með okkur er Drottinn, Guð okkar. Hann mun hjálpa okkur og berjast með okkur.“ – 2. Kron. 32:8.

^ gr. 4 Hebreska orðið, sem er þýtt „yngismær“ í Jesaja 7:14, getur merkt annaðhvort gift kona eða mey. Það var því hægt að nota sama orðið bæði um eiginkonu Jesaja og gyðingameyna Maríu.

^ gr. 16 Talan sjö er oft notuð í Biblíunni til að tákna heild eða fullkomnun. Talan átta (einum hærri en sjö) táknar stundum gnægð.