Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lyfið hans er að þjóna Guði

Lyfið hans er að þjóna Guði

Tveimur brautryðjendum í Kenía var boðið inn í hús nokkurt. Þeir urðu hissa þegar þeir sáu smávaxinn mann sem lá þar í rúmi. Búkurinn var mjög lítill og handleggirnir stuttir. Hann brosti breitt þegar þeir sögðu honum frá loforði Guðs um að ,hinn halti muni stökkva sem hjörtur‘. – Jes. 35:6.

Brautryðjendurnir komust að því að Onesmus, sem er núna að nálgast fertugt, fæddist með sjúkdóm sem kallast beinstökkvi. Bein hans eru svo brothætt að þau geta brotnað við minnsta þrýsting. Sjúkdómurinn er ólæknandi og það er engin meðferð til við honum. Onesmus bjóst því við að vera með stöðuga verki og vera bundinn við hjólastól það sem eftir var ævinnar.

Onesmus þáði biblíunámskeið en móðir hans var ekki hrifin af því að hann sækti safnaðarsamkomur. Hún óttaðist að það myndi valda honum meiðslum og enn meiri verkjum. Bræðurnir tóku þá upp samkomudagskrána svo að Onesmus gæti hlustað á hana heima. Eftir fimm mánaða biblíunám ákvað Onesmus að sækja samkomur þrátt fyrir áhættuna sem fylgdi því.

Hafði það enn meiri verki í för með sér fyrir Onesmus að sækja samkomur? Nei, það hafði þveröfug áhrif. „Mér fannst draga úr verkjunum þegar ég var á samkomum,“ segir hann. Hann ímyndaði sér að vonin, sem hann hafði eignast, gerði að verkum að honum leið betur. Móðir Onesmusar tók eftir að hann var léttari í skapi og hún var svo ánægð að hún ákvað líka að fara að kynna sér Biblíuna. „Það er eins og lyf fyrir son minn að þjóna Guði,“ sagði hún oft.

Áður en langt um leið var Onesmus orðinn óskírður boðberi. Hann lét síðan skírast og núna er hann safnaðarþjónn. Onesmus þráði að gera allt sem hann gat í þjónustu Jehóva þó að hann gæti hvorki notað fæturna né aðra höndina. Hann langaði til að vera aðstoðarbrautryðjandi en var smeykur við að sækja um. Hvers vegna? Hann var algerlega háður því að aðrir keyrðu hjólastólinn. Þegar hann viðraði áhyggjur sínar við trúsystkini sín lofuðu þau að hjálpa honum. Og þau stóðu við orð sín þannig að Onesmus gat verið aðstoðarbrautryðjandi.

Onesmus þráði að verða brautryðjandi en velti þá sömu hlutunum fyrir sér. Einn daginn þegar hann las dagstextann fékk hann þá hvatningu sem hann þurfti. Textinn var sóttur í Sálm 34:9 en þar stendur: „Finnið og sjáið að Drottinn er góður.“ Eftir að hafa hugleitt versið ákvað Onesmus að verða brautryðjandi. Núna fer hann í starfið fjóra daga í viku og er með nokkra biblíunemendur sem taka góðum framförum. Hann sótti brautryðjendaskólann árið 2010 og var mjög ánægður yfir að kennarinn hans var annar bræðranna sem heimsóttu hann í fyrsta sinn.

Foreldrar Onesmusar eru nú látnir en bræður og systur í söfnuðinum annast daglegar þarfir hans. Hann er þakklátur fyrir þá miklu blessun sem hann hefur hlotið og hlakkar til þess dags þegar „enginn borgarbúi mun segja: ,Ég er veikur.‘“ – Jes. 33:24.