Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig getum við beðið þolinmóð?

Hvernig getum við beðið þolinmóð?

„Ég ... bíð eftir Guði.“ – MÍKA 7:7.

1. Hvers vegna gætum við orðið óþolinmóð?

ÞEGAR ríki Messíasar var stofnsett árið 1914 hófust síðustu dagar hjá heimskerfi Satans. Háð var stríð á himnum sem lauk þannig að Jesús varpaði Satan og illu öndunum niður til jarðar. (Lestu Opinberunarbókina 12:7-9.) Satan veit að hann „hefur nauman tíma“. (Opinb. 12:12) En þessi tími hefur staðið í marga áratugi og sumum finnst kannski síðustu dagar orðnir nokkuð langir. Erum við orðin óþolinmóð að bíða þess að Jehóva láti til skarar skríða?

2. Um hvað er fjallað í þessari grein?

2 Óþolinmæði getur verið hættuleg vegna þess að hún getur gert okkur hvatvís og fljótfær. Hvernig getum við beðið þolinmóð? Í þessari grein er svarað eftirfarandi spurningum sem hjálpa okkur til þess: (1) Hvað má læra um þolinmæði af Míka spámanni? (2) Hvaða atburðir verða til merkis um að biðtíminn sé á enda? (3) Hvernig getum við sýnt að við séum þakklát fyrir þolinmæði Jehóva?

HVAÐ GETUM VIÐ LÆRT AF MÍKA?

3. Hvernig var ástandið í Ísrael á dögum Míka?

3 Lestu Míka 7:2-6Míka, spámaður Jehóva, horfði upp á það hvernig andlegu ástandi Ísraelsþjóðarinnar hrakaði, og á dögum hins illa Akasar konungs var komið í algert óefni. Míka líkir spilltum Ísraelsmönnum við ,þyrna og þyrnigerði‘. Sá sem gengur inn í þyrnigerði má búast við að meiða sig illa, og á sama hátt höfðu þessir Ísraelsmenn skaðleg áhrif á alla sem þeir áttu samskipti við. Slík varð spillingin að fjölskyldulífið var í upplausn. Míka vissi að hann hafði engin tök á að bæta ástandið og úthellti hjarta sínu fyrir Jehóva. Síðan beið hann þess þolinmóður að Jehóva léti til sín taka. Míka  treysti að Jehóva myndi taka á málum þegar það væri tímabært.

4. Hverju stöndum við frammi fyrir?

4 Við þurfum að búa innan um eigingjarnt fólk, rétt eins og Míka. Margir eru „vanþakklátir, guðlausir [og] kærleikslausir“. (2. Tím. 3:2, 3) Við finnum fyrir álaginu þegar vinnufélagar, skólafélagar og nágrannar sýna af sér eigingirni. En sumir af þjónum Guðs eiga við enn erfiðari vanda að etja. Jesús sagði að fylgjendur hans mættu búast við andstöðu innan fjölskyldunnar. Hann lýsti þeim áhrifum, sem boðskapur hans myndi hafa, með mjög svipuðum hætti og stendur í Míka 7:6. Hann sagði: „Ég er kominn að gera son andvígan föður sínum, dóttur móður sinni og tengdadóttur tengdamóður sinni. Og heimamenn manns verða óvinir hans.“ (Matt. 10:35, 36) Það er þrautin þyngri að sitja undir háðsglósum og andstöðu nánustu ættingja sem eru ekki sömu trúar og við. En við skulum ekki láta undan þó að fjölskyldan beiti okkur þrýstingi. Verum heldur trú Guði og bíðum þess þolinmóð að hann leysi vandann. Ef við biðjum hann sífellt að hjálpa okkur gefur hann okkur bæði visku og styrk til að halda út.

5, 6. Hvernig umbunaði Jehóva Míka en hvað fékk Míka ekki að sjá?

5 Jehóva umbunaði Míka þolinmæðina. Míka sá Akas konung og illa stjórn hans líða undir lok. Hann sá Hiskía, son Akasar, taka við af honum og endurreisa hreina tilbeiðslu. Og dómur Jehóva yfir Samaríu, sem Míka flutti, rættist þegar Assýringar réðust inn norðurríkið Ísrael. – Míka 1:6.

6 En Míka fékk ekki að sjá allt rætast sem Jehóva innblés honum að spá um. Hann skrifaði til dæmis: „Það skal verða á hinum síðustu dögum, að fjall það, er hús Drottins stendur á, mun grundvallað verða á fjallatindi og gnæfa upp yfir hæðirnar, og þangað munu lýðirnir streyma. Og margar þjóðir munu búast til ferðar og segja: ,Komið, förum upp á fjall Drottins.‘“ (Míka 4:1, 2, Biblían 1981) Míka var löngu dáinn þegar þessi spádómur rættist. Hann var engu að síður ákveðinn í að vera Jehóva trúr allt til dauða, hvað sem aðrir gerðu. Hann skrifaði: „Aðrar þjóðir munu lifa, hver í nafni síns guðs, en vér munum lifa í nafni Drottins, Guðs vors, um aldir alda.“ (Míka 4:5) Míka gat beðið þolinmóður á þessum erfiðu tímum vegna þess að hann var sannfærður um að Jehóva myndi standa við allt sem hann hafði lofað. Þessi trúi spámaður treysti Jehóva.

7, 8. (a) Hvaða ástæðu höfum við til að treysta Jehóva? (b) Hvað getum við gert til að tíminn verði fljótur að líða?

7 Treystum við líka á Jehóva? Við höfum ærna ástæðu til þess. Við höfum séð með eigin augum hvernig spádómur Míka hefur ræst. Núna „á hinum síðustu dögum“ hafa milljónir manna af öllum þjóðum, ættflokkum og tungum ,streymt til fjallsins þar sem hús Jehóva stendur‘. Þessir tilbiðjendur Guðs hafa ,smíðað plógjárn úr sverðum sínum og temja sér ekki hernað framar‘ þó að þeir séu af þjóðum sem hafa oft átt í átökum. (Míka 4:3) Hvílíkur heiður að tilheyra friðsamri þjóð Jehóva.

8 Okkur langar skiljanlega til að Jehóva bindi bráðlega enda á núverandi heim. En ef við viljum bíða þolinmóð eftir því þurfum við að sjá málin frá sjónarhóli Jehóva. Hann hefur ákveðið dag þegar hann lætur „mann, sem hann hefur fyrirhugað,“ það er að segja Jesú Krist, dæma mannkynið. (Post. 17:31)  En fyrst gefur hann öllum mönnum tækifæri til að komast til „þekkingar á sannleikanum“, breyta í samræmi við þekkinguna og bjargast. Dýrmæt mannslíf eru í húfi. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 2:3, 4.) Ef við erum önnum kafin við að hjálpa fólki að kynnast Jehóva finnst okkur tíminn fljótur að líða. Áður en við vitum af er stundin runnin upp að hann fullnægi dómi sínum. Þá munum við fagna því að hafa verið önnum kafin að boða ríki Guðs.

HVAÐA ATBURÐIR GEFA TIL KYNNA AÐ BIÐIN SÉ Á ENDA?

9-11. Hefur 1. Þessaloníkubréf 5:3 ræst? Skýrðu svarið.

9 Lestu 1. Þessaloníkubréf 5:1-3. Í náinni framtíð lýsa þjóðir heims yfir: „Friður og engin hætta.“ Við þurfum að ,vaka og vera allsgáð‘ til að þessi yfirlýsing komi okkur ekki í opna skjöldu. (1. Þess. 5:6) Við skulum nú rifja stuttlega upp atburði sem hafa átt sér stað og eru undanfari þessarar mikilvægu yfirlýsingar. Það hjálpar okkur að halda vöku okkar.

10 Í kjölfar heimsstyrjaldanna beggja höfðu þjóðir heims uppi háværar kröfur um að friði yrði komið á. Þjóðabandalagið var stofnað eftir fyrri heimsstyrjöldina í von um að það gæti tryggt frið. Eftir síðari heimsstyrjöldina vonuðust menn til þess að Sameinuðu þjóðunum tækist að koma á friði í heiminum. Leiðtogar þjóða og trúarbragða hafa bundið vonir sínar við þessar stofnanir. Sameinuðu þjóðirnar lýstu árið 1986 alþjóðlegt friðarár, svo dæmi sé tekið, og var mikið gert úr því. Það ár hittust leiðtogar margra þjóða og trúfélaga ásamt æðsta manni kaþólsku kirkjunnar í Assisi á Ítalíu til að biðja fyrir heimsfriði.

11 En hvorki þessi yfirlýsing né aðrar áþekkar hafa reynst vera uppfylling spádómsins í 1. Þessaloníkubréfi 5:3. Hvers vegna ekki? Vegna þess að hin „snögglega tortíming“, sem spáð var, er enn ekki komin.

12. Hvað vitum við um yfirlýsinguna um ,frið og enga hættu‘?

 12 Hver eða hverjir gefa þessa þýðingarmiklu yfirlýsingu um ,frið og enga hættu‘? Hvernig ætli leiðtogar stóru kirkjudeildanna og annarra trúarbragða eigi aðild að henni? Hvaða þátt eiga stjórnmálaleiðtogar í henni? Það er ekki sagt í Biblíunni. Við vitum það eitt að hvernig sem yfirlýsingin verður og hve sannfærandi sem hún hljómar verður hún ekkert nema orðin tóm. Þetta gamla heimskerfi verður áfram undir stjórn Satans. Það er rotið í gegn og verður það áfram. Það væri dapurlegt ef eitthvert okkar tryði þessum áróðri Satans og varðveitti ekki hlutleysi sitt.

13. Hvers vegna halda englar aftur af eyðingarvindunum?

13 Lestu Opinberunarbókina 7:1-4Voldugir englar halda aftur af eyðingarvindum þrengingarinnar miklu meðan við bíðum þess að 1. Þessaloníkubréf 5:3 rætist. Eftir hverju bíða þeir? Jóhannes postuli lýsir einum mikilvægum atburði, það er að segja að ,þjónar Guðs vors‘ verði innsiglaðir endanlega. * Þegar þessari innsiglun er lokið sleppa englarnir vindum eyðingarinnar lausum. Hvað gerist þá?

14. Hvað bendir til þess að Babýlon hin mikla eigi stutt eftir?

14 Babýlon hin mikla, heimsveldi falskra trúarbragða, hlýtur makleg málagjöld. „Lýðir og fólk, þjóðir og tungur“ verða ófær um að veita henni þann stuðning sem hún þarfnast. Við sjáum nú þegar merki þess að dagar hennar séu taldir. (Opinb. 16:12; 17:15-18; 18:7, 8, 21) Reyndar má sjá af fjölmiðlunum að stuðningurinn fer þverrandi því að trúarbrögðin og leiðtogar þeirra sæta sívaxandi gagnrýni. En leiðtogar Babýlonar hinnar miklu telja sig samt óhulta. Þar skjátlast þeim. Eftir að lýst er yfir ,friði og engri hættu‘ snúast hin pólitísku öfl í heimi Satans gegn falstrúarbrögðunum og útrýma þeim. Babýlon hin mikla hverfur þá fyrir fullt og allt. Það hlýtur að vera þess virði að bíða þolinmóður eftir svona sögulegum viðburði. – Opinb. 18:8, 10.

SÝNUM AÐ VIÐ SÉUM ÞAKKLÁT FYRIR ÞOLINMÆÐI GUÐS

15. Hvers vegna hefur Jehóva sýnt þolinmæði?

15 Þó að fólk lasti Jehóva og smáni nafn hans bíður hann þolinmóður eftir að tíminn renni upp til að grípa í taumana. Hann vill ekki að nokkur hjartahreinn maður glatist. (2. Pét. 3:9, 10) Hugsar þú líka þannig? Þangað til dagur Jehóva rennur upp getum við sýnt með eftirfarandi hætti að við séum þakklát fyrir þolinmæði hans.

16, 17. (a) Hvers vegna viljum við hjálpa þeim sem eru óvirkir í þjónustu Jehóva? (b) Af hverju er áríðandi fyrir óvirka að snúa aftur til Jehóva?

16 Hjálpum þeim sem eru óvirkir. Jesús sagði að það yrði fögnuður á himni yfir einum týndum sauð sem kæmi í leitirnar. (Matt. 18:14; Lúk. 15:3-7) Ljóst er að Jehóva er ákaflega annt um alla þá sem hafa sýnt að þeir elska hann, jafnvel þótt þeir séu ekki virkir núna í þjónustu hans. Við gleðjum Jehóva og englana þegar við hjálpum þeim að snúa aftur til safnaðarins.

17 Ertu í hópi þeirra sem eru ekki virkir í þjónustu Guðs núna? Kannski hættirðu að sækja samkomur vegna þess að einhver í söfnuðinum særði þig. Ef til vill er nokkuð um liðið síðan það gerðist. Þú gætir spurt þig hvort líf þitt sé innihaldsríkara núna. Ertu  hamingjusamari? Var það Jehóva sem særði þig eða var það ófullkomin manneskja? Hefur Jehóva Guð nokkurn tíma gert þér eitthvað til miska? Sannleikurinn er sá að Jehóva hefur alltaf gert okkur gott. Hann leyfir okkur að njóta allra þeirra gæða sem hann lætur í té, jafnvel þó að við lifum ekki eftir vígsluheiti okkar við hann. (Jak. 1:16, 17) En dagur Jehóva er nálægur. Nú er tímabært að snúa aftur í hlýjan faðm föðurins á himnum og til safnaðarins. Þar er eina örugga skjólið núna á síðustu dögum. – 5. Mós. 33:27; Hebr. 10:24, 25.

Þjónar Jehóva leggja mikla áherslu á að hjálpa óvirkum að snúa aftur til Jehóva. (Sjá 16. og 17. grein.)

18. Hvers vegna ættum við að styðja þá sem fara með forystuna?

18 Styðjum þá dyggilega sem fara með forystuna. Jehóva leiðir okkur og verndar eins og ástríkur hirðir. Hann hefur skipað son sinn æðsta hirði hjarðarinnar. (1. Pét. 5:4) Öldungar í meira en 100.000 söfnuðum gæta sauða Guðs hvers og eins. (Post. 20:28) Þegar við styðjum þá dyggilega sem fara með forystuna sýnum við að við séum þakklát Jehóva og Jesú fyrir allt sem þeir hafa gert fyrir okkur.

19. Hvernig getum við þjappað okkur saman?

19 Þjöppum okkur saman. Hvað merkir það? Þegar agaður her verður fyrir óvinaárás þjappa hermennirnir sér saman þannig að varnarlínan sé órofin. Óvinurinn nær þá ekki að brjótast í gegn. Satan gerir sífellt harðari árásir á þjóna Guðs. Við höfum ekki efni á að berjast innbyrðis heldur þurfum við að standa þétt saman. Við þurfum að horfa fram hjá göllum og ófullkomleika hvert annars og treysta á forystu Jehóva.

Við þurfum að þjappa okkur saman gegn Satan og illu öndunum. (Sjá 19. grein.)

20. Hvað ættum við að gera núna?

20 Við skulum öll halda vöku okkar og sýna biðlund. Bíðum þess þolinmóð að lýst verði yfir ,friði og engri hættu‘ og að hinir útvöldu verði innsiglaðir endanlega. Eftir það sleppa englarnir fjórir eyðingarvindunum lausum og Babýlon hinni miklu verður eytt. Meðan við bíðum þessara stórviðburða skulum við fylgja leiðsögn þeirra sem falið er að fara með forystu í söfnuði Jehóva. Þjöppum okkur saman gegn Satan og illu öndunum. Nú ríður á að fylgja hvatningu sálmaskáldsins sem orti: „Verið sterkir og hughraustir, allir sem bíðið Drottins.“ – Sálm. 31:25.

^ gr. 13 Rætt er um muninn á upphaflegri og endanlegri innsiglun hinna andasmurðu í Varðturninum (enskri útgáfu) 1. janúar 2007, bls. 30-31.