Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

,Verið algáð til bæna‘

,Verið algáð til bæna‘

„Verið ... gætin og algáð til bæna.“ – 1. PÉT. 4:7.

1, 2. (a) Hvers vegna er mikilvægt að vera „algáð til bæna“? (b) Hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur varðandi bænina?

„ÞAÐ er erfiðast að halda sér vakandi rétt áður en tekur að birta,“ segir maður sem hefur unnið á næturvöktum. Aðrir sem hafa þurft að vaka næturlangt eru vafalaust á sama máli. Kristnir menn nú á dögum eru í svipaðri aðstöðu því að náttmyrkrið í heimi Satans hefur staðið lengi og aldrei verið svartara. (Rómv. 13:12) Það væri stórhættulegt fyrir okkur að sofna þegar svona áliðið er nætur. Það er áríðandi að vera „gætin og algáð til bæna“ eins og hvatt er til í Biblíunni. – 1. Pét. 4:7.

2 Í ljósi þess hvar við erum stödd í tímans rás er viturlegt að spyrja sig: Hversu árvakur er ég þegar bænir eiga í hlut? Eru bænir mínar fjölbreyttar og bið ég stöðuglega? Er ég vanur að biðja fyrir öðrum eða snúast bænir mínar yfirleitt um mínar eigin þarfir og langanir? Hve mikilvæg er bænin til að ég geti hlotið hjálpræði?

FJÖLBREYTTAR BÆNIR

3. Hvers konar bæna ættum við að biðja?

3 Í bréfinu til safnaðarins í Efesus talar Páll postuli um „alls konar bæn“. (Ef. 6:18, Biblían 1912) Við biðjum Jehóva eflaust um að veita okkur það sem við þurfum og um hjálp til að sigrast á erfiðleikum. Jehóva heyrir fúslega bænir okkar þegar við biðjum hann hjálpar. (Sálm. 65:3) En við ættum líka að hafa í huga að biðja annars konar bæna. Meðal annars ættum við að lofa Jehóva, þakka honum og ákalla hann.

4. Af hverju ættum við að lofa Jehóva sem oftast í bænum okkar?

4 Það eru margar ástæður fyrir því að við ættum að lofa Jehóva í bænum okkar. Við getum  ekki annað en lofað hann þegar við hugsum um „máttarverk hans“ og ,mikla hátign‘. (Lestu Sálm 150:1-6.) Í Sálmi 150 eru sex vers en þar erum við 13 sinnum hvött til að lofa Jehóva. „Sjö sinnum á dag lofa ég þig fyrir réttlát ákvæði þín,“ söng annað sálmaskáld. (Sálm. 119:164) Lotningin fyrir Guði leynir sér ekki. Jehóva verðskuldar vissulega að við lofum hann. Ættum við ekki að lofa hann í bænum okkar „sjö sinnum á dag“, það er að segja sem oftast?

5. Hvers vegna er það til verndar að þakka Guði í bænum sínum?

5 Það er einnig mikilvægt að þakka Jehóva í bænum sínum. Páll skrifaði kristnum mönnum í Filippí: „Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð.“ (Fil. 4:6) Það er okkur til verndar að þakka Jehóva innilega í bænum okkar. Það er ekki síst mikilvægt vegna þess hve margir eru „vanþakklátir“ núna á síðustu dögum. (2. Tím. 3:1, 2) Vanþakklæti er ákaflega áberandi í heiminum og við getum hæglega smitast af því ef við gætum okkar ekki. Ef við þökkum Guði í bænum okkar verðum við ánægðari með hlutskipti okkar og lítil hætta er á að við séum ,síkvartandi og kennum öðrum um örlög okkar‘. (Júd. 16) Þegar fjölskyldufaðir biður með eiginkonu sinni og börnum og þakkar Guði hvetur hann þau til að vera þakklát.

6, 7. Hvað er ákall og hvað getur verið okkur tilefni til að ákalla Jehóva?

6 Þegar talað er um beiðni í Filippíbréfinu 4:6 er átt við ákall eða mjög innilega bæn. Hvað gæti verið okkur tilefni til að ákalla Jehóva? Við getum vissulega gert það þegar við erum ofsótt eða eigum við lífshættulegan sjúkdóm að stríða. Það er eðlilegt að biðja Jehóva innilega að hjálpa okkur við slíkar aðstæður. En eru það bara mál af þessu tagi sem gefa okkur tilefni til að ákalla Jehóva?

7 Leiðum hugann að faðirvorinu og því sem Jesús sagði um nafn Guðs, ríki hans og vilja. (Lestu Matteus 6:9, 10.) Heimurinn er gegnsýrður vonsku og stjórnvöldum tekst ekki einu sinni að fullnægja frumþörfum þegna sinna. Ættum við þá ekki að biðja þess að nafn föðurins á himnum helgist og að ríki hans losi jörðina undan yfirráðum Satans? Það er líka ástæða til að biðja Jehóva innilega um að láta vilja sinn ná fram að ganga á jörð eins og á himni. Við skulum því vera árvökul og biðja fjölbreyttra bæna.

BIÐJUM STÖÐUGT

8, 9. Hvers vegna ættum við ekki að dæma Pétur og hina postulana fyrir að sofna í Getsemanegarðinum?

8 Þó að Pétur postuli hafi hvatt kristna menn til að ,vera algáðir til bæna‘ mistókst honum það sjálfum að minnsta kosti einu sinni. Hann var einn af lærisveinunum sem sofnuðu þegar Jesús baðst fyrir í Getsemanegarðinum. Þeim tókst ekki að ,vaka og biðja‘ þó að Jesús hefði sagt þeim að gera það. – Lestu Matteus 26:40-45.

9 En við ættum ekki að dæma Pétur og hina postulana hart fyrir að vaka ekki. Dagurinn hafði verið langur og strembinn. Þeir höfðu undirbúið páskahátíðina og haldið hana þá um kvöldið. Síðan hafði Jesús stofnað til kvöldmáltíðar Drottins og gefið fyrirmynd um hvernig skyldi halda  þessa minningarhátíð um dauða hans. (1. Kor. 11:23-25) „Þegar þeir höfðu sungið lofsönginn fóru þeir til Olíufjallsins,“ og til þess þurftu þeir að ganga nokkurn spöl eftir mjóum götum Jerúsalemborgar. (Matt. 26:30, 36) Vera má að komið hafi verið langt fram yfir miðnætti. Við hefðum líka getað sofnað ef við hefðum verið í Getsemanegarðinum þessa nótt. Jesús gagnrýndi ekki lúna postulana heldur sýndi þeim skilning. „Andinn er reiðubúinn en holdið veikt,“ sagði hann.

Pétur lærði að vera ,algáður til bæna‘ þótt honum hefði orðið alvarlega á. (Sjá 10. og 11. grein.)

10, 11. (a) Hvaða lexíu lærði Pétur af atburðunum í Getsemane? (b) Hvaða áhrif hefur það sem Pétur upplifði á þig?

10 Atburðirnir í Getsemanegarðinum höfðu sín áhrif á Pétur. Hann lærði sína lexíu af því að halda ekki vöku sinni. Nokkru áður hafði Jesús sagt: „Á þessari nóttu munuð þið allir hafna mér.“ Pétur svaraði þá: „Þótt allir hafni þér skal ég aldrei hafna þér.“ Jesús svaraði því til að Pétur myndi afneita honum þrisvar. Pétur gaf sig ekki. „Þótt ég ætti að deyja með þér þá mun ég aldrei afneita þér,“ sagði hann. (Matt. 26:31-35) En það fór samt eins og Jesús hafði sagt. Pétur var miður sín eftir að hafa afneitað Jesú í þriðja sinnið og „grét beisklega“. – Lúk. 22:60-62.

11 Pétur lét sér þetta að kenningu verða og lærði að vera ekki of sjálfsöruggur. Ætla má að bænin hafi átt sinn þátt í því. Það er athyglisvert að það skuli hafa verið Pétur sem hvatti kristna menn til að vera ,algáðir til bæna‘. Förum við eftir þessum innblásnu leiðbeiningum? Erum við bænrækin og sýnum þar með að við séum háð Jehóva? (Orðskv. 3:5) Við skulum líka hafa í huga varnaðarorð Páls postula. „Sá er hyggst standa gæti ... vel að sér að hann falli ekki,“ skrifaði hann. – 1. Kor. 10:12.

NEHEMÍA VAR BÆNHEYRÐUR

12. Hvers vegna er Nehemía okkur góð fyrirmynd?

12 Nehemía var byrlari Artaxerxesar Persakonungs á fimmtu öld f.Kr. Hann er prýðisdæmi um mann sem baðst ákaft fyrir. Dögum saman hafði hann ,fastað og beðið frammi fyrir Guði‘ vegna þess hve illa var komið fyrir Gyðingum í Jerúsalem. (Neh. 1:4) Þegar Artaxerxes spurði hvers vegna hann væri dapur í bragði gerði hann þegar í stað ,bæn sína til Guðs himinsins‘. (Neh. 2:2-4) Hvaða áhrif hafði  það? Jehóva bænheyrði hann og sá til þess að Gyðingar fengju úrlausn sinna mála. (Neh. 2:5, 6) Við getum rétt ímyndað okkur hve mikið þetta hefur styrkt trú Nehemía.

13, 14. Hvað ættum við að gera til að viðhalda sterkri trú og standast þegar Satan reynir að draga úr okkur kjarkinn?

13 Ef við biðjum stöðuglega eins og Nehemía hjálpar það okkur að hafa sterka trú. Satan er miskunnarlaus og gerir oft árás þegar við erum veik fyrir. Segjum að við eigum við veikindi að stríða, séum langt niðri eða þunglynd. Þá ímyndum við okkur kannski að tíminn, sem við notum til að boða trúna í hverjum mánuði, sé lítils virði í augum Guðs. Þjakandi hugsanir geta líka sótt á okkur, kannski vegna einhvers sem við höfum orðið fyrir í lífinu. Satan reynir að telja okkur trú um að við séum einskis virði. Hann reynir gjarnan að spila á tilfinningar okkar og veikja trúna. En við getum haft sterka trú ef við erum „algáð til bæna“. Með „skjöld trúarinnar“ að vopni getum við „slökkt ... öll logandi skeyti hins vonda“. – Ef. 6:16.

Við getum staðist alls konar prófraunir ef við erum „algáð til bæna“. (Sjá 13. og 14. grein.)

14 Ef við erum „algáð til bæna“ látum við ekki óvæntar trúarprófraunir koma okkur í opna skjöldu og stofna okkur í hættu. Þegar prófraunir og erfiðleikar verða á vegi okkar skulum við hugsa til Nehemía og leita tafarlaust til Guðs í bæn. Það er aðeins með hjálp Jehóva sem við getum staðist freistingar og prófraunir sem reyna á trú okkar.

BIÐJUM FYRIR ÖÐRUM

15. Hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur?

15 Jesús bað fyrir Pétri að trú hans  þryti ekki. (Lúk. 22:32) Epafras var trúr kristinn maður á fyrstu öld sem líkti eftir Jesú og bað heitt fyrir trúsystkinum sínum í Kólossu. „Hann ... berst jafnan fyrir ykkur í bænum sínum,“ skrifaði Páll, „til þess að þið megið standa stöðug, fullkomin og fullviss í öllu því sem Guð vill.“ (Kól. 4:12) Við ættum að spyrja okkur hvort við biðjum innilega fyrir trúsystkinum okkar um heim allan. Hve oft nefni ég í bænum mínum trúsystkini sem hafa orðið illa úti vegna náttúruhamfara? Hve langt er síðan ég bað fyrir þeim sem gegna ábyrgðarstörfum í söfnuði Jehóva? Hef ég beðið nýlega fyrir trúsystkinum í söfnuðinum mínum sem eiga í erfiðleikum?

16. Skiptir máli að biðja fyrir öðrum? Skýrðu svarið.

16 Við getum orðið öðrum að liði með því að biðja Jehóva Guð að hjálpa þeim. (Lestu 2. Korintubréf 1:11.) Jehóva ber engin skylda til að verða við bænum þjóna sinna, jafnvel þó að margir þeirra biðji oft um sama hlutinn. Hann tekur engu að síður mið af áhuga og umhyggju þeirra allra og svarar bænunum í samræmi við það. Við skulum því taka alvarlega þá ábyrgð okkar að biðja fyrir öðrum. Við ættum, líkt og Epafras, að sýna bræðrum okkar og systrum kærleika og umhyggju með því að biðja heitt fyrir þeim. Við höfum líka sjálf gleði af því vegna þess að „sælla er að gefa en þiggja“. – Post. 20:35.

HJÁLPRÆÐIÐ ER NÆRRI

17, 18. Af hverju er það okkur til góðs að vera „algáð til bæna“?

17 „Liðið er á nóttina og dagurinn í nánd,“ skrifaði Páll. Í versinu á undan sagði hann: „Þið vitið hvað tímanum líður, að ykkur er mál að rísa af svefni. Nú er okkur hjálpræðið nær en þá er við tókum trú.“ (Rómv. 13:11, 12) Nýi heimurinn, sem Guð hefur lofað, er í nánd og hjálpræði okkar nær en við kannski ímyndum okkur. Við megum ekki sofna á verðinum og við megum ekki heldur verða svo upptekin að við gefum okkur ekki tíma til að biðja einslega til Jehóva. Við skulum vera „algáð til bæna“. Það hjálpar okkur að „lifa heilögu og guðrækilegu lífi“ meðan við bíðum þess að dagur Jehóva renni upp. (2. Pét. 3:11, 12) Þá sýnum við með líferni okkar að við höldum andlegri vöku okkar og trúum í alvöru að þetta illa heimskerfi sé í þann mund að líða undir lok. Við skulum því ,biðja án afláts‘. (1. Þess. 5:17) Við skulum líka gefa okkur stundir til að biðja í einrúmi líkt og Jesús gerði. Við styrkjum tengslin við Jehóva jafnt og þétt með því að biðja oft og lengi til hans. (Jak. 4:7, 8) Og það er mikil blessun.

18 Í Biblíunni segir: „Á dögum jarðvistar sinnar bar Jesús með sárum andvörpum og tárum bænir fram fyrir þann sem megnaði að frelsa hann frá dauða og hann var bænheyrður sakir trúar sinnar.“ (Hebr. 5:7) Jesús bað heitt og innilega til Guðs og var honum trúr allt þar til jarðlífi hans lauk. Þar af leiðandi frelsaði Jehóva ástkæran son sinn frá dauða og gaf honum ódauðleika á himnum. Við getum líka verið föðurnum á himnum trú óháð þeim freistingum og prófraunum sem kunna að verða á vegi okkar. Við getum hlotið launin sem eru eilíft líf – svo framarlega sem við erum „algáð til bæna“.