Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Taktu skynsamlegar ákvarðanir

Taktu skynsamlegar ákvarðanir

„Treystu Drottni af öllu hjarta en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.“ – ORÐSKV. 3:5.

1, 2. Hvað finnst þér um að taka ákvarðanir og ertu sáttur við allar ákvarðanir sem þú hefur tekið?

ENDALAUSAR ákvarðanir! Á hverjum degi þurfum við að taka margar ákvarðanir. Hvað finnst þér um það? Sumir eru hinir ánægðustu að mega ákveða alla hlutir sjálfir. Þeir standa fast á rétti sínum til að taka eigin ákvarðanir og bregðast ókvæða við þeirri hugmynd að einhver annar ákveði hlutina fyrir þá. En þeir eru líka til sem eru dauðhræddir við að taka ákvarðanir umfram það sem tilheyrir vanagangi lífsins. Sumir leita í sjálfshjálparbækur eða til ráðgjafa og eyða jafnvel fúlgum fjár til að fá þá ráðgjöf sem þeim finnst þeir þurfa.

2 Mörg okkar eru einhvers staðar þarna mitt á milli. Við gerum okkur grein fyrir að sumt er ekki okkar að ákveða og við fáum engu um það ráðið. Á mörgum sviðum megum við hins vegar taka ákvarðanir í samræmi við okkar eigin smekk. (Gal. 6:5) Við viðurkennum þó sennilega að ákvarðanir okkar eru ekki alltaf skynsamlegar né til góðs fyrir okkur.

3. Hvaða leiðbeiningar höfum við til að taka ákvarðanir en hvers vegna er það ekki alltaf auðvelt?

3 Við sem erum þjónar Jehóva megum vera þakklát fyrir að hann skuli hafa gefið skýrar leiðbeiningar um mörg mikilvæg mál í lífi okkar. Við vitum að við gleðjum bæði Jehóva og gerum sjálfum okkur gott ef við fylgjum þessum leiðbeiningum. En Biblían fjallar ekki um öll þau vandamál eða aðstæður sem við getum lent í. Hvernig ákveðum við þá hvað við eigum að gera? Við vitum að við eigum ekki að stela, svo dæmi sé tekið. (Ef. 4:28) En hvað er eiginlega þjófnaður? Ræðst það af verðmæti þess sem tekið er, tilefninu eða einhverju öðru? Hvernig ákveðum við hvað við eigum að gera á gráu svæðunum sem sumir kalla svo? Hvað höfum við okkur til leiðsagnar?

 VERUM HEILBRIGÐ Í HUGSUN

4. Hvað er okkur líklega ráðlagt þegar við þurfum að taka ákvörðun?

4 Þegar við segjum trúsystkini að við þurfum að taka mikilvæga ákvörðun fáum við kannski hvatningu til að vera skynsöm og heilbrigð í hugsun. Það er auðvitað gott ráð. Í Biblíunni erum við vöruð við fljótfærni. „Hroðvirkni endar í örbirgð,“ segir í Orðskviðunum 21:5. En hvað felst í því að vera heilbrigð í hugsun? Merkir það einfaldlega að gefa okkur nægan tíma, hugsa málið vel og vandlega, vera sanngjörn og sýna góða dómgreind? Allt er þetta gott og gilt og hjálpar okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir, en að vera heilbrigður í hugsun er meira en það. – Rómv. 12:3; 1. Pét. 4:7.

5. Hvers vegna erum við ekki fullkomlega heilbrigð í hugsun?

5 Við verðum að viðurkenna að ekkert okkar er fætt fullkomlega heilbrigt í hugsun. Hvers vegna? Það er vegna þess að við erum öll syndug og ófullkomin frá fæðingu og erum fjarri því að vera fullkomlega heilbrigð á huga og líkama. (Sálm. 51:7; Rómv. 3:23) Auk þess blindaði Satan hugi margra okkar meðan við þekktum ekki Jehóva né réttlátan mælikvarða hans. (2. Kor. 4:4; Tít. 3:3) Ef við byggðum ákvarðanir okkar eingöngu á því hvað okkur finnst gott og rétt værum við ef til vill að blekkja sjálf okkur, þó að við hugleiddum málið vel og vandlega. – Orðskv. 14:12.

6. Hvað getum við gert til að vera heilbrigð í hugsun?

6 Þó að mikið vanti upp á að við séum fullkomin á huga og líkama er Jehóva, faðir okkar á himnum, fullkominn að öllu leyti. (5. Mós. 32:4) Sem betur fer hefur hann gert okkur kleift að endurnýja hugann og vera heilbrigð í hugsun. (Lestu 2. Tímóteusarbréf 1:7.) * Við sem erum kristin viljum hugsa skynsamlega og breyta samkvæmt því. Við þurfum að hafa stjórn á hugsunum okkar og tilfinningum og reyna að hugsa eins og Jehóva, hafa sömu afstöðu og hann og líkja eftir honum í verki.

7, 8. Endursegðu frásögu sem lýsir hvernig hægt sé að taka skynsamlegar ákvarðanir þrátt fyrir þrýsting og erfiðleika.

7 Lítum á dæmi. Meðal sumra innflytjenda er algengt að senda ungbörn heim til ættingja til að þeir geti annast þau en foreldrarnir haldið áfram að vinna og afla sér peninga. * Kona, sem hafði flust til annars lands, var nýbúin að eignast yndislegan dreng. Hún byrjaði að kynna sér Biblíuna og fara eftir því sem hún lærði. Vinir og ættingjar þrýstu á þau hjónin að senda drenginn heim til afa og ömmu. En af biblíunámi sínu hafði konan lært að Guð hefði lagt foreldrunum þá ábyrgð á herðar að ala börnin upp sjálf. (Sálm. 127:3; Ef. 6:4) Átti hún að fylgja venjunni og gera eins og flestir töldu skynsamlegt? Eða átti hún að fara eftir því sem hún var að læra af Biblíunni og eiga á hættu fjárhagserfiðleika og aðfinnslur annarra? Hvað hefðirðu gert ef þú hefðir verið í hennar sporum?

8 Unga konan var undir miklu álagi. Hún úthellti hjarta sínu fyrir Jehóva og bað hann um leiðsögn. Hún ræddi við biblíukennarann sinn og aðra í söfnuðinum og áttaði sig smám saman á því hvernig Jehóva lítur á málið. Hún gerði sér líka grein fyrir að það geti haft skaðleg áhrif á tilfinningalíf barna að vera  aðskilin frá foreldrunum á mótunarskeiðinu. Eftir að hafa hugleitt málið með hliðsjón af leiðbeiningum Biblíunnar komst hún að þeirri niðurstöðu að það væri ekki rétt að senda barnið frá sér. Eiginmaðurinn sá hve hjálpfús söfnuðurinn var og hve ánægt og heilbrigt barnið var. Hann þáði biblíunámskeið og fór að sækja samkomur með eiginkonunni.

9, 10. Hvað merkir það að vera heilbrigður í hugsun og hvernig getum við verið það?

9 Þetta er aðeins eitt dæmi en það lýsir vel að heilbrigð hugsun er ekki bara fólgin í því að gera eins og sjálfum okkur eða öðrum finnst rétt eða hentugt. Það má líkja ófullkomnum huga okkar og hjarta við klukku sem gengur annaðhvort of hratt eða of hægt. Við getum lent í meiri háttar erfiðleikum ef við treystum henni. (Jer. 17:9) Við þurfum að stilla hugann og hjartað eftir áreiðanlegum mælikvarða Jehóva. – Lestu Jesaja 55:8, 9.

10 Það er ærin ástæða fyrir eftirfarandi hvatningu Biblíunnar: „Treystu Drottni af öllu hjarta en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Minnstu hans á öllum vegum þínum, þá mun hann gera leiðir þínar greiðar.“ (Orðskv. 3:5, 6) Taktu eftir að sagt er: „Reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.“ Síðan erum við hvött til að minnast Jehóva. Hugsun hans er fullkomlega heilbrigð á allan hátt. Það gefur því augaleið að þegar við þurfum að taka ákvörðun um eitthvað ættum við að kanna í Biblíunni hvernig Jehóva lítur á málin. Síðan skulum við taka ákvörðun miðað við það. Það er heilbrigð hugsun, það er að segja að tileinka sér sjónarmið Jehóva.

AGAÐU HUGANN

11. Hvernig lærir fólk að taka skynsamlegar ákvarðanir?

11 Það er hægara sagt en gert að læra að taka skynsamlegar ákvarðanir og gera síðan eins og maður hefur ákveðið. Það getur reynt sérstaklega á hjá þeim sem eru nýir í sannleikanum eða eru að stíga fyrstu skrefin á þroskabraut kristins manns. En það er engan veginn ógerlegt. Í Biblíunni eru þeir kallaðir börn vegna þess að þeir eru eins og lítil börn sem eru að læra að ganga. Barnið  lærir það með því að stíga mörg lítil skref. Þeir sem eru að læra að taka skynsamlegar ákvarðanir fara svipað að. Páll postuli talaði um að þroskað fólk hefði „jafnt og þétt ... agað hugann til að greina gott frá illu“. Með orðunum „jafnt og þétt“ og ,aga‘ er gefið til kynna að um sé að ræða markvissa og endurtekna viðleitni, og það er einmitt það sem nýir í trúnni þurfa að gera. – Lestu Hebreabréfið 5:13, 14.

Við ögum hugann þegar við tökum réttar ákvarðanir dagsdaglega. (Sjá 11. grein.)

12. Hvernig geturðu lært að taka skynsamlegar ákvarðanir?

12 Eins og áður er nefnt þurfum við að taka margar ákvarðanir, smáar sem stórar, á hverjum degi. Könnun hefur leitt í ljós að meira en 40 prósent af því sem við gerum byggist á vana en ekki yfirveguðum ákvörðunum. Þú þarft sennilega að ákveða á hverjum morgni hvernig þú ætlar að klæða þig. Þú lítur ef til vill á þetta sem smámuni og ákveður þig án mikillar umhugsunar, ekki síst ef þú ert að flýta þér. Það er samt sem áður mikilvægt að íhuga hvort klæðnaðurinn hæfi okkur sem þjónum Jehóva. (2. Kor. 6:3, 4) Þegar þú kaupir þér föt hugsarðu trúlega um hvað fari þér vel og hvað sé í tísku, en hugsarðu líka um hvað sé sómasamlegt og hvað fötin kosti? Þú agar hugann með því að taka réttar ákvarðanir í svona málum, og það getur hjálpað þér að taka réttar ákvarðanir í mikilvægari málum. – Lúk. 16:10; 1. Kor. 10:31.

GLÆÐUM LÖNGUNINA TIL AÐ GERA RÉTT

13. Hvað þurfum við að gera til að standa við ákvarðanir okkar?

13 Við vitum að það er eitt að taka rétta ákvörðun en annað að standa við hana og framfylgja henni. Sumum sem langar til að hætta reykingum tekst það ekki af því að hvötin er ekki nógu sterk. Við þurfum að vera staðráðin í að gera eins og við höfum ákveðið. Sumir líta svo á að viljastyrkur sé áþekkur vöðva. Því meira sem við notum hann eða þjálfum því sterkari verður hann. Ef við beitum honum sjaldan verður hann slappur og máttlaus. Hvernig getum við þá glætt með okkur löngun til að standa við ákvarðanir okkar? Jehóva hjálpar okkur til þess þegar við leitum til hans. – Lestu Filippíbréfið 2:13.

14. Hvað veitti Páli viljastyrk til að gera það sem hann vissi að hann átti að gera?

14 Páll þekkti þetta af eigin reynslu. Hann skrifaði einu sinni mæðulega: „Að vilja veitist mér auðvelt en mig skortir alla getu til góðs.“ Hann vissi hvað hann langaði til að gera og hvað hann átti að gera en stundum tókst honum það ekki. Hann sagði: „Í hjarta mínu hef ég mætur á lögmáli Guðs en ég sé annað lögmál í limum mínum og það stríðir gegn lögmáli hugar míns, hertekur mig undir lögmál syndarinnar í limum mínum.“ Var hann þá í vonlausri aðstöðu? Nei, hann skrifaði: „Ég þakka Guði fyrir Jesú Krist, Drottin vorn.“ (Rómv. 7:18, 22-24; 7:25, Biblían 1981) Í öðru bréfi skrifaði hann: „Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir.“ – Fil. 4:13.

15. Hvers vegna þurfum við að vera staðráðin í að gera rétt?

15 Til að þóknast Guði þurfum við greinilega að ákveða að gera rétt og halda okkur síðan við það. Mundu hvað Elía sagði á Karmelfjalli við Baalsdýrkendur og Ísraelsmenn sem höfðu snúið baki við Jehóva: „Hversu lengi ætlið þið að haltra til beggja hliða? Ef Drottinn er Guð, fylgið honum. En ef Baal er Guð, þá fylgið honum.“ (1. Kon. 18:21) Ísraelsmenn vissu hvað þeir áttu að gera en voru tvístígandi. Jósúa var harla ólíkur þeim. Hann sagði Ísraelsmönnum á sínum tíma: „Líki ykkur ekki að þjóna  Drottni, kjósið þá í dag hverjum þið viljið þjóna ... En ég og mínir ættmenn munum þjóna Drottni.“ (Jós. 24:15) Jósúa þjónaði Jehóva staðfastur alla ævi. Hvað hlaust af því? Hann og þeir sem fylgdu honum að málum fengu að setjast að í fyrirheitna landinu sem ,flaut í mjólk og hunangi‘. – Jós. 5:6.

ÞAÐ ER TIL BLESSUNAR AÐ TAKA SKYNSAMLEGAR ÁKVARÐANIR

16, 17. Lýstu með dæmi hvernig það er til góðs að taka ákvarðanir í samræmi við vilja Jehóva.

16 Lítum á hvað nýskírður bróðir gerði. Hann er giftur og þau hjónin eiga þrjú ung börn. Dag nokkurn stakk vinnufélagi upp á að þeir tveir réðu sig í vinnu hjá öðru fyrirtæki sem greiddi hærri laun og veitti meiri hlunnindi. Bróðirinn hugleiddi málið og lagði það fyrir Jehóva í bæn. Launin voru ekkert sérlega há þar sem hann vann, en hann hafði valið þetta starf af því að þar átti hann frí um helgar til að sækja samkomur með fjölskyldunni og boða fagnaðarerindið. Hann gerði sér ljóst að hann myndi ekki vera í fríi um helgar ef hann réði sig í hitt starfið, að minnsta kosti ekki um tíma. Hvað hefðir þú gert í hans sporum?

17 Bróðirinn hugleiddi málið. Hann komst að þeirri niðurstöðu að það væri ekki þess virði að fá hærri laun ef það kæmi niður á sambandinu við Jehóva og ákvað að þiggja ekki starfið. Heldurðu að hann hafi séð eftir þessari ákvörðun? Nei. Hann taldi það vera miklu verðmætara að hann og fjölskyldan styrktu sambandið við Jehóva en að fá hærri laun. Þau hjónin voru himinlifandi þegar elsta dóttirin, þá tíu ára, sagðist elska þau, elska bræðurna og systurnar og elska Jehóva mjög mikið. Hún sagði að sig langaði til að vígjast Jehóva og láta skírast. Gott fordæmi pabba hennar, sem lét þjónustuna við Jehóva ganga fyrir í lífinu, hlýtur að hafa haft góð áhrif á hana.

Taktu skynsamlegar ákvarðanir og njóttu þess að vera í söfnuði þeirra sem þjóna Jehóva. (Sjá 18. grein.)

18. Hvers vegna er mikilvægt að taka viturlegar ákvarðanir dagsdaglega?

18 Jesús Kristur hefur leitt sanna tilbiðjendur Jehóva í heimi Satans áratugum saman, rétt eins og Móse leiddi Ísraelsmenn í eyðimörkinni. Heimur Satans líður brátt undir lok og þá leiðir Jesús fylgjendur sína inn í réttlátan nýjan heim, líkt og Jósúa leiddi Ísraelsmenn inn í fyrirheitna landið. (2. Pét. 3:13) Það væri því óskynsamlegt af okkur að taka aftur upp fyrri hugsunarhátt, venjur, gildismat og markmið. Við þurfum að sjá í skýrara ljósi en nokkru sinni fyrr hvernig Guð vill að við lifum. (Rómv. 12:2; 2. Kor. 13:5) Látum daglegar ákvarðanir okkar endurspegla að við séum sú manngerð sem verðskuldar eilífa blessun Guðs. – Lestu Hebreabréfið 10:38, 39.

^ gr. 6 2. Tímóteusarbréf 1:7 (NW): „Því að Guð gaf okkur ekki anda hugleysis heldur anda máttar, kærleika og heilbrigðrar hugsunar.“

^ gr. 7 Önnur ástæða fyrir þessari venju er að afa og ömmur langar til að geta sýnt vinum og ættingjum barnabarnið.