Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Er viðeigandi að barn, sem hefur verið vikið úr söfnuðinum, sitji hjá kristnum foreldrum sínum á samkomum?

Það er ástæðulaust að gera sér áhyggjur af því hvar manneskja, sem hefur verið vikið úr söfnuðinum, situr í ríkissalnum. Í þessu tímariti hafa kristnir foreldrar margsinnis verið hvattir til að aðstoða barn sem hefur verið vikið úr söfnuðinum en býr enn heima að eignast samband við Guð, ef þeir telja það við hæfi. Í Varðturninum 1. júní 1989, bls. 31, 32, var bent á að foreldrar gætu veitt barni undir lögaldri, sem býr heima, biblíukennslu þó að því hafi verið vikið úr söfnuðinum. Vonandi verður það barninu hvatning til að bæta ráð sitt.

Það er eðlilegt að barn eða unglingur undir lögaldri, sem hefur verið vikið úr söfnuðinum, sitji stillt hjá foreldrum sínum í ríkissalnum. Þess er ekki krafist að þeir sem hefur verið vikið úr söfnuðinum sitji aftast í salnum. Það er því engin ástæða til að amast við því að barn í þeirri stöðu sitji hjá foreldrum sínum, hvar svo sem þau sitja í salnum. Foreldrunum er annt um andlega velferð barnsins og vilja gera sitt besta til að það hafi sem mest gagn af samkomunum. Þeir geta frekar stuðlað að því ef barnið situr hjá þeim í stað þess að leyfa því að vera eftirlitslausu annars staðar.

En segjum nú að barni eða unglingi hafi verið vikið úr söfnuðinum en búi ekki lengur í foreldrahúsum. Breytir það einhverju? Í þessu tímariti hefur komið skýrt fram á liðnum árum hvernig þjónar Guðs ættu að líta á félagsskap við ættingja sem hefur verið vikið úr söfnuðinum en býr ekki undir sama þaki. * Að leyfa þeim sem hefur verið vikið úr söfnuðinum að sitja stilltur hjá fjölskyldunni á samkomu er þó allt annað en að sækjast eftir félagsskap hans að óþörfu. Ef þeir í fjölskyldunni, sem þjóna Guði, taka rétta afstöðu gagnvart ættingjanum, sem hefur verið vikið úr söfnuðinum, og reyna að fara eftir leiðbeiningum Biblíunnar varðandi samskipti við hann virðist ekki vera ástæða til að gera sér áhyggjur af því. – 1. Kor. 5:11, 13; 2. Jóh. 11.

Það er engin ástæða til að finna að því að einstaklingur, sem hefur verið vikið úr söfnuðinum, sitji hjá ættingja eða einhverjum öðrum í söfnuðinum, svo framarlega sem hann hegðar sér sómasamlega. Að takmarka sætaval gæti eftir aðstæðum skapað ýmis vandamál. Það er ástæðulaust að gera mál úr sætavali þeirra sem vikið er úr söfnuðinum ef allir viðstaddir, þar á meðal ættingjar þeirra í söfnuðinum, leggja sig fram um að virða meginreglur Biblíunnar varðandi umgengni við þá og það veldur ekki hneykslun meðal safnaðarmanna. *

^ gr. 5 Sjá Varðturninn 1. janúar 1983, bls. 28, 29.

^ gr. 6 Þetta er breyting frá því sem sagt var í Varðturninum (enskri útgáfu) 1. apríl 1953, bls. 223.