Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva ,ber byrðar mínar dag eftir dag‘

Jehóva ,ber byrðar mínar dag eftir dag‘

Ég hef alla ævi fundið fyrir kærleika og stuðningi föður míns á himnum þrátt fyrir ótryggt heilsufar sem hefur á stundum virst óbærilegt. Og ég hef haft einstaka ánægju af því að þjóna Jehóva sem brautryðjandi í meira en 20 ár.

Ég fæddist árið 1956 með missmíð á mænu og hrygg sem kallast hryggrauf eða klofinn hryggur. Þessi missmíð veldur taugaskemmdum sem gerir mér erfitt um gang og hefur haft aðra alvarlega sjúkdóma í för með sér.

Skömmu áður en ég fæddist fóru foreldrar mínir að kynna sér Biblíuna með hjálp trúboða sem voru vottar Jehóva. Meðan ég var að alast upp bjuggu aðeins fáeinir boðberar í heimabæ mínum, Usakos í Namibíu. Við fjölskyldan fórum saman yfir námsefni vikunnar því að það var enginn söfnuður í bænum. Þegar ég var sjö ára fór ég í þvagstómaaðgerð, en hún var gerð til að leiða þvag út um gat á kviðvegg. Fjórtán ára gömul fékk ég flogaveiki. Ég gat ekki lokið skólagöngu vegna þess að langt var í næsta framhaldsskóla og ég var háð umönnun foreldra minna.

Ég ákvað að styrkja sambandið við Jehóva. Mörg af biblíuskýringarritum okkar voru ekki til á móðurmáli mínu, afríkaans, á þeim tíma. Ég lærði því að lesa ensku til að geta lesið fleiri af bókunum okkar. Ég varð boðberi og lét skírast þegar ég var 19 ára. Næstu fjögur árin átti ég við margs konar vanheilsu að stríða, auk tilfinningalegra erfiðleika. Og í samheldnu bæjarfélagi eins og okkar fannst mér erfitt að vera ötul í boðuninni, sökum ótta við náungann.

Við fluttumst frá Namibíu til Suður-Afríku þegar ég var rúmlega tvítug, og nú gat ég sótt samkomur í fyrsta sinn. Það var hreinlega frábært! En ég þurfti að gangast undir aðgerð að nýju. Í þetta sinn var það ristilstómaaðgerð.

Nokkru síðar heyrði ég farandhirðinn flytja ræðu um brautryðjandastarf. Það snerti mig djúpt. Ég vissi að heilsan var ekki upp á sitt besta en ég hafði fundið hvernig Jehóva bar mig á höndum sér í erfiðleikum mínum. Ég sótti því um að gerast brautryðjandi, en öldungarnir hikuðu við að samþykkja umsóknina sökum þess hvernig heilsu minni var háttað.

Ég ákvað þá að leggja mig alla fram við boðunina. Með hjálp mömmu og annarra tókst mér að skila brautryðjandatíma um sex mánaða skeið. Þannig sýndi ég fram á að ég var ákveðin í að gerast brautryðjandi og að heilsufarið var viðráðanlegt. Ég sótti um á nýjan leik og nú var umsóknin samþykkt. Hinn 1. september 1988 gerðist ég brautryðjandi.

Jehóva hefur stutt mig alla tíð í brautryðjandastarfinu. Það hefur verið mér til verndar að kenna áhugasömum sannleikann í stað þess að vera upptekin af bágu heilsufari mínu, og það hefur hjálpað mér að rækta sambandið við Jehóva. Ég hef haft ómælda ánægju af því að hjálpa allmörgum að stíga það skref að vígjast Jehóva og skírast.

Heilsufar mitt er frekar bágborið en Jehóva ,ber byrðar mínar dag eftir dag‘. (Sálm. 68:20) Hann hefur ekki aðeins gert mér lífið bærilegt heldur nýt ég þess að vera til.