Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hugleiðum hvernig okkur ber að lifa

Hugleiðum hvernig okkur ber að lifa

„Þannig ber ykkur að lifa heilögu og guðrækilegu lífi.“ – 2. PÉT. 3:11.

1, 2. Hvers konar manneskjur þurfum við að vera til að hljóta velþóknun Guðs?

ÞAÐ er ekkert óeðlilegt að hugsa um hvaða álit aðrir hafi á manni. En kristnum manni ætti að vera enn meira í mun að vera í góðu áliti hjá Jehóva. Þegar allt kemur til alls er hann æðsta tignarpersóna alheims og „uppspretta lífsins“. – Sálm. 36:10.

2 Pétur postuli leggur áherslu á hvers konar manneskjur við eigum að vera í augum Jehóva og hvetur okkur til að „lifa heilögu og guðrækilegu lífi“. (Lestu 2. Pétursbréf 3:11.) Til að hljóta velþóknun Guðs þurfum við að lifa „heilögu“ lífi, það er að segja að vera hrein bæði siðferðilega, hugarfarslega og andlega. Við þurfum líka að lifa „guðrækilegu lífi“ með því að bera lotningu fyrir Guði og bindast honum kærleiks- og tryggðarböndum. Velþóknun hans er því ekki aðeins háð því sem við gerum heldur líka okkar innri manni. Jehóva „rannsakar hjartað“ þannig að hann veit hvort við lifum heilögu lífi og sýnum honum óskipta hollustu. – 1. Kron. 29:17.

3. Hverju ættum við að velta fyrir okkur varðandi sambandið við Guð?

3 Satan djöfullinn vill ekki að við njótum velþóknunar Guðs. Hann gerir reyndar allt sem hann getur til að fá okkur til að snúa baki við Guði. Satan hikar ekki við að beita lygum og blekkingum til að tæla okkur burt frá Jehóva. (Jóh. 8:44; 2. Kor. 11:13-15) Við ættum því að velta fyrir okkur hvernig Satan blekkir fólk og hvað við getum gert til að varðveita sambandið við Jehóva.

HVERNIG BLEKKIR SATAN FÓLK?

4. Að hverju beinir Satan spjótum sínum og hvers vegna?

4 „Það er eigin girnd sem freistar sérhvers  manns og dregur hann og tælir,“ skrifar lærisveinninn Jakob. „Þegar girndin síðan er orðin þunguð elur hún synd og þegar syndin er orðin fullþroskuð leiðir hún til dauða.“ (Jak. 1:14, 15) Satan reynir að fá okkur til að slíta tengslin við Guð með því að beina spjótum sínum að hjartanu – en þar eiga langanir okkar upptök sín.

5, 6. (a) Með hvaða hætti beinir Satan spjótum sínum að okkur? (b) Hvaða aðferðir notar Satan til að reyna að spilla hjörtum okkar og hve langa reynslu hefur hann af því?

5 Með hvaða hætti beinir Satan spjótum sínum að hjörtum okkar? „Allur heimurinn er á valdi hins vonda,“ segir í Biblíunni. (1. Jóh. 5:19) Satan notfærir sér „það sem í heiminum er“. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 2:15, 16.) Hann hefur notað þúsundir ára til að móta af mestu vandvirkni það umhverfi sem við búum í. Þess vegna þurfum við að vera á verði gegn lævísum brögðum hans. – Jóh. 17:15.

6 Aðferðir Satans miða að því að spilla hjartanu. Jóhannes postuli nefnir þrennt sem hann notar í þeim tilgangi: (1) „allt sem maðurinn girnist“, (2) „allt sem glepur augað“ og (3) „oflæti vegna eigna“. Satan beitti þessum aðferðum til að reyna að freista Jesú í eyðimörkinni. Hann hefur langa reynslu á þessu sviði og er því býsna fær í að laga freistingarnar að tilhneigingum hvers og eins. Áður en við ræðum hvað við getum gert til að verja okkur skulum við skoða hvernig Satan notaði vissar tálbeitur sem Eva féll fyrir en sonur Guðs stóðst.

ÞAÐ SEM „MAÐURINN GIRNIST“

Satan notaði langanir holdsins til að tæla Evu. (Sjá 7. grein.)

7 Ein af frumþörfum mannsins er að borða en þannig viðheldur hann líkamanum. Skaparinn gerði jörðina þannig úr garði að hún gæfi af sér matvæli í ríkum mæli. Satan á það til að nýta sér eðlilega löngun okkar í mat til að reyna að fá okkur til að óhlýðnast Jehóva. Sjáum hvernig Eva varð fyrir barðinu á því. (Lestu 1. Mósebók 3:1-6.) Satan sagði Evu að hún myndi ekki deyja þótt hún borðaði ávöxtinn af „skilningstré góðs og ills“ og bætti við að hún yrði eins og Guð um leið og hún gerði það. (1. Mós. 2:9) Þar með gaf hann í skyn að hún þyrfti ekki að hlýða Guði til að lifa. Þetta var óskammfeilin lygi. Þegar búið var að koma hugmyndinni inn hjá Evu átti hún um tvennt að velja: Hún gat hafnað hugmyndinni eða haldið áfram að hugsa um hana og leyft sér að girnast ávöxtinn. Þó að hún mætti borða ávexti allra hinna trjánna í garðinum kaus hún að íhuga það sem Satan hafði  sagt um tréð í miðjum garðinum, „tók af ávexti þess og át“. Satan vakti löngun með henni í það sem skapari hennar hafði bannað.

Jesús missti ekki sjónar á því sem máli skiptir. (Sjá 8. grein.)

8. Hvernig reyndi Satan að nota það sem „maðurinn girnist“ til að tæla Jesú og hvers vegna tókst honum það ekki?

8 Satan notaði sömu aðferð þegar hann reyndi að freista Jesú í eyðimörkinni. Hann ætlaði að nýta sér það að Jesús var búinn að fasta í 40 daga og 40 nætur. „Ef þú ert sonur Guðs,“ sagði hann, „þá bjóð þú steini þessum að hann verði að brauði.“ (Lúk. 4:1-3) Jesús átti um tvennt að velja: Hann gat kosið að vinna kraftaverk til að fullnægja löngunni í mat eða sleppt því. Hann vissi að hann átti ekki að nota mátt sinn í eigingjörnum tilgangi. Þótt hann væri hungraður var mikilvægara að varðveita sambandið við Jehóva en að seðja hungrið. Hann svaraði: „Ritað er: Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði heldur á hverju því orði sem fram gengur af Guðs munni.“ – Matt. 4:4.

ÞAÐ SEM „GLEPUR AUGAГ

9. Hvað bera orðin „allt sem glepur augað“ með sér og hvernig reyndi Satan að höfða til þessarar löngunar hjá Evu?

9 Jóhannes nefnir einnig að Satan notfæri sér „allt sem glepur augað“. Þessi orð bera með sér að það geti verið nóg að horfa á eitthvað til að fara að girnast það. Satan höfðaði til þessarar löngunar hjá Evu þegar hann talaði um að ,augu hennar myndu ljúkast upp‘. Því lengur sem Eva horfði á forboðna ávöxtinn því meira langaði hana í hann. Hún sá að tréð var „fagurt á að líta“.

10. Hvernig reyndi Satan að láta það sem „glepur augað“ höfða til Jesú og hvernig brást Jesús við?

10 Hvernig reyndi Satan að láta það sem „glepur augað“ höfða til Jesú? Hann „sýndi honum á augabragði öll ríki veraldar. Og djöfullinn sagði við Jesú: ,Þér mun ég gefa allt þetta veldi og dýrð þess.‘“ (Lúk. 4:5, 6) Jesús gat ekki séð öll ríki heims bókstaflega á augabragði en Satan hlýtur að hafa hugsað sem svo að hann gæti höfðað til Jesú með því að sýna honum dýrð þeirra allra í sýn. Hann sagði blygðunarlaust: „Ef þú fellur fram og tilbiður mig skal það allt verða þitt.“ (Lúk. 4:7) Jesús hafði enga löngun til að lifa eins og Satan vildi að hann gerði heldur svaraði umsvifalaust: „Ritað er: Drottin, Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.“ – Lúk. 4:8.

„OFLÆTI VEGNA EIGNA“

11. Hvernig lét Eva Satan tæla sig?

11 Jóhannes nefnir „oflæti vegna eigna“ þegar hann talar um það sem í  heiminum er. Þegar Adam og Eva voru einu jarðarbúarnir gátu þau auðvitað ekki montað sig af eigum sínum frammi fyrir öðrum. Þau sýndu samt af sér hroka. Þegar Satan freistaði Evu gaf hann í skyn að Guð meinaði henni að hljóta mikil gæði. Hann sagði henni að jafnskjótt og hún borðaði ávöxtinn af „skilningstré góðs og ills“ yrði hún ,eins og Guð og skynjaði gott og illt‘. (1. Mós. 2:17; 3:5) Satan gaf þar með í skyn að Eva gæti orðið óháð Guði. Það var greinilega viss hroki sem olli því að hún trúði lyginni. Hún borðaði forboðna ávöxtinn og trúði að hún myndi ekki deyja. En þar varð henni illa á.

12. Hvernig reyndi Satan meðal annars að freista Jesú og hvernig brást Jesús við?

12 Jesús var auðmjúkur í alla staði, ólíkt Evu. Satan reyndi að freista hans með öðrum hætti en það hvarflaði ekki að Jesú að ögra Guði með því að gera eitthvað tilþrifamikið. Það hefði verið hreinn hroki. Jesús svaraði Satan skýrt og ótvírætt: „Sagt hefur verið: Þú skalt ekki freista Drottins, Guðs þíns.“ – Lestu Lúkas 4:9-12.

HVERNIG GETUM VIÐ VARÐVEITT SAMBANDIÐ VIÐ JEHÓVA?

13 Satan notar svipaðar freistingar nú á dögum og hann beitti gegn Evu og Jesú. Hann höfðar til þess sem „maðurinn girnist“ og notar heiminn til að ýta undir kynferðislegt siðleysi og óhóf í mat og drykk. Með klámi, einkum á Netinu, getur hann nýtt sér það sem „glepur augað“ og náð athygli þeirra sem gæta sín ekki. Efnishyggja, völd og frami er ákaflega freistandi fyrir þá sem eru hrokafullir og hafa tilhneigingu til að flíka eigum sínum.

Um hvaða meginreglur Biblíunnar ættirðu að hugsa við þessar aðstæður? (Sjá 13. og 14. grein.)

13, 14. Hvernig beitir Satan vissum tálbeitum nú á dögum?

14 „Það sem í heiminum er“ er ekki ósvipað og agn veiðimannsins. Það er freistandi en agnið er alltaf fest við öngul. Satan notar það sem fólki finnst vera eðlilegar og daglegar þarfir til að tæla það til að brjóta lög Guðs með einhverjum hætti. En þessar lúmsku freistingar eru til þess gerðar að hafa áhrif á langanir okkar og spilla hjartanu. Þær eru í rauninni tilraun til að telja okkur trú um að það sé mikilvægara að sinna þörfum okkar og þægindum  en gera vilja Guðs. Látum við slíkar tálbeitur blekkja okkur?

15. Hvernig getum við líkt eftir Jesú og staðist freistingar Satans?

15 Eva féll fyrir freistingum Satans en Jesús stóðst þær. Hann svaraði hverri freistingu með tilvitnun í orð Guðs og sagði: „Ritað er“ eða „sagt hefur verið“. Ef við erum duglegir biblíunemendur þekkjum við Biblíuna vel og getum rifjað upp vers sem hjálpa okkur að hugsa rétt þegar við verðum fyrir freistingum. (Sálm. 1:1, 2) Við getum líkt eftir trúum þjónum Guðs sem við höfum lesið um. (Rómv. 15:4) Það er okkur vernd að bera djúpa lotningu fyrir Jehóva, elska það sem hann elskar og hata það sem hann hatar. – Sálm. 97:10.

16, 17. Hvaða áhrif getur hugurinn haft á það hvers konar manneskjur við erum?

16 Páll postuli hvetur okkur til að láta mótast af leiðbeiningum Guðs en ekki hugsunarhætti heimsins og segir að það sé „skynsamleg guðsdýrkun“. (Rómv. 12:1, 2, Biblían 1912) Hann leggur áherslu á að við þurfum að hafa styrka stjórn á huga okkar og hugsunum og segir: „Ég brýt niður hugsmíðar og allt sem hreykir sér gegn þekkingunni á Guði og hertek hverja hugsun til hlýðni við Krist.“ (2. Kor. 10:5) Hugurinn hefur mikil áhrif á það hvers konar manneskjur við erum þannig að við þurfum að láta hann dvelja við uppbyggilegar hugsanir. – Fil. 4:8.

17 Við verðum ekki heilög ef við nærum hugann á óviðeigandi hugsunum og löngunum. Við þurfum að elska Jehóva af „hreinu hjarta“. (1. Tím. 1:5) En hjartað er svikult þannig að það er ekki víst að við gerum okkur grein fyrir hve sterk áhrif „það sem í heiminum er“ hefur á okkur. (Jer. 17:9) Við ættum því að líta oft í eigin barm og skoða sjálf okkur með hliðsjón af því sem við lesum í Biblíunni. Þannig getum við ,reynt okkur hvort við erum í trúnni og prófað okkur‘. – 2. Kor. 13:5, Biblían 1981.

18, 19. Hvers vegna skulum við vera staðráðin í að vera þess konar manneskjur sem Jehóva vill að við séum?

18 „Heimurinn fyrirferst og fýsn hans en sá sem gerir Guðs vilja varir að eilífu.“ (1. Jóh. 2:17) Þessi innblásnu orð Jóhannesar geta líka hjálpað okkur að standa gegn því „sem í heiminum er“. Heimur Satans virðist sannur og varanlegur en líður þó undir lok einn góðan veðurdag. Heimur Satans hefur ekki upp á neitt að bjóða sem er varanlegt. Ef við höfum það hugfast er það hjálp til að falla ekki fyrir tálbeitum hans.

19 Pétur postuli hvetur okkur til að vera þess konar manneskjur sem Guð hefur velþóknun á „og bíða eftir degi Guðs og flýta fyrir að hann komi. Þá munu himnarnir leysast sundur í eldi og frumefnin bráðna af brennandi hita.“ (2. Pét. 3:12) Þessi dagur rennur upp von bráðar og Jehóva eyðir þá heimi Satans eins og hann leggur sig. Þangað til notar Satan „það sem í heiminum er“ til að reyna að freista okkar líkt og hann freistaði Evu og Jesú. Við megum ekki líkja eftir Evu og hugsa aðallega um að fullnægja okkar eigin löngunum. Þá værum við í rauninni að gera Satan að guði okkar. Við þurfum að vera eins og Jesús og standast freistingarnar hversu girnilegar sem tálbeiturnar eru. Við skulum öll vera staðráðin í að vera þess konar manneskjur sem Jehóva vill að við séum.