Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Gefum gætur hvert að öðru og hvetjum hvert annað“

„Gefum gætur hvert að öðru og hvetjum hvert annað“

„Gefum gætur hvert að öðru og hvetjum hvert annað til kærleika og góðra verka.“ – HEBR. 10:24.

1, 2. Hvað hjálpaði 230 vottum Jehóva að lifa af helgönguna í lok síðari heimsstyrjaldar?

ÞEGAR stjórn nasista féll við lok síðari heimsstyrjaldar var gefin skipun um að drepa tugþúsundir fanga sem enn voru í fangabúðum. Fangarnir í Sachsenhausen áttu að fara til næstu hafnarborgar, en þar átti að hrúga þeim í skip og sökkva svo skipunum á hafi úti. Þetta var þáttur í áætlun sem var síðar kölluð helgangan.

2 Um 33.000 fangar í Sachsenhausen-fangabúðunum áttu að fara fótgangandi um 250 kílómetra leið til hafnarborgarinnar Lübeck í Þýskalandi. Í hópnum voru 230 vottar Jehóva frá sex löndum. Þeim var skipað að halda hópinn. Allir voru veikburða vegna hungurs og sjúkdóma. Hvernig tókst bræðrum okkar og systrum að lifa gönguna af? „Við hvöttum hvert annað jafnt og þétt til að halda áfram,“ sagði einn af bræðrunum. Jehóva gaf þeim kraft en kærleikur þeirra hvert til annars var þeim líka mikil hjálp. – 2. Kor. 4:7.

3. Hvers vegna þurfum við að hvetja og uppörva hvert annað?

3 Við erum ekki í helgöngu eins og hér er lýst en það eru samt margir tálmar í vegi okkar. Eftir að ríki Guðs var stofnsett árið 1914 var Satan úthýst af himnum og athafnasvið hans takmarkað við jörðina. Hann er „í miklum móð því að hann veit að hann hefur nauman tíma“. (Opinb. 12:7-9, 12) Harmagedón nálgast og Satan beitir prófraunum og þrýstingi til að reyna að veikja samband okkar við Jehóva. Þar við bætist álag hins daglega lífs. (Job. 14:1; Préd. 2:23) Stundum verður álagið svo íþyngjandi að við verðum hreinlega niðurdregin og megnum  ekki að rísa undir því þó að við reynum okkar besta til að vera andlega sterk. Tökum sem dæmi bróður sem hafði verið öðrum stoð og stytta áratugum saman. Á efri æviárum bilaði heilsan hjá þeim hjónunum og hann varð ákaflega niðurdreginn. Líkt og þessi bróðir þurfum við öll að fá ,kraftinn mikla‘ frá Jehóva auk þess að fá uppörvun hvert frá öðru.

4. Hvaða leiðbeiningum Páls postula þurfum við að fylgja til að hvetja og uppörva hvert annað?

4 Til að vera öðrum til hvatningar og uppörvunar þurfum við að gera eins og Páll postuli benti kristnum Hebreum á. Hann sagði: „Gefum gætur hvert að öðru og hvetjum hvert annað til kærleika og góðra verka. Vanrækið ekki safnaðarsamkomur ykkar eins og sumra er siður heldur uppörvið hvert annað og það því fremur sem þið sjáið að dagurinn færist nær.“ (Hebr. 10:24, 25) Hvernig getum við farið eftir þessum leiðbeiningum?

„GEFUM GÆTUR HVERT AÐ ÖÐRU“

5. Hvað á Páll við þegar hann talar um að ,gefa gætur hvert að öðru‘ og hvað þarf til?

5 Þegar Páll talaði um að ,gefa gætur að öðrum‘ átti hann við að hugsa um þá og gefa gaum að þörfum þeirra. Er hægt að segja að við hugsum um þarfir annarra ef samskiptin eru lítið annað en að heilsa þeim í ríkissalnum eða rabba saman um daginn og veginn? Varla. Við viljum auðvitað ekki vera afskiptasöm eða hnýsast í annarra manna mál. (1. Tím. 5:13) En til að geta hvatt og uppörvað trúsystkini okkar þurfum við að kynnast þeim vel – aðstæðum þeirra, trúarstyrk, eiginleikum, styrkleikum og veikleikum. Þau þurfa að geta litið á okkur sem vini og vita að okkur sé annt um þau. Til að það gerist þurfum við að eiga stundir með þeim, ekki aðeins þegar þau eiga í erfiðleikum eða eru niðurdregin heldur líka þegar allt leikur í lyndi. – Rómv. 12:13.

6. Hvað auðveldar öldungi að ,gefa gætur að‘ bræðrum og systrum?

6 Öldungar safnaðarins eru hvattir til að ,vera hirðar þeirrar hjarðar sem Guð hefur falið þeim‘ og gera það fúslega. (1. Pét. 5:1-3) Varla geta þeir gert því góð skil nema þeir þekki sauðina vel sem þeim er trúað fyrir. (Lestu Orðskviðina 27:23.) Ef öldungarnir eru boðnir og búnir að aðstoða trúsystkini sín og njóta þess að vera með þeim er líklegra að þau leiti aðstoðar þegar þörf er á. Bræður og systur eru þá ófeimnari að ræða um áhyggjur sínar og tilfinningar, og það auðveldar öldungunum að ,gefa gætur að‘ þeim og veita nauðsynlega aðstoð.

7. Hvernig ættum við að líta á niðurdregna manneskju sem segir eitthvað andstyggilegt?

7 „Takið að ykkur óstyrka,“ sagði Páll í bréfi til safnaðarins í Þessaloníku. (Lestu 1. Þessaloníkubréf 5:14.) Þeir sem eru niðurdregnir eða þunglyndir eru að vissu leyti óstyrkir. Í Orðskviðunum 24:10 segir: „Látir þú hugfallast á degi neyðarinnar er máttur þinn lítill.“ Mjög niðurdregin manneskja getur átt það til að hreyta úr sér ónotum. (Job. 6:2, 3) Þegar staðan er sú þurfum við að hafa hugfast að innst inni meinar fólk ekki alltaf það sem það segir. Rachelle kynntist því af eigin raun þegar móðir hennar átti við alvarlegt þunglyndi að stríða. Hún segir: „Mamma átti það oft til að segja eitthvað andstyggilegt. Ég reyndi yfirleitt að minna mig á hvers konar manneskja hún væri í alvörunni – ástrík, hlýleg og örlát. Ég komst að raun um að þunglynt fólk segir ýmislegt sem það meinar ekki. Það versta  sem maður getur gert er að svara í sömu mynt.“ Í Orðskviðunum 19:11 stendur: „Það er viska að vera seinn til reiði og sæmd að láta rangsleitni ekki á sig fá.“

8. Hverjum er sérstaklega mikilvægt að sýna kærleika í reynd og hvers vegna?

8 Sumir eru miður sín vegna fyrri mistaka eða synda. Þeir hafa gert það sem þeir geta til að bæta fyrir brot sitt en eru samt niðurdregnir. Hvernig er hægt að gefa gaum að þörfum þeirra sem líður þannig? Páll skrifaði eftirfarandi um iðrandi syndara í Korintu: „Því ættuð þið nú ... að fyrirgefa honum og uppörva hann til þess að hann sökkvi ekki niður í allt of mikla hryggð. Þess vegna bið ég ykkur að sýna honum kærleika í reynd.“ (2. Kor. 2:7, 8) Orðið, sem er þýtt ,sýna í reynd‘, merkir samkvæmt orðabók að „staðfesta, fullgilda, skuldbinda“. Við getum hreinlega ekki gefið okkur að sá sem á í hlut skilji að við elskum hann og berum umhyggju fyrir honum. Hann þarf að sjá það af framkomu okkar og verkum.

,HVETJUM TIL KÆRLEIKA OG GÓÐRA VERKA‘

9. Hvað merkir það að ,hvetja til kærleika og góðra verka‘?

9 „Hvetjum hvert annað til kærleika og góðra verka,“ skrifaði Páll. Við þurfum að hvetja trúsystkini okkar til að sýna kærleika og vinna góð verk. Þegar eldur er að kulna getur þurft að skara í hann til að glæða hann. (2. Tím. 1:6) Við getum sömuleiðis hvatt bræður okkar og systur til að sýna Guði og náunganum kærleika. Viðeigandi hrós er góð leið til að hvetja aðra til góðra verka.

Farðu með öðrum í boðunarstarfið.

10, 11. (a) Hverjir í söfnuðinum þurfa að fá hrós? (b) Lýstu með dæmi hvernig hrós getur hjálpað þeim sem hafa farið út af sporinu.

10 Við höfum öll þörf fyrir hrós, hvort sem við erum niðurdregin eða ekki. „Pabbi hrósaði mér aldrei fyrir neitt sem ég gerði,“ skrifar öldungur. „Sjálfsmatið var því ekki upp á marga fiska ... Ég er orðinn fimmtugur en mér finnst samt gott þegar vinir mínir segja mér að ég standi mig vel sem öldungur ... Ég  hef lært af reynslunni að hrós er afar mikilvægt og ég legg mig í líma til að hrósa.“ Hrós er hvetjandi fyrir alla – þar á meðal brautryðjendur, aldraða og niðurdregna. – Rómv. 12:10.

11 Þegar einhverjum í söfnuðinum verður eitthvað á reyna öldungarnir að leiðrétta hann. Kærleiksríkar leiðbeiningar og viðeigandi hrós getur verið honum hvatning til að iðrast og taka rétta stefnu. (Gal. 6:1) Systir, sem heitir Miriam, komst að raun um það. Hún skrifar: „Ég varð fyrir miklu áfalli þegar pabbi fékk heilablóðfall og nokkrir nánir vinir mínir yfirgáfu söfnuðinn um svipað leyti. Ég varð mjög niðurdregin og reyndi að komast yfir það með því að finna mér kærasta í heiminum.“ Það hafði þau áhrif að henni fannst hún ekki verðskulda kærleika Jehóva og hún íhugaði að yfirgefa sannleikann. Öldungur minnti hana á hvernig hún hefði áður þjónað Jehóva dyggilega og það hreyfði við tilfinningum hennar. Öldungarnir fengu tækifæri til að fullvissa hana um að Jehóva elskaði hana og það glæddi að nýju kærleika hennar til hans. Hún hætti með kærastanum og hélt áfram að þjóna Jehóva.

Hvettu til kærleika og góðra verka.

12. Er vænlegt til árangurs að ýta undir sektarkennd?

12 Það er hægt að fá fólk til að taka sig á með því að ýta undir sektarkennd, til dæmis með því að bera fólk saman á ósanngjarnan hátt, setja strangar reglur eða segja fólki að það standi sig ekki nógu vel. En árangurinn er ekki varanlegur. Hins vegar getur það haft jákvæð og varanleg áhrif að hrósa trúsystkinum og höfða til þess að þau elski Guð. – Lestu Filippíbréfið 2:1-4.

„UPPÖRVIÐ HVERT ANNAГ

13. Hvað er fólgið í því að uppörva trúsystkini? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

13 Við þurfum að ,uppörva hvert annað því fremur sem við sjáum að dagurinn færist nær‘. Að uppörva trúsystkini er fólgið í því að hvetja þau til að halda áfram að þjóna Guði. Að hvetja til kærleika og góðra verka er sambærilegt við að skara í eld sem er að kulna, og að uppörva er ekki ósvipað og að bæta á eldinn til að viðhalda honum eða kynda meira. Við þurfum að styrkja og uppörva niðurdregna. Þegar við fáum tækifæri til þess þurfum við að vera hlýleg og mild í tali. (Orðskv. 12:18) Við skulum vera ,fljót til að heyra og sein til að tala‘. (Jak. 1:19) Ef við erum umhyggjusöm og hlustum vel má vera að við komum auga á hvað veldur því að trúbróðir er niðurdreginn, og þá getum við sagt eitthvað til að hjálpa honum að takast á við það.

Njóttu þín í góðum félagsskap.

14. Hvaða hjálp fékk niðurdreginn bróðir?

14 Lítum á hvernig umhyggjusamur öldungur hjálpaði bróður sem hafði verið óvirkur um árabil. Hann hlustaði  á bróðurinn og varð þá ljóst að hann elskaði Jehóva innilega. Bróðirinn las gaumgæfilega hvert einasta tölublað Varðturnsins og reyndi að sækja samkomur reglulega. Hann var hins vegar vonsvikinn og svolítið bitur út af framferði sumra í söfnuðinum. Öldungurinn hlustaði skilningsríkur á hann og fullvissaði hann um að hann bæri mikla umhyggju fyrir honum og fjölskyldu hans. Bróðirinn áttaði sig smám saman á því að hann hafði látið ýmis óheppileg atvik tálma sér að þjóna þeim Guði sem hann elskaði. Öldungurinn bauð honum með sér í starfið. Með hjálp hans tók bróðirinn að boða fagnaðarerindið á nýjan leik og varð með tímanum hæfur til að þjóna sem öldungur aftur.

Hlustaðu þolinmóður á þá sem þurfa á uppörvun að halda. (Sjá 14. og 15. grein.)

15. Hvernig getum við líkt eftir Jehóva þegar við uppörvum niðurdregna?

15 Það er óvíst að niðurdregin manneskja hressist um leið og hún fær hjálp eða fari strax eftir ráðleggingum. Við getum þurft að veita aðstoð um tíma. „Takið að ykkur óstyrka, verið þolinmóð við alla,“ sagði Páll. (1. Þess. 5:14) Við megum ekki gefast upp heldur skulum við ,taka að okkur‘ þá sem eru hjálparþurfi og styðja þá eins lengi og þörf er á. Jehóva var þolinmóður við þjóna sína til forna þegar þeir voru niðurdregnir. Hann var til dæmis mjög tillitssamur og umhyggjusamur í garð Elía. Hann gaf spámanninum það sem hann þurfti til að geta haldið áfram að þjóna honum. (1. Kon. 19:1-18) Jehóva fyrirgaf Davíð af því að hann iðraðist í einlægni. (Sálm. 51:9, 19) Hann hjálpaði líka manninum sem orti 73. sálminn en hann var kominn á fremsta hlunn með að hætta að þjóna honum. (Sálm. 73:13, 16, 17) Jehóva er tillitssamur og umhyggjusamur við okkur, einkum þegar við erum döpur og niðurdregin. (2. Mós. 34:6) Miskunn hans er „ný á hverjum morgni“ og tekur aldrei enda. (Harmlj. 3:22, 23) Jehóva væntir þess að við líkjum eftir honum og séum mild og þolinmóð við niðurdregna.

HVETJUM HVERT ANNAÐ TIL AÐ FYLGJA VEGINUM TIL LÍFSINS

16, 17. Hvað þurfum við að vera staðráðin í að gera núna undir lok þessa heimskerfis og hvers vegna?

16 Þúsundir dóu af þeim 33.000 föngum sem yfirgáfu fangabúðirnar í Sachsenhausen. Hins vegar lifðu allir vottarnir 230 sem voru með í för. Hvatningin og stuðningurinn, sem þeir fengu hver frá öðrum, átti drjúgan þátt í því að þeir lifðu helgönguna af.

17 Við erum nú stödd á ,veginum sem liggur til lífsins‘. (Matt. 7:14) Áður en langt um líður ganga allir þjónar Jehóva sem einn maður inn í nýjan réttlátan heim. (2. Pét. 3:13) Við skulum vera staðráðin í að hjálpa hvert öðru að halda áfram að fylgja veginum til eilífa lífsins.