Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Elísa sá eldvagna – hvað um þig?

Elísa sá eldvagna – hvað um þig?

Konungur Sýrlands ætlaði að ná Elísa, spámanni Guðs, á sitt vald og komst að því að hann væri í Dótan en borgin var víggirt og stóð uppi á hæð. Sýrlandskonungur sendi hesta, vagna og mikið herlið að næturlagi til Dótan. Í dagrenningu var herafli hans búinn að umkringja borgina. – 2. Kon. 6:13, 14.

Þegar þjónn Elísa fór á fætur og gekk út sá hann óvinaherinn. „Æ, herra. Hvað eigum við nú að gera?“ hrópaði þjónninn. „Vertu óhræddur,“ svaraði Elísa. „Þeir sem eru með okkur eru fleiri en hinir.“ Spámaðurinn baðst þá fyrir og sagði: „Drottinn, opna augu hans svo að hann sjái.“ Síðan segir í frásögunni: „Þá opnaði Drottinn augu þjónsins og hann sá að fjallið var þakið eldhestum og eldvögnum umhverfis Elísa.“ (2. Kon. 6:15-17) Hvað lærum við af þessum atburði og öðrum í lífi Elísa?

Elísa hélt ró sinni þótt borgin væri umkringd sýrlenskum hermönnum af því að hann setti allt sitt traust á Jehóva og sá verndarmátt hans að verki. Við eigum ekki von á kraftaverkum nú á dögum, en við skiljum að Jehóva verndar fólk sitt sem heild. Í vissum skilningi erum við líka umkringd eldhestum og stríðsvögnum. Ef við ,sjáum‘ þá með augum trúar og reiðum okkur alltaf á Jehóva Guð getum við verið óhult og notið blessunar hans. (Sálm. 4:9) Við skulum nú kynna okkur aðra atburði í lífi Elísa sem við getum dregið lærdóm af.

ELÍSA GERIST ÞJÓNN ELÍA

Eitt sinn þegar Elísa var að plægja akur gekk Elía fram hjá og kastaði skikkju sinni yfir hann. Elísa vissi hvað það merkti. Hann hélt veislu, kvaddi föður sinn og móður, fór að heiman og gerðist þjónn Elía. (1. Kon. 19:16, 19-21) Elísa var alltaf reiðubúinn að gera allt það sem Jehóva bað hann um. Þess vegna fól Jehóva honum ýmis verkefni og þegar fram liðu stundir tók hann við af Elía sem spámaður.

 Elísa var þjónn Elía í á að giska sex ár. Í Biblíunni segir að hann hafi á þeim tíma „hellt vatni yfir hendur Elía“. (2. Kon. 3:11) Í þá daga borðaði fólk að jafnaði með fingrunum án þess að nota hnífapör. Að máltíð lokinni var venja að þjónn skolaði hendur húsbóndans með því að hella vatni yfir þær. Þetta sýnir að sum verkefni Elísa voru ósköp hversdagsleg þjónustustörf. Honum fannst samt sem áður mikill heiður að vera þjónn Elía.

Margir vottar Jehóva nú á tímum þjóna Guði í fullu starfi við ýmis verkefni. Trúin er þeim hvatning til að gera eins mikið og þeir geta í þjónustu Jehóva. Sumir þurfa að yfirgefa átthagana til að vinna á Betel, vinna við byggingarframkvæmdir eða við önnur störf sem margir telja ekki merkileg. Við ættum hvorki að líta niður á slíka vinnu eða finnast hún vera ómerkileg því að Jehóva metur hana mikils. – Hebr. 6:10.

ELÍSA GAFST EKKI UPP

Áður en Guð hóf „Elía til himins í stormviðri“ sendi hann spámanninn frá Gilgal til Betel. Elía sagði Elísa, félaga sínum, að hann þyrfti ekki að fara með honum en Elísa svaraði: ,Ég yfirgef þig ekki.‘ Elía endurtók þessa hvatningu síðan tvisvar á ferðalaginu, en Elísa vildi ekki yfirgefa hann. (2. Kon. 2:1-6) Elísa vék ekki frá Elía frekar en Rut frá Naomí. (Rut. 1:8, 16, 17) Af hverju ekki? Af því að Elísa leit greinilega á það sem blessun Guðs að fá að þjóna Elía.

Elísa er okkur góð fyrirmynd. Ef við höfum hugfast að við þjónum Jehóva sinnum við vel öllum verkefnum sem okkur eru falin í söfnuðinum. Það er ekki hægt að hugsa sér meiri heiður. – Sálm. 65:5; 84:11.

„SEGÐU MÉR HVAÐ ÉG GET GERT FYRIR ÞIG“

Félagarnir tveir héldu ferð sinni áfram. Elía sagði við Elísa: „Segðu mér hvað ég get gert fyrir þig áður en ég verð tekinn frá þér.“ Bón Elísa snerist um þjónustu hans við Guð líkt og bón Salómons mörgum árum áður. Elísa bað um að fá ,tvo hluta af anda Elía‘. (1. Kon. 3:5, 9; 2. Kon. 2:9) Elsti sonur hvers manns í Ísrael átti að fá tvöfaldan erfðahlut. (5. Mós. 21:15-17) Það má því segja að Elísa hafi farið fram á að teljast andlegur erfingi Elía. Auk þess vildi Elísa greinilega sýna sama hugrekki og Elía sem hafði þjónað Jehóva „af brennandi ákafa“. – 1. Kon. 19:13, 14.

Hvernig brást Elía við bón þjóns síns? „Þú mælist til mikils,“ sagði spámaðurinn. „Ef þú sérð mig þegar ég verð tekinn frá þér munt þú hljóta þetta, annars ekki.“ (2. Kon. 2:10) Svar Elía hafði greinilega tvíþætta merkingu. Í fyrsta lagi gat Guð einn ákveðið hvort Elísa fengi það sem hann bað um. Í öðru lagi varð Elísa að standa við heit sitt og mátti ekki víkja frá Elía sama hvað gengi á.

ÞAÐ SEM ELÍSA SÁ

Hvernig leist Guði á bón Elísa um að fá tvo hluta af anda Elía? Frásagan segir: „Meðan þeir voru að tala saman á göngunni birtist skyndilega eldvagn með eldhestum fyrir er skildi þá að og Elía fór til himins í stormviðri. Elísa sá það.“ * Þetta var svar Jehóva við bón Elísa. Elísa sá þegar Elía var tekinn frá honum. Hann fékk tvo hluta af anda Elía og varð þar með arftaki spámannsins. – 2. Kon. 2:11-14.

Elísa tók skikkjuna upp sem Elía missti og klæddi sig í hana. Skikkjan var til merkis um að nú væri Elísa spámaður Guðs. Annað merki um að Guð hefði valið Elísa kom greinilega fram þegar hann skipti vatninu í Jórdan fyrir kraftaverk.

Það sem Elísa sá þegar Elía fór til himins í stormviðrinu hafði eflaust mikil áhrif á hann því að það er ekki á hverjum degi sem fólk sér eldvagn með eldhestum fyrir. En það sannaði fyrir Elísa að Jehóva varð við bón hans. Þegar Guð bænheyrir okkur sjáum við ekki hervagna og eldhesta í sýn. En við getum skynjað að Guð beitir stórkostlegum mætti sínum til að tryggja að vilji hans nái fram að ganga. Þegar við sjáum að Jehóva blessar jarðneskan hluta alheimssafnaðar síns má í raun segja að við „sjáum“ himneskan vagn hans á ferð. – Esek. 10:9-13.

 Elísa upplifði ýmislegt sem sannfærði hann um geysilegan mátt Jehóva. Heilagur andi Guðs gerði honum kleift að vinna 16 kraftaverk – eða tvöfalt fleiri en talið er að Elía hafi framkvæmt. * Elísa sá hesta og eldvagna öðru sinni þegar hann var í hættu í Dótan eins og lýst er í upphafi greinarinnar.

ELÍSA TREYSTI JEHÓVA

Þótt Elísa væri umkringdur óvinum í Dótan hélt hann samt ró sinni. Hvernig gat hann það? Hann hafði byggt upp sterka trú á Jehóva. Við þurfum líka á slíkri trú að halda. Við skulum þess vegna biðja Guð um að gefa okkur heilagan anda til þess að geta sýnt trúmennsku og fleiri eiginleika sem tilheyra ávexti andans. – Lúk. 11:13; Gal. 5:22, 23.

Atvikið við Dótan gaf Elísa líka fulla ástæðu til að treysta á vernd Jehóva og ósýnilegs englahers hans. Spámaðurinn gerði sér grein fyrir því að Guð hafði sent englaher sinn á vettvang til að umkringja borgina og umsátursliðið. Guð sló óvinina blindu og bjargaði þannig Elísa og þjóni hans fyrir kraftaverk. (2. Kon. 6:17-23) Elísa sýndi sterka trú á þessari erfiðu stundu, eins og oft áður, og lagði allt sitt traust á Jehóva.

Við skulum líkja eftir Elísa og leggja allt okkar traust á Jehóva Guð. (Orðskv. 3:5, 6) Ef við gerum það mun Jehóva vera okkur ,náðugur og blessa okkur‘. (Sálm. 67:2) Við erum að vísu ekki umkringd eldvögnum og hestum í bókstaflegum skilningi. En Jehóva mun vernda alheimssöfnuð sinn í ,þrengingunni miklu‘ sem er fram undan. (Matt. 24:21; Opinb. 7:9, 14) Þangað til skulum við alltaf muna að Jehóva er ,athvarf okkar‘. – Sálm. 62:8.

^ gr. 16 Elía fór ekki til himna, það er að segja andlegs bústaðar Jehóva og englasona hans. Sjá Varðturninn 1. nóvember 1997, bls. 22.

^ gr. 19 Sjá Varðturninn 1. september 2005, bls. 10.