Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jehóva er trúfastur og fús til að fyrirgefa

Jehóva er trúfastur og fús til að fyrirgefa

„Þú, Drottinn, ert góður og fús til að fyrirgefa, gæskuríkur öllum sem ákalla þig.“ – SÁLM. 86:5.

1, 2. (a) Hvers vegna er verðmætt að eiga vini sem eru trúfastir og fúsir til að fyrirgefa? (b) Um hvaða spurningar er rætt í þessari grein?

HVERNIG myndirðu lýsa sönnum vini? „Í mínum huga er það sannur vinur sem styður alltaf við bakið á manni og fyrirgefur þegar manni verður eitthvað á,“ segir Ashley en hún er vottur Jehóva. Við kunnum öll að meta vini sem eru trúfastir og fúsir til að fyrirgefa. Þeir vekja með okkur öryggiskennd og við finnum að við erum elskuð. – Orðskv. 17:17.

2 Enginn vinur er eins trúfastur og Jehóva og enginn eins fús til að fyrirgefa. Sálmaskáldið lýsti honum þannig: „Þú, Drottinn, ert góður og fús til að fyrirgefa, gæskuríkur * öllum sem ákalla þig.“ (Sálm. 86:5) Hvað merkir það að vera trúfastur og fús til að fyrirgefa? Hvernig birtast þessir fögru eiginleikar í fari Jehóva? Og hvernig getum við líkt eftir honum? Við glæðum kærleikann til Jehóva, besta vinar okkar, með því að leita svara við þessum spurningum. Við treystum sömuleiðis vináttuböndin innan safnaðarins. – 1. Jóh. 4:7, 8.

JEHÓVA ER TRÚFASTUR

3. Hvað merkir það að vera trúfastur?

3 Sá sem er trúfastur er vinur vina sinna. Hann sýnir órjúfanlega hollustu. Hann er ekki eitt í dag og annað á morgun. Hann stendur með vinum sínum í blíðu og stríðu, ekki síst þegar mest reynir á. Jehóva er þannig vinur. „Guð er trúr“ eins og segir í 1. Korintubréfi 10:13 og er það öllum öðrum fremur.

4, 5. (a) Hvernig birtist trúfesti Jehóva? (b) Hvers vegna er uppörvandi að hugleiða hvernig Jehóva hefur sýnt trúfesti?

4 Hvernig birtist trúfesti Jehóva? Hann yfirgefur  aldrei trúa tilbiðjendur sína. Davíð konungur var einn þeirra og hann lofaði Jehóva fyrir trúfesti hans. (Lestu 2. Samúelsbók 22:26) Jehóva leiðbeindi Davíð í þrengingum hans, verndaði hann og frelsaði. (2. Sam. 22:1) Davíð vissi að trúfesti Jehóva var ekki bara orðin tóm. Hvers vegna sýndi Jehóva Davíð trúfesti? Vegna þess að Davíð var sjálfur trúr og tryggur. Jehóva kann að meta trúfesti þjóna sinna og endurgeldur hana. – Orðskv. 2:6-8.

5 Það er uppörvandi að hugleiða hvernig Jehóva hefur sýnt þjónum sínum trúfesti. „Það hjálpar mér mikið að lesa um það hvernig Jehóva styrkti Davíð í erfiðleikum hans,“ segir Reed en hann er bróðir í söfnuðinum. „Jehóva var alltaf með Davíð, jafnvel þegar hann var á flótta og hafðist við í hellum. Mér finnst það ákaflega uppörvandi. Það minnir mig á að hvernig sem aðstæður eru og hversu dökkt sem útlitið er styður Jehóva við bakið á mér, svo framarlega sem ég er trúr.“ Þú ert ábyggilega sömu skoðunar og þessi trúfasti bróðir. – Rómv. 8:38, 39.

6. Á hvaða fleiri vegu birtist trúfesti Jehóva og hvernig njóta þjónar hans góðs af því?

6 Á hvaða fleiri vegu birtist trúfesti Jehóva? Hann er trúr þeim meginreglum sem hann setur. „Allt til elliára yðar verð ég hinn sami,“ segir hann. (Jes. 46:4) Allar ákvarðanir hans byggjast á óbreytanlegum frumreglum hans um rétt og rangt. (Mal. 3:6) Og Jehóva sýnir trúfesti með því að standa við loforð sín. (Jes. 55:11) Trúfesti hans er því öllum trúum þjónum hans til góðs. Hvernig? Ef við gerum okkar besta til að fylgja lögum Jehóva getum við treyst að hann blessi okkur eins og hann hefur lofað. – Jes. 48:17, 18.

VERTU TRÚFASTUR EINS OG JEHÓVA

7. Hvernig er hægt að líkja eftir trúfesti Guðs?

 7 Hvernig getum við líkt eftir trúfesti Jehóva? Meðal annars með því að vera þeim innan handar sem eiga í erfiðleikum. (Orðskv. 3:27) Veistu af bróður eða systur í söfnuðinum sem er niðurdregin, ef til vill vegna veikinda, andstöðu innan fjölskyldunnar eða eigin veikleika? Væri þá ekki ráð að uppörva viðkomandi með „hlýlegum og huggunarríkum orðum“? (Sak. 1:13) * Þá ertu vinur í raun, sannur vinur sem er „tryggari en bróðir“. – Orðskv. 18:24.

8. Hvernig getum við líkt eftir trúfesti Jehóva, til dæmis gagnvart maka okkar?

8 Við getum einnig líkt eftir trúfesti Jehóva með því að sýna ástvinum okkar tryggð. Þeir sem eru í hjónabandi vita að þeir verða að vera trúir maka sínum. (Orðskv. 5:15-18) Við stígum ekki einu sinni fyrsta skrefið út á braut sem gæti leitt til hjúskaparbrots. (Matt. 5:28) Sömuleiðis sýnum við trúsystkinum okkar tryggð með því að forðast skaðlegt slúður og rógburð. Við tölum ekki illa um þau og hlustum ekki á söguburð um þau. – Orðskv. 12:18.

9, 10. (a) Hverjum viljum við umfram allt vera trú? (b) Hvers vegna er ekki alltaf auðvelt að hlýða fyrirmælum Jehóva?

9 Umfram allt viljum við vera Jehóva trú. Hvernig gerum við það? Með því að reyna okkar besta til að sjá hlutina sömu augum og hann. Við viljum elska það sem hann elskar, hata það sem hann hatar og hegða okkur samkvæmt því. (Lestu Sálm 97:10.) Því betur sem við lögum hugsanir okkar og tilfinningar að sjónarmiðum  Jehóva því auðveldara eigum við með að hlýða honum. – Sálm. 119:104.

10 Auðvitað er ekki alltaf auðvelt að hlýða fyrirmælum Jehóva. Það getur verið barátta að vera honum trú. Í söfnuðinum eru einhleypir vottar sem langar til að giftast en hefur ekki tekist að finna sér maka við hæfi innan safnaðarins. (1. Kor. 7:39) Segjum að vinnufélagar, sem eru ekki vottar, séu stöðugt að reyna að finna mannsefni handa einhleypri systur. Systirin er oft einmana en hún er samt ákveðin í að vera Jehóva trú. Kunnum við ekki að meta slíka trúfesti? Jehóva umbunar öllum sem eru honum trúir þegar á þá reynir. – Hebr. 11:6.

„Til er sá vinur sem reynist tryggari en bróðir.“ – Orðskv. 18:24. (Sjá 7. grein.)

,Fyrirgefið hvert öðru.‘ – Ef. 4:32. (Sjá 16. grein.)

JEHÓVA ER FÚS TIL AÐ FYRIRGEFA

11. Hvað er fólgið í því að fyrirgefa?

11 Eitt það fegursta í fari Jehóva er að hann skuli vera fús til að fyrirgefa. Að fyrirgefa merkir að hætta að hugsa um það sem gert var á hlut manns, svo framarlega sem það er grundvöllur til að fyrirgefa. Það merkir ekki að gera lítið úr rangindunum eða neita að horfast í augu við þau heldur að hætta að láta sér gremjast það sem miður fór. Í Biblíunni kemur fram að Jehóva sé „fús til að fyrirgefa“ þeim sem iðrast í einlægni. – Sálm. 86:5.

12. (a) Hve langt nær fyrirgefning Jehóva? (b) Hvað merkir það að syndir manns séu ,afmáðar‘?

12 Hversu langt nær fyrirgefning Jehóva? Í Biblíunni segir að hann ,fyrirgefi ríkulega‘. Það merkir að fyrirgefningin er alger og varanleg. (Jes. 55:7) Hvernig vitum við að fyrirgefning Jehóva er alger? Lítum á það sem segir í Postulasögunni 3:19(Lestu.) Pétur postuli hvatti áheyrendur sína til að ,taka sinnaskiptum og snúa sér til Guðs‘. Syndari, sem iðrast í einlægni, sér eftir því að hafa brotið af sér og er staðráðinn í að láta syndina ekki endurtaka sig. (2. Kor. 7:10, 11) Sá sem iðrast í alvöru snýr við blaðinu, lætur af rangri breytni og gerir það sem  Guð hefur velþóknun á. Hvað myndi gerast hjá áheyrendum Péturs ef þeir iðruðust í einlægni? Þá yrðu syndir þeirra ,afmáðar‘. Gríska orðið, sem svo er þýtt, merkir að „þurrka út, stroka út“. Þegar Jehóva fyrirgefur er eins og hann stroki út syndirnar og hinn brotlegi fái að byrja upp á nýtt. Jehóva fyrirgefur að fullu. – Hebr. 10:22; 1. Jóh. 1:7.

13. Hvað merkir það að Jehóva „minnist ekki framar syndar“ þjóna sinna?

13 Hvernig vitum við að fyrirgefning Jehóva er varanleg? Það má sjá af spádómi Jeremía um nýja sáttmálann sem gerður er við hina andasmurðu. Þar kemur fram að þeir sem trúa á lausnargjaldið geta fengið fulla fyrirgefningu. (Lestu Jeremía 31:34.) Jehóva segir: „Ég mun fyrirgefa þeim sekt þeirra og minnist ekki framar syndar þeirra.“ Jehóva fullvissar okkur um að hann refsi okkur aldrei framar fyrir syndir sem hann er búinn að fyrirgefa. Hann tönnlast ekki á þeim í sífellu til að geta refsað okkur fyrir þær aftur og aftur. Hann fyrirgefur fyrir fullt og allt. – Rómv. 4:7, 8.

14. Hvers vegna er hughreystandi að íhuga hve fús Jehóva er til að fyrirgefa? Lýstu með dæmi.

14 Það er hughreystandi að íhuga hve fús Jehóva er til að fyrirgefa. Við skulum líta á dæmi. Fyrir mörgum árum var systur, sem við skulum kalla Elaine, vikið úr söfnuðinum. Nokkrum árum síðar var hún tekin aftur inn í söfnuðinn. „Ég sagði við sjálfa mig og aðra að ég tryði að Jehóva hefði fyrirgefið mér,“ segir hún. „Mér fannst hann þó að einhverju leyti fjarlægur. Mér fannst aðrir eiga nánara samband við hann og að hann væri þeim raunverulegri.“ En Elaine fannst hughreystandi að lesa og hugleiða ýmsar líkingar sem brugðið er upp í Biblíunni til að lýsa fyrirgefningu Jehóva. „Ég fann sterkar fyrir kærleika Jehóva og blíðu en nokkru sinni fyrr,“ segir hún. Eftirfarandi samlíking hafði sérlega sterk áhrif á hana: „Þegar Jehóva fyrirgefur syndir okkar þurfum við ekki að hafa á tilfinningunni að við séum blettuð af syndinni til æviloka.“ * Elaine segir: „Ég áttaði mig á að ég hafði ekki trúað að Jehóva gæti fyrirgefið mér að fullu, og ég hélt að ég myndi þurfa að bera þessa byrði til æviloka. Ég veit að þetta tekur sinn tíma en ég finn nú þegar til meiri nálægðar við Jehóva og mér finnst eins og fargi hafi verið af mér létt.“ Jehóva er svo sannarlega kærleiksríkur og fús til að fyrirgefa. – Sálm. 103:9.

VERTU FÚS TIL AÐ FYRIRGEFA EINS OG JEHÓVA

15. Hvernig getum við líkt eftir fyrirgefningu Jehóva?

15 Við getum líkt eftir Jehóva með því að ákveða að fyrirgefa alltaf öðrum þegar það er grundvöllur til þess. (Lestu Lúkas 17:3, 4.) Höfum hugfast að þegar Jehóva fyrirgefur gleymir hann syndum okkar í þeim skilningi að hann erfir þær ekki við okkur. Þegar við fyrirgefum getum við líka gleymt með því að hætta að hugsa um það sem búið er og nefna það ekki framar.

16. (a) Hvað merkir það að fyrirgefa og hvað merkir það ekki? (b) Hvað þurfum við að gera til að Jehóva fyrirgefi okkur?

 16 Að vera fús til að fyrirgefa merkir ekki að láta sér það í léttu rúmi liggja að aðrir geri á hlut okkar eða að við leyfum þeim að notfæra sér miskunn okkar. Það merkir að við veljum að láta af gremjunni. Og það er mikilvægt að hafa hugfast að við verðum að líkja eftir Jehóva og fyrirgefa öðrum til að hann fyrirgefi okkur. (Matt. 6:14, 15) Jehóva er skilningsríkur. Hann veit að við erum mold. (Sálm. 103:14) Eigum við þá ekki líka að vera skilningsrík, hafa hugfast að allir eru  ófullkomnir og fyrirgefa þeim fúslega og af öllu hjarta? – Ef. 4:32; Kól. 3:13.

Biðjum Jehóva í einlægni að fyrirgefa þeim sem gera á hlut okkar. (Sjá 17. grein.)

17. Hvað getur hjálpað okkur að fyrirgefa trúsystkini sem gerir á hlut okkar?

 17 Það getur þó verið hægra sagt en gert að fyrirgefa. Sumir hinna andasmurðu á fyrstu öld virðast jafnvel hafa átt erfitt með að útkljá ágreiningsmál sín. (Fil. 4:2) Hvað er til ráða ef bróðir eða systir hefur gert á hlut okkar? Þá getum við dregið lærdóm af Job. Svokallaðir vinir hans, þeir Elífas, Bildad og Sófar, særðu hann djúpt með tilhæfulausum ásökunum sínum. (Job. 10:1; 19:2) Jehóva ávítaði þremenningana að lokum en sagði þeim jafnframt að fara til Jobs og færa fórn fyrir syndir sínar. (Job. 42:7-9) En Job þurfti líka að gera eitthvað. Hvað var það? Jehóva sagði honum að biðja fyrir þremenningunum sem höfðu sært hann. Job gerði eins og honum var sagt og Jehóva blessaði hann þar sem hann var fús til að fyrirgefa. (Lestu Jobsbók 42:10, 12, 16, 17.) Hvaða lærdóm drögum við af þessu? Ef við biðjum í einlægni fyrir þeim sem hefur gert á hlut okkar getur það auðveldað okkur að láta af gremjunni.

KYNNUMST JEHÓVA ENN BETUR OG LÍKJUM EFTIR HONUM

18, 19. Hvernig getum við glætt með okkur kærleikann til Jehóva?

18 Það hefur verið einkar ánægjulegt að kynnast ýmsum eiginleikum Jehóva betur. Við höfum komist að raun um að hann er alúðlegur og það er auðvelt að nálgast hann. Hann fer ekki í manngreinarálit og hann er örlátur, sanngjarn, trúfastur og fús til að fyrirgefa. En við höfum þó aðeins fengið nasasjón af eiginleikum Jehóva enn sem komið er. Við eigum þá ánægju í vændum að geta kynnst honum enn nánar og sjáum fram á að hafa alla eilífðina til þess. (Préd. 3:11) Við tökum undir með Páli postula sem skrifaði: „Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs!“ Hið sama mætti segja um kærleika Jehóva og eiginleikana sex sem rætt hefur verið um í þessum þrem greinum. – Rómv. 11:33.

19 Við skulum öll halda áfram að kynnast aðlaðandi eiginleikum Jehóva enn betur, hugleiða þá og líkja eftir þeim. (Ef. 5:1) Þannig glæðum við kærleikann til hans og finnum til enn nánari tengsla við hann. Við erum vafalaust sammála sálmaskáldinu sem söng: „Mín gæði eru það að vera nálægt Guði.“ – Sálm. 73:28.

^ gr. 2 Frummálsorðið, sem er þýtt „gæskuríkur“, getur einnig merkt „ríkur að tryggum kærleika“.

^ gr. 7 Góðar tillögur er að finna í greininni „Hvetjum til kærleika og góðra verka – hvernig?“ í Varðturninum 1. september 1995 og greininni „Have You Encouraged Anyone Lately?“ sem birtist í sama blaði 15. janúar 1995.

^ gr. 14 Sjá bókina Nálægðu þig Jehóva, kafla 26, grein 10.