Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Metum Jehóva að verðleikum

Metum Jehóva að verðleikum

„Verðið því eftirbreytendur Guðs svo sem elskuð börn hans.“ – EF. 5:1.

1. (a) Hvaða eiginleikar koma upp í hugann þegar þú hugsar um Jehóva? (b) Hvers vegna er gagnlegt að kynna sér eiginleika Jehóva?

HVAÐA eiginleikar koma fyrst upp í hugann þegar þú hugsar um Jehóva? Þú nefnir ef til vill kærleika, réttlæti, visku og mátt. En Jehóva hefur til að bera marga aðra aðlaðandi eiginleika. Í ritum okkar hefur verið rætt um meira en 40 eiginleika Jehóva. Það er óhætt að segja að þar höfum við aðgang að miklum sjóði sem við getum nýtt okkur við sjálfsnám og í biblíunámi fjölskyldunnar. Hvers vegna er gagnlegt að kynna sér eiginleika Jehóva? Vegna þess að þannig getum við fengið enn meiri mætur á himneskum föður okkar, og enn sterkari löngun til að eiga náin tengsl við hann og líkja eftir honum. – Jós. 23:8; Sálm. 73:28.

2. (a) Lýstu með dæmi hvernig við getum lært að meta eiginleika Jehóva enn betur. (b) Um hvað er fjallað í þessari grein og tveim næstu?

2 Hvað er fólgið í því að meta einhvern að verðleikum? Það merkir að gera sér grein fyrir hæfileikum hans og mannkostum. Við nánari kynni lærum við að meta hann enn meir. Lýsum þessu með dæmi: Segjum að þú sért að kynnast nýjum rétti. Fyrst finnurðu ilminn af honum. Síðan smakkarðu á honum og nýtur hvers munnbita. Að síðustu lærirðu að elda hann sjálfur. Á sama hátt lærum við að meta Jehóva að verðleikum þegar við kynnum okkur eiginleika hans, hugleiðum hvernig þeir birtast í fari hans og tileinkum okkur þá. (Ef. 5:1) Markmiðið með þessari grein og tveim næstu er að hjálpa okkur að kynnast þeim eiginleikum Guðs sem ber sjaldnar á góma en höfuðeiginleikana fjóra. Við ætlum nú að skoða nokkra af þessum eiginleikum, kanna hvernig þeir birtast í fari Jehóva og íhuga hvernig við getum tileinkað okkur þá.

 ÞAÐ ER AUÐVELT AÐ LEITA TIL JEHÓVA

3, 4. (a) Lýstu manneskju sem er auðvelt að leita til. (b) Hvað í fari Jehóva gerir okkur auðvelt að leita til hans?

3 Hvers konar fólks er auðvelt að leita til? Okkur finnst yfirleitt gott að leita til manneskju sem er alúðleg, sem gefur færi á sér og er þægilegt að tala við. Orð fólks og líkamstjáning segir oft til um hvort það sé auðvelt að leita til þess eða ekki. Þetta má gjarnan sjá af látbragði þess, svipbrigðum og fasi almennt.

4 Hvað í fari Jehóva gerir okkur auðvelt að leita til hans? Þó að hann sé almáttugur og skapari alheims fullvissar hann okkur um að hann vilji gjarnan hlusta á bænir okkar og verða við þeim. (Lestu Sálm 145:18; Jesaja 30:18, 19.) Við getum talað við hann hvar sem er, hvenær sem er og eins lengi og við viljum. Við getum hiklaust leitað til hans í þeirri vissu að hann verði aldrei þreyttur á okkur. (Sálm. 65:3; Jak. 1:5) Í Biblíunni er Jehóva lýst með hugtökum sem við skiljum og gefa til kynna að hann vilji að við leitum til sín. Sálmaskáldið Davíð talar um að „augu Drottins“ hvíli á okkur og ,hægri hönd hans styðji okkur‘. (Sálm. 34:16; 63:9) Jesaja spámaður líkti Jehóva við fjárhirði og sagði: „Eins og hirðir mun hann halda hjörð sinni til haga, taka unglömbin í faðm sér og bera þau í fangi sínu.“ (Jes. 40:11) Hugsaðu þér. Jehóva vill að við séum eins náin honum og lítið lamb sem hjúfrar sig í faðmi fjárhirðis. Jehóva gerir okkur sannarlega auðvelt að leita til sín. Hvernig getum við líkst honum að þessu leyti?

VERÐMÆTUR EIGINLEIKI

5. Hvers vegna er mikilvægt að öldungar séu alúðlegir og auðvelt að leita til þeirra?

5 Fyrir nokkru voru allmargir vottar í ýmsum heimshlutum spurðir: „Hvað meturðu mest í fari öldungs?“ Langflestir svöruðu að þeim þætti skipta mestu máli að hann væri alúðlegur og auðvelt  að leita til hans. Allir þjónar Guðs þurfa auðvitað að þroska með sér þennan eiginleika sem best þeir geta en það er þó sérstaklega mikilvægt fyrir safnaðaröldunga. (Jes. 32:1, 2) Systir nokkur útskýrði hvers vegna henni fyndist þessi eiginleiki vera mjög mikilvægur og sagði: „Ef öldungur er ekki alúðlegur og auðvelt að leita til hans njótum við ekki góðs af öðrum mannkostum hans.“ Er það ekki rökrétt? En hvernig er hægt að tileinka sér þennan eiginleika?

6. Hvað er nauðsynlegt til að geta verið alúðlegur?

6 Til að vera alúðlegur þarf maður að bera ósvikna umhyggju fyrir öðrum. Ef öldungur lætur sér annt um aðra og er fús til að gefa af sér er líklegt að trúsystkini hans skynji það, þar á meðal börnin. (Mark. 10:13-16) Carlos, sem er 12 ára, segir: „Öldungarnir í ríkissalnum eru brosandi og vingjarnlegir og það finnst mér gott.“ Það er auðvitað ekki nóg að öldungur segist vilja hlusta og aðstoða heldur þarf að hann að sýna það í verki. (1. Jóh. 3:18) Hvernig getur hann gert það?

7. Hvers vegna er barmmerki oft kveikja að samræðum og hvaða lærdóm má draga af því?

7 Lýsum þessu með dæmi. Bróðir nokkur var á heimleið með flugvél eftir að hafa sótt umdæmismót erlendis og var með barmmerkið á sér. Flugþjónn kom auga á merkið þar sem stóð: „Til komi þitt ríki,“ og sagði við bróðurinn: „Já, það þarf að koma – við þurfum að ræða meira um þetta.“ Þeir áttu ágætt spjall og flugþjónninn þáði blöð af bróðurnum. Mörg okkar hafa upplifað eitthvað svipað. Hvers vegna er barmmerki oft kveikja að samtali? Vegna þess að í vissum skilningi sendir það fólki þau skilaboð að því sé velkomið að ræða við okkur og spyrja hvert við séum að fara. Barmmerkið segir fólki að við séum tilbúin til að tala um trú okkar. Safnaðaröldungar vilja líka senda trúsystkinum sínum þau skilaboð að þeim sé velkomið að ræða við þá. Hvernig geta þeir gert það?

8. Hvernig láta öldungar í ljós að þeim sé annt um aðra og hvaða áhrif hefur það á söfnuðinn?

8 Siðir eru breytilegir eftir löndum en víðast hvar er það talið merki um áhuga og umhyggju að kasta kveðju á fólk, heilsa með handabandi og brosa hlýlega. Hver ætti að eiga frumkvæðið? Matteus segir frá því að eitt sinn þegar Jesús hitti lærisveina sína hafi hann átt frumkvæðið, komið til þeirra og talað við þá. (Matt. 28:18) Öldungar reyna líka að eiga frumkvæðið að því að brydda upp á samræðum við bræður og systur. Hvaða áhrif getur það haft á söfnuðinn? Brautryðjandasystir, 88 ára gömul, segir: „Mér finnst vænt um öldungana vegna þess að þeir brosa hlýlega og eru uppörvandi við mig þegar ég kem inn í ríkissalinn.“ Önnur systir segir: „Þó að það virðist ekki skipta miklu máli að öldungur heilsi manni með brosi í ríkissalnum er það mér mikils virði.“

ALÚÐLEGIR OG TILTÆKIR

9, 10. (a) Hvernig er Jehóva okkur góð fyrirmynd? (b) Hvað geta öldungar gert til að vera tiltækir?

 9 Bræður og systur geta auðvitað ekki leitað til okkar nema við séum tiltæk. Þar er Jehóva okkur góð fyrirmynd því að „eigi er hann langt frá neinum af okkur“. (Post. 17:27) Öldungarnir geta meðal annars verið tiltækir með því að ætla sér tíma fyrir og eftir samkomur til að ræða við bræður og systur á öllum aldri. Bróðir, sem er brautryðjandi,  segir: „Mér finnst ég einhvers metinn þegar öldungur spyr mig hvernig mér gangi og tekur sér tíma til að hlusta á mig.“ Systir nokkur, sem hefur þjónað Jehóva í næstum 50 ár, segir: „Ég finn að ég er mikils metin þegar öldungar gefa sér stund til að ræða við mig eftir samkomu.“

10 Safnaðaröldungar hafa auðvitað í mörg horn að líta. Á samkomum ættu þeir þó að láta það ganga fyrir að ræða við bræður og systur.

JEHÓVA FER EKKI Í MANNGREINARÁLIT

11, 12. (a) Hvað merkir það að fara ekki í manngreinarálit? (b) Hvernig sjáum við af Biblíunni að Jehóva fer ekki í manngreinarálit?

11 Annað sem við kunnum að meta í fari Jehóva er að hann fer ekki í manngreinarálit. Það merkir að hann er sanngjarn en mismunar ekki fólki né er hann hlutdrægur. Ef við viljum ekki fara í manngreinarálit þurfum við að sjá fólk í réttu ljósi því að framkoma okkar byggist á hugarfarinu. Orðalagið „fer ekki í manngreinarálit“ er þýðing orðasambands sem merkir bókstaflega að „taka ekki andlit“, það er að segja að taka ekki eitt andlit fram yfir annað. (Post. 10:34; Kingdom Interlinear) Sá sem fer ekki í manngreinarálit horfir ekki á ytra útlit fólks eða aðstæður heldur tekur mið af því hvers konar mann það hefur að geyma.

12 Jehóva fer ekki í manngreinarálit og er þar öllum fremri. Í Biblíunni segir að hann ,fari ekki í manngreinarálit‘ og ,geri sér engan mannamun‘. (Lestu Postulasöguna 10:34, 35; 5. Mósebók 10:17.) Á dögum Móse kom upp mál sem staðfestir það.

Dætur Selofhaðs voru þakklátar fyrir að Jehóva skyldi ekki fara í manngreinarálit. (Sjá 13. og 14. grein.)

13, 14. (a) Í hvaða vanda áttu dætur Selofhaðs? (b) Hvernig sýndi Jehóva að hann fór ekki í manngreinarálit?

 13 Fimm ógiftar systur voru í vanda staddar rétt áður en Ísraelsmenn gengu inn í fyrirheitna landið. Þær vissu að fjölskylda þeirra átti að fá erfðaland rétt eins og allar aðrar fjölskyldur Ísraelsmanna. (4. Mós. 26:52-55) Selofhað faðir þeirra, sem var af ætt Manasse, var hins vegar dáinn. Venja var að synir erfðu land eftir föður sinn en Selofhað átti aðeins dætur. (4. Mós. 26:33) Myndi landið þá renna til ættingja þeirra fyrst enginn var sonurinn, og fengju dæturnar þá ekkert erfðaland?

14 Systurnar fimm komu að máli við Móse og spurðu: „Hvers vegna verður nafn föður okkar nú afmáð úr ætt hans af því að hann eignaðist engan son?“ Síðan sögðu þær: „Fáðu okkur því landareign meðal föðurbræðra okkar.“ Svaraði Móse því til að það væri ekki hægt að gera undantekningu frá reglunni? Nei, hann „lagði mál þeirra fyrir Drottin“.  (4. Mós. 27:2-5) Hverju svaraði Jehóva? Hann sagði Móse: „Dætur Selofhaðs hafa á réttu að standa. Fáðu þeim landareign, erfðaland, meðal föðurbræðra sinna og láttu óðal föður þeirra ganga til þeirra.“ En Jehóva gekk skrefinu lengra og breytti undantekningunni í reglu. Hann sagði við Móse: „Þegar maður deyr án þess að eiga son skal óðal hans ganga til dóttur hans.“ (4. Mós. 27:6-8; Jós. 17:1-6) Þaðan í frá áttu allar ísraelskar konur, sem voru í svipaðri aðstöðu, að fá erfðaland.

15. (a) Hvernig kemur Jehóva fram við þjóna sína, einkum þá sem eiga sér engan annan málsvara? (b) Nefndu aðrar frásögur í Biblíunni sem sýna að Jehóva fer ekki í manngreinarálit.

15 Með þessari ákvörðun sýndi Jehóva að hann mismunar ekki þjónum sínum. Systurnar fimm áttu sér engan annan málsvara, en Jehóva sýndi þeim virðingu, rétt eins og öðrum Ísraelsmönnum sem voru betur á vegi staddir. (Sálm. 68:6) Þetta er aðeins ein frásaga af mörgum í Biblíunni sem sýnir fram á að Jehóva er umhyggjusamur og gerir ekki upp á milli þjóna sinna. – 1. Sam. 16:1-13; Post. 10:30-35, 44-48.

VIÐ GETUM LÍKT EFTIR JEHÓVA

16. Hvernig getum endurspeglað óhlutdrægni Jehóva enn betur?

16 Hvernig getum við líkt eftir Jehóva og forðast að fara í manngreinarálit? Munum að ef við erum óhlutdræg sýnir það sig í framkomu okkar. Við viljum auðvitað trúa að við séum víðsýn og óhlutdræg. En þú ert eflaust sammála því að við séum ekki alltaf dómbær á okkar eigin galla. Hvernig getum við þá kannað hvort öðrum finnist við vera fordómalaus? Þegar Jesús vildi vita hvaða álit aðrir hefðu á honum spurði hann nána vini sína: „Hvern segja menn Mannssoninn vera?“ (Matt. 16:13, 14) Væri ekki ráð að líkja eftir Jesú? Þú gætir spurt vin sem þú treystir að sé hreinskilinn hvort þú sért álitinn vera fordómalaus. Hvað er til ráða ef hann kannast við að þú mismunir fólki að einhverju marki eftir kynþætti, þjóðfélagsstöðu eða efnahag? Þá skaltu leita til Jehóva og biðja hann einlæglega um að hjálpa þér að breyta hugarfari þínu þannig að þú endurspeglir óhlutdrægni hans enn betur. – Matt. 7:7; Kól. 3:10, 11.

17. Hvernig getum við meðal annars sýnt að við förum ekki í manngreinarálit?

 17 Við getum líkt eftir Jehóva í söfnuðinum með því að sýna öllum trúsystkinum okkar virðingu og umhyggju. Þegar við bjóðum bræðrum og systrum í heimsókn ættum við að hugsa til allra, meðal annars trúsystkina frá öðrum menningarsvæðum, fátækra, þeirra sem hafa misst maka sinn og til unglinga sem eiga enga ættingja í sannleikanum. (Lestu Galatabréfið 2:10; Jakobsbréfið 1:27.) Þegar við boðum trúna segjum við öllum sem við hittum frá fagnaðarerindinu, þar á meðal aðfluttu fólki. Það er frábært að við skulum hafa aðgang að biblíutengdum ritum á um það bil 600 tungumálum. Við höfum prýðistækifæri til að sýna að við förum ekki í manngreinarálit.

18. Hvernig getum við sýnt að við metum Jehóva að verðleikum fyrir alúð hans og óhlutdrægni?

18 Við fáum enn meiri mætur á Jehóva þegar við hugleiðum hve óhlutdrægur og alúðlegur hann er og hve auðvelt er að leita til hans. Það ætti að vera okkur hvatning til að reyna að líkja enn betur eftir honum og endurspegla eiginleika hans í samskiptum við trúsystkini og þá sem við boðum trúna.

Jehóva er „nálægur öllum sem ákalla hann“. – Sálm. 145:18.(Sjá 9. grein.)

Jehóva „gerir sér engan mannamun“. – 5. Mós. 10:17. (Sjá 17. grein.)