Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Góð tjáskipti foreldra og barna byggjast á kærleika

Góð tjáskipti foreldra og barna byggjast á kærleika

„Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði.“ – JAK. 1:19.

1, 2. Hvað finnst foreldrum og börnum yfirleitt hvert um annað en í hvaða vanda eiga þau stundum?

„HVAÐ myndirðu helst vilja segja við foreldra þína ef þú uppgötvaðir að þau myndu deyja á morgun?“ Þessi spurning var lögð fyrir hundruð barna í Bandaríkjunum. Ósætti við foreldrana var ekki efst á baugi heldur kváðust um 95 prósent myndu segja: „Fyrirgefðu“ og „mér þykir svo vænt um ykkur“. – For Parents Only eftir Shaunti Feldhahn og Lisu Rice.

2 Börn elska yfirleitt foreldra sína og öfugt, ekki síst á kristnum heimilum. En þótt foreldra og börn langi til að tengjast nánum böndum eru tjáskiptin stundum erfið. Og jafnvel þó að börn og foreldrar geti rætt opinskátt um flesta hluti forðast þau kannski ákveðin málefni. Hvers vegna? Hvað veldur því að þau eiga stundum erfitt með að tala saman? Hvað er hægt að gera í málinu?

Látið ekki afþreyingu verða til þess að þið einangrist og talið ekki saman.

GEFIÐ YKKUR TÍMA TIL AÐ TALA SAMAN

3. (a) Hvers vegna eiga margar fjölskyldur erfitt með að tala saman? (b) Hvers vegna höfðu börn og foreldrar í Ísrael nægan tíma til að vera saman?

3 Margar fjölskyldur eiga erfitt með að finna sér tíma til að ræða saman um það sem máli skiptir. En þannig hefur það ekki alltaf verið. Móse sagði ísraelskum feðrum: „Þú skalt brýna [orð Guðs] fyrir börnum þínum. Þú skalt hafa þau yfir þegar þú situr heima og þegar þú ert á faraldsfæti, þegar þú leggst til svefns og þegar þú ferð á fætur.“ (5. Mós. 6:6, 7) Börn vörðu deginum annaðhvort heima hjá móður sinni eða með föður sínum úti á akri eða á öðrum vinnustað. Börn og foreldrar höfðu nægan  tíma til að tala saman. Það var því hægðarleikur fyrir foreldrana að kynnast börnunum náið og þekkja þarfir þeirra og langanir. Börnin höfðu líka nægan tíma og tækifæri til að kynnast foreldrum sínum vel.

4. Hvers vegna vantar oft upp á tjáskipti foreldra og barna?

4 Lífið er harla ólíkt nú á dögum. Í sumum löndum byrja börn mjög ung í leikskóla, oft ekki eldri en tveggja ára. Flestir foreldrar eru útivinnandi. Og þær stundir, sem börn og foreldrar eru saman, lúta tjáskiptin í lægra haldi fyrir tölvum, sjónvarpi og farsímum. Oft er það þannig að foreldrarnir og börnin lifa ólíku lífi og hittast sjaldan. Þau tala varla saman um nokkuð sem máli skiptir.

5, 6. Hvað gera sumir foreldrar til að geta verið meira með börnunum?

5 Getið þið, foreldrar, gert einhverjar ráðstafanir til að eiga fleiri stundir með börnunum? (Lestu Efesusbréfið 5:15, 16.) Í sumum fjölskyldum er samið um að takmarka tímann sem setið er við sjónvarp eða tölvu. Margar fjölskyldur reyna að borða saman að minnsta kosti einu sinni á dag. Og tilbeiðslustund fjölskyldunnar er kjörið tækifæri fyrir foreldra og börn til að styrkja tengslin og ræða saman um andleg mál í ró og næði. Það er góð byrjun að taka frá eina klukkustund eða svo í hverri viku til þess. En það þarf meira til ef foreldrar vilja eiga góð tjáskipti við börnin. Það er mikilvægt að ræða saman á hverjum einasta degi. Segðu eitthvað uppbyggilegt, ræddu um dagstextann eða farðu með bæn með barninu áður en það fer í skólann. Það getur haft mikil áhrif á barnið.

6 Sumir foreldrar hafa gert ýmsar breytingar til að geta verið meira með börnunum. Linda * er dæmi um það. Hún var í fullri vinnu en hætti í henni til að geta sinnt tveim ungum börnum  sínum. Hún segir: „Á morgnana þurftum við öll að flýta okkur af stað í vinnu eða skóla. Þegar ég kom heim á kvöldin var barnfóstran búin að koma börnunum í háttinn og þau voru sofnuð. Síðan ég sagði upp vinnunni höfum við þurft að framfleyta okkur á lægri tekjum, en núna finnst mér ég vita hvað börnin eru að hugsa og við hvað þau eru að glíma. Ég heyri hvað þau segja í bænum sínum og ég get leiðbeint þeim, hvatt þau og kennt þeim.“

VERTU „FLJÓTUR TIL AÐ HEYRA“

7. Undan hverju er algengt að bæði foreldrar og börn kvarti?

7 Eftir að hafa rætt við fjölda barna og unglinga bentu höfundar bókarinnar For Parents Only á annan vanda í tjáskiptum foreldra og barna. Í bókinni segir: „Krakkarnir kvörtuðu mest undan því að foreldrarnir hlustuðu ekki á þá.“ Þetta vandamál er eflaust gagnkvæmt því að foreldrar kvarta oft undan því að krakkarnir hlusti ekki. Til að eiga góð tjáskipti þurfa allir í fjölskyldunni að hlusta vandlega hver á annan. – Lestu Jakobsbréfið 1:19.

8. Hvernig ættu foreldrar að hlusta á börnin?

8 Hlustið þið foreldrar vel á börnin ykkar? Það getur reynt á þegar þið eruð þreytt eða ykkur finnst umræðuefnið vera frekar ómerkilegt. En þó að það sem rætt er um virðist skipta litlu máli gæti barninu fundist það vera mjög mikilvægt. Að vera „fljótur til að heyra“ felst ekki aðeins í því að heyra hvað er sagt heldur einnig hvernig það er sagt. Raddblær og líkamstjáning gefa vísbendingar um skoðanir og tilfinningar barnsins. Það er líka mikilvægt að spyrja spurninga. „Ráð mannshjartans eru sem djúp vötn og hygginn maður eys af þeim,“ segir í Biblíunni. (Orðskv. 20:5) Þegar viðkvæm mál eru til umræðu er sérstaklega mikilvægt að sýna góða dómgreind og næman skilning til að draga fram það sem býr í hjarta barnsins.

9. Hvers vegna ættu börn og unglingar að hlusta á foreldra sína?

9 Börn og unglingar, hlýðið þið foreldrum ykkar? „Hlýddu, sonur minn, á áminningar föður þíns og hafnaðu ekki viðvörun móður þinnar,“ segir í Biblíunni. (Orðskv. 1:8) Munið að foreldrarnir elska ykkur og vilja ykkur allt hið besta þannig að það er skynsamlegt að hlusta á þá og hlýða þeim. (Ef. 6:1) Það er auðveldara að hlýða þegar samskiptin eru góð og þið vitið að þið eruð elskuð. Segið foreldrum ykkar hvernig þið hugsið. Það auðveldar þeim að skilja ykkur. Og þið ættuð auðvitað líka að reyna að skilja afstöðu þeirra.

10. Hvað má læra af Rehabeam sem sagt er frá í Biblíunni?

10 Þú þarft að taka ráðleggingum jafnaldra þinna með vissum fyrirvara. Þeir segja þér kannski það sem þig langar til að heyra en það er óvíst að ráð þeirra séu til góðs. Þau gætu jafnvel verið skaðleg. Unglingar búa ekki yfir þeirri visku og reynslu sem kemur með aldrinum. Þeir hugsa yfirleitt ekki langt fram í tímann og átta sig ekki alltaf á afleiðingum gerða sinna. Mundu hvernig fór fyrir Rehabeam, syni Salómons konungs. Þegar hann varð konungur Ísraels hefði verið skynsamlegt af honum að fylgja ráðum sér eldri manna. Hann fór hins vegar að heimskulegum ráðum ungra manna sem hann hafði alist upp með og meiri hluti þegnanna snerist þar af leiðandi gegn honum. (1. Kon. 12:1-17) Fetaðu ekki í fótspor Rehabeams. Vertu opinskár við foreldra þína. Segðu þeim hvað þú ert að hugsa og hvernig þér líður. Fylgdu ráðum þeirra  og lærðu af visku þeirra. – Orðskv. 13:20.

11. Hvað getur gerst ef börnin eiga erfitt með að leita til foreldra sinna?

11 Foreldrar, ef þið viljið ekki að börnin leiti ráða hjá jafnöldrum sínum þurfið þið að vera viðmótsgóð þannig að þau eigi auðvelt með að leita til ykkar. Unglingsstúlka í söfnuðinum segir: „Ég þarf ekki annað en að nefna strák á nafn til að gera foreldra mína órólega. Þá verð ég líka óróleg og mig langar ekki til að halda samræðunum áfram.“ Önnur ung systir skrifar: „Margir unglingar vilja gjarnan leita ráða hjá foreldrum sínum en ef foreldrarnir taka þá ekki alvarlega leita þeir eitthvað annað, jafnvel til einhverra sem eru óreyndari.“ Vertu fús til að hlusta á börnin og reyna að skilja þau, hvað sem þeim liggur á hjarta. Þá verða þau líklega opinská við þig og taka ráðum þínum vel.

VERTU „SEINN TIL AÐ TALA“

12. Hvernig geta viðbrögð foreldranna torveldað þeim að eiga samskipti við börnin?

12 Samskiptin verða mun erfiðari ef foreldrarnir komast í uppnám eða bregðast harkalega við því sem börnin segja þeim. Kristnir foreldrar vilja eðlilega vernda börnin sín gegn öllum þeim hættum sem steðja að núna á „síðustu dögum“. (2. Tím. 3:1-5) En börnin sjá það kannski ekki sem vernd heldur finnst foreldrarnir setja þeim óhóflegar hömlur.

13. Hvers vegna ættu foreldrar ekki að flýta sér um of að segja skoðun sína?

13 Foreldrar ættu ekki að flýta sér um of að segja skoðun sína. Það getur auðvitað verið þrautin þyngri að hlusta þegjandi á barnið segja frá einhverju sem kemur þér í uppnám. Það er engu að síður mikilvægt að hlusta vel áður en þú svarar. Salómon konungur skrifaði: „Svari einhver áður en hann hlustar er það heimska hans og skömm.“ (Orðskv. 18:13) Ef þú heldur ró þinni heldur barnið áfram að tala og þú færð að vita meira. Þú þarft að sjá heildarmyndina til að geta gefið góð ráð. Kannski segir barnið eitthvað í gáleysi af því að það er í uppnámi. (Job. 6:1-3) Ástríkir foreldrar hlusta á börnin til að skilja þau og til að geta veitt þeim það sem þau þurfa.

14. Hvers vegna ættu börn og unglingar að vera sein til að tala?

14 Þið börn og unglingar þurfið einnig að vera ,sein til að tala‘. Verið ekki fljót til að mótmæla foreldrum ykkar heldur hlustið á þá. Guð hefur falið þeim það verkefni að ala ykkur upp. (Orðskv. 22:6) Þau hafa ef til vill einhvern tíma staðið í svipuðum sporum og þú. Og þau harma eflaust mistökin sem þau gerðu þegar þau voru ung og vilja forða þér frá því að gera eitthvað svipað. Líttu á foreldrana sem bandamenn en ekki óvini, sem ráðgjafa en ekki andstæðinga. (Lestu Orðskviðina 1:5.) „Heiðra föður þinn og móður.“ Sýndu þeim að þú elskir þau, rétt eins og þau elska þig. Það auðveldar þeim að ,ala þig upp með aga og fræðslu um Drottin‘. – Ef. 6:2, 4.

VERTU „SEINN TIL REIÐI“

15. Hvað auðveldar okkur að missa ekki þolinmæðina og verða pirruð út í ástvini okkar?

15 Við erum ekki alltaf þolinmóð við þá sem okkur þykir vænst um. Páll postuli skrifaði kristnum mönnum í Kólossu sem hann nefndi „trúuð og helguð systkin í Kristi“: „Karlar, elskið eiginkonur ykkar og verið ekki beiskir við þær. Feður, verið ekki höstugir við börn ykkar, það gerir þau ístöðulaus.“ (Kól. 1:1, 2; 3:19, 21) Hann skrifaði söfnuðinum í Efesus: „Látið hvers konar  beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt ykkur.“ (Ef. 4:31) Ávöxtur andans, meðal annars langlyndi, hógværð og sjálfsagi, auðvelda okkur að sýna stillingu, jafnvel undir álagi. – Gal. 5:22, 23.

16. Hvernig leiðrétti Jesús lærisveinana og hvers vegna er það eftirtektarvert?

16 Jesús er prýðisdæmi um þolinmæði. Við getum rétt ímyndað okkur álagið sem hvíldi á honum þegar hann neytti síðustu kvöldmáltíðarinnar með postulum sínum. Hann vissi að daginn eftir myndi hann deyja á kvalafullan hátt. Hann vissi líka að hann yrði að vera trúr til að helga nafn föður síns og bjarga mannkyninu. En meðan þeir mötuðust fóru postularnir að „metast um hver þeirra væri talinn mestur“. Jesús hækkaði þó ekki róminn né ávítaði þá með þjósti heldur rökræddi rólega við þá. Hann minnti þá á að þeir hefðu staðið með honum í freistingum hans. Enda þótt Satan krefðist þess að fá að sælda þá eins og hveiti lét Jesús í ljós að hann treysti að þeir yrðu honum trúir. Hann gerði meira að segja sáttmála við þá. – Lúk. 22:24-32.

Hlustarðu vel á börnin?

17. Hvað getur auðveldað börnum og unglingum að halda ró sinni?

17 Börn þurfa einnig að halda ró sinni. Þegar þau ná unglingsaldri finnst þeim það kannski bera vitni um vantraust að foreldrarnir skuli setja þeim ákveðnar reglur. En þó að þér finnist það skaltu hafa hugfast að foreldrar þínir elska þig og bera umhyggju fyrir þér. Þú ávinnur þér virðingu þeirra og traust ef þú hlustar á þau með stillingu og ferð að óskum þeirra. Það má vel vera að foreldrarnir gefi þér meira frjálsræði á vissum sviðum ef þú ert samvinnuþýður. Það er skynsamlegt að sýna sjálfstjórn. „Heimskinginn eys út allri reiði sinni en vitur maður hefur stjórn á henni,“ segir í Orðskviðunum 29:11.

18. Hvernig stuðlar kærleikurinn að góðum tjáskiptum?

18 Kæru foreldrar og börn, verið ekki leið þó að tjáskiptin í fjölskyldunni séu ekki eins góð og þið helst vilduð. Vinnið að því að bæta þau og haldið áfram að hlýða sannleikanum. (3. Jóh. 4) Í nýja heiminum verða allir fullkomnir þannig að misskilningur og þrætur verða liðin tíð. En núna segjum við og gerum ýmislegt sem við sjáum eftir. Hikið ekki við að biðjast afsökunar og fyrirgefið fúslega. „Sameinist í kærleika.“ (Kól. 2:2) Kærleikurinn er máttugur. ,Kærleikurinn er langlyndur og góðviljaður. Hann reiðist ekki og er ekki langrækinn. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt og umber allt.‘ (1. Kor. 13:4-7) Haldið áfram að hlúa að kærleikanum. Það bætir samskiptin, veitir fjölskyldunni hamingju og er Jehóva til lofs.

^ gr. 6 Nafninu er breytt.