Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 ÚR SÖGUSAFNINU

Þeir voru trúfastir á „reynslustund“

Þeir voru trúfastir á „reynslustund“

ÞEGAR fyrri heimsstyrjöldin braust út árið 1914 varð mörgum ljóst að Biblíunemendurnir ætluðu sér að vera hlutlausir. (Jes. 2:2-4; Jóh. 18:36; Ef. 6:12) Hvernig fór fyrir þjónum Guðs í Bretlandi á þessum tíma?

Henry Hudson

Árið 1916 voru sett lög í Bretlandi sem kváðu á um að ókvæntir karlar á aldrinum 18 til 40 ára yrðu að gegna herskyldu. Samkvæmt lögunum áttu þeir sem neituðu að gegna herskyldu sökum „siðferðis- eða trúarafstöðu“ að geta fengið undanþágu. Ríkisstjórnin setti á laggirnar sérstakan dómstól til að skera úr um hverjir fengju undanþágu og í hvaða mæli.

Ekki leið á löngu áður en um 40 biblíunemendur voru komnir í herfangelsi og 8 höfðu verið sendir til víglínunnar í Frakklandi. Vegna þessara óréttlátu aðgerða sendu bræðurnir í Bretlandi Herbert Asquith forsætisráðherra bréf. Þar mótmæltu þeir fangelsisvist trúbræðra sinna og létu fylgja áskorun með 5.500 undirskriftum.

Þær fréttir bárust að bræðurnir átta, sem fóru til Frakklands, hefðu verið dæmdir til dauða vegna þess að þeir neituðu að taka þátt í stríðinu. En þegar búið var að stilla bræðrunum upp frammi fyrir aftökusveit var dómi þeirra breytt í tíu ára fangelsi. Þeir voru sendir aftur til Englands til að afplána dóminn í almennum fangelsum þar.

James Frederick Scott

Þegar stríðið dróst á langinn var ákveðið að láta herskylduna einnig ná til kvæntra karlmanna. Í prófmáli í Manchester var Henry Hudson dreginn fyrir rétt en hann var biblíunemandi og læknir. Dómurinn féll 3. ágúst 1916 og hann var dæmdur fyrir að sinna ekki herkvaðningu, gert að greiða sekt og afhentur hernum. Samtímis var annað prófmál í gangi í Edinborg. James Frederick Scott, sem var 25 ára farandbóksali, var sýknaður fyrir rétti. Ákæruvaldið áfrýjaði dómnum en lét málið svo falla niður til að geta einbeitt sér að öðru prófmáli sem tekið var fyrir í Lundúnum. Þar var bróðir, sem hét Herbert Kipps, dæmdur sekur, gert að greiða sekt og var einnig afhentur hernum.

Í september 1916 höfðu 264 bræður sótt um undanþágu frá herskyldu. Fimm þeirra fengu undanþágu, 154 voru látnir vinna erfiða samfélagsvinnu, 23 var gert að starfa fyrir herinn án þess að þurfa að bera vopn, 82 voru sendir í herinn og nokkrir þeirra voru dæmdir og sendir í fangelsi. Almennir borgarar mótmæltu þeirri grimmilegu meðferð sem bræðurnir hlutu og yfirvöld ákváðu þá að færa þá úr herfangelsum í almennar vinnubúðir.

Pryce Hughes

 Edgar Clay og Pryce Hughes unnu við stíflugerð í Wales en sá síðarnefndi varð seinna umsjónarmaður deildarskrifstofunnar í Bretlandi. Herbert Senior var hins vegar sendur í Wakefield-fangelsið í Yorkshire en hann var einn þeirra átta bræðra sem komu aftur frá Frakklandi. Aðrir voru dæmdir til að vinna erfiðisvinnu við ömurlegar aðstæður í Dartmoor-fangelsinu en hvergi annars staðar var eins stór hópur manna sem neitaði að gegna herþjónustu af samviskuástæðum.

Frank Platt var biblíunemandi sem hafði samþykkt að starfa fyrir herinn ef hann þyrfti ekki að bera vopn. Hann var samt sendur á vígstöðvarnar og varð fyrir langvinnum og illgjörnum ofsóknum þegar hann neitaði að berjast. Atkinson Padgett kynntist sannleikanum stuttu eftir að hann gekk í herinn. Hann sætti einnig grimmilegri meðferð af hálfu hermálayfirvalda fyrir að neita að berjast.

Herbert Senior

Fyrir tæpri öld skildu bræðurnir kannski ekki að fullu hvað fælist í kristnu hlutleysi en þeir reyndu þó að þóknast Jehóva. Þeir sem fjallað er um í þessari grein sýndu gott fordæmi með því að vera hlutlausir á erfiðri „reynslustund“. (Opinb. 3:10) – Úr sögusafninu í Bretlandi.