Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hafðu sem mest gagn af biblíulestri

Hafðu sem mest gagn af biblíulestri

„Í hjarta mínu hef ég mætur á lögmáli Guðs.“ – RÓMV. 7:22.

1-3. Hvaða gagn höfum við af því að lesa í Biblíunni og fara eftir því sem hún kennir?

„ÉG ÞAKKA Jehóva á hverjum morgni fyrir að hjálpa mér að skilja Biblíuna.“ Þetta sagði roskin systir í söfnuðinum sem hefur lesið alla Biblíuna meira en 40 sinnum. Og hún er ekki hætt að lesa. Ung systir skrifaði að biblíulestur hafi gert Jehóva raunverulegri í huga hennar og hjálpað henni að eiga náið samband við hann. „Ég hef aldrei verið hamingjusamari,“ segir hún.

2 Pétur postuli hvatti alla til að sækjast eftir „hinni andlegu, ómenguðu mjólk“ og átti þar við sannleika Biblíunnar. (1. Pét. 2:2) Þegar við gerum það með biblíunámi og með því að fara eftir því sem við lærum höfum við hreina samvisku og tilgang í lífinu. Þá myndum við traust vináttubönd við aðra sem elska hinn sanna Guð og þjóna honum. Þetta eru góðar og gildar ástæður til að hafa „mætur á lögmáli Guðs“. (Rómv. 7:22) En þetta er ekki eina gagnið sem við höfum af biblíulestri.

3 Því meira sem við lærum um Jehóva og son hans því vænna þykir okkur um þá og um fólk almennt. Við lærum af Biblíunni hvernig Guð bjargar hlýðnum mönnum frá þessu deyjandi heimskerfi. Við höfum gleðifréttir að færa fólki á starfssvæði okkar. Jehóva blessar þig þegar þú miðlar öðrum af þeirri nákvæmu þekkingu sem þú hefur aflað þér með biblíulestri.

LESTU OG HUGLEIDDU

4. Hvað merkir það að orð Guðs skuli ekki víkja úr munni okkar?

4 Jehóva vill ekki að þjónar sínir renni bara í fljótheitum yfir leskafla í Biblíunni. Hann sagði Jósúa  endur fyrir löngu: „Þessi lögbók skal ekki víkja úr munni þínum. Þú skalt hugleiða efni hennar dag og nótt.“ (Jós. 1:8; Sálm. 1:2) Merkir þetta að við eigum að lesa alla Biblíuna upphátt, allt frá 1. Mósebók til Opinberunarbókarinnar? Nei, hugmyndin er sú að við lesum á hæfilegum hraða til að geta hugleitt lesefnið í leiðinni. Þegar við lesum Biblíuna þannig tökum við vel eftir orðum, versum og frásögum sem eru hvetjandi og hafa sérstaka þýðingu fyrir okkur þá stundina. Þegar við rekumst á slíkt efni skulum við lesa rólega og jafnvel mynda orðin með vörunum. Þá má vera að það sem við lesum hafi djúpstæð áhrif á okkur. Hvers vegna er það mikilvægt? Vegna þess að þegar við skiljum orð Guðs finnum við sterka löngun hjá okkur til að fara eftir því.

5-7. Nefndu dæmi til að lýsa hvernig gaumgæfilegur biblíulestur getur hjálpað okkur að (a) vera siðferðilega hrein, (b) vera þolinmóð og vingjarnleg og (c) treysta á Jehóva jafnvel þegar þrengir að.

5 Að lesa og hugleiða með þessum hætti er sérlega gagnlegt þegar við lesum biblíubækur sem við þekkjum ekki vel. Hugsum okkur þrjú dæmi til að glöggva okkur nánar á því. Ímyndum okkur fyrst ungan bróður í söfnuðinum sem er kominn að spádómsbók Hósea í biblíulestri sínum. Hann er að lesa 4. kaflann og dokar við eftir að hafa lesið vers 11 til 13. (Lestu Hósea 4:11-13.) Af hverju gerir hann það? Þessi vers vekja athygli hans af því að í skólanum hefur verið reynt að freista hans til siðlausra athafna. Hann hugleiðir versin og segir við sjálfan sig: „Jehóva sér jafnvel hið illa sem fólk gerir í einrúmi. Ég vil ekki særa hann.“ Bróðirinn einsetur sér að vera siðferðilega hreinn í augum Guðs.

6 Hugsum okkur þessu næst systur í söfnuðinum sem er að lesa bók Jóels og er komin að 2. kafla og 13. versi. (Lestu Jóel 2:13.) Þegar hún les versið íhugul minnir það hana á að hún eigi að líkja eftir Jehóva sem er „miskunnsamur . . . líknsamur, seinn til reiði og gæskuríkur“. Hún ákveður að reyna að hætta að vera kaldhæðin eða reiðileg eins og vill brenna við hjá henni þegar hún talar við eiginmann sinn og fleiri.

7 Að síðustu skulum við sjá fyrir okkur föður í söfnuðinum sem er búinn að missa vinnuna og hefur áhyggjur af velferð konu sinnar og barna. Hann les Nahúm 1:7 gaumgæfilega en þar segir að Jehóva ,annist þá sem leita hælis hjá honum‘ og sé þeim „athvarf á degi neyðarinnar“. Þetta eru hughreystandi orð fyrir hann. Hann finnur fyrir ást og umhyggju Jehóva og það dregur úr áhyggjum hans. Síðan les hann 1. versið í 2. kaflanum. (Lestu Nahúm 2:1.) Bróðirinn áttar sig á að með því að boða fagnaðarerindið þegar þrengir að sýnir hann að hann lítur á Jehóva sem athvarf sitt. Hann heldur áfram að leita sér að vinnu en tekur nú meiri þátt í að boða fagnaðarerindið á virkum dögum.

8. Segðu stuttlega frá „gimsteinum“ sem þú hefur fundið við biblíulestur.

8 Þessi ágætu vers, sem við höfum skoðað, er að finna í biblíubókum sem sumum finnast ef til vill torskildar. Þegar þú rekst á áhugaverð vers hjá Hósea, Jóel og Nahúm kviknar ábyggilega löngun hjá þér til að halda áfram að lesa þessar biblíubækur og íhuga efnið. Hugsaðu þér alla viskuna og hvatninguna sem þú getur fundið í ritum þessara spámanna. Og hvað um aðrar biblíubækur? Orð Guðs er eins og auðug demantanáma. Haltu áfram að grafa. Lestu alla Biblíuna með það að markmiði  að finna þar leiðsögn og hvatningu sem er eins og glitrandi gimsteinar.

REYNDU AÐ SKILJA ÞAÐ SEM ÞÚ LEST

9. Hvernig getum við glöggvað okkur betur á vilja Guðs?

9 Það er mikilvægt að lesa daglega í Biblíunni. En við viljum líka skilja það sem við lesum. Notaðu því vel ritin sem söfnuður Jehóva gefur út til að afla þér upplýsinga um fólk, staði og atburði sem þú lest um. Eða segjum að þú sért að velta fyrir þér hvernig þú getir tekið til þín ákveðin biblíusannindi. Þá gætirðu beðið öldung eða annað þroskað trúsystkini að aðstoða þig. Við skulum nú líta á dæmi frá fyrstu öld sem sýnir fram á hve mikilvægt það er að glöggva sig betur á sannleika Biblíunnar. Þar kom við sögu kristinn maður sem hét Apollós.

10, 11. (a) Hvaða hjálp fékk Apollós til að verða enn betri boðberi? (b) Hvaða lærdóm getum við dregið af þessari frásögu? (Sjá rammann „Ertu vel heima í því nýjasta?“)

10 Apollós var kristinn Gyðingur. Hann var „fær í ritningunum“ og „brennandi í andanum“. Um hann segir í Postulasögunni: „[Hann] talaði . . . og kenndi kostgæfilega um Jesú. Þó þekkti hann aðeins skírn Jóhannesar.“ Apollós gerði sér ekki grein fyrir að það sem hann var að kenna varðandi skírnina var fallið úr gildi. Þau Akvílas og Priskilla voru kristin hjón sem heyrðu hann kenna í Efesus. Þau tóku hann að sér og „skýrðu nánar fyrir honum Guðs veg“. (Post. 18:24-26) Hvernig reyndist það Apollósi til góðs?

11 Apollós hélt til Akkeu eftir að hafa prédikað í Efesus. „Hann kom þangað og varð til mikillar hjálpar þeim sem fyrir Guðs náð höfðu tekið trú því  að hann hrakti skarplega rök Gyðinga í allra áheyrn og sannaði af ritningunum að Jesús væri Kristur.“ (Post. 18:27, 28) Núna gat Apollós útskýrt réttilega hvað kristin skírn merkti og orðið „til mikillar hjálpar“ þeim sem voru nýir í trúnni. Hann fræddi þá og þeir tóku framförum. Hvaða lærdóm getum við dregið af þessari frásögu? Rétt eins og Apollós leggjum við okkur fram um að skilja það sem við lesum í Biblíunni. En þegar reyndur bróðir eða systir bendir á hvernig við getum bætt kennsluna ættum við að vera auðmjúk og þiggja aðstoðina með þökkum. Þá getum við þjónað Guði enn betur.

NOTAÐU ÞAÐ SEM ÞÚ LÆRIR TIL AÐ HJÁLPA ÖÐRUM

12, 13. Hvernig getum við notað Biblíuna með nærgætni til að hjálpa biblíunemanda að taka framförum?

12 Við getum verið öðrum til blessunar líkt og þau Priskilla, Akvílas og Apollós. Hvernig líður þér þegar þú hjálpar áhugasömum að sigrast á einhverju sem tálmar honum að taka framförum í trúnni? Eða ef þú ert öldungur hvernig er þér innanbrjósts þegar trúbróðir þakkar þér fyrir biblíuleg ráð sem þú gafst honum þegar hann átti í erfiðleikum? Það gleður okkur að geta notað Biblíuna til að hjálpa öðrum að takast á við vandamál. * Hvernig geturðu gert það?

13 Margir Ísraelsmenn á dögum Elía voru tvístígandi og gátu ekki ákveðið sig hvort þeir ættu að tilbiðja Jehóva eða falsguði. Leiðbeiningar Elía geta hugsanlega hjálpað biblíunemanda sem á erfitt með að ákveða hvort hann ætli að þjóna Jehóva. (Lestu 1. Konungabók 18:21.) Eða sjáum fyrir okkur biblíunemanda sem óttast viðbrögð vina eða ættingja ef hann gerist þjónn Jehóva. Þú gætir ef til vill hjálpað honum að ákveða sig með því að ræða um Jesaja 51:12, 13– Lestu.

14. Hvað getur hjálpað þér að muna eftir biblíuversum þegar þú vilt leiðbeina öðrum?

14 Í Biblíunni er greinilega að finna ótalmargt sem getur hvatt, leiðrétt og styrkt þá sem lesa. En þér er kannski spurn hvernig þú getir haft ritningarstaði á hraðbergi þegar á þarf að halda. Lestu daglega í Biblíunni og hugleiddu boðskap Guðs. Þannig safnarðu orðum Jehóva í sjóð og andi hans getur minnt þig á þau þegar á þarf að halda. – Mark. 13:11; lestu Jóhannes 14:26.

15. Hvað geturðu gert til að skilja orð Guðs sem best?

15 Biddu Jehóva að veita þér visku líkt og Salómon konungur gerði. Þú þarft á henni að halda í starfi þínu úti á akrinum og í söfnuðinum. (2. Kron. 1:7-10) Líkt og spámenn fortíðar skaltu ,rannsaka vandlega‘ orð Guðs til að afla þér nákvæmrar þekkingar á honum og vilja hans. (1. Pét. 1:10-12) Páll postuli hvatti Tímóteus til að næra sig af „orði trúarinnar og þeim góða trúarlærdómi“ sem er í Biblíunni. (1. Tím. 4:6) Ef þú gerir það ertu vel í stakk búinn til að leiðbeina öðrum og hvetja þá. Og þú byggir jafnframt upp trú þína.

ÖRUGG VERND BYGGÐ Á ORÐI GUÐS

16. (a) Hvernig var það til góðs fyrir Berojumenn að ,rannsaka daglega ritningarnar‘? (b) Hvers vegna er mikilvægt fyrir okkur að lesa daglega í Biblíunni?

16  Gyðingar í borginni Beroju í Makedóníu voru vanir að ,rannsaka daglega ritningarnar‘. Þegar Páll boðaði þeim fagnaðarerindið báru þeir það saman  við það sem þeir þekktu í Ritningunni. Margir komust að þeirri niðurstöðu að hann kenndi sannleikann og „tóku trú“. (Post. 17:10-12) Af þessu má sjá að daglegur biblíulestur eflir trú á Jehóva. „Trúin er fullvissa um það sem menn vona“ og er nauðsynleg til að komast inn í nýjan heim Guðs. – Hebr. 11:1.

17, 18. (a) Hvernig getur kristinn maður verndað hjartað? (b) Hvernig er vonin okkur til verndar?

17 Það var góð og gild ástæða fyrir því að Páll skyldi skrifa: „Við sem heyrum deginum til skulum vera allsgáð, klædd trú og kærleika sem brynju og voninni um frelsun sem hjálmi.“ (1. Þess. 5:8) Hermaður þarf að vernda hjartað fyrir óvininum. Kristinn maður þarf sömuleiðis að vernda táknrænt hjarta sitt fyrir syndinni. Þegar hann elskar Jehóva og náungann og býr yfir sterkri trú á fyrirheit hans er hann kominn með brynju í hæsta gæðaflokki. Það er ólíklegt að hann geri nokkuð sem verður til þess að hann glati velþóknun Guðs.

18 Páll nefnir einnig ,vonina um frelsun‘ og líkir henni við hjálm. Hermaður á biblíutímanum gat hæglega týnt lífi ef hann var ekki með hjálm. En með góðan hjálm á höfði þoldi hann talsvert höfuðhögg án þess að bera skaða af. Við byggjum upp von með biblíunámi og vonin um að Jehóva bjargi okkur getur verndað hugann. Sterk von gerir okkur fær um að forðast fráhvarfsmenn og hættulegan áróður þeirra. (2. Tím. 2:16-19) Vonin gefur okkur líka styrk til að láta ekki undan ef reynt er að freista okkar til að gera eitthvað sem Jehóva fordæmir.

BIBLÍULESTUR ER LÍFSNAUÐSYN

19, 20. Hvers vegna metum við orð Guðs mikils og hvernig sýnum við það? (Sjá rammann „Jehóva gefur mér allt sem ég þarf.“)

19 Því nær sem dregur að endalokum þessa heims því meir þurfum við að reiða okkur á orð Jehóva. Leiðbeiningar Biblíunnar hjálpa okkur að losna við slæma ávana og halda syndugum tilhneigingum í skefjum. Hún hvetur okkur og hughreystir svo að við getum staðist prófraunirnar sem Satan og heimurinn leggja á okkur. Með leiðbeiningar Jehóva að leiðarljósi getum við haldið okkur á veginum til lífsins.

20 Það er vilji Jehóva að „allir menn verði hólpnir“, þar á meðal við sem þjónum honum og þeir sem við getum hjálpað með boðun okkar og kennslu. En allir sem vilja bjargast þegar þessi heimur líður undir lok þurfa að hafa nákvæma þekkingu á sannleikanum. (1. Tím. 2:4) Það er því nauðsynlegt að lesa í Biblíunni og fara eftir leiðbeiningum hennar til að bjargast. Með því að lesa daglega í Biblíunni sýnum við hve mikils við metum sannleiksorð Jehóva. – Jóh. 17:17.

^ gr. 12 Við notum auðvitað ekki Biblíuna til að þrýsta á fólk að breyta sér eða fordæma það. Við ættum að vera jafn þolinmóð og vingjarnleg við biblíunemanda og Jehóva er við okkur. – Sálm. 103:8.

[Spurningar]

1-3. Hvaða gagn höfum við af því að lesa í Biblíunni og fara eftir því sem hún kennir?

4. Hvað merkir það að orð Guðs skuli ekki víkja úr munni okkar?

5-7. Nefndu dæmi til að lýsa hvernig gaumgæfilegur biblíulestur getur hjálpað okkur að (a) vera siðferðilega hrein, (b) vera þolinmóð og vingjarnleg og (c) treysta á Jehóva jafnvel þegar þrengir að.

8. Segðu stuttlega frá „gimsteinum“ sem þú hefur fundið við biblíulestur.

9. Hvernig getum við glöggvað okkur betur á vilja Guðs?

10, 11. (a) Hvaða hjálp fékk Apollós til að verða enn betri boðberi? (b) Hvaða lærdóm getum við dregið af þessari frásögu? (Sjá rammann „Ertu vel heima í því nýjasta?“)

12, 13. Hvernig getum við notað Biblíuna með nærgætni til að hjálpa biblíunemanda að taka framförum?

14. Hvað getur hjálpað þér að muna eftir biblíuversum þegar þú vilt leiðbeina öðrum?

15. Hvað geturðu gert til að skilja orð Guðs sem best?

16. (a) Hvernig var það til góðs fyrir Berojumenn að ,rannsaka daglega ritningarnar‘? (b) Hvers vegna er mikilvægt fyrir okkur að lesa daglega í Biblíunni?

17, 18. (a) Hvernig getur kristinn maður verndað hjartað? (b) Hvernig er vonin okkur til verndar?

19, 20. Hvers vegna metum við orð Guðs mikils og hvernig sýnum við það? (Sjá rammann „Jehóva gefur mér allt sem ég þarf.“)