Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þau buðu sig fúslega fram – í Mexíkó

Þau buðu sig fúslega fram – í Mexíkó

ÞAÐ er uppörvandi að sjá að æ fleiri ungir vottar einfalda líf sitt til að hafa meiri tíma fyrir boðunarstarfið. (Matt. 6:22) Hvaða breytingar gera þeir? Hvaða hindranir verða á vegi þeirra? Til að fá svar við því skulum við kynnast nokkrum vottum sem nú starfa í Mexíkó.

„VIÐ ÞURFTUM AÐ BREYTA ÝMSU“

Dustin og Jassa eru frá Bandríkjunum. Þau gengu í hjónaband í janúar 2007. Skömmu seinna gátu þau látið gamlan draum rætast – að eignast seglbát og búa í honum allt árið. Báturinn lá við bryggju í grennd við Astoria í Oregonríki. Astoria er yndislegur smábær steinsnar frá Kyrrahafinu, umkringdur skógivöxnum hæðum. Í fjarska blasa við snæviþaktir fjallstindar. „Útsýnið var hrífandi hvert sem litið var,“ segir Dustin. Ungu hjónin töldu sig treysta á Jehóva. Þeim fannst þau lifa frekar einföldu lífi vegna þess að þau bjuggu á átta metra löngum bát, unnu hluta úr degi, tilheyrðu söfnuði sem talaði erlent tungumál og voru aðstoðarbrautryðjendur af og til. En eftir svolítinn tíma áttuðu þau sig á að þau lifðu ekki alls kostar einföldu lífi. „Mest allur tími okkar fór í að dytta að bátnum í stað þess að styðja söfnuðinn,“ segir Dustin. „Við skildum að við þyrftum að breyta  ýmsu ef við ætluðum að láta Jehóva ganga fyrir öllu öðru í lífinu.“

Jassa bætir við: „Áður en ég gifti mig bjó ég í Mexíkó og tilheyrði enskumælandi söfnuði. Mér þótti mjög gaman að starfa í Mexíkó og var spennt fyrir því að fara þangað aftur.“ Þar sem Dustin og Jassa höfðu áhuga á að starfa erlendis notuðu þau biblíunámskvöldið til að lesa ævisögur bræðra og systra sem fluttu til annarra landa þar sem akrarnir voru tilbúnir til uppskeru. (Jóh. 4:35) „Okkur langaði til að upplifa þetta líka,“ segir Dustin. Þegar þau fréttu svo frá vinum sínum í Mexíkó að nýstofnaður hópur þyrfti á aðstoð að halda gerðu þau upp hug sinn. Þau sögðu upp vinnunni, seldu seglbátinn og fluttu til Mexíkó.

„ÞAÐ BESTA SEM VIÐ HÖFUM GERT“

Dustin og Jassa settust að í bæ sem heitir Tecomán og þau búa enn við Kyrrahafið, en nú rúma 4.300 kílómetra fyrir sunnan Astoria. „Í stað kaldrar golu og fjallasýnar er steikjandi hiti og sítrónutré eins langt og augað eygir,“ segir Dustin. Þeim tókst ekki að fá vinnu til að byrja með. Þess vegna höfðu þau ekki efni á að borða annað en hrísgrjón og baunir svo vikum skipti. Jassa segir: „Með tímanum fengum við nóg af þessu fábreytta mataræði en einmitt þá fóru biblíunemendur okkar að gefa okkur mangó, banana, papaja og að sjálfsögðu heilu pokana af sítrónum.“ Seinna fengu hjónin svo vinnu hjá tungumálaskóla sem er starfræktur á Taívan en kennslan fer fram á Netinu. Launin fyrir þessa vinnu duga ríflega fyrir öllum daglegum nauðsynjum þeirra.

Hvað hafa þau Dustin og Jassa svo að segja um breytingarnar sem þau gerðu á lífi sínu? „Að flytja hingað er það besta sem við höfum gert. Við hefðum aldrei trúað að óreyndu að við gætum átt svona sterkt samband við Jehóva og hvort við annað. Við gerum svo margt saman á hverjum einasta degi – við förum saman í boðunarstarfið, ræðum saman um það hvernig við getum hjálpað biblíunemendum okkar og undirbúum okkur saman fyrir samkomur. Auk þess erum við laus við ýmsar áhyggjur sem við höfðum áður.“ Þau bæta við: „Nú fyrst skiljum við sannleiksgildi þess sem segir í Sálmi 34:9: ,Finnið og sjáið að Drottinn er góður.‘“

HVERS VEGNA HAFA MARGIR FLUST TIL MEXÍKÓ?

Rúmlega 2.900 bræður og systur hafa flutt til þeirra héraða í Mexíkó þar sem er enn mikil þörf fyrir boðbera Guðsríkis. Þetta er bæði gift og ógift fólk, margt á milli tvítugs og fertugs. Hver  er ástæðan fyrir því að allir þessir vottar hafa tekið að sér þetta krefjandi verkefni? Þegar hópur þeirra var spurður þessarar spurningar kom í ljós að þrjár meginástæður lágu þar að baki. Hverjar eru þær?

Leticia og Hermilo.

Að sýna Jehóva og náunganum kærleika. Leticia lét skírast 18 ára. Hún segir: „Þegar ég vígðist Jehóva varð mér ljóst að við ættum að þjóna honum af öllu hjarta og allri sálu. Þess vegna vildi ég nota meira af tíma mínum og kröftum í þjónustu Jehóva og sýna að ég þjónaði honum heilshugar.“ (Mark. 12:30) Hermilo var rúmlega tvítugur þegar hann flutti búferlum til að þjóna þar sem mikil þörf var fyrir boðbera Guðsríkis, en hann er nú kvæntur Leticiu. Hann segir: „Ég gerði mér grein fyrir því að besta leiðin til að sýna náungakærleika væri að hjálpa fólki að fullnægja trúarþörf sinni.“ (Mark. 12:31) Þess vegna yfirgaf Hermilo stórborgina Monterrey, þar sem hann hafði unnið í banka og lifað þægilegu lífi, og flutti til smábæjar.

Essly.

Að njóta sannrar og varanlegrar gleði. Skömmu eftir að Leticia lét skírast fór hún með reyndri brautryðjandasystur til að boða fagnaðarerindið í afskekktum bæ í einn mánuð. Hún segir: „Ég var alveg undrandi og það gladdi mig mjög mikið að sjá hversu vel fólkið tók fagnaðarerindinu. Í lok mánaðarins sagði ég við sjálfa mig: ,Ég vil gera þetta að ævistarfi.‘“ Svipaða sögu er að segja um ógifta systur sem er nú um tvítugt og heitir Essly. Það var gleðin sem laðaði hana að þessu starfi. Þegar hún var unglingur í skóla hitti hún nokkra kappsama votta sem störfuðu á svæðum þar sem mikil þörf var fyrir boðbera. Hún segir: „Þegar ég sá gleðina skína úr andlitum þessara bræðra og systra langaði mig til að lifa eins og þau.“ Margar systur hafa gert það sama og Essly. Í Mexíkó starfa um 680 einhleypar systur á svæðum þar sem mikil þörf er fyrir boðbera. Þær eru ungum jafnt sem öldnum gott fordæmi.

Að lifa innihaldsríku lífi. Þegar Essly lauk skóla bauðst henni styrkur til háskólanáms. Jafnaldrar hennar hvöttu hana til að þiggja styrkinn og lifa „eðlilegu lífi“ – ná sér í háskólagráðu, fá gott starf, eignast bíl og ferðast. En hún fór ekki eftir ráðum þeirra. Essly segir: „Sumir vina minna í söfnuðinum sóttust eftir öllu þessu og ég sá að það varð til þess að þeir hættu að setja sér markmið í þjónustu Jehóva. Ég tók líka eftir því að þegar athygli þeirra beindist meira og meira að veraldlegum málum fylgdu vandamál og vonbrigði í kjölfarið. Ég ætlaði mér að nota æskuna til að þjóna Jehóva eftir fremsta megni.“

Racquel og Phillip.

 Essly fór á nokkur námskeið sem gerðu henni kleift að fá vinnu og sjá fyrir sér með brautryðjandastarfinu. Síðan flutti hún á svæði þar sem bráðvantaði fleiri boðbera. Hún tók sér meira að segja fyrir hendur að læra tungumál Otomí- og Tlapaneco-ættflokkanna. Hún hefur nú boðað fagnaðarerindið í þrjú ár á afskekktum svæðum. Hún lítur um öxl og segir: „Það hefur veitt mér mikla gleði og lífsfyllingu að þjóna þar sem þörfin er brýn. Og það sem mest er um vert, samband mitt við Jehóva hefur styrkst mikið.“ Rúmlega þrítug hjón frá Bandaríkjunum, Phillip og Racquel, taka undir þetta. „Mörgum finnst lífið svo ótryggt því heimurinn breytist svo hratt. En okkur finnst lífið innihaldsríkast þegar við boðum trúna þar sem margir vilja enn hlusta á boðskap Biblíunnar. Það er einstaklega ánægjulegt.“

AÐ TAKAST Á VIÐ ERFIÐLEIKANA

Verónica.

Stundum er hægara sagt en gert að starfa þar sem mikil þörf er fyrir boðbera Guðsríkis. Eitt af því sem oft reynist erfitt er að sjá sér farborða. Maður verður að vera tilbúinn að laga sig að aðstæðum. Verónica er reyndur brautryðjandi sem lýsir þessu þannig: „Á einum stað, þar sem ég bjó, seldi ég ódýran mat sem ég lagaði sjálf. Annars staðar seldi ég föt og tók fólk í klippingu. Núna vinn ég við heimilisþrif og held námskeið fyrir nýbakaða foreldra og kenni þeim að eiga góð tjáskipti við börnin.“

Það getur reynst sérstaklega erfitt að samlagast nýrri menningu og framandi siðum þegar maður býr meðal frumbyggja á afskekktum stað. Phillip og Racquel fundu fyrir því þegar þau störfuðu á svæði þar sem Nahuatl-tungumálið er talað. „Menningarmunurinn var gríðarlegur,“ segir Phillip. Hvað hjálpaði þeim að aðlagast? „Við reyndum að hugsa um það góða sem við sáum í fari Nahuatl-fólksins. Fjölskylduböndin eru sterk, þetta fólk er einlægt í samskiptum sín á milli og örlátt.“ Racquel bætir við: „Við lærðum mikið á því að búa meðal þessa fólks og starfa með bræðrum okkar og systrum þar.“

UNDIRBÚNINGURINN

Hvernig geturðu undirbúið þig ef þig langar til að starfa á afskekktu svæði þar sem aðstoðar er þörf? Bræður og systur, sem hafa reynslu af slíku starfi, mæla með eftirfarandi: Byrjaðu á því að einfalda líf þitt og temja þér nægjusemi áður en þú flytur. (Fil. 4:11, 12) Hvað fleira er hægt að gera? Leticia segir: „Ég gætti þess að ráða mig ekki í vinnu þar sem ég hefði þurft að skuldbinda mig til langs tíma á ákveðnum stað. Ég vildi vera frjáls til að geta flutt – hvenær og hvert sem er.“ Hermilo segir: „Ég lærði að elda, þvo og strauja.“ Verónica segir: „Meðan ég bjó heima hjá foreldrum mínum og systkinum hjálpaði ég við þrifin og lærði að elda ódýran og næringarríkan mat. Ég lærði líka að spara.“

Amelia og Levi.

Levi og Amelia eru frá Bandaríkjunum og hafa verið gift í átta ár. Þau segja að hnitmiðaðar bænir hafi hjálpað þeim að undirbúa sig fyrir starfið í Mexíkó. Levi segir: „Við reiknuðum út hvað það myndi kosta okkur að starfa í Mexíkó í eitt ár. Síðan báðum við Jehóva að hjálpa okkur að safna þeirri upphæð.“ Nokkrum mánuðum síðar höfðu þau safnað þeirri fjárhæð sem þau tiltóku í bænum sínum og þá fluttu þau. Levi segir: „Jehóva bænheyrði okkur og nú var komið að okkur að breyta í samræmi við bænirnar.“ Amelia bætir við: „Við bjuggumst við að geta verið hér í eitt ár, en nú eru þau orðin sjö og það er ekkert fararsnið á okkur. Við höfum fundið greinilega fyrir hjálp Jehóva meðan við höfum búið hér. Við erum daglega fullvissuð um gæsku hans.“

Adam og Jennifer.

Bænin hafði mikil áhrif á líf bandarískra hjóna sem heita Adam og Jennifer og starfa með enskumælandi söfnuði í Mexíkó. „Ekki bíða eftir að rétta tækifærið komi upp í hendurnar á þér. Segðu Jehóva í bæn að þig langi til að starfa í öðru landi og breyttu svo í samræmi við bænirnar. Einfaldaðu líf þitt, skrifaðu deildarskrifstofunni í landinu sem þig langar til að starfa í, reiknaðu út kostnaðinn og legðu svo af stað.“ * Ef þú lætur verða af því að flytja bíður þín einstaklega innihaldsríkt líf.

^ gr. 21 Nánari upplýsingar er að finna í greininni „Getur þú farið ,yfir til Makedóníu‘?“ í Ríkisþjónustu okkar í ágúst 2011.