Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 Úr sögusafninu

Hið „ógleymanlega“ kom á réttum tíma

Hið „ógleymanlega“ kom á réttum tíma

„ÓGLEYMANLEGT.“ Margir notuðu þetta orð til að lýsa „Sköpunarsögunni“ sem svo var kölluð, en hún hafði djúpstæð áhrif á alla sem sáu hana. „Sköpunarsagan“ kom alveg á réttum tíma og var Jehóva til mikils lofs skömmu áður en ógnarstjórn Hitlers réðst með heiftarlegum ofsóknum á þjóna hans í Evrópu. En hvað var „Sköpunarsagan“?

Nýja sýningin dró nafn sitt af bókinni Schöpfung (Sköpun).

Árið 1914 gáfu aðalstöðvar þjóna Jehóva í Brooklyn í New York út það sem kallað var „Sköpunarsagan í myndum“. Um var að ræða átta klukkustunda sýningu með litskyggnum og kvikmyndum. Kvikmyndirnar voru í litum og með hljóði. Milljónir manna um allan heim sáu þessa sýningu. Styttri útgáfa (kölluð „Eureka Drama“) var einnig gerð árið 1914. Upp úr 1920 voru skyggnur, filmur og sýningarvélar orðnar illa slitnar. Enn var þó áhugi meðal fólks að sjá „Sköpunarsöguna í myndum“. Íbúar Ludwigsburg í Þýskalandi spurðu til dæmis hvenær hún yrði sýnd aftur. Hvað var til ráða?

Upp úr 1920 keyptu fulltrúar Betelfjölskyldunnar í Magdeburg í Þýskalandi filmur frá fréttastofum í París og skyggnur frá fyrirtækjum í Leipzig og Dresden. Þetta var síðan notað ásamt gömlum en nothæfum litskyggnum úr „Sköpunarsögunni í myndum“ til að fullnægja eftirspurninni.

Bróðir Erich Frost var góður tónlistarmaður og hann samdi tónlist til að flytja með sýningunni. Textinn, sem lesinn var með myndunum, var að hluta til tekinn úr bókinni Schöpfung (Sköpun) sem söfnuðurinn hafði gefið út. Þess vegna var hin nýja útgáfa sýningarinnar kölluð „Sköpunarsagan“.

Nýja sýningin var jafn löng hinni fyrri – það er að segja átta klukkustundir – og var sýnd í hlutum nokkur kvöld í röð. Gefin var ýtarleg lýsing á sköpunardögunum, farið yfir sögu Biblíunnar og mannkynssöguna og bent á að falstrúarbrögðin hefðu brugðist mannkyninu. „Sköpunarsagan“ var sýnd í Austurríki, Lúxemborg, Sviss, Þýskalandi og fleiri löndum þar sem þýskumælandi fólk var búsett.

Erich Frost ásamt nótum fyrir „Sköpunarsöguna“.

Erich Frost sagði: „Þegar Sköpunarsagan var sýnd hvatti ég starfsbræður mína, sérstaklega í hljómsveitinni, til að nota hléið til að ganga um salinn og bjóða áheyrendum þessar frábæru bækur og bæklinga sem við gáfum út. Við dreifðum  fleiri ritum með þessum hætti en hægt var að gera með því að ganga í hús.“ Johannes Rauthe skipulagði sýningar í Póllandi og Tékklandi sem nú heitir svo. Hann minnist þess að margir sýningargestir hafi skilið eftir nafn sitt og heimilisfang til að hægt væri að heimsækja þá. Þessi heimilisföng gerðu þjónum Jehóva kleift að fara í margar góðar endurheimsóknir.

„Sköpunarsagan“ var sýnd fyrir fullu húsi fram yfir 1930 og vottar Jehóva voru á hvers manns vörum. Árið 1933 var næstum milljón manns búin að sjá sýningarnar sem deildarskrifstofan í Þýskalandi skipulagði. „Við gengum 10 kílómetra hvora leið fimm daga í röð bara til að sjá sýninguna,“ segir Käthe Krauss. „Leiðin lá gegnum skóga og upp og niður hæðir og dali.“ „Sköpunarsagan var kveikjan að því að ég fór að elska sannleikann,“ segir Else Billharz.

Alfred Almendinger segir frá því að móðir hans hafi horft á Sköpunarsöguna, og hún hafi verið „svo spennt að hún keypti biblíu og leitaði að orðinu hreinsunareldur“. Þar sem hún fann ekki orðið í Biblíunni hætti hún að sækja kirkju og lét skírast. „Þeir eru óteljandi sem komu inn í sannleikann vegna Sköpunarsögunnar,“ sagði Erich Frost. – 3. Jóh. 1-3.

„Sköpunarsagan“ var enn sýnd fyrir fullu húsi í Evrópu um það leyti sem nasistar fóru að láta að sér kveða. Starfsemi Votta Jehóva var bönnuð í Þýskalandi árið 1933. Þeir voru ofsóttir grimmilega um alla Evrópu allt til loka síðari heimsstyrjaldar árið 1945. Erich Frost sat ein átta ár í fangabúðum. Hann komst lifandi úr hildarleiknum og starfaði síðar á Betel í Wiesbaden í Þýskalandi. Hin ógleymanlega „Sköpunarsaga“ var sýnd í tæka tíð til að auka þjónum Guðs kjark og þor rétt áður en prófraunir síðari heimsstyrjaldarinnar hófust. – Úr sögusafninu í Þýskalandi.