Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þjónaðu Jehóva án eftirsjár

Þjónaðu Jehóva án eftirsjár

„Ég gleymi því sem að baki er en seilist eftir því sem fram undan er.“ – FIL. 3:13.

1-3. (a) Hvað er eftirsjá og hvað finnst sumum um það sem þeir hafa gert eða látið ógert á lífsleiðinni? (b) Hvað getum við lært af Páli?

„AF ÖLLUM orðum, sögðum eða skráðum, er ekkert verra en:,Bara að ég hefði.‘“ Þannig komst skáldið J. G. Whittier að orði og átti þar við allt sem við sjáum eftir og óskum að við gætum breytt. Eftirsjá er harmur, hryggð eða hugarkvöl vegna einhvers sem maður hefur gert eða kannski látið ógert. Við höfum öll gert ýmislegt sem er þess eðlis að við vildum geta spólað til baka og gert öðruvísi. Hverju sérð þú eftir?

2 Sumir hafa gert hörmuleg mistök og jafnvel drýgt alvarlegar syndir. Aðrir hafa ekki gert neitt sérlega illt en velta fyrir sér hvort ákvarðanir þeirra á lífsleiðinni hafi verið sem bestar. Sumir hafa getað hætt að hugsa um fortíðina og horft fram á veginn. Aðrir geta ekki hætt að hugsa um það sem liðið er og þeir vildu að þeir hefðu gert eða látið ógert. (Sálm. 51:5) Hvað um þig? Óskarðu þess að þú getir þjónað Guði án eftirsjár, í það minnsta héðan í frá? Segir Biblían frá einhverjum sem við getum dregið lærdóm af? Já, Páll postuli er dæmi um slíkan mann.

3 Páll gerði bæði skelfileg mistök á lífsleiðinni og tók viturlegar ákvarðanir. Hann harmaði það sem miður hafði farið en lærði samt að einbeita sér að því að þjóna Guði á sem bestan hátt. Við skulum kanna hvernig við getum lært af honum að þjóna Jehóva án eftirsjár.

FORTÍÐ PÁLS

4. Hvaða grimmdarverk vann Páll sem ungur maður?

4 Sem ungur farísei gerði Páll ýmislegt sem hann harmaði síðar. Hann beitti sér meðal annars fyrir því að lærisveinar Krists væru ofsóttir af mikilli grimmd. Eftir að Stefán dó píslarvættisdauða  segir í Biblíunni að Sál, eins og hann var kallaður þá, hafi gert sér „allt far um að uppræta söfnuðinn. Hann óð inn í hvert hús, dró þaðan bæði karla og konur og lét setja í varðhald.“ (Post. 8:3) Biblíufræðingurinn Albert Barnes segir að gríska orðið, sem er þýtt „gerði sér allt far um að uppræta“, sé „sterkt orð og lýsi ákafa og grimmd [Sáls] þegar hann ofsótti söfnuðinn“. Hann segir að Sál hafi „ráðist gegn söfnuðinum eins og villidýr“. Sál var heittrúaður Gyðingur og taldi að það væri heilög skylda sín að útrýma kristninni. Hann leitaði því uppi kristna menn af vægðarlausri grimmd. Hann,æddi um með líflátshótanir gegn lærisveinum Drottins, bæði körlum og konum‘. – Post. 9:1, 2; 22:4. *

5. Hvað varð til þess að Sál hætti að ofsækja fylgjendur Jesú og tók að boða fagnaðarerindið um hann?

5 Sál ætlaði sér að fara til Damaskus, ryðjast inn á heimili lærisveina Jesú og flytja þá til Jerúsalem svo að æðstaráð Gyðinga gæti refsað þeim. En honum mistókst vegna þess að hann gekk í berhögg við höfuð kristna safnaðarins. (Ef. 5:23) Sál var á leið til Damaskus þegar Jesús birtist honum og blindaði hann með ljósi af himni. Jesús sendi hann síðan til Damaskus og sagði honum að bíða frekari fyrirmæla. Við þekkjum framhaldið. – Post. 9:3-22.

6, 7. Af hverju má sjá að Páll var sér meðvitaður um hið illa sem hann hafði gert áður fyrr?

6 Páll hætti að ofsækja kristna menn þegar hann áttaði sig á að hann var á rangri braut, og hann tók að boða Krist af miklu kappi. Hann minntist engu að síður á fortíð sína í einu af bréfum sínum og sagði: „Þið hafið heyrt um hegðun mína áður fyrri í gyðingdóminum, hversu ákaflega ég ofsótti kirkju Guðs og vildi eyða henni.“ (Gal. 1:13) Í bréfum til safnaðanna í Korintu og Filippí og til Tímóteusar nefndi hann aftur það sem hann hafði gert. (Lestu 1. Korintubréf 15:9; Fil. 3:6; 1. Tím. 1:13) Páll var ekki stoltur af því sem hann hafði gert forðum daga en lét þó ekki eins og það hefði aldrei átt sér stað. Hann vissi mætavel að hann hafði gert mjög slæma hluti. – Post. 26:9-11.

7 Biblíufræðingurinn Frederic W. Farrar nefnir hlutdeild Sáls í „grimmilegum ofsóknum“ á hendur kristnum mönnum. Hann bætir við að það sé ekki fyrr en við hugleiðum hve skelfilega Páll hafði farið að ráði sínu að við „finnum fyrir samviskubitinu sem hlýtur að hafa þjakað hann og háðsglósunum sem hann mátti búast við að heyra frá illskeyttum fjandmönnum sínum“. Páll heimsótti fjölda safnaða. Vera má að stundum hafi bræður, sem hittu hann í fyrsta sinn, sagt við hann:,Svo að þú ert þessi Páll sem ofsótti okkur.‘ – Post. 9:21.

8. Hvað fannst Páli um kærleika og miskunn Jehóva og Jesú í sinn garð og hvað getum við lært af honum?

8 En Páll gerði sér grein fyrir að það var aðeins vegna náðar Guðs að hann gat þjónað sem postuli. Hann nefnir þennan eiginleika hans um 90 sinnum í bréfunum sínum 14 – oftar en nokkur annar biblíuritari. (Lestu 1. Korintubréf 15:10.) Páll var afar þakklátur fyrir þá miskunn sem Guð hafði sýnt honum. Hann vildi ekki að náð Guðs í sinn garð yrði til ónýtis. Hann erfiðaði því meira en allir hinir postularnir.  Hann er dæmi um að Jehóva sé fús til að fyrirgefa alvarlegustu syndir ef við játum þær og bætum ráð okkar. Hugsaðu til Páls ef þér finnst að syndir þínar séu svo alvarlegar að lausnarfórn Krists geti ekki náð til þín. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 1:15, 16.) Enda þótt Páll hefði ofsótt Krist af miklu ofstæki gat hann skrifað: „[Sonur Guðs] elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig.“ (Gal. 2:20; Post. 9:5) Páll lærði að þjóna Guði án þess að vera sífellt þjakaður af sektarkennd. Hefurðu lært það líka?

Páll lærði að þjóna Guði án eftirsjár.

SÉRÐU EFTIR EINHVERJU?

9, 10. (a) Hvers vegna eru sumir þjónar Guðs með sektarkennd? (b) Af hverju er skaðlegt að hafa sífelldar áhyggjur af því sem liðið er?

9 Hefurðu gert eitthvað sem þú sérð eftir? Hefurðu einhvern tíma sóað dýrmætum tíma og kröftum í hreinan óþarfa? Hefurðu gert eitthvað sem varð öðrum til tjóns? Kannski ertu með sektarkennd út af einhverju öðru sem gerst hefur. Hvað er þá til ráða?

10 Margir eru með sífelldar áhyggjur. Þeir kvelja, þjaka og pína sjálfa sig linnulaust og uppskera ekkert annað en kvíða. Leysir það einhver vandamál? Nei. Hugsaðu þér að þú reynir að komast frá einum stað til annars með því að rugga þér klukkustundum saman í ruggustól. Þú eyðir heilmiklum kröftum í það en kemst ekki spönn áleiðis. Í stað þess að vera með áhyggjur þarftu að gera eitthvað til að leysa vandann. Þú getur beðist afsökunar ef þú hefur móðgað einhvern. Vonandi bætir það sambandið. Þú getur forðast að endurtaka mistökin með því að íhuga hvernig þau áttu sér stað. En stundum er ekki um annað að ræða en að sætta sig við afleiðingar gerða sinna. Áhyggjur eru hins vegar lamandi og koma í veg fyrir að við getum þjónað Guði af öllum kröftum. Þær bæta ekki nokkurn skapaðan hlut.

11. (a) Hvað þurfum við að gera til að Jehóva sýni okkur kærleika og miskunn? (b) Hver er uppskriftin að hugarfriði ef okkur hefur orðið eitthvað á?

 11 Sumum finnst þeir hafa gert svo mikið af sér að það sé óhugsandi að Guð geti miskunnað þeim. Þeir halda að þeir hafi brugðist svo illa eða svo oft að þeim sé ekki viðbjargandi. Sannleikurinn er hins vegar sá að óháð því sem þeir hafa gert af sér forðum daga geta þeir iðrast, bætt ráð sitt og beðist fyrirgefningar. (Post. 3:19) Jehóva getur sýnt þeim miskunn og kærleika rétt eins og hann hefur sýnt mörgum öðrum. Hann fyrirgefur fúslega þeim sem eru auðmjúkir, heiðarlegir og iðrast í einlægni. Hann fyrirgaf Job sem sagðist „iðrast í dufti og ösku“. (Job. 42:6) Í Biblíunni er gefin uppskrift að hugarfriði sem við þurfum öll að fylgja: „Sá sem dylur yfirsjónir sínar verður ekki lánsamur en sá sem játar þær og lætur af þeim hlýtur miskunn.“ (Orðskv. 28:13; Jak. 5:14-16) Við getum játað syndir okkar fyrir Guði, beðið hann um fyrirgefningu og gert það sem í okkar valdi stendur til að bæta fyrir brot okkar. (2. Kor. 7:10, 11) Þá getum við hlotið miskunn Guðs en hann „fyrirgefur ríkulega“. – Jes. 55:7.

12. (a) Hvað getum við lært af Davíð að sé best að gera ef samviskan angrar okkur? (b) Hvað er átt við þegar sagt er að Jehóva iðrist einhvers og af hverju er gott fyrir okkur að skilja það? (Sjá rammann.)

12 Bænin er máttug. Við getum alltaf leitað hjálpar Jehóva með því að biðja til hans. Davíð lýsti tilfinningum sínum í fallegum sálmi sem er jafnframt bæn til Guðs. (Lestu Sálm 32:1-5.) Hann viðurkenndi að það væri ákaflega lýjandi að reyna að þagga niður í samviskunni. Honum leið illa á líkama og sál og hann var langt niðri. Það var ekki fyrr en hann játaði synd sína fyrir Guði að honum létti. Jehóva bænheyrði Davíð og styrkti hann svo að hann gat þjónað honum eins og áður. Ef þú biður innilega til Jehóva geturðu treyst að hann hlusti af athygli á bæn þína. Ef fyrri syndir hvíla þungt á þér skaltu gera það sem þú getur til að bæta fyrir brot þitt og treysta síðan að Jehóva fyrirgefi þér eins og hann hefur lofað. – Sálm. 86:5.

HORFÐU FRAM Á VEGINN

13, 14. (a) Að hverju ættum við að einbeita okkur núna? (b) Hvers konar spurninga væri gott að spyrja sig til að kanna hvar maður sé á vegi staddur?

13 Sagt hefur verið að maður þurfi að líta um öxl til að skilja lífið en horfa fram á við til að lifa lífinu. Við ættum að hugsa  um nútíð og framtíð í stað þess að hafa áhyggjur af fortíðinni. Hvað erum við að gera núna eða ekki að gera sem við myndum óska einhvern tíma síðar að við hefðum látið ógert eða gert öðruvísi? Erum við Guði trú í einu og öllu þannig að við þurfum ekki að sjá eftir einhverju síðar sem við gerðum?

14 Þegar dregur að þrengingunni miklu viljum við ekki sitja uppi með áleitnar spurningar eins og: Hefði ég getað gert meira í þjónustu Guðs? Af hverju var ég ekki brautryðjandi meðan ég hafði tækifæri til? Hvers vegna sóttist ég ekki eftir að verða safnaðarþjónn? Lagði ég mig virkilega fram um að íklæðast hinum nýja manni? Er ég þess konar manneskja sem Jehóva vill hafa í nýja heiminum? Í stað þess að hafa áhyggjur af því sem við gerðum ekki ættum við að spyrja okkur spurninga til að fullvissa okkur um að við gerum okkar besta í þjónustu Jehóva. Annars höldum við kannski áfram í sama hjólfarinu og sjáum svo eftir því síðar. – 2. Tím. 2:15.

SJÁÐU ALDREI EFTIR ÞVÍ AÐ HAFA ÞJÓNAÐ GUÐI

15, 16. (a) Hvaða fórnir hafa margir fært til að gera sitt besta í þjónustu Jehóva? (b) Hvers vegna ættum við ekki að sjá eftir því sem við höfum fórnað til að þjóna Guði?

15 Hvað um ykkur sem hafið fært fórnir til að geta þjónað Jehóva í fullu starfi? Þú sagðir kannski upp góðri vinnu eða seldir fyrirtæki í góðum rekstri til að einfalda líf þitt og hafa meiri tíma til að þjóna Jehóva. Eða kannski kaustu að ganga ekki í hjónaband eða eignast ekki börn til að geta þjónað Jehóva í fullu starfi, til dæmis á Betel, í farandstarfi, sem trúboði eða til að vinna við byggingarstörf víða um lönd. Gæti verið ástæða til að sjá eftir því núna þegar aldurinn færist yfir? Er ástæða til að hugsa sem svo að fórnirnar, sem þú færðir, hafi verið óþarfar eða illa tímasettar? Því fer fjarri.

16 Þú tókst þessar ákvarðanir vegna þess að þú elskaðir Jehóva heitt og innilega og þig langaði til að hjálpa öðrum að þjóna honum. Það er ástæðulaust að hugsa sem svo að þér hefði vegnað betur ef þú hefðir lifað lífinu öðruvísi. Þú getur verið mjög ánægður með að hafa gert það sem þú vissir að var rétt miðað við aðstæður þínar. Þú getur glaðst yfir því að hafa gert þitt allra besta til að þjóna Jehóva. Hann gleymir ekki fórnfýsi þinni. Þegar þú höndlar „hið sanna líf“ í framtíðinni mun hann umbuna þér á ríkulegri hátt en þig órar fyrir. – Sálm. 145:16; 1. Tím. 6:19.

AÐ ÞJÓNA ÁN EFTIRSJÁR

17, 18. (a) Hvaða lífsregla hjálpaði Páli að halda sínu striki án eftirsjár? (b) Hvernig geturðu líkt eftir Páli?

17 Hvaða lífsreglu lærði Páll sem auðveldaði honum að halda sínu striki og þjóna Guði án eftirsjár? „Ég gleymi því sem að baki er en seilist eftir því sem fram undan er,“ skrifaði hann. (Lestu Filippíbréfið 3:13, 14.) Páll var ekki sífellt að hugsa um það sem hann hafði gert í gyðingdóminum. Hann einbeitti sér öllu heldur að því að vera trúr svo að hann gæti að lokum hlotið verðlaunin sem voru eilíft líf.

18 Við getum öll tileinkað okkur sömu lífsreglu og Páll. Í stað þess að harma það sem liðið er og við getum ekki breytt ættum við að horfa fram á veginn. Það er ekki víst að við getum gleymt fyrri mistökum en við þurfum ekki að refsa okkur fyrir þau endalaust. Við skulum ekki hafa áhyggjur af því sem að baki er heldur þjóna Guði eftir bestu getu og beina huganum að þeirri unaðslegu framtíð sem við eigum í vændum.

^ gr. 4 Nefnt er oftar en einu sinni að Sál hafi ofsótt jafnt konur sem karla. Það vitnar um að konur hafi átt veigamikinn þátt í að útbreiða kristnina á fyrstu öld ekki síður en nú á dögum. – Sálm. 68:12.