Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Treystum á Jehóva, „Guð allrar huggunar“

Treystum á Jehóva, „Guð allrar huggunar“

 Treystum á Jehóva, „Guð allrar huggunar“

„Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, faðir miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar.“ – 2. KOR. 1:3.

1. Á hverju þurfa allir að halda óháð aldri?

FRÁ því að við fæðumst þurfum við á huggun að halda. Ungbarn grætur til að láta vita að það þurfi huggun. Kannski er það svangt eða vill láta halda á sér. Þegar við vöxum úr grasi þurfum við líka að fá huggun við og við. Það á sérstaklega við þegar við göngum í gegnum erfiðleika.

2. Hvernig fullvissar Jehóva okkur um að hann huggi þá sem leggja traust sitt á hann?

2 Fjölskylda og vinir geta oft veitt okkur huggun að vissu marki. En stundum lendum við í aðstæðum sem valda okkur svo miklu hugarangri að það er ekki í mannlegum mætti hugga okkur. Guð einn getur veitt okkur huggun við hvaða aðstæður sem er, hversu þrúgandi sem þær kunna að vera. Í orði hans er að finna þetta loforð: „Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann . . . hróp þeirra heyrir hann.“ (Sálm. 145:18, 19) Já, „augu Drottins hvíla á réttlátum og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra“. (Sálm. 34:16) En ef við viljum fá stuðning Guðs og huggun verðum við að leggja traust okkar á hann. Sálmaritarinn Davíð kom því skýrt til skila þegar hann söng: „Drottinn er vörn hinum kúgaða, vígi á neyðartímum, þeir sem þekkja nafn þitt treysta þér því að þú, Drottinn, bregst ekki þeim sem til þín leita.“ – Sálm. 9:10, 11.

3. Hvaða dæmi tók Jesús til að lýsa kærleika Jehóva til þjóna sinna?

3 Þjónar Jehóva eru dýrmætir í augum hans. Það má augljóslega sjá af þessum orðum Jesú: „Eru ekki fimm spörvar seldir fyrir tvo smápeninga? Og þó gleymir Guð engum þeirra. Hárin á höfði yðar eru jafnvel öll talin. Óttist ekki, þér eruð meira verðir en margir spörvar.“ (Lúk. 12:6, 7) Fyrir milligöngu Jeremía spámanns sagði Jehóva við þjóð sína til forna: „Með ævarandi elsku hef ég elskað þig, fyrir því hef ég látið náð mína haldast við þig.“ – Jer. 31:3.

4. Af hverju getum við treyst á loforð Jehóva?

4 Ef við treystum á Jehóva og að hann uppfylli loforð sín getum við fengið huggun á erfiðleikatímum. Við ættum því að bera sama traust til Guðs og Jósúa, sem sagði: „Ekkert fyrirheitanna sem voru ykkur í hag og Drottinn, Guð ykkar, gaf ykkur er óefnt, öll hafa þau ræst, ekkert þeirra hefur brugðist.“ (Jós. 23:14) Við getum verið viss um að jafnvel þótt við séum niðurbrotin um tíma vegna erfiðleika er Guð trúr og yfirgefur aldrei dygga þjóna sína. – Lestu 1. Korintubréf 10:13.

5. Hvernig getum við huggað aðra?

5 Páll postuli kallar Jehóva „Guð allrar huggunar“. „Að hugga“ þýðir að hughreysta eða sefa harm. Það er gert með því að lina eymd eða sorg og veita uppörvun. Jehóva gerir það svo sannarlega. (Lestu 2. Korintubréf 1:3, 4.) Himneskur faðir okkar er engum takmörkum háður og getur því gert hvað sem hann þarf til að hugga þá sem elska hann. Á móti getum við líka huggað trúsystkini okkar „í þrengingum þeirra“. Við getum gert það „á sama hátt og  hann hughreystir“ okkur. Þetta lýsir vel óviðjafnanlegum hæfileika Jehóva til að hughreysta þá sem örvænta.

Að takast á við það sem veldur þjáningum

6. Nefndu dæmi um það sem getur valdið þjáningum.

6 Við þörfnumst hughreystingar á mörgum sviðum lífsins. Eitt af því sem veldur hvað mestri sorg er ástvinamissir, sérstaklega ef um er að ræða maka eða barn. Það getur líka þurft að hugga þá sem verða fyrir mismunun eða fordómum. Slæm heilsa, hár aldur, fátækt, hjónabandserfiðleikar eða annað álag í þessum heimi getur gert það að verkum að við þurfum hughreystingu.

7. (a) Hvers konar huggun gætum við þurft á erfiðleikatímum? (b) Hvað getur Jehóva gert til að lækna „sundurmarið og sundurkramið hjarta“?

7 Á erfiðleikatímum gætum við þurft huggun sem sefar hjartað, hugann og tilfinningarnar og styrkir okkur líkamlega og í trúnni. Tökum hjartað sem dæmi. Í orði Guðs kemur fram að hjartað geti verið „sundurmarið og sundurkramið“. (Sálm. 51:19) Jehóva getur vissulega verið okkur til hjálpar við slíkar aðstæður, því að „hann græðir þá sem hafa sundurkramið hjarta og bindur um benjar þeirra“. (Sálm. 147:3) Jafnvel við erfiðustu aðstæður getur Guð læknað sundurmarið hjarta ef við biðjum til hans í trú og höldum boðorð hans. – Lestu 1. Jóhannesarbréf 3:19-22; 5:14, 15.

8. Hvernig getur Jehóva hjálpað okkur þegar áhyggjur valda okkur hugarangri?

8 Þegar erfiðleikar valda okkur miklu hugarangri getur þurft að sefa huga okkar. Líklega getum við ekki tekist á við slíkar trúarprófraunir í eigin mætti. En sálmaritarinn söng: „Þegar áhyggjur þjaka mig hressir huggun þín sál mína.“ (Sálm. 94:19) Auk þess skrifaði Páll: „Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar í Kristi Jesú.“ (Fil. 4:6, 7) Þegar áhyggjur þjaka okkur getur verið mikil hjálp í því að lesa og hugleiða orð Guðs. – 2. Tím. 3:15-17.

9. Hvernig getum við tekist á við tilfinningalegt álag?

9 Stundum verðum við svo niðurdregin að neikvæðar tilfinningar gætu náð yfirhöndinni. Kannski finnst okkur við ekki geta sinnt ákveðnum biblíulegum skyldum eða annast þjónustuverkefni innan safnaðarins. Við þær aðstæður getur Jehóva líka huggað okkur og hjálpað. Tökum dæmi. Þegar Jósúa fékk umboð til að leiða Ísraelsmenn gegn öflugum óvinaþjóðum sagði Móse við þjóðina: „Verið djarfir og hughraustir, óttist ekki og skelfist ekki frammi fyrir þeim því að Drottinn, Guð þinn, fer sjálfur með þér. Hann mun hvorki bregðast þér né yfirgefa þig.“ (5. Mós. 31:6) Með stuðningi Jehóva gat Jósúa leitt þjóð Guðs inn í fyrirheitna landið og sigrað alla óvini hennar. Móse hafði áður fengið svipaðan stuðning frá Guði við Rauðahafið. – 2. Mós. 14:13, 14, 29-31.

10. Hvaða hjálp getum við fengið ef erfiðleikar hafa áhrif á líkamlega heilsu okkar?

10 Erfiðleikar geta líka haft slæm áhrif á líkamlega heilsu. Að sjálfsögðu getur verið gott að borða hollan mat, fá næga hvíld og hreyfingu og halda sér hreinum. En það getur líka verið gott fyrir heilsuna og láta Biblíuna móta viðhorf okkar. Þegar við göngum í gegnum erfiðleika er gagnlegt að hugsa um reynslu Páls og uppörvandi orð hans: „Á allar hliðar er ég aðþrengdur en læt þó ekki bugast, ég er efablandinn en örvænti þó ekki, ofsóttur en þó ekki yfirgefinn, felldur til jarðar en tortímist þó ekki.“ – 2. Kor. 4:8, 9.

11. Hvernig er hægt að styrkja trúna ef hún hefur veikst?

 11 Sumir erfiðleikar geta jafnvel haft skaðleg áhrif á trúna. En Jehóva getur líka hjálpað okkur ef það gerist. Í orði hans fáum við þetta loforð: „Drottinn styður alla þá sem hníga og reisir upp alla niðurbeygða.“ (Sálm. 145:14) Ef trúin hefur veikst ættum við að leita til safnaðaröldunganna sem geta hjálpað okkur að styrkja hana á ný. (Jak. 5:14, 15) Og ef við höfum stöðugt í huga loforð Biblíunnar um eilíft líf getur það líka styrkt okkur þegar reynir á trúna. – Jóh. 17:3.

Þau fengu huggun frá Guði

12. Lýstu því hvernig Jehóva hughreysti Abraham.

12 Sálmaskáld skrifaði undir innblæstri: „Minnstu þess orðs við þjón þinn sem þú [Jehóva] gafst mér að vona á, það er huggun mín í eymd minni að orð þitt lætur mig lífi halda.“ (Sálm. 119:49, 50) Nú á dögum höfum við ritað orð Jehóva og þar sjáum við að hann hefur oft veitt þjónum sínum huggun. Abraham hlýtur til dæmis að hafa verið mjög áhyggjufullur þegar hann fékk vitneskju um að Jehóva ætlaði að eyða Sódómu og Gómorru. Hinn trúfasti ættfaðir spurði Guð: „Ætlarðu að tortíma hinum réttláta með hinum óguðlega?“ Jehóva hughreysti Abraham með því að fullvissa hann um að ef aðeins 50 réttlátir fyndust myndi hann ekki eyða Sódómu. Abraham spurði Jehóva samt fimm sinnum í viðbót: Hvað ef það eru aðeins 45 réttlátir? 40? 30? 20? eða 10? Jehóva sýndi þolinmæði og hlýju og fullvissaði Abraham í hvert sinn um að þá yrði Sódómu þyrmt. Þótt Jehóva hafi ekki einu sinni fundið 10 réttláta á svæðinu varðveitti hann Lot og dætur hans. – 1. Mós. 18:22-32; 19:15, 16, 26.

13. Hvernig sýndi Hanna að hún treysti á Jehóva?

13 Hanna, eiginkona Elkana, þráði að eignast barn. En hún var óbyrja og það gerði hana mjög niðurdregna. Hún lagði málið fyrir Jehóva í bæn og Elí æðstiprestur sagði við hana: „Guð Ísraels mun veita þér það sem þú baðst hann um.“ Þetta hughreysti Hönnu og hún „var ekki lengur döpur í bragði“. (1. Sam. 1:8, 17, 18) Hanna treysti á Jehóva og lét málin í hans hendur. Þótt hún hafi ekki vitað hvernig þessu myndi lykta fann hún innri frið. Skömmu síðar svaraði Jehóva bæn hennar. Hún varð ófrísk, eignaðist son og nefndi hann Samúel. – 1. Sam. 1:20.

14. Af hverju þurfti Davíð á huggun að halda og hvert leitaði hann?

 14 Davíð, konungur Ísraels til forna, er annað dæmi um einstakling sem fékk huggun frá Guði. Þar sem Jehóva „horfir á hjartað“ vissi hann að Davíð var einlægur og heilshugar í sannri tilbeiðslu þegar hann valdi hann sem tilvonandi konung. (1. Sam. 16:7; 2. Sam. 5:10) Seinna drýgði Davíð hins vegar hór með Batsebu og reyndi að hylma yfir syndina með því að sjá til þess að maðurinn hennar yrði drepinn. Þegar Davíð áttaði sig á hversu hræðilega synd hann hafði framið bað hann til Jehóva: „Afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi. Þvo mig hreinan af misgjörð minni, hreinsa mig af synd minni. Ég þekki sjálfur afbrot mín og synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum.“ (Sálm. 51:3-5) Davíð sýndi sanna iðrun og Jehóva fyrirgaf honum. Hann þurfti hins vegar að taka afleiðingum gerða sinna. (2. Sam. 12:9-12) Miskunn Jehóva var þessum auðmjúka þjóni samt til huggunar.

15. Hvaða hjálp veitti Jehóva Jesú stuttu fyrir dauða hans?

15 Þegar Jesús var hér á jörð þurfti hann að þola mikla erfiðleika. Guð leyfði þessar trúarprófraunir og sem fullkominn maður varðveitti Jesús ráðvendni sína. Hann treysti alltaf á Jehóva og studdi drottinvald hans. Stuttu áður en Jesús var svikinn og tekinn af lífi bað hann til Jehóva: ,Verði ekki minn heldur þinn vilji.‘ Eftir það birtist honum engill sem styrkti hann. (Lúk. 22:42, 43) Guð veitti honum huggun og þann styrk og stuðning sem hann þurfti á þessari stundu.

16. Hvernig getur Jehóva huggað okkur ef við stöndum frammi fyrir dauðanum vegna ráðvendni okkar við hann?

16 Jafnvel þótt við sjálf stæðum frammi fyrir dauðanum vegna afstöðu okkar sem kristnir menn, getur Jehóva hjálpað okkur að vera ráðvönd og hann mun gera það. Vonin um upprisu veitir okkur líka huggun. Við hlökkum svo sannarlega til þess dags þegar ,dauðinn, síðasti óvinurinn verður að engu gerður‘. (1. Kor. 15:26) Trúfastir þjónar Guðs, sem hafa dáið, eru meðal þeirra sem varðveittir eru í óskeikulu minni hans og munu fá upprisu. (Jóh. 5:28, 29; Post. 24:15) Ef við treystum á loforð Jehóva um upprisu veitir það okkur huggun og örugga von þegar við verðum fyrir ofsóknum.

17. Hvernig getur Jehóva huggað okkur þegar við missum ástvin?

17 Það er hughreystandi að vita að ástvinir okkar, sem sofa nú í sameiginlegri gröf mannkyns, eiga von um að lifa aftur í dásamlegum nýjum heimi sem er laus við alla erfiðleika nútímans. Hinn ,mikli múgur‘ þjóna Jehóva, sem lifir af endalok þessa illa heims, fær það ánægjulega verkefni að taka á móti og kenna þeim sem reistir verða upp til lífs á jörðinni. – Opinb. 7:9, 10.

Eilífir armar Guðs

18, 19. Hvernig hafa þjónar Guðs fengið huggun í ofsóknum?

18 Í kraftmiklum og uppörvandi söng gaf Móse Ísraelsmönnum þetta loforð: „Hæli er hinn eldforni Guð, hér neðra eru eilífir armar hans.“ (5. Mós. 33:27) Samúel spámaður sagði Ísraelsmönnum síðar: „Látið . . . ekki af að fylgja Drottni. Þjónið honum heils hugar . . . Vegna síns mikla nafns mun hann ekki  hafna lýð sínum.“ (1. Sam. 12:20-22) Ef við höldum okkur fast við Jehóva og sanna tilbeiðslu yfirgefur hann okkur aldrei. Hann mun alltaf veita okkur þann stuðning sem við þurfum á að halda.

19 Núna, á þessum erfiðu, síðustu dögum, heldur Guð áfram að hjálpa þjónum sínum og hughreysta þá. Í rúma öld hafa þúsundir trúbræðra okkar um allan heim verið ofsóttar og fangelsaðar vegna þjónustu sinnar við Jehóva. Reynsla þeirra sannar að Jehóva huggar vissulega þjóna sína á erfiðleikatímum. Sem dæmi má nefna að einn af bræðrum okkar í fyrrverandi Sovétríkjunum var dæmdur til 23 ára fangelsisvistar vegna trúar sinnar. Þrátt fyrir það var fundin leið til að koma andlegri fæðu til hans, honum til styrktar og hughreystingar. Hann sagði: „Í öll þessi ár lærði ég að treysta á Jehóva og fékk styrk frá honum.“ – Lestu 1. Pétursbréf 5:6, 7.

20. Af hverju getum við verið fullviss um að Jehóva yfirgefi okkur ekki?

20 Sama hverju við gætum orðið fyrir er gott að hafa í huga uppörvandi orð sálmaritarans: „Drottinn mun ekki hafna lýð sínum.“ (Sálm. 94:14) Þótt við persónulega þurfum á huggun að halda höfum við líka möguleika á því að hughreysta aðra. Eins og við munum sjá í næstu grein getum við átt þátt í því að hugga þá sem hrjáðir eru í þessum erfiða heimi.

Hvert er svarið?

• Hvað getur valdið okkur hugarangri?

• Hvernig hughreystir Jehóva þjóna sína?

• Hvað getur huggað okkur ef við stöndum frammi fyrir dauðanum?

[Spurningar]

[Rammi/​myndir á bls. 25]

AÐ TAKAST Á VIÐ ÞAÐ SEM HEFUR ÁHRIF Á

hjartað Sálm. 147:3; 1. Jóh. 3:19-22; 5:14, 15

hugann Sálm. 94:19; Fil. 4:6, 7

tilfinningarnar 2. Mós. 14:13, 14; 5. Mós. 31:6

líkamlega heilsu 2. Kor. 4:8, 9

trúna Sálm. 145:14; Jak. 5:14, 15