Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvers vegna er áríðandi að halda vöku sinni?

Hvers vegna er áríðandi að halda vöku sinni?

 Hvers vegna er áríðandi að halda vöku sinni?

„HVERNIG sjáum við að þú sért að koma og veröldin að líða undir lok?“ (Matt. 24:3) Lærisveinar Jesú spurðu hann þessarar spurningar. Hann svaraði þeim með því að gefa þeim tákn sem ætti ekki að fara fram hjá neinum. Táknið var skýrt og ítarlegt. Það er skráð í Matteusi 24. kafla, Markúsi 13. kafla og Lúkasi 21. kafla. Síðan hvatti hann þá: „Vakið því.“ – Matt. 24:42.

Hvers vegna lagði hann svona mikla áherslu á að vaka ef táknið átti að vera svo augljóst? Skoðum tvennt: Í fyrsta lagi gætu sumir látið glepjast af einhverju öðru og misst sjónar á tákninu. Það gæti leitt til þess að þeir veikluðust í trúnni og sofnuðu á verðinum. Í öðru lagi gæti kristinn einstaklingur tekið eftir einstökum atriðum táknsins, en vegna aðstæðna sinna finnur hann ekki beint fyrir áhrifum þess. Hann gæti hugsað sem svo að enn sé nokkuð langt í,þrenginguna miklu‘, sem er lokakafli táknsins, og því sé ekki nauðsynlegt enn um sinn að halda vöku sinni. – Matt. 24:21.

Þeir gáfu því engan gaum

Jesús minnti fylgjendur sína á samtímamenn Nóa. Illskan á dögum Nóa gat ekki farið fram hjá neinum. Hvað þá heldur prédikunarstarf Nóa eða smíði hinnar gríðarstóru arkar. En flestir „vissu ekki fyrr en flóðið kom“. (Matt. 24:37-39) Enn ríkir svipað viðhorf til viðvarana. Sem dæmi má nefna að umferðarmerki gefa skýr skilaboð um hámarkshraða. Samt gefa margir þeim engan gaum. Yfirvöld finna sig oft knúin til að setja upp hraðahindranir sem neyða ökumenn til að hægja á sér. Kristinn einstaklingur gæti sömuleiðis gert sér grein fyrir tákni síðustu daga en þó farið að stunda eitthvað sem passar engan veginn við vísbendingar táknsins. Þetta var reynsla Arielle, unglingsstúlku í Vestur-Afríku.

Arielle hafði gaman af kvennahandboltanum í sjónvarpinu. Þegar skólinn hennar stofnaði handboltalið langaði hana svo mikið að spila með liðinu að hún missti sjónar á því hvaða áhrif það gæti haft á trú hennar. Hún komst í liðið og var valin til að vera í marki. Hvað gerðist síðan? Arielle segir: „Sumar stelpurnar í liðinu áttu kærasta sem reyktu og notuðu eiturlyf. Þær gerðu grín að mér fyrir að vera öðruvísi, en mér fannst ég alveg ráða við það. Það kom mér hins vegar á óvart að íþróttin sjálf hafði slæm áhrif á samband mitt við Jehóva. Handboltinn átti hug minn allan. Á miðri samkomu leitaði hugurinn oft út á völlinn. Persónuleiki minn breyttist líka. Í stað þess að hafa gaman af því að spila fór ég að þrá að sigra. Keppnisandinn fékk mig til að æfa stíft. Ég fann fyrir streitu og ég fórnaði jafnvel vináttusamböndum fyrir handboltann.

 Þetta náði hámarki í einum leiknum þegar mótherjinn fékk dæmt vítakast. Ég var tilbúin að verja markið, en áður en ég vissi var ég búin að biðja Jehóva að hjálpa mér að verja skotið. Á þessari stundu varð mér ljóst hversu skaðleg áhrif keppnisandinn hafði haft á samband mitt við Jehóva. Hvernig tókst mér að bæta það?

Ég var búin horfa á mynddiskinn Young People Ask What Will I Do With My Life? (Ungt fólk spyr – hvernig ætla ég að nota líf mitt?) * Ég ákvað að horfa á hann aftur en taka hann alvarlega í þetta sinn. Ég var nefnilega í sömu klípu og André, ungi maðurinn í myndinni. Ég tók sérstaklega eftir því sem öldungur stakk upp á við André. Hann sagði honum að lesa og hugleiða Filippíbréfið 3:8. Það dugði mér. Ég hætti í liðinu.

Hvílíkur munur! Keppnisandinn hvarf og streitan sömuleiðis. Ég var ánægðari og átti betra samband við vini mína í söfnuðinum. Verkefni mín í sannleikanum fengu dýpri merkingu. Ég hlustaði af athygli á samkomunum og hafði gaman af þeim á ný. Ég tók líka framförum í boðunarstarfinu. Núna starfa ég reglulega sem aðstoðarbrautryðjandi.“

Ef eitthvað dregur athygli þína frá tákninu sem Jesús gaf okkur skaltu taka þig á eins og Arielle gerði. Hvernig væri að prófa eftirfarandi tillögur? Skoðaðu efnisskrá Varðturnsfélagsins, sem er stundum kölluð „fjársjóðskort“. Þar áttu eftir að finna góð ráð og frásögur fólks sem tókst á við freistingar. Fáðu sem mest út úr samkomunum með því að búa þig vel undir þær og skrifa hjá þér minnispunkta. Sumum hefur reynst vel að sitja framarlega í salnum. Reyndu að svara snemma þegar boðið er upp á þátttöku áheyrenda. Haltu þér þar að auki andlega vakandi með því að bera fréttir líðandi stundar saman við táknið og önnur einkenni síðustu daga. – 2. Tím. 3:1-5; 2. Pét. 3:3, 4; Opinb. 6:1-8.

Verum viðbúin

Tákn síðustu daga hafa áhrif á „alla heimsbyggðina“. (Matt. 24:7, 14) Milljónir manna búa á svæðum sem hafa orðið illa úti vegna drepsótta, hungurs, jarðskjálfta og annars sem spáð var fyrir um. Aftur á móti búa líka margir við þokkalega góðar aðstæður. Væri rökrétt að hugsa sem svo að þrengingin mikla sé enn langt undan ef maður hefur ekki fundið uppfyllingu táknsins á eigin skinni? Nei, það væri ekki skynsamlegt.

Tökum sem dæmi það sem Jesús spáði um „drepsóttir og hungur“. (Lúk. 21:11) Hann sagði ekki að drepsóttir og hungur myndu hafa áhrif samtímis eða í sama mæli á alla heimsbyggðina. Hann sagði að þetta yrði „á ýmsum stöðum“. Við getum því ekki búist við að sömu þættir táknsins rætist samtímis um allan heim. Þar að auki nefndi Jesús, stuttu eftir að hann talaði um hungur, að sumir fylgjendur hans þyrftu að varast ofát og óhóf. Hann sagði: „Hafið gát á sjálfum yður, látið ekki svall og drykkju . . . ná tökum á yður.“ (Lúk. 21:34) Það þurfa því ekki allir  kristnir menn að búast við að finna fyrir öllum þáttum táknsins. Jesús sagði: „Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd.“ (Lúk. 21:31) Samskiptatækni nútímans gerir okkur kleift að sjá alla þætti táknsins þó að við upplifum þá ekki alla sjálf.

Höfum einnig í huga að Jehóva er þegar búinn að ákveða hvaða „dag og stund“ þrengingin mikla hefst. (Matt. 24:36) Framvinda atburða í heiminum breytir engu um það.

Jesús áminnti kristið fólk um allan heim: „Verið þér og viðbúin.“ (Matt. 24:44) Við ættum alltaf að vera viðbúin. Að sjálfsögðu getum við ekki sinnt starfi safnaðarins öllum stundum. Ekkert okkar veit heldur hvað við verðum að gera á því augnabliki sem þrengingin mikla hefst. Sumir verða kannski úti á akri eða að vinna heimilisstörf. (Matt. 24:40, 41) Hvernig getum við þá haldið vöku okkar og verið viðbúin?

Emmanuel og Victorine búa ásamt sex dætrum sínum á svæði í Afríku þar sem þau finna ekki fyrir áhrifum síðustu daga af fullum þunga. Þau ákváðu því að eiga umræður um biblíuleg málefni á hverjum degi til að halda sér andlega vakandi. Emmanuel segir: „Það var erfitt að finna tíma sem hentaði öllum. Að lokum ákváðum við að nota tímann frá klukkan sex til hálf sjö á morgnana. Við förum yfir dagstextann og síðan förum við yfir nokkrar greinar í einhverju riti sem á að nema á samkomunum þá vikuna.“ Hefur þessi dagskrá hjálpað þeim að halda vöku sinni? Já. Emmanuel er umsjónarmaður öldungaráðsins í söfnuðinum. Victorine er oft aðstoðarbrautryðjandi og hefur hjálpað mörgum að taka við sannleikanum. Og dætur þeirra dafna vel í söfnuðinum.

Jesús áminnir okkur: „Gætið yðar, vakið!“ (Mark. 13:33) Láttu ekkert draga úr árvekni þinni. Farðu að fyrirmynd Arielle og taktu til þín allar góðu leiðbeiningarnar sem við fáum á samkomum og í ritunum okkar. Reyndu að gera eitthvað á hverjum degi sem hjálpar þér að halda vöku þinni eins og Emmanuel og fjölskylda hans gera.

[Neðanmáls]

^ gr. 8 Nútímasaga af baráttu unglings við að gera það sem er rétt í augum Jehóva.

[Mynd á bls. 4]

Daglegar umræður um biblíuleg málefni hjálpa Emmanuel og fjölskyldu hans að halda sér andlega vakandi.