Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað er hvíld Guðs?

Hvað er hvíld Guðs?

 Hvað er hvíld Guðs?

„Enn stendur þá til boða sabbatshvíld fyrir lýð Guðs.“ — HEBR. 4:9.

1, 2. Hvað má álykta af orðalagi 1. Mósebókar 2:3 og hvaða spurningar vakna?

AF FYRSTA kafla 1. Mósebókar má sjá að Guð bjó jörðina undir ábúð mannsins á sex „dögum“. Sagt er um lok hvers tímabils: „Það varð kvöld og það varð morgunn.“ (1. Mós. 1:5, 8, 13, 19, 23, 31) Um sjöunda daginn segir hins vegar í Biblíunni: „Guð blessaði sjöunda daginn og helgaði hann því að þann dag hvíldist Guð frá öllu sköpunarverki sínu sem hann hafði unnið að.“ — 1. Mós. 2:3.

2 Við tökum eftir að það segir ekki að sjöunda deginum hafi lokið. Það bendir til þess að sjöundi dagurinn — ,hvíldardagur‘ Guðs — hafi staðið enn árið 1513 f.Kr. þegar Móse skrifaði orðin hér að ofan. Hvílist Guð enn af verki sínu? Ef svo er getum við þá gengið inn til hvíldar hans? Það er mikilvægt fyrir okkur að fá svör við þessum spurningum.

Hvílist Jehóva enn?

3. Hvernig má sjá af orðum Jesú í Jóhannesi 5:16, 17 að sjöundi dagurinn stóð enn yfir á fyrstu öldinni?

3 Það eru tvær ástæður fyrir því að við getum ályktað sem svo að sjöundi dagurinn hafi enn staðið yfir á fyrstu öld okkar tímatals. Við sjáum fyrri ástæðuna af því sem Jesús sagði þegar andstæðingar gagnrýndu hann fyrir að lækna á hvíldardegi en þeir litu á það sem vinnu. Jesús sagði við þá: „Faðir minn starfar til þessarar stundar og ég starfa einnig.“ (Jóh. 5:16, 17) Hvað átti hann við? Hann var sakaður um að vinna á hvíldardegi. Hann svaraði ásökuninni þannig: „Faðir minn starfar til þessarar stundar.“ Efnislega átti Jesús við þetta: Við faðir minn vinnum sams konar verk. Faðir minn hefur unnið um þúsundir ára á hvíldardegi sínum þannig að ég hef fullt leyfi til að vinna líka, jafnvel á hvíldardegi. Orð Jesú bera með sér að sjöundi dagurinn stæði enn, það er að segja dagurinn sem Guð hvíldist frá sköpunarverki sínu á jörð. Hann vann hins vegar áfram að vilja sínum með mennina og jörðina. *

4. Hvaða rök færir Páll fyrir því að sjöundi dagurinn hafi staðið enn þegar hann var uppi?

4 Páll postuli nefnir síðari ástæðuna. Hann vitnar í 1. Mósebók 2:2 þar sem talað er um að Guð hafi hvílst og segir síðan: „Við sem trú höfum tekið göngum inn til hvíldarinnar.“ (Hebr. 4:3, 4, 6, 9) Sjöundi dagurinn stóð því enn á dögum Páls. Hve lengi átti þessi hvíldardagur að standa?

5. Hvaða tilgangi þjónaði sjöundi dagurinn og hvenær nær vilji Guðs fram að ganga að fullu og öllu?

5 Til að fá svar við þessari spurningu þurfum við að hafa hugfast hvaða tilgangi sjöundi dagurinn þjónaði. Það kemur fram í 1. Mósebók 2:3. Þar segir: „Guð blessaði sjöunda daginn og helgaði hann.“ Jehóva helgaði þennan dag því verkefni að láta fyrirætlun sína ná fram að ganga að fullu og öllu. Það var vilji hans að jörðin yrði byggð hlýðnu fólki sem annaðist hana og lífríki hennar. (1. Mós. 1:28) Bæði Jehóva Guð og Jesús Kristur, sem er „Drottinn hvíldardagsins“, hafa ,starfað til þessarar stundar‘ til að hrinda því í framkvæmd. (Matt. 12:8) Hvíldardagur  Guðs heldur áfram uns fyrirætlun hans hefur náð fram að ganga í lok þúsundáraríkis Krists.

„Að enginn óhlýðnist eins og þeir“

6. Hvaða dæmi eru okkur til viðvörunar og hvaða lærdóm getum við dregið af þeim?

6 Guð útskýrði greinilega fyrir Adam og Evu hvað hann ætlaðist fyrir með jörðina og mennina, en þau snerust gegn honum. Þau voru fyrst manna til að óhlýðnast Guði en milljónir fetuðu í fótspor þeirra. Ísraelsmenn, sem voru útvalin þjóð Guðs, voru líka óhlýðnir. Og Páll varaði kristna menn á fyrstu öld við því að sumir þeirra gætu fallið í sömu gildru og Ísraelsmenn höfðu gert forðum daga. Hann skrifaði: „Kostum því kapps um að ganga inn til þessarar hvíldar til þess að enginn óhlýðnist eins og þeir og falli.“ (Hebr. 4:11) Við skulum taka eftir að Páll setur það að ganga ekki inn til hvíldar Guðs í samhengi við óhlýðni. Hvað merkir það fyrir okkur? Er hætta á að við fáum ekki að ganga inn til hvíldar Guðs ef við gerum eitthvað í andstöðu við vilja hans? Svarið við þessari spurningu er augljóslega mjög þýðingarmikið fyrir okkur og við eigum eftir að skoða það nánar. En fyrst skulum við líta á hvernig Ísraelsmenn fóru að ráði sínu og kanna hvers vegna þeir fengu ekki að ganga inn til hvíldar Guðs.

„Eigi skulu þeir inn ganga til hvíldar minnar“

7. Hvað hafði Jehóva í huga þegar hann frelsaði Ísraelsmenn úr þrælkun í Egyptalandi, og hvers vænti hann af þeim?

7 Árið 1513 f.Kr. opinberaði Jehóva Móse, þjóni sínum, hvað hann ætlaðist fyrir með Ísraelsþjóðina. Hann sagði: „Ég er kominn niður til að bjarga henni úr greipum Egypta og leiða hana úr þessu landi [Egyptalandi] og upp til lands sem er gott og víðlent, til lands sem flýtur í mjólk og hunangi.“ (2. Mós. 3:8) Markmið Jehóva með því að bjarga Ísraelsmönnum „úr greipum Egypta“ var að gera þá að þjóð sinni, eins og hann hafði heitið Abraham. (1. Mós. 22:17) Jehóva setti Ísraelsmönnum lög sem gerðu þeim kleift að eiga frið við hann og njóta vináttu hans. (Jes. 48:17, 18) Hann sagði þeim: „Ef þið nú hlýðið á mig af athygli og haldið sáttmála minn [sem var lýst í lagasafninu] skuluð þið verða sérstök eign mín, umfram aðrar þjóðir, því að öll jörðin er mín.“ (2. Mós. 19:5, 6) Ísraelmenn gátu því aðeins verið útvalin þjóð Guðs að þeir hlýddu lögum hans.

8. Hvernig hefðu Ísraelsmenn getað lifað ef þeir hefðu verið hlýðnir Guði?

8 Hugsaðu þér hvernig lífið hefði verið hjá Ísraelsmönnum ef þeir hefðu bara hlýtt Jehóva. Hann hefði blessað akra þeirra, víngarða og búpening. Óvinir þeirra hefðu ekki getað náð þeim á vald sitt. (Lestu 1. Konungabók 10:23-27.) Þeir hefðu líklega verið frjáls þjóð þegar Messías kom fram en ekki þurft að kveinka sér undan oki Rómverja. Þeir hefðu verið grannþjóðum sínum góð fyrirmynd, lifandi sönnun þess að þeir sem hlýða hinum sanna Guði uppskera bæði andlega og efnislega blessun.

9, 10. (a) Af hverju var það alvarlegt mál að Ísraelsmenn skyldu vilja snúa aftur til Egyptalands? (b) Hvað áhrif hefði það haft á tilbeiðslu Ísraelsmanna að snúa aftur til Egyptalands?

9 Ísraelsmenn höfðu fengið það einstaka tækifæri að fá að starfa í samræmi við fyrirætlun Jehóva. Það hefði orðið sjálfum þeim til blessunar og síðan öllum þjóðum jarðar. (1. Mós. 22:18) Á heildina litið sýndi þessi uppreisnargjarna kynslóð hins vegar lítinn áhuga á að lúta lögum Guðs og vera öðrum þjóðum til fyrirmyndar. Fólkið heimtaði meira að segja að fá að snúa aftur til Egyptalands! (Lestu 4. Mósebók 14:2-4.) En hvernig gátu þeir þjónað þeirri fyrirætlun Guðs að  vera öðrum þjóðum fyrirmynd ef þeir sneru aftur til Egyptalands? Ef þeir sneru aftur í ánauð heiðinna manna gætu þeir hvorki haldið Móselögin né fengið syndir sínar fyrirgefnar. Hvílík skammsýni! Það er ekki að undra að Jehóva skyldi segja um þessa uppreisnarseggi: „Þess vegna reiddist ég kynslóð þessari og sagði: Án afláts villast þeir í hjörtum sínum. Þeir þekktu ekki vegu mína. Og ég sór í bræði minni: Eigi skulu þeir inn ganga til hvíldar minnar.“ — Hebr. 3:10, 11; Sálm. 95:10, 11.

10 Með því að vilja snúa aftur til Egyptalands sýndi þessi uppreisnargjarna þjóð að hún mat ekki mikils blessunina sem Jehóva hafði veitt henni. Menn hugsuðu bara um allan fjölbreytta matinn sem þeir höfðu haft aðgang að í Egyptalandi. (4. Mós. 11:5) Þeir voru eins og Esaú því að þeir voru tilbúnir til að afsala sér dýrmætri blessun frá Guði í skiptum fyrir bragðgóða máltíð. — 1. Mós. 25:30-32; Hebr. 12:16.

11. Breytti trúleysi Ísraelsmanna á dögum Móse fyrirætlun Jehóva?

11 Þó að kynslóðin, sem fór frá Egyptalandi, hafi verið trúlítil vann Jehóva áfram að fyrirætlun sinni með þjóðina. Hann beindi nú athygli sinni að næstu kynslóð sem var öllu hlýðnari en sú fyrri. Sú kynslóð gekk inn í fyrirheitna landið í samræmi við fyrirmæli Jehóva og tók að leggja það undir sig. Í Jósúabók 24:31 stendur: „Ísrael þjónaði Drottni á meðan Jósúa var á lífi og þeir öldungar sem lifðu Jósúa og þekktu öll þau máttarverk sem Drottinn hafði unnið fyrir Ísrael.“

12. Hvernig vitum við að kristnir menn nú á tímum geta gengið inn til hvíldar Guðs?

12 En þessi hlýðna kynslóð dó út með tíð og tíma og í staðinn kom önnur sem „hvorki þekkti Drottin né þau verk er hann hafði unnið fyrir Ísrael. Þá gerðu Ísraelsmenn það sem illt var í augum Drottins [og] þjónuðu Baölum.“ (Dóm. 2:10, 11) Þar sem Ísraelsmenn voru óhlýðnir áttu þeir ekki lengur frið við Guð. Þeir hlutu ekki hvíld í fyrirheitna landinu. Páll sagði um þessa Ísraelsmenn: „Hefði Jósúa leitt þá til hvíldar þá hefði Guð ekki síðar meir talað um annan dag.“ Síðan segir hann: „Enn stendur þá til boða sabbatshvíld fyrir lýð Guðs.“ (Hebr. 4:8, 9) Þegar Páll talar um „lýð Guðs“ á hann við kristna menn. Ber að skilja þetta svo að kristnir menn hafi getað gengið inn til hvíldar Guðs? Vissulega, og það gilti bæði um Gyðinga og aðra sem höfðu tekið kristna trú. Og orð Páls bera með sér að hið sama gildir um kristna menn nú á tímum.

Sumir gengu ekki inn til hvíldar Guðs

13, 14. (a) Hvað þurftu Ísraelsmenn að gera á dögum Móse til að ganga inn til hvíldar Guðs? (b) Hvað þurftu kristnir menn að gera á fyrstu öld til að ganga inn til hvíldar Guðs?

13 Þegar Páll skrifaði kristnum Hebreum  hafði hann áhyggjur af því að sumir þeirra lifðu ekki í samræmi við fyrirætlun Jehóva. (Lestu Hebreabréfið 4:1.) Hvernig þá? Þótt ótrúlegt sé snerist málið um það að þeir vildu halda sum af ákvæðum Móselaganna. Vissulega hafði sú staða verið uppi í 15 aldir að Ísraelsmenn þurftu að halda lögmálið til að lifa í samræmi við vilja Guðs. Með dauða Jesú var lögmálið hins vegar fellt úr gildi. Sumir í kristna söfnuðinum skildu það ekki og héldu því fast fram að það væri eftir sem áður nauðsynlegt að halda sum af ákvæðum lögmálsins. *

14 Páll skýrði fyrir kristnum mönnum sem vildu halda lögmálið að Jesús væri betri æðstiprestur en þeir sem voru á undan honum. Nýi sáttmálinn og andlega musterið voru sömuleiðis fremri því sem áður var. (Hebr. 7:26-28; 8:7-10; 9:11, 12) Páll hafði líklega í huga hinn vikulega hvíldardag, sem haldinn var samkvæmt lögmálinu, þegar hann benti á hvernig kristnir menn gætu gengið inn til hvíldar Jehóva: „Enn stendur þá til boða sabbatshvíld fyrir lýð Guðs. Því að sá sem gengur inn til hvíldar hans fær hvíld frá verkum sínum eins og Guð hvíldist eftir sín verk.“ (Hebr. 4:8-10) Þessir kristnu Hebrear þurftu að átta sig á að þeir gátu ekki áunnið sér velþóknun Jehóva með því að fylgja lögmáli Móse. Frá hvítasunnu árið 33 hefur Jehóva af miklu örlæti veitt þeim velþóknun sína sem trúa á Jesú Krist.

15. Af hverju er nauðsynlegt að hlýða til að fá að ganga inn til hvíldar Guðs?

15 Hvað varð til þess að Ísraelsmenn á dögum Móse fengu ekki að ganga inn í fyrirheitna landið? Þeir voru óhlýðnir. Hvað kom í veg fyrir að sumir í kristna söfnuðinum fengju að ganga inn til hvíldar Guðs á dögum Páls? Það var líka óhlýðni. Þeir vildu ekki viðurkenna að lögmálið væri fallið úr gildi og að þjónar Jehóva ættu að tilbiðja hann með öðrum hætti en áður.

 Við getum gengið inn til hvíldar Guðs núna

16, 17. (a) Hvernig geta kristnir menn gengið inn til hvíldar Guðs núna? (b) Um hvað er fjallað í greininni á eftir?

16 Engir þjónar Guðs nú á tímum halda því fram að það sé nauðsynlegt að fylgja vissum ákvæðum Móselaganna til að hljóta hjálpræði. Innblásin orð Páls í Efesusbréfinu eru ótvíræð: „Af náð eruð þið hólpin orðin fyrir trú. Þetta er ekki ykkur að þakka. Það er Guðs gjöf. Ekki byggt á verkum, enginn skal geta miklast af því.“ (Ef. 2:8, 9) Hvað þurfa kristnir menn þá að gera til að ganga inn til hvíldar Guðs? Jehóva Guð tók frá sjöunda daginn, hvíldardag sinn, til að hrinda í framkvæmd stórkostlegum vilja sínum með jörðina. Við getum gengið inn til hvíldar Jehóva — hvílst með honum — með því að hlýða honum og lifa í samræmi við fyrirætlun hans sem hann opinberar fyrir milligöngu safnaðarins.

17 Við værum hins vegar að vinna gegn fyrirætlun Jehóva ef við færum okkar eigin leiðir og virtum ekki biblíulegar leiðbeiningar hins trúa og hyggna þjóns. Ef við gerðum það myndum við stofna sambandi okkar við Jehóva í voða. Í næstu grein er fjallað um nokkrar algengar aðstæður sem við getum lent í og gefa okkur tækifæri til að sýna að við hlýðum Guði. Við skulum kanna hvernig ákvarðanir okkar segja til um það hvort við höfum gengið inn til hvíldar Guðs.

[Neðanmáls]

^ gr. 3 Prestar og Levítar unnu í musterinu á hvíldardeginum en voru þó „án saka“. Jesús var æðstiprestur í hinu mikla andlega musteri Guðs og gat unnið óhikað að því verkefni sem Guð hafði falið honum. Hann braut ekki hvíldardagsboðið með því. — Matt. 12:5, 6.

^ gr. 13 Við vitum ekki hvort einhverjir kristnir menn af hópi Gyðinga gengu svo langt eftir hvítasunnu árið 33 að færa fórnir á friðþægingardeginum. Það hefði vissulega vitnað um að þeir virtu ekki fórn Jesú. Sumir kristnir menn af hópi Gyðinga ríghéldu þó í vissar hefðir sem tengdust lögmálinu. — Gal. 4:9-11.

Til umhugsunar

• Hvaða tilgangi þjónaði sjöundi dagurinn, hvíldardagur Guðs?

• Hvernig vitum við að sjöundi dagurinn stendur enn yfir?

• Af hverju fengu Ísraelsmenn á dögum Móse og sumir kristnir menn á fyrstu öld ekki að ganga inn til hvíldar Guðs?

• Hvernig er hægt að ganga inn til hvíldar Guðs núna?

[Spurningar]

[Innskot á bls. 27]

Við getum gengið inn til hvíldar Jehóva með því að hlýða honum og lifa í samræmi við fyrirætlun hans sem hann opinberar fyrir milligöngu safnaðarins.

[Myndir á bls. 26, 27]

Hvað þurfa þjónar Guðs nú á tímum að gera til að ganga inn til hvíldar hans?