Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hlustaðu á rödd samviskunnar

Hlustaðu á rödd samviskunnar

Hlustaðu á rödd samviskunnar

„Heiðingjar, sem hafa ekki lögmál [Guðs], gjöra að eðlisboði það sem lögmálið býður.“ — RÓMVERJABRÉFIÐ 2:14.

1, 2. (a) Hvað hafa margir gert í þágu annarra? (b) Hvaða frásögur Biblíunnar lýsa umhyggju í garð annarra?

TVÍTUGUR maður fékk flogakast á neðanjaðarlestarstöð og féll niður á teinana. Nærstaddur maður sleppti hendinni af dætrum sínum og stökk niður á teinana. Hann kippti hinum flogaveika ofan í skurðinn á milli teinanna og skýldi honum fyrir lestinni sem stöðvaðist með ískri yfir höfðum þeirra. Sumir myndu trúlega segja að bjargvætturinn væri hetja en sjálfur sagði hann: „Maður á að gera hið rétta. Ég gerði þetta ekki til að upphefja sjálfan mig heldur vegna góðvildar.“

2 Vera má að þú þekkir einhvern sem hefur hætt lífinu til að hjálpa öðrum. Margir gerðu það í síðari heimsstyrjöldinni með því að fela ókunnuga. Við þekkjum líka frásöguna af því þegar Páll postuli og 275 að auki biðu skipbrot á eynni Möltu í grennd við Sikiley. Heimamenn komu þessum ókunnugu mönnum til hjálpar og sýndu „einstaka góðmennsku“. (Postulasagan 27:27–28:2) Eða hvað um ísraelsku stúlkuna sem var ambátt á heimili Naamans hins sýrlenska? Hún sýndi honum umhyggju þó að hún hafi ef til vill ekki hætt lífinu með því. (2. Konungabók 5:1-4) Og gleymum ekki hinni þekktu dæmisögu Jesú um miskunnsama Samverjann. Prestur og levíti létu sem þeir sæju ekki samlanda sinn þar sem hann lá fyrir dauðanum en Samverji lagði lykkju á leið sína til að koma honum til hjálpar. Þessi dæmisaga hefur snert streng í hjörtum fólks í ótal menningarsamfélögum í aldanna rás. — Lúkas 10:29-37.

3, 4. Hvernig er almenn fórnfýsi manna rök gegn þróunarkenningunni?

3 Við lifum vissulega á erfiðum tímum og margir eru „grimmir“ og ‚elska ekki það sem gott er‘. (2. Tímóteusarbréf 3:1-3) En höfum við ekki samt orðið vitni að góðverkum annarra og jafnvel notið góðs af þeim sjálf? Sú tilhneiging manna að hjálpa öðrum, jafnvel þó að þeir þurfi að færa einhverjar fórnir, er svo útbreidd að hún er stundum kölluð mannúð.

4 Hjálpfýsi, jafnvel þó að hún kosti fólk eitthvað, er þekkt meðal allra kynþátta og menningarsamfélaga og hún er rök gegn því að maðurinn hafi þróast samkvæmt lögmáli frumskógarins, það er að segja að „hinir hæfustu lifi“ eins og haldið er fram. Francis S. Collins er erfðafræðingur sem stjórnaði því verkefni bandarískra stjórnvalda að kortleggja genamengi mannsins. Hann sagði: „Óeigingirni og fórnfýsi eru þróunarfræðingum ráðgáta. . . . Hún verður ekki skýrð með hvöt stakra, eigingjarnra gena til að viðhalda sér.“ Hann sagði enn fremur: „Sumir gefa af sjálfum sér, færa fórnir í þágu þeirra sem tilheyra ekki sama hópi og þeir og sem þeir eiga alls ekkert sameiginlegt með. . . . Kenning Darwins virðist ekki geta skýrt þetta.“

„Rödd samviskunnar“

5. Hvað er áberandi í fari manna?

5 Dr. Collins bendir á eina hlið fórnfýsinnar og segir: „Rödd samviskunnar kallar á okkur til að hjálpa öðrum jafnvel þó að við fáum ekkert í staðinn.“ * Að Collins skuli nefna ‚samviskuna‘ minnir okkur ef til vill á staðreynd sem Páll postuli benti á: „Þegar heiðingjar, sem hafa ekki lögmál, gjöra að eðlisboði það sem lögmálið býður, þá eru þeir, þótt þeir hafi ekki neitt lögmál, sjálfum sér lögmál. Þeir sýna, að krafa lögmálsins er rituð í hjörtum þeirra, með því að samviska þeirra ber þessu vitni og hugrenningar þeirra, sem ýmist ásaka þá eða afsaka.“ — Rómverjabréfið 2:14, 15.

6. Af hverju þurfa allir menn að standa Guði reikningsskap gerða sinna?

6 Páll sýnir fram á í Rómverjabréfinu að mennirnir þurfi að standa Guði reikningsskap gerða sinna vegna þess að sköpunarverkið vitnar um tilvist hans og eiginleika. Þannig hefur það verið „frá sköpun heimsins“. (Rómverjabréfið 1:18-20; Sálmur 19:2-5) Margir láta vissulega eins og skaparinn sé ekki til og lifa spilltu lífi. Guð vill hins vegar að mennirnir viðurkenni réttlæti hans og iðrist rangra verka sinna. (Rómverjabréfið 1:22–2:6) Gyðingar höfðu sterka ástæðu til að gera það vegna þess að Guð hafði gefið þeim lögmál sitt fyrir milligöngu Móse. En jafnvel þeir sem höfðu ekki ‚orð Guðs‘ hefðu átt að gera sér ljóst að Guð væri til. — Rómverjabréfið 2:8-13; 3:2.

7, 8. Hversu útbreidd er réttlætiskenndin og til hvers bendir það?

7 Innri vitund manna um rétt og rangt er sannfærandi ástæða fyrir því að allir ættu að viðurkenna tilvist Guðs og breyta í samræmi við það. Réttlætiskennd okkar er vísbending um að við höfum samvisku. Hugsaðu þér eftirfarandi dæmi: Nokkrir krakkar bíða í röð eftir að komast í rólu. Einn þeirra fer fram fyrir hina og lætur sem hann sjái þá ekki. „Þetta er ósanngjarnt,“ hrópa hinir. Hvernig stendur á því að margir krakkar skuli sýna ósjálfrátt að þeir hafi réttlætiskennd? Þetta endurspeglar siðferðisvitundina sem býr innra með þeim. Páll skrifaði: „Þegar heiðingjar, sem hafa ekki lögmál, gjöra að eðlisboði það sem lögmálið býður . . .“ Hann sagði ekki „ef“, rétt eins og þetta gerðist sárasjaldan. Hann sagði „þegar“ sem gefur í skyn að það gerist oft, það er að segja að fólk ‚geri að eðlisboði það sem lögmálið býður‘. Siðferðisvitund manna fær þá til að breyta í samræmi við það sem stendur í skráðu lögmáli Guðs.

8 Þessi siðferðisvitund hefur birst meðal margra þjóða. Prófessor við Cambridge benti á að siðferðisreglur Babýloníumanna, Egypta og Grikkja, svo og frumbyggja Ástralíu og Ameríku, hafi meðal annars „fordæmt kúgun, morð, lygar og svik, og innihaldið sömu ákvæði um umhyggju fyrir öldruðum, börnum og þeim sem voru minni máttar“. Og dr. Collins skrifaði: „Hugmyndir manna um rétt og rangt virðast vera þær sömu um allan heim, meðal allra kynþátta.“ Minnir þetta ekki á Rómverjabréfið 2:14?

Hvernig virkar samviskan?

9. Hvað er samviska og hvernig getur hún látið í sér heyra fyrir fram?

9 Biblían bendir á að samviskan sé innbyggður hæfileiki manns til að skoða og meta gerðir sínar. Það er eins og við höfum rödd hið innra sem segir okkur hvort við gerum rétt eða rangt. Páll minnist á þessa innri rödd og segir: „Samviska mín vitnar . . . með mér, upplýst af heilögum anda.“ (Rómverjabréfið 9:1) Þessi rödd getur látið í sér heyra fyrir fram, þegar maður hugleiðir hvort maður eigi að gera eitthvað sem hefur siðferðilegar afleiðingar. Samviskan getur hjálpað okkur að leggja mat á það sem við höfum í hyggju að gera og sagt til um hvernig okkur myndi líða ef við létum verða af því.

10. Hvernig virkar samviskan oft?

10 Algengara er þó að samviskan láti í sér heyra eftir að maður gerir eitthvað. Meðan Davíð var á flótta undan Sál konungi fékk hann tækifæri til að sýna smurðum konungi Guðs vanvirðingu og gerði það. „En eftir á sló samviskan Davíð.“ (1. Samúelsbók 24:2-6; Sálmur 32:3, 5) Öll höfum við einhvern tíma fengið samviskubit eins og hér er lýst. Við gerðum eitthvað og síðan leið okkur illa út af því sem við gerðum. Sumir hafa svikið undan skatti en fengið svo mikið samviskubit að þeir greiddu skuldina síðar. Aðrir hafa framið hjúskaparbrot og fundið sig knúna til að játa það fyrir maka sínum. (Hebreabréfið 13:4) En yfirleitt hljótum við hugarfrið og okkur líður vel þegar við gerum eins og samviskan býður.

11. Af hverju getur verið varhugavert að gera bara eins og samviskan býður? Lýstu með dæmi.

11 Getum við þá bara gert eins og samviskan býður? Það er auðvitað gott að hlusta á rödd samviskunnar en hún getur líka leitt okkur á villigötur. Já, hinn „innri maður“ getur brugðist. (2. Korintubréf 4:16) Lítum á dæmi. Í Biblíunni segir frá Stefáni sem var dyggur fylgjandi Krists og „fullur af náð og krafti“. Hópur Gyðinga hrakti hann út úr Jerúsalem og grýtti hann til bana. Sál (sem síðar varð Páll postuli) var nærstaddur og „lét sér vel líka“ morðið á Stefáni. Þessir Gyðingar virðast hafa verið svo sannfærðir um að þeir hefðu gert rétt að samviskan angraði þá ekki. Sál hlýtur að hafa verið það líka því að hann „blés enn ógnum og manndrápum gegn lærisveinum Drottins“ eftir þetta. Ljóst er að samviska hans hefur ekki verið öruggur leiðarvísir. — Postulasagan 6:8; 7:57–8:1; 9:1.

12. Hvað getur haft áhrif á samvisku okkar?

12 Hvað getur hafa haft þessi áhrif á samvisku Sáls? Hugsanlega hafa það verið náin tengsl hans við aðra. Margir kannast við að hafa talað í síma við mann sem hljómaði alveg eins og faðir hans. Raddblær sonarins kann að einhverju marki að hafa erfst en sonurinn getur líka hafa orðið fyrir áhrifum af talsmáta föðurins. Vera má að Sál hafi orðið fyrir áhrifum af því að umgangast Gyðinga sem hötuðu Jesú og börðust gegn kenningum hans. (Jóhannes 11:47-50; 18:14; Postulasagan 5:27, 28, 33) Félagar Sáls hafa hugsanlega haft áhrif á hina innri rödd hans, samviskuna.

13. Hvernig getur samviskan orðið fyrir áhrifum af umhverfinu?

13 Samviskan getur líka mótast af umhverfinu og menningunni sem maður býr við, rétt eins og við getum lært af umhverfi okkar að tala vissa mállýsku eða með ákveðnum hreim. (Matteus 26:73) Þetta hlýtur að hafa gerst hjá Assýringum fortíðar. Þeir voru þekktir fyrir að vera herskáir og lágmyndir þeirra sýna þá pynda fanga sína. (Nahúm 2:12, 13; 3:1) Nínívebúum á dögum Jónasar er lýst svo að þeir hafi ekki þekkt „hægri hönd sína frá hinni vinstri“. Þeir höfðu með öðrum orðum ekki rétt viðmið til að dæma um hvað væri rétt eða rangt í augum Guðs. Við getum rétt ímyndað okkur hvaða áhrif slíkt umhverfi kann að hafa haft á samvisku þeirra sem ólust upp í Níníve. (Jónas 3:4, 5; 4:11) Já, samviskan getur orðið fyrir áhrifum af viðhorfum þeirra sem maður umgengst.

Að styrkja rödd samviskunnar

14. Hvernig er samviskan staðfesting á orðunum í 1. Mósebók 1:27?

14 Jehóva gaf þeim Adam og Evu samviskuna og við erfðum hana frá þeim. Í 1. Mósebók 1:27 kemur fram að maðurinn sé skapaður eftir mynd Guðs. Það merkir ekki að við líkjumst Guði í útliti því að hann er andi en við erum hold. Við erum í mynd Guðs að því leyti að við erum gædd sömu eiginleikum og hann. Þar á meðal höfum við siðferðisvitund og samvisku. Í þessu er fólgin ákveðin vísbending um hvernig við getum styrkt samviskuna og gert hana áreiðanlegri. Við getum gert það með því að fræðast betur um skaparann og styrkja tengslin við hann.

15. Hvernig er það okkur til góðs að kynnast föðurnum á himnum?

15 Af Biblíunni má sjá að Jehóva er í vissum skilningi faðir okkar allra. (Jesaja 64:8) Trúir þjónar Guðs mega ávarpa hann sem föður, og gildir þá einu hvort þeir eiga von um að fara til himna eða búa í paradís á jörð. (Matteus 6:9) Okkur ætti að langa til að styrkja tengslin við föður okkar og kynnast viðhorfum hans og ákvæðum. (Jakobsbréfið 4:8) Margir hafa engan áhuga á því. Þeir eru eins og Gyðingarnir sem Jesús talaði við þegar hann sagði: „Þér hafið aldrei heyrt rödd hans né séð ásýnd hans. Og orð hans býr ekki í yður.“ (Jóhannes 5:37, 38) Við höfum ekki heyrt rödd Guðs í raun og veru en við getum samt kynnst honum og lært að líkjast honum með því að lesa orð hans.

16. Hvernig sýnir frásagan af Jósef að það er mikilvægt að þjálfa samviskuna og hlýða henni?

16 Frásagan af Jósef í húsi Pótífars er dæmi um þetta. Kona Pótífars reyndi að táldraga hann. Þegar Jósef var uppi var ekki búið að skrifa eina einustu biblíubók og boðorðin tíu voru ekki til. Engu að síður svaraði hann henni: „Hvernig skyldi ég . . . aðhafast þessa miklu óhæfu og syndga á móti Guði?“ (1. Mósebók 39:9) Hann gerði þetta ekki til að þóknast fjölskyldu sinni því að hún var víðs fjarri. Fyrst og fremst vildi hann þóknast Guði. Hann þekkti mælikvarða Guðs um hjónabandið — einn maður og ein kona og þau tvö áttu að vera „eitt hold“. Og líklega vissi hann hvernig Abímelek varð við þegar hann uppgötvaði að Rebekka væri gift. Abímelek vissi að það væri rangt að taka hana sér fyrir konu. Það myndi baka þjóð hans sekt. Jehóva blessaði þessi málalok og það sýndi hvernig hann leit á hjúskaparbrot. Jósef vissi allt þetta og það hefur sennilega styrkt meðfædda samvisku hans. Hann vildi þess vegna ekki gera sig sekan um kynferðislegt siðleysi. — 1. Mósebók 2:24; 12:17-19; 20:1-18; 26:7-14.

17. Af hverju erum við í enn betri aðstöðu en Jósef til að líkjast föðurnum á himnum?

17 Við erum auðvitað í enn betri aðstöðu en Jósef. Við höfum alla Biblíuna og getum lært af henni hvernig himneskur faðir okkar hugsar, þar á meðal hvað hann bannar og hverju hann hefur velþóknun á. Því betur sem við kynnum okkur Biblíuna, þeim mun nánari tengsl getum við átt við Guð og líkst honum meir. Þegar við gerum það eru allar líkur á að samviska okkar samræmist viðhorfum hans og tilfinningum sífellt betur. Hún verður samstilltari vilja hans. — Efesusbréfið 5:1-5.

18. Hvað getum við gert til að gera samviskuna áreiðanlegri, óháð fortíð okkar?

18 Hvað um áhrif umhverfisins á samvisku okkar? Vera má að hugsunarháttur og hegðun ættingja hafi haft áhrif á okkur, og sömuleiðis það umhverfi sem við ólumst upp í. Þetta getur hafa kæft eða brenglað rödd samviskunnar. Hún talaði með sama „hreim“ og fólkið í kringum okkur. Við getum auðvitað ekki breytt fortíðinni. Hins vegar getum við verið ákveðin í að velja okkur félaga og umhverfi sem hefur góð áhrif á samviskuna. Það er mikilvægt að umgangast að staðaldri dygga þjóna Guðs sem hafa lengi lagt sig fram um að líkjast föður sínum. Safnaðarsamkomur eru prýðisvettvangur til þess, og þá er meðtalið að blanda geði við trúsystkini fyrir og eftir samkomur. Við getum séð hvaða áhrif Biblían hefur á hugsunarhátt þeirra og hegðun, og hvernig þau bregðast skjótt við þegar rödd samviskunnar endurómar sjónarmið og vilja Guðs. Þetta getur smám saman hjálpað okkur að stilla samviskuna eftir meginreglum Biblíunnar þannig að við líkjumst Guði enn betur. Þegar við samræmum rödd samviskunnar meginreglum Jehóva og látum mótast af góðum áhrifum frá trúsystkinum verður samviskan áreiðanlegri leiðarvísir og við höfum sterkari tilhneigingu til að hlýða henni. — Jesaja 30:21.

19. Um hvað verður fjallað í næstu grein?

19 Sumir eiga engu að síður í daglegri baráttu við samviskuna. Í næstu grein ræðum við um ýmsar aðstæður sem þjónar Guðs hafa staðið frammi fyrir. Með því að kynna sér slíkar aðstæður er hægt að sjá hlutverk samviskunnar í skýrara ljósi, glöggva sig á því hvers vegna samviska manna getur verið ólík og kanna hvernig hægt sé að vera næmari fyrir rödd hennar. — Hebreabréfið 6:11, 12.

[Neðanmáls]

^ gr. 5 Owen Gingerich, prófessor í stjörnufræði við Harvardháskóla, tekur í sama streng. Hann skrifaði: „Vel má vera að fórnfýsi veki spurningu sem . . . ekki er hægt að svara vísindalega með því að rannsaka dýraríkið. Hugsanlegt er að meira sannfærandi svar sé að finna á allt öðru sviði og tengist áskapaðri mannúð okkar, þar á meðal samviskunni.“

Hvað lærðir þú?

• Af hverju gætir vitundar um rétt og rangt, það er að segja samvisku, meðal allra menningarsamfélaga?

• Af hverju er varhugavert að gera bara eins og samviskan býður?

• Hvernig getum við styrkt rödd samviskunnar?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 15]

Davíð hafði samviskubit . . .

en Sál frá Tarsus ekki.

[Mynd á blaðsíðu 16]

Við getum þjálfað samviskuna.